Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Framtíð borgarstjórnar

Þegar vinstri meirihluti var myndaður í borginni 11. október taldi ég margt gott geta gerst ef fólk þar myndi greina vel á milli sín og fyrri meirihluta. Ég veit að félagshyggjufólk taldi að þarna gæfist færi að efla þá þætti sem þau hafa barist fyrir.

Nú er það þannig að yfir 90% verka í sveitarstjórnum eru lítið umdeilanleg. Skóla verður að reka, götur og fráveitukerfi verða að vera í lagi og þar fram eftir götunum. Þetta hafa ekki verið ásteytingasteinarnir í borginni og pólitísk átök hafa farið fram á öðrum vettvangi, eins og þekkt er.

Þó hefði nýr meirihluti getað snúið við blaðinu í kjaramálum leikskólakennara og markað föst spor í miklu fleiri málum til að sýna fyrir hvað félagshyggjan stendur. Því miður virðist niðurstaðan vera sú þar eins og í öðrum málum að munurinn á starfi meirihlutanna er ekki nægur til að fólk greini hann.

Því miður virðist á of mörgum stöðum niðurstaðan vera sú sama, hver sem meirihlutinn er. Það eina sem nýr meirihluti hefur á borð að bera er að nú séu hlutirnir öðruvísi vegna þess að nýtt fólk taki ákvarðanirnar. Borgarstjóri hefur talað um að sú pólitík sem hann iðki sé pólitík hins daglega lífs. Það má rétt vera, en dugir ekki til að vinna næstu kosningar.

Það er mikil hætta á að vinstrimeirihluti með fjóra oddvita muni leysa öll mál með samkomulagi sín í milli, sem er orðið svo mikið samkomulag að það sé ekkert annað en það sem allir geta hvort eð er orðið sammála um. Þetta er pólitík sem margir hafa reynt en ekki uppskorið mikið fyrir. Pólitík er spurning um traust, en líka um að eitthvað skar verði af tekið og eitthvað framkvæmt sem aðrir myndu ekki gera. 

Það sem Sjálfstæðismenn þurfa að gera er að útkljá forystumál sín sem fyrst til að safna vopnum fyrir kosningar, sem eru eftir rúm 2 ár. Ef vinstrimeirihluti vinnur ekki úr málum OR þannig að borgarbúum þyki þeir standa réttari en hjá Vilhjálmi, mun sá meirihluti fá sama dóm og Vilhjálmur. 


Öryggi þegnanna tryggt

Sú lögregla sem leggur til að erlendum ríkisborgara sem hefur mótmælt virkjanaframkvæmdum með því að klifra upp í krana og rífa kjaft verði neitað um landvistarleyfi, þeirri lögreglu er umhugað um öryggi borgaranna.

Ef svona mótmælandi er hættuleg örygginu, hvað þá með þá sem sannanlega hafa gerst sekir að því að ógna lífi samborgaranna? Hvað með alla þá sem keyra uppdópaðir, keyra fullir, keyra kæruleysislega. Hvað með dópsala landsins? Hvað með þá sem hafa ógnað samborgurunum á götunni á sannanlegan hátt? Verður ekki að taka þetta fólk úr umferð?

Það er einu sinni efsta skylda yfirvaldanna að vernda öryggi borgaranna, þó að margir kjósi að hæðast að þeim sem þurfa að framkvæma þetta. Þeir dauðu og þeir örkumluðu hafa engan rétt.

Þeir flokkar sem tala fjálglega um að vernda íslenskt kvenfólk gegn ofbeldi erlendra borgara hljóta að leggja að minnsta kosti sömu áherslur á að konur geti gengið um bæinn og skemmt sér óhræddar fyrir sama ofbeldi Íslendinga. 


Þið hafið skapað ljótleikann

Einhvern tíma á lífsleiðinni þykist maður komast að því að smekkur ræður því hvað manni finnst fallegt eða ljótt. Maður hættir að tala um hvað sé fallegt eða ljótt, og fer að segja hvað manni finnst vera það. Síðan fer maður að draga þetta í efa. 

 

Landið er fallegt, hvar sem á það er litið. Náttúrunni hefur ekki tekist að skapa neitt ljótt. Tröllslegt, kannski, hrikalegt eða jafnvel ferlegt, en aldrei ljótt. Svörtuloft eru ekki ljót. Þau eru hrikaleg og sjófarendur vita að það er best að halda sig fjarri þeim. Ódáðahraun er ekki ljótt. Það er úfið og dularfullt. Skeiðarársandur á líka sína fegurð. Meira að segja sá harkalegi grjótklumpur, máninn, er bara fallegur þegar ég lít á hann, hálffullur á laugardagskvöldi. Það er máninn, ekki ég.

Það sem er ljótt er skapað af manninum. Þú labbar niður Laugaveg og sérð reiðhjól hangandi í vír sem hefur gleymst frá innsetningu fyrir einhverjum árum síðan. Þú gengur áfram eftir höfuðstræti landsins og það er þakið rusli á hverjum laugardagsmorgni og sunnudagsmorgni, eftir fólk. Þú gengur áfram fram hjá brunarústum sem standa óhreyfðar eftir hálft ár, út af fólki.

Þú gengur fram hjá niðurníddum timburhúsum og ómanneskjulegum steypukumböldum, gerðum af fólki, viðhöldnum af fólki. Fólki með fullar hendur fjár, fólki sem getur gert hvað sem það vill taka sér fyrir hendur. Þetta er höfuðstræti landsins. Þetta er það besta sem boðið er upp á. Þú ert hluti af þessu fólki.

Allar stéttir og allir aldurshópar leggja sitt til. Unglingarnir krota á hvað sem fyrir verður. Þegar þau eldast ganga þau um miðbæ Reykjavíkur af einbeittum vilja til að brjóta, sóða, hávaðast og gera allt eins ljótt eins og hægt er. Eldra fólk stendur ábyrgt fyrir óbyggðum lóðum og steinsteypukumböldum. Þið hafið gert þetta allt ljótt. Hvernig líður ykkur að vera hluti af þessu?


Jónasistar

Um sexleytið fór hópurinn að stækka fyrir framan aðalbyggingu Háskólans. Kona útdeildi stormkertum á álhöldum. Klukkan sex hélt gangan af stað að Hringbraut. Sem betur fer hafði lögregla viðbúnað þegar gengið var yfir götuna. Ef einhver hefði keyrt á hópinn hefði stór hluti af samanlagðri greind þjóðarinnar getað horfið, sá hluti sem ekki fæst við fjármál og rekstur.

Þegar gangan kom að styttu Jónasar Hallgrímssonar rétt við Hljómskálann kom í ljós að hljóðkerfið virkar ekki. Jónas hallaði þess vegna eyra að Pétri Gunnarssyni þegar hann hélt ræðu magnaralaus.

Það er alveg sérstakt fólk sem þarna var statt. Þegar Pétur var um það bil að ljúka tölunni kom vél inn til lendingar rétt yfir höfðum okkar og drukknuðu síðustu orð skáldsins algerlega, sem von var. Pétur lét það ekki á sig fá og ég nam lokaorð hans með varalestri. Viðstaddir sungu fyrsta og síðasta erindið af Vísum Íslendinga. Um stund gleymdist nálægð flugvallarins, umferðin á Sóleyjargötunni og undirbúningur fyrir brúðkaup aldarinnar í næstu götum.

Svo kvaddi ég Jónas sem enn stóð skakkur og var víst orðinn tvöhundruð ára. Um leið og ég gekk út úr lundinum mætti norðangarrinn mér og hávaðinn af umferðinni. 


Vegna þess að þeir eru okkar skíthælar

Hvers vegna að styðja einræðisstjórn sem iðkar islamska bókstafstrú og treður á réttindum útlendinga, kvenna, trúleysingja, allra með aðra trú og yfirleitt allra sem eitthvað hafa á móti stjórninni?

Saudi-Arabía er ríki moskanna tveggja, heilagt ríki með einkunnarorðin: Það er enginn Guð nema Allah og Múhameð er sendiboði hans (Shahadah). Trú ríkjandi ættar er sú sem Wahhab boðaði, bókstafstrú sem meðal annars er grundvöllur skoðana Usama bin Laden, sem er frá landinu. Ætt hans nýtur mikillar virðingar þar og er í nánum tengslum við konungsættina, sem öllu ræður.

Svo ég svari spurningunni, þá er það líklega svar í ætt við það sem Truman á að hafa sagt þegar hann var spurður hvers vegna Bandaríkin styddu fasistastjórn Francos á Spáni: Because he is our son of a bitch.

Það er rétt að taka fram að Ísland þarf ekki að hafa stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu fremur en Íslendingar sjálfir kjósa.


Innri maður Íslendinga

Sagt er að öl sé innri maður og það reyna margir á fjórða glasi. Það merkilega er samt að sjá hvernig þjóðir bregðast við á fjórða glasi.

Ekki er hægt að sjá á Spánverjum, Frökkum eða Ítölum, svona yfirleitt, annað en að þau skemmti sér hið besta á fjórða glasi.

Hjá Íslendingum, Finnum og Svíum er þessu öfugt farið. Þeir fara að gráta, skætast, stælast, rembast eða ybbast upp á þá sem fyrir þeim verða.

Það er ljóst að það er eitthvað að hjá þessum þjóðum og að áfengið er þarna bara að losa um hömlur. Hin sanni Íslendingur kemur í ljós og þvílík viðurstyggð mætir manni að það er langt til jafnað.

Á að láta geðveikina grassera allar helgar? Þó er hún ekkert annað en birtingarmynd fyrir það sem fær að lifa dulið alla vikuna.


Hvers vegna að hampa einræðisherrum?

Eitt það ömurlegasta sem sjá má í íslenskri pólitík er þegar fólk hampar einræðisherrum, hvar sem þeir annars standa í pólitík.

Einræðið er uppgjöf stjórnmála, stríðsástand sem haldið er í skefjum innanlands. Það er skoðanakúgun, ofbeldi og morð.

Því miður eru til of margir sem iðka pólitík sem einhvern leik þar sem þeir sem eru þeim sammála eru góðir og aðrir eru slæmir. Öll gagnrýni hverfur, þar með talin á illvirki ríkisstjórna. Það eru verri illvirki en venjulegir glæpamenn geta nokkurn tíma framið, og finnst okkur þó nógu ill.


Harðskafi

Lesendur reyfara leita að formúlu og Arnaldur lætur þá fá það sem þeir vilja.

Í bókinni er augunum beint nær eingöngu að Erlendi. Félagar hans í löggunni fá að spila örlítil aukahlutverk. Til að gera þetta fær Erlendur frið fyrir morðmálum í gangi, utan sjálfsmorðsmáls sem hann vill rannsaka sjálfur, og hefur tíma til að rannsaka eldri mál sem aldrei hafa leyst.

Það hefur slaknað á vandanum hjá börnum hans og tækifærið er notað til að kafa dýpra í vanda Erlendar sjálfs. 

Nokkrar góðar aukapersónur eru nefndar til sögunnar. Mér kæmi ekki á óvart að sjá Orra (ekki Onna) Fjeldsted skjóta upp kollinum hjá Arnaldi síðar.

Þetta er góður plottari og alveg í takt við bestu bækurnar sem Arnaldur hefur skrifað, minnir á Ed McBain og Sjöwall & Wahlöö á góðum degi. Þá á ég við að þetta er góður reyfari.


Eru veður að skipast í umhverfismálum?

Tveir hópar hafa verið áberandi í umræðu um fallvatnsvirkjanir á Íslandi. Annar hópurinn hafnar öllum eða nærri öllum sllíkum virkjunum vegna náttúruspjalla. Hinn hópurinn telur lítt byggjandi í landinu ef við notum ekki fallvötnin og jarðvarmaorku.

Stærsti hópur Íslendinga liggur þó líklega þarna á milli og setur ýmsa fyrirvara við virkjanir, hversu mikil spjöll verði af þeim, hvernig iðnaður sé rekinn með orkunni og hvað bygging virkjana þýði að öðru leyti. Þessi hópur hafnar ekki virkjunum alfarið, heldur telur að byggðasjónarmið, náttúruverndarsjónarmið og athafnasjónarmið verði að vega og meta saman. Ákvörðun Landsvirkjunar að orka úr neðri hluta Þjórsár verði ekki látin renna til álvera er nokkur vendipunktur í þeirri umræðu.

Það er greinilegt af pistli iðnaðarráðherra um þessa ákvörðun að hann sér færi á að Samfylking dragi vígtennur úr VG þegar Landsvirkjun kemur að einhverju leyti til móts við sjónarmið þessa hóps. Hann virðist vanmeta möguleika sveitarfélaga eins og Grindavíkur, Ölfuss (Þorlákshafnar) og Norðurþings (Húsavíkur) til að nema orku í eigin landi og nota til atvinnusköpunar í héraði. Að minnsta kosti gætir hann sín að minnast sem minnst á þessa staðreynd.

Það er ljóst að hér hefur verið beygt af leið sem fylgt hafði verið síðan á áttunda áratugnum, sem var að iðnaðarráðuneytið gerði allt til að búa í haginn fyrir þá sem á annað borð vildu setja á stofn orkufrekan iðnað á Íslandi. Sú stefna réð til dæmis verkum Jóns Sigurðssonar (A) þegar reynt var að setja á stofn álver á Keilisnesi. Þetta var yfirlýst stjórnarstefna í tvo áratugi og ráðherrar voru einungis að framfylgja þeirri stefnu.

Eins og Jón Sigurðsson (F) sagði (og var hæddur fyrir) var ráðuneytið hætt að vinna að þessu í hans tíð, enda nægir kaupendur til að orku. Í tíð Össurar hefur þetta síðan gengið svo langt að opinberu orkufyrirtækjunum er nú uppálagt að taka tillit til umhverfissjónarmiða.

Það gengur þó ekki svo langt að ekki eigi að virkja, þannig að samkvæmt þessum síðustu fregnum verða enn til þrjú uppistöðulón í farvegi Þjórsár neðan Búrfells, ef vilji þeirra sem stjórna fær að ráða. Það þýðir að sumir náttúruverndarsinnar hafa brugðist ókvæða við ákvörðuninni.


Juan Carlos hefur áður varið lýðræðið

Juan Carlos er enginn venjulegur konungur. Hann þekkir einræðisherra af báðum vængjum stjórnmálanna.

Þegar Fransisco Franco sá fyrir endann á lífdögum sínum ætlaði hann fyrst að skipa eftirmann sinn úr hópi fasistastjórnarinnar. Ég nota orðið fasisti hér vegna þess að þeir hétu það, fylgismenn Francos.

Carrero Blanco kom helst til greina þangað til baskneskir hryðjuverkamenn sprengdu hann í frumeindir sínar. Þeir komu fyrir sprengju sem sprakk í ræsisbrunni þegar bifreið Blancos keyrði yfir, þannig að brynvarin bifreiðin lyftist yfir kirkju og kom niður í næstu götu.

Franco taldi þá að íhaldssömum gildum sínum yrði best borgið með því að endurreisa konungsveldi á Spáni og láta Juan Carlos taka við stjórnartaumunum.

Juan Carlos beið ekki lengi eftir að Franco væri allur og lét efna til lýðræðislegra kosninga við lítinn fögnuð fasista, sem komu ekki vel úr þeim kosningum. Hann þrýsti á að starfsemi kommúnista yrði leyfð og það jók enn á óánægju fasistanna. Upp úr sauð 23. febrúar 1981 þegar nokkrir liðsmenn Guardia Civil undir forystu Antonio Tejero reyndu valdarán og héldu þinginu í vopnaðri gíslingu. Þeir virðast hafa treyst á að konungur veitti þeim þegjandi samþykki, sem ekki gerðist. Juan Carlos kom fram í sjónvarpi og fordæmdi valdaránið.

Ári síðar komust sósíalistar til valda á Spáni. Konungur hafði markvisst dregið úr hlutverki sínu til að greiða lýðræðinu leið og hefur núna svipaða stöðu og aðrir konungbornir þjóðhöfðingjar í Evrópu. 

Hér verður því ekki haldið fram að Juan Carlos hafi nokkru sinni sett sig persónulega í hættu á þessari vegleið sinni. Hins vegar hefur hann persónulega átt meiri þátt í að Spánn er lýðræðislegt land í dag, heldur en nokkur annar.


mbl.is Spánarkonungur sagði Chaves að þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband