Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Dauði trúðsins eftir Árna Þórarinsson

Það létti yfir Einari blaðamanni, aðalhetju sagnanna eftir Árna Þórarinsson sem bera nafn gamalla slagara, eftir að hann lét renna af sér og flutti til Akureyrar.

Sögusvið Dauða trúðsins er Akureyri í júlí og ágúst, með heimsókn á meðferðarheimili í Reykjavík. Hús sem staðið hefur autt er svið glæps. Mér fannst sjálfum átt við hús næst við umferðarmiðstöðina í Hafnarstræti og þótti merkilegt að sjá það í fréttum nú í febrúar.

Glæpirnir eru svolítið fjarlægir hjá Árna. Þetta er plott sem við sjáum frá sjónarhóli blaðamanns sem greinir frá staðreyndum máls. Við verðum að áhorfendum og fáum þetta matreitt frá Árna.

Það er farið að vanta svolítið sálarháskann í þetta. Góð flétta engu að síður og Árni hefur góð tök á persónum og sögusviði.


Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur


Aska geymir góða fléttu. Persónur eru dregnar skýrt fram en þær vantar mannleikann.

Kvenpersónur sögunnar eru misgeðfelldar og það er erfitt að eiga samúð með þeim, einnig aðalhetjunni.

Karlarnir fá sýnu verri útreið. Þeir spanna geðrófið frá því að vera afleitir yfir í að vera raktir djöflar, allir nema tveir. Annar þeirra tveggja er ekki orðinn ársgamall og hinn er þúsund mílur í burtu.

Yrsa nær vonandi að skrifa næst um mál sem fær okkur til að langa að vita meira um persónurnar. Án þess er hættan sú að hversu góð sem fléttan er, þá les maður ekki 300 síðna skáldsögu. 


Varlegt fyrir verkafólk að treysta á gæskuna

Íslenskt verkafólk virðist eiga fáa málsvara á þingi. Af er sem áður var.

Stjórnmálafólk gengur alls ekki fram fyrir skjöldu og segist vera á móti verkafólki, það væri banabiti. Margir í Samfylkingu, Íslandshreyfingu og VG vinna þó leynt og ljóst á móti öllum nýjum störfum fyrir verkafólk.

Allt sem heitir uppbygging iðju, vinnustaðir eins og verksmiðjur eru óæskileg hjá þessu fólki. Í stað þess á að einbeita sér að ferðamennsku, skólahaldi, forritun og öðrum þekkilegri greinum. Hafnir, flugvellir og iðnaðarsvæði eru skítug, hávaðasöm og skulu burt.

Það er merkilegt fólkið sem tekur í orði undir að búa til störf í fjarvinnslu á landsbyggðinni, en finnur því allt til foráttu þegar eitthvað slíkt gert. Þá er forkastanlegt að búa til störf fyrir ófaglærða þar sem einungis faglærðir eiga að vinna.

Það má gæta sín á gæsku þessa fólks. 


mbl.is Grétar: Hóflega bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er FA-cup einnig að breytast í músabikar?

Hér má gjarnan leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér, en eru aðeins tvö úrvaldsdeildarlið í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar (FA cup)?

Þetta er elsta knattspyrnukeppni í heimi. Kannski er að fara fyrir henni eins og þeim liðum sem unnu hvað mest á fyrstu árum hennar, en mér sýnist hún vera orðin að afgangsstærð hjá stjórum liðanna í úrvalsdeild.

Það er ofurskiljanlegt að lið í neðri hluta deildarinnar leggi ofuráherslu á að hanga þar og falla ekki, og leyfa bikarleikjum að mæta afgangi. Það er einfaldlega of mikið í húfi.

Liðin í efri hlutanum senda yngri menn í bikarkeppnina.

Hún er orðin að aukaatriði. 


mbl.is Tveir leikir í bikarnum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig Ísland mun verjast kreppu

Frá 1995 hafa verið uppgangstímar í landinu. Það eru 13 ár. Á tímablinu 1985 - 1994 voru örfá sæmileg ár, nokkur ár sem ekki gáfu neitt og svo voru ár sem leiðin lá niður á við. Eftirtekjan af 10 árum var engin þegar upp var staðið.

Það var við þær aðstæður sem samfélagið breyttist upp úr 1990. Það sem telst markvert er að enginn flokkur vill fara til ástands eins og það var fyrir þann tíma.

Nú spyr fólk hvort íslenskt þjóðfélag sé búið undir kreppu og vísar til þess  hversu margt fjármálafólk er alið upp í eintómum uppgangi. Svarið er að landið er vel varið kreppu. Það hefur miklar innistæður í lífeyriskerfi sem er uppsöfnunarkerfi, ólíkt löndunum í kringum okkur. Það hefur góða afkomu ríkissjóðs og stærstu sveitarfélögin hafa lagað afkomu sína mikið á síðustu árum.

Fjármálafólkið er ekki föst stærð. Þau sem voru áberandi fyrir 5 árum voru það ekki fimm árum fyrr, og eru að detta út af sjónarsviðinu núna. Það hvílir ekki á herðum þeirra sem voru áberandi í fyrra að laga ástand næsta árs, heldur verða það aðrir.

Það sem er öruggt, er að þetta þýðir miklar breytingar á starfsumhverfi bankanna. Spurningin er núna hvort þeir flytja meiri hluta starfsemi sinnar úr landi, eða alfarið. 


mbl.is Persónuafsláttur hækkaður meira en gert var ráð fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eniga meniga, allt snýst orðið um peninga

Ég fór einu sinni á tónleika með Megasi. Þetta var í hátíðarsal MH og þeir hétu Drög að sjálfsmorði. Næstu árin bar lítið á skáldinu. Mér kom á óvart þegar ég heyrði árið eftir að hann hefði kvatt þennan heim, því daginn áður hafði ég séð hann á sýningu í Fjalakettinum.

Nú eru haldnir tónleikar með Megasi í nafni Kreditkorta, held ég. Ég fer að minnsta kosti ekki.

Það kemur undurfurðulega við mig að sjá auglýsingu fyrir fjármálastofnun undir lagi og ljóði Ólafs Hauks, Eniga meninga, sem Olga Guðrún söng. Á yfirborðinu var þetta barnalag en ég held að það hafi átt að vera ógurlega pólitískt, enda átti pólitíkin erindi til allra. Var það ekki ádeila á neysluhyggju?

Æi, það eru 30 ár síðan. Og nú eiga allir nóg af peningum. Eða, vilja það að minnsta kosti.


Geir að verða sýnilegri

Ég fjalla hérna fyrir neðan um nýlega könnun um fylgi flokkanna, sem hlýtur að teljast nokkur tíðindi, að Samfylking hafi mun meira fylgi en Sjálfstæðisflokkur. Það má finna margar skýringar. Sú sem ég stakk upp á þarna, að skrif Morgunblaðsins um Samfylkingu hafi fælt miðjufólk frá Sjálfstæðisflokki, er bara einn þáttur af mörgum.

Stór þáttur er hvað forysta Sjálfstæðisflokks er lítið sýnileg þegar vandi steðjar að eins og nú er í borgarstjórn. Fólk er ekki hrifið af því að heyra of mikið í stjórnmálaleiðtogum fjalla um allt og ekkert, en þegar mikilvæg mál eru í gangi, þá er mikilvægt að heyra afstöðu þeirra. Þar má telja atvinnumál á landsbyggðinni, umhverfismál, efnahagsmál, borgarstjórn Reykjavíkur og kjaraviðræður. Þá er ég bara að tala um þessa viku sem hefur verið að líða. Afstöðuleysi er ekki dyggð hjá stjórnmálamönnum og hógværð á ekki alltaf við, eins og fræg orð Churchills um Attlee sýna, a modest man, who has much to be modest about. Nú má sjá tákn um að Geir sé að verða sýnilegri.

Til happs fyrir Sjálfstæðisflokk má segja að hann hafi góðan tíma til að safna vopnum sínum, enda hefði Geir ekki haldið sig svona til hlés ef styttra hefði verið til næstu kosninga. Það er þá eins gott að það sé nægur tími til næstu þingkosninga. Tíðindin í borgarstjórnarflokknum þýða að baráttan um næstu kosningar í Reykjavík vorið 2010 er þegar hafin.

Tíðindi í Reykjavík þau tvöföldu áhrif á starf flokkanna um allt land, að þar búa tæp 40% þjóðarinnar, um helmingur hennar vinnur þar og hinn helmingurinn sækir þangað eitt eða annað á lífsleiðinni, að undanskildum fáeinum aðdáunarverðum sérvitringum. Þannig lætur fólk sig miklu skipta hvernig málin skipast þar af því að það skiptir miklu fyrir alla.


mbl.is Ræddu stöðu á fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edinborgararnir koma með lausnir

Ég fékk að vinna með einum arkitekt sem var að senda inn tillögur í þessa keppni. Hann var líklega nokkuð langt frá því að komast í úrslit sá, enda hugmyndir hans nokkuð róttækar. Allt um það, þá var hressandi að fara yfir hugmyndir um þetta svæði og hvernig það getur bæði tengst best byggð sem fyrir er, og breytt allri borginni.

Í mínum huga var stórt atriði að við svæðið verða þrír stórir vinnustaðir með um 10.000 starfsmenn og hálfu fleiri stúdenta, ef áætlanir ganga eftir. Það eru HR í Hlíðarfæti, Landspítali og HÍ.

Skotarnir Graeme Massie architects komu, sáu og sigruðu eins og þeir gerðu fyrir norðan. Mér leist nú ekki vel á hugmyndina um síki þar, en flest annað þótti mér glæsilegt.

Grímur er þá orðinn áhrifamesti arkitekt á Íslandi síðan Guðjón Samúelsson leið, eða hvað?


mbl.is Úrslit í keppni um skipulag Vatnsmýrar kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrmir safnar fyrir Samfylkingu

Ég hef áður fjallað um þá miklu heift sem Morgunblaðið sýnir Samfylkingu og er nokkuð augljós. Það má núna heita jafn augljóst að það er aðallega einn höfundur leiðara og Staksteina sem það gerir. Hann snerist áður öndverður gegn öllu sem Ingibjörg Sólrún sagði og gerði, en er í seinni tíð farinn að beina spjótum sínum að Degi B. Eggertssyni. Fyrst og fremst er honum þó afar illa við flest það sem Samfylking segir og gerir.

Ég sýndi í pistlinum hvernig leiðir blaðsins og Samfylkingar liggja oft saman. Ég leiddi líkum að því að þarna héldi á penna sá Morgunblaðsmaður sem var tengdasonur tveggja krataleiðtoga, þeirra Finnboga Rúts og Huldu. Þess vegna var þetta á margan hátt lítt skiljanleg afstaða.

Þá hélt ég að þarna færi heift þeirra sem berjast á sama stað í litrófi stjórnmálanna. Samfylking og Sjálfstæðisflokkur eru löngu farin að berjast á miðjunni þar sem flest atkvæðin eru og líklega mun Framsóknarflokkur reyna að sækja á sömu mið. Það er alþekkt að persónuleg og málefnaleg heift verður þeim mun meiri sem fólk berst á litlu plássi.

Nú virðist sem þessi heiftarbarátta skili Sjálfstæðisflokki litlu en Samfylkingu þeim mun meira. Er ekki kominn tími til að láta af þessu, nema að tilgangurinn sé sá að auka veg Samfylkingar?

Margt Samfylkingarfólk sagðist hafa sagt upp áskrift að Mogga þegar gusur gengu frá Staksteinum. Kannski ættu þeir að athuga hvort það er ekki affarasælla fyrir fylkinguna að Moggi lifi góðu lífi.


mbl.is Samfylkingin stærst allra flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frank Ponzi, 18/5 1929 - 8/2 2008

FrankPonziGudrunTomasdottirÉg kynntist Frank Ponzi þegar hann var orðinn gamall maður. Hann bjó með Guðrúnu konu sinni að Brennholti í Mosfellsdal. Þau bjuggu þar sjálfsþurftabúskap, ræktuðu silung og grænmeti og áttu meira að segja vínvið í gróðurhúsi.

Þar höfðu þau byggt upp hús sem óx af sjálfu sér og þeim tveimur, áleiðis upp í holtið. Þau höfðu reist þarna gróðurhús, skemmu og steypt sundlaug enda var heitt vatn í holu, meira en nóg fyrir heimilið og silungana.

Frank var dæmigerður ítalskur Bandaríkjamaður af austurströndinni, strákur frá Pennsylvaniu sem sinnti herþjónustu í Kóreustríðinu og flutti eftir það til New York. Hann menntaðist sem listfræðingur, kynntist Marcel Duchamp, Hans Richter og fleiri þekktum listamönnum. Um tíma vann hann með Zero Mostel í sjónvarpsþáttum Zeros.

Þar kynntist hann einnig Guðrúnu sem var þar í söngnámi og ákvað að fara til Íslands með henni. Þetta var torkennilegur heimur. Þegar hann kom í fyrsta skiptið fóru þau að heimsækja fjölskylduna. Þegar Frank var búinn að heilsa upp á alla var honum sagt að líta bak við bæinn þar sem einn frændinn væri að vinna. Þegar Frank fór út í myrkrið sá hann mann með logsuðutæki að svíða kindahausa. Hvaða trúarathöfn er ég nú að trufla, hugsaði hann.

Þau ætluðu fyrst að byggja sér hús þar sem Bandaríkjamenn höfðu haft stóran kamp á Ásunum, þar sem nú er keyrt inn á Þingvallaveginn. Síðar fengu þau land hjá Hraðastaðabónda niðri við Suðurá þar sem hún liðast fram úr Helgadal og inn á sléttuna í Mosfellsdal. Þar heitir Brennholt.

Þar sat Frank og gerði við málverk, skrifaði bækur og sýslaði við eitt og annað. Mosfellingar kunnu að meta störf þeirra hjóna og gerðu þau að heiðursborgurum bæjarins. Myndin að ofan er frá 30. maí 2006 þegar Frank sýndi ljósmyndir í sal bókasafnsins að Þverholti, sem þá var nýtekinn í notkun.

Frank safnaði ljósmyndum og teikningum erlendra ferðalanga sem höfðu sótt heim Ísland. Hann skrifaði og gaf út bækur sem varpa ljósi á það hvernig útlendingar sáu landið á öldunum sem leið. Þessi saga er lítið skoðuð af Íslendingum sem hafa sjálfir fundið upp allt og gert allt fyrstir. Oft rak Frank sig á að ljósmyndir voru kenndar Íslendingum sem höfðu verið teknar af erlendum ferðalöngum. Þetta voru menn sem fyrstir gengu á hæsta fjall landsins, fyrstir tóku myndir af alls kyns tækjum og vinnuaðferðum (vegna þess að Íslendingar létu annars bara taka myndir af sér í sparifötunum) en menningarþjóðin Íslendingar vill sem minnst af útlendingunum vita.

Frank fann fyrir þessari minnimáttarkennd sem Íslendingar hafa gagnvart öðrum þjóðum og brýst út í stærilæti og rembingi. Það mátti finna að hann taldi sig hafa getað unnið á stærra sviði ef hann hefði búið áfram í New York. Á Íslandi valdi hann sér þó bústað og eignaðist sína fjölskyldu, þar ólust upp Tómas og Margrét. Á Íslandi fann hann ríka sögu sem hann skoðaði og stúderaði fram á síðustu stundu. Hann vann síðustu árin að ævisögu sinni og handlék hana þegar febrúar heilsaði. Viku síðar var hann allur.

Ég naut hjálpar Franks og þakka fyrir alla góða tíma með honum, hvort sem það var að negla þak í hífandi roki eða sitja hjá þeim hjónum og slafra í sig kaffi með biscotti frá Guðrúnu og hlusta á Frank. Megi minning hans lifa. Ég votta eftirlifendum samúð mína.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband