Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Kosningar hjá andfætlingum

Í færslunni hér fyrir neðan er minnst á kosningar í Danmörku, sem verða á þriðjudag, 13. nóvember.

Það er víðar barist í kosningabaráttu og andfætlingar okkar í Ástralíu ganga að kjörborði laugardaginn 24. nóvember. John Howard keppir að sigri í fimmta sinn. Hann hefur setið síðan 1996 og oft verið spáð brottför.

Þátttaka Ástrala í Íraksstríðinu er óvinsæl og aldur Howards hefur verið nefndur sem fjötur um fót, en hann er 68 ára. Í undanförnum kosningum hefur það líklega haft úrslitaáhrif að efnahagurinn hefur blómstrað og Howard hefur verið endurkjörinn þrisvar áður, þrátt fyrir hrakspár.

Þess vegna er því spáð hér að Johnnie vinni enn einu sinni.


Konur sem verða forsætisráðherrar

Jafnrétti er skringilega misskipt, hvar sem maður drepur niður fæti. Það er líklega mismikið misskipt.

Á Norðurlöndum er hærra hlutfall þingmanna og ráðherra konur en víðast hvar í heiminum. Þó hefur hlutur þeirra orðið rýr í forsætisráðherrastólum. Hinar jafnréttissinnuðu Danmörk og Svíþjóð hafa til dæmis verið með tiltölulega fáa forsætisráðherra úr hópi kvenna, eða 0. Ísland er í sama flokki. Noregur hefur haft eina konu í þessum hópi og í Finnlandi telst forseti valdamestur kjörinna fulltrúa, og þar er núna kona í fyrsta skipti forseti landsins.

Það veltur á úrslitum dönsku þingkosninganna á þriðjudag, 13. nóvember, hvort Helle Thorning-Schmidt verður fyrst danskra kvenna í stóli forsætisráðherra. Sjálfum þykja mér meiri tíðindi að hún á bakgrunn nær alfarið í Evrópupólitík og hefur þá margt breyst í Danmörku frá tíð Jens Otto Krag og Anker Jörgensen.

Hér á landi er rætt um margs kyns leiðir til að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði næsti forsætisráðherra. Sú sem er helst nefnd er að brjóta upp stjórnarsamstarf á miðju kjörtímabili og mynda vinstristjórn í takt við meirihlutasamstarf í Reykjavík. Það mælir á móti þessari kenningu að slíkt samstarf hefur þýtt að Framsóknarflokki hefur verið boðinn forsætisráðherrastóll þegar þetta hefur komið upp áður, og líka þegar stungið var upp á því í kjölfar kosninganna 2003.

Það er líklegra að stærsti flokkurinn í landinu muni eiga fyrsta forsætisráðherrann úr röðum kvenna. Kjósendur hafa skipt sér nokkuð líkt milli flokka síðan í seinni heimsstyrjöld. Með þeirri skiptingu núna getur Sjálfstæðisflokkurinn myndað stjórn með hverjum af flokkunum þremur sem koma næst honum, en þeir þurfa að mynda þrír saman stjórn.

Þetta þýðir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verði fyrir valinu sem fyrsta konan í stóli forsætisráðherra á Íslandi.


Níutíu ára byltingarafmæli

Atburðir í Rússlandi fyrir 90 árum eru af mörgum taldir þeir mikilvægustu á 20. öldinni. Þetta þýðir ekki að heimssagan sé aðeins skoðuð út frá sósíalískum viðhorfum, heldur hófst kafli í heimssögunni og honum lauk um 74 árum síðar, eða um mannsaldri.

Þó byltingin sem fæddi Sovétríkin sé kölluð októberbylting, byrjaði hún 7. nóvember að okkar tímatali, sem seinna var einnig tekið upp þar. Formlega lauk ævi Sovétríkjanna 1991. Eftir það lifa kommúnistastjórnir í nokkrum smáum einræðisríkjum og að nafninu til í einu af markaðsvæddustu löndum heims í dag, Kína.


Að vernda hús eða fólk

Hús eru rammi um líf fólks. Þau eru einnig heimild um þann tíma sem þau eru byggð á.

Þau verða að gegna margs kyns hlutverki. Þau verða að líta vel út en fyrst og fremst verða þau að vera góð að búa í eða starfa í. Hús sem ekki gegnir því hlutverki á að fara og annað hús að koma í staðinn sem gegnir því hlutverki betur.

Því miður horfa margir einungis til þess hvort hús líti vel út en huga minna að því sem bak við þau er, eða hvort þau sinni hlutverki sínu. Þannig er með gömul hús í miðbæ Reykjavíkur. Eins fallegt og er á þau að horfa, þá sýnist mér mörg þessara gömlu húsa ekki valda því hlutverki að vera miðbæjarhús á 21. öldinni.

Sú starfsemi sem helst þrífst í þeim eru krár. Það þýðir í mínum huga að þau eigi að fara burt og annað að koma í staðinn.


Umhverfisvernd á villigötum á Íslandi

Því miður er umhverfisverndarstefna á Íslandi á of mörgum stöðum á villigötum í dag:

  • Þegar barist er gegn fallorku og jarðorku en látið vera að berjast gegn meira mengandi orku.
  • Þegar barist er gegn nýjum iðnaði en látið vera að berjast gegn eldri iðnaði sem mengar meira.
  • Þegar barist er fyrir verndun gamals iðnaðarhverfis og rétti íbúa þar til að sjá engar breytingar á næsta nágrenni sínu.
  • Þegar barist er gegn ræktun landsins.
  • Þegar ekki er barist fyrir verndun sjávarlífs; botngróðurs, fiska, sjávarspendýra og annarra sjávarlífvera.
  • Þegar ekki er barist gegn óheftri ferðamannavæðingu.
  • Þegar látið er eins og til sé óröskuð náttúra á Íslandi.
  • Þegar ekki er viðurkennt að mannskepnan hefur haft áhrif á alla náttúru á Íslandi og umverfisvernd er fólgin í mannanna verkum, þar með talinni gróðursetningu þar sem hún á við.

12 ár eru langur tími í pólitík

Er öllum ljóst hversu mikið hefur breyst á 12 árum? 

Tveir ráðherrar Samfylikingar höfðu reynslu af ráðherrastörfum þegar þau hófu störf í vor. Jóhanna og Össur hafa fetað ólíka leið.

Jóhanna tók við sama ráðuneyti og hún kvaddi 12 árum fyrr. Hún hefur verið látlaus í yfirlýsingum en látið þess meira að sér kveða í löggjöf.

Það hljóta að hafa verið viðbrigði fyrir hana að koma aftur í ráðuneyti að 12 árum liðnum. Þá er ekki átt við að ráðuneytið hafi breyst, heldur hitt að samfélagið hefur breyst.

Össur hefur reynst yfirlýsingaglaður og virðist ætla að taka sér svipað hlutverk og John Prescott hefur gegnt hjá Verkamannaflokknum í Bretlandi. Prescott var gerður að staðgengli forsætisráðherra til að sýna eldri flokksmönnum og því fólki sem kemur úr verkalýðshreyfingu að þar væri enn einhver fulltrúi þeirra.

Yfirlýsingar um að óviðunandi sé að stjórnvöld geti ekki stjórnað þróun stóriðjuframkvæmda koma líklega frá hjarta Össurar en spurning er um tvennt: Munu svona yfirlýsingar vinna Samfylkingunni fylgi og munu þær hafa áhrif á samstarf stjórnarflokkanna? Svarið við þeim hvílir á svarinu við annarri spurningu: Er Össuri ljóst hversu mikið hefur breyst síðan 1995?


Litið um farinn bloggveg og fram á veg

Eins og ég segi frá í kynningu á mér sem bloggara, hafði ég aldrei ætlað að blogga. Ég sendi grein í Mogga (þetta rímar) til birtingar í blaðinu í maí, um hvalveiðar.

Blaðið áskildi sér rétt að birta greinar í blaðinu eða sem netgrein. Ég hugsaði lítið meira um það, en svo birtist greinin, sem netgrein.  Þá hefur Moggi þann hátt á að netgreinar birtast á bloggi. Þar sem ég var ekki með blogg, þá stofnaði Moggi það fyrir mig. Takk fyrir!

Þá fékk ég fljótlega einn bloggvin og hugsaði lítið meira um dæmið allt sumarið, enda hafði ég ekki hugsað mér að blogga. Þetta er hinn mesti tímaþjófur og það vissi ég.

Svo bættist við annar bloggvinur í september, tvöföldun í vinahóp. Þá ákvað ég að ég skyldi blogga eitthvað fram eftir hausti. Ég hef eitthvað fjallað um líðandi stund, skrifað um tvær bækur sem eru að koma út, en þó mest um stjórnmál og þá sérstaklega umhverfismál. Ég hef ekki hugsað mér að breyta því mikið þó lesendahópurinn sé ekki stór.

Svo er bara að blogga áfram, enda margt ósagt. 


Hægri umhverfisverndarfólk sem bara nær þessu ekki

David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins, hefur reynt að snúa ímynd flokksins og sýna að hann sjálfur væri umhverfisverndarsinnaður. Hann hefur sett upp vindmyllu á húsið sitt, hjólar um London og fer í upplýsingaleit um heiminn.

Það er ekki víst að fólk í Bretlandi kunni að meta þetta. Venjulegir kjósendur Íhaldsflokksins eru síður en svo hrifnir af formanni á reiðhjóli. Kjósendur úr öðrum flokkum benda á að ritari fylgi Cameron eftir á bíl á öllum hans hjólaferðum, með pappíra og lífverði.

Upplýsingaleit Camerons hefur ekki slegið alveg í gegn meðal umhverfisverndarsinna. Hann þarf náttúrulega að komast á milli staða eins og Bretlands og Grænlands á þotu. Cameron fer ferða sinna á einkaþotu í eigu Lord Ashcroft til Grænlands,  Súdan og annarra landa. William Hague hefur farið til Brasilíu, Falklandseyja og Íslands auk annarra staða með þessari sömu þotu, samanber grein Guardian.

Samtals hefur skuggaráðuneyti Camerons flogið 184.000 mílur með þotum Ashcroft og losað 1.289 tonn af koltvíildi, en til samanburðar losar flug í fullri farþegaþotu milli London og Kaupmannahafnar 0,1 tonn af koltvíildi, báðar leiðir.

Cameron fór til Grænlands til að segja að heimur færi hlýnandi. Fréttir af heimsókn hans voru skreyttar myndum af ísbjörnum að klifra upp á ísjaka á auðu hafi og gefið í skyn að ísinn væri allur að bráðna, þannig að ísbirnirnir væru að drukkna. Fyrir utan þá staðreynd að það eru enn eftir 6 milljónir ferkílómetra íss á Norðurpól þegar verst lætur, og 14 milljónir ferkílómetra þegar best lætur (sjá grein Veðurstofunnar) og að ísinn á Grænlandsjökli hefur ekki minnkað að flatarmáli svo nemi 1%, og að það eru fleiri ísbirnir á norðurslóðum en áður voru, þá stendur eftir spurningin:

Þurfti að fljúga með einkaþotu til Grænlands til að ræða málin? 

 


Ásakanir um spillingu geta slegið til baka

Margir virðast halda að réttarfar sé fólgið í því að ásaka fólk um glæpi og að sá sem er ásakaður skuli síðan sjá um að hreina mannorð sitt eða afsanna aðkomu að glæpnum.

Þetta er kallað ásökunarréttarfar eða sakbendingarregla og hefur margoft verið reynt í sögunni. Spænski rannsóknarrétturinn vann eftir þessari reglu. Óameríska nefndin var ekki dómstóll en vann eftir svipaðri reglu á 6. áratugnum í Bandaríkjunum.

Ókostir þessa réttarfars eru margir, en helsti ókosturinn er að alvarleiki máls ræðst af þeim hug sem ásakandi ber. Til að gera málin illvígari, því hér er oft um mjög persónuleg mál að ræða, koma fram þriðju aðilar sem ásaka fyrir hönd annarra. Eftir það virðist einungis hefndarhugur ásakanda setja málinu takmörk. Það er píslarsaga, þar sem allir sem að málinu koma bíða hnekki, eins þeir sem eru dregnir að málinu gegnt vilja sínum.

Af hverju gengur svona réttarfar ekki upp? Það er fyrst og fremst vegna þess að einstaklingurinn, þú og ég, njótum ákveðinna mannréttinda. Þessi réttindi voru fyrst hugsuð til að vernda einstaklinginn gegn ásælni stjórnvalda.

Nú á dögum er það ekki dómskerfið sem beitir ásökunarréttarfari eins og var á tímum galdrafárs. Nú eru það einstaklingar og fjölmiðlar sem hafa tekið upp þetta réttarfar. Í fjölmiðlum kemur í ljós stærsti ókostur rannsóknaréttarfarsins. Hann er sá að þó sá ásakaði sé sýknaður, fylgir ákæran honum, jafnvel ævilangt.

Rannsóknarréttarfarið og sakbendingarreglan hafa tekið á sig ýmsar myndir. Hjá Rannsóknarréttinum birtist það í ómengaðri mynd en síðar í mismiklu dulargervi. Á tímum óamerísku nefndarinnar gat það birst sem spurning í miðjum réttarhöldum: „Getur þú sagt að þú hafir ekki haft áhrif á nefndina?” Þarna er ákærði látinn afsanna staðhæfingu ákæranda. Einnig var hægt að spyrja svo vítt að ákærði veit ekki hvort hann hafi sagt satt: „Ert þú eða hefur þú einhvern tíma verið félagi í kommúnistaflokki eða skyldum samtökum?” Þegar spurt var hvað væru skyld samtök, var ekki um neinn tæmandi lista að ræða, heldur gátu það verið friðarsamtök, verkalýðssamtök eða hvaða önnur frjáls félagasamtök, bara ef nefndinni fannst þau geta verið kommúnísk.

Ásakanir um spillingu eru því miður allt of oft settar fram á þennan hátt, án nokkurra sannana, nema kannski sem regla sem höfundurinn hefur sett fram og sannar sig sjálf. Þannig segir fólk til dæmis að Framsóknarflokkurinn sé gerspilltur og þar af leiðandi sé það augljóst að þessi eða hinn Framsóknarmaðurinn hljóti að vera spilltur. Þetta er líkt og „reglan” sem margir virðast þekkja að allir sem stundi verslun séu þar með að stela af þeim sem þeir eiga viðskipti við. Þá er fólk fljótt að stimpla þá sem glæpamenn. 

Síðan er það nóg að einn standi upp og segi: „Nú er nóg komið, ég sætti mig ekki við að vera borinn sökum á opinberum vettvangi án þess að sannanir liggi fyrir, ég kæri þá sem þannig haga sér.”


Lagarammi um opinber hlutafélög

Getur verið að stjórnendur OR haldi að þau reki sjálfseignarstofnun? Mér virðist á viðbrögðum þeirra undanfarna daga að það sé engu líkara.

Dæmi um sjálfseignarstofnun er Háskólinn á Bifröst þar sem ég starfaði í tvö ár. Amma mín myndaði sjálfseignarstofnun um eyjaklasa í Breiðafirði sem síðan er í eigu fjölskyldunnar, þannig að ég þekki þetta félagaform nokkuð.

Það er annað hvort að fólkið telji OR sjálfseignastofnun eða að það hafi talið að þegar fyrirtækið var gert ohf. hafi afskiptum fulltrúa almennings lokið. Það sem hefur ekki breyst er að almenningur á ennþá fyrirtækið og óumdeilt er að fulltrúar almennings í þeim sveitarfélögum mynda stjórn þess.

Það virðist vera nauðsyn á að skerpa fyrir fólki hvert eignarhald á fyrirtækjum í almannaeigu er. Það verður best gert með lagaramma um opinber hlutafélög og öðrum um fyrirtæki í blandaðri eigu opinberra aðila og einkaaðila. Ég hef fyrr kallað eftir þannig lagaramma.

Í dag er sérstakur lagabálkur um einkahlutafélög og annar um hlutafélög. Svo var skotið inn hálfri málsgrein um opinber hlutafélög í hlutafélagalögin. Þó hlutafélagaformið henti vel til rekstrar opinberra fyrirtækja af ýmsu tagi er ekki þar með sagt að þau líkist fyrirtækjum á einkamarkaði við það eitt að breyta um rekstrarform, þó að margir láti þannig. 


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband