Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.2.2008 | 20:21
Hillary Clinton líkt við Hitler á Wikipediu
Á mánudag var ég að fletta Wikipediu að skoða upplýsingar um bandarísk stjórnmál. Þegar ég kom að síðunni um Hillary Rodham Clinton var ljóst að vandalar höfðu komist í hana.
Á síðunni var henni líkt við Hitler, sjá fyrir ofan myndina af henni. Eins og búast mátti við er síðan orðin þekkilegri í dag, skoðið hér til samanburðar. Það má búast við því að hún verði vöktuð vel og haldist nokkuð laus við andstyggð eins og þessa.
Þetta er illa gert en barnalegt og skaðar Hillary lítið, en Wikipediu þeim mun meira. Hillary liggur væntanlega undir öllu harðari árásum frá andstæðingum sínum í dag.
Smellið á myndina til að stækka hana, og smellið á hana aftur, ef þið sjáið ekki nafn Hitlers.
Ofurspenna í 24 ríkjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2008 | 19:59
Breytingar á bandarísku þjóðfélagi 2008
Um leið og ljóst er að miklar breytingar verði á æðstu stöðum bandarískra stjórnmála, þá endurspegla þær kröfur um breytingar í öllu stjórnkerfinu.
Valdatíð George W. Bush er í raun lokið, hann er lame duck. Allir helstu ráðgjafar hans hafa kvatt, verið látnir fara eða eru búnir að draga sig í hlé að undanskilinni Dr. Rice.
Um leið verður þeim ekkert ágengt sem ætla að berjast í forsetakosningum á sama grundvelli og 2004, að setja öryggi landsins ofar öllum réttindum einstaklinga, bæði innlendra og erlendra.
Það eru augljósar breytingar þegar komnar af stað í stjórnkerfinu. Viðurkenning CIA á vatnspyntingum er aðeins hluti af þeim. Allt önnur sýn á einstaklingsréttindi mun koma, hvort sem McCain, Clinton eða Obama verða í forsetastól.
Ekki er ólíklegt að þetta hafi áhrif á öryggisgæslu á flugvöllum. Það er viðurkennt að margar fyrirbyggjandi aðgerðir á síðustu 5 árum hafi sáralitla þýðingu fyrir öryggi farþega, en gegna líklega femur því hlutverki að byggja upp falska öryggiskennd.
CIA beitti vatnspyntingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2008 | 22:44
Repúblikanar halda forskotinu
Nú bendir margt til að John McCain, sá gamli hermaður, nái að lokum útnefningu Repúblikanaflokksins til framboðs forseta.
Hann hefur lengi skorið sig úr flokknum, haft sjálfstæðar skoðanir á mörgum hlutum og þótt ódæll í samstarfi. Hann er alls óhræddur við að ögra og minnir í því á Ronald Reagan. Reagan var 69 ára þegar hann tók við embætti, en McCain verður 72 ára í sumar.
Af bloggum á Íslandi mætti ráða að Ron Paul væri helsti frambjóðandi repúblikana og að demókratar væru svo gott sem búnir að tryggja sér yfir 90% atkvæða í næstu forsetakosningum.
Hvort tveggja er jafn fjarri lagi. John McCain myndi vinna kosningar gegn Clinton með 8% mun væri kosið í dag, og vinna Obama með 6% mun. Repúblikanar hafa ráðið forsetastól 27 ár af síðustu 40, 19 af síðustu 30 árum og 12 af síðustu 20 árum.
John McCain er enginn miðjumaður en hann getur hrifið fólk á miðjunni miklu fremur en Mitt Romney. Romney hefur reynst bærilegur stjórnandi (business adminstrator) og væri ekki ónýtt að hafa slíkan mann sem fjármálaráðherra eða chief-of-staff (stundum kallað starfsmannastjóri á Íslandi en er í raun aðalráðgjafi forseta) í Hvíta húsinu. Honum gengur ekki jafn vel og McCain að hrífa fólk með sér og er nú spáð illu gengi, sérstaklega þar sem repúblikanar láta alla kjörmenn úr hverju ríki á landsþing ganga til þess sem flest atkvæði hlýtur.
Að loknum sprengidegi vilja margir að fram sé kominn frambjóðandi sem hvor flokkur geti fylkt sér um. Sú óskastaða fyrir báða flokka er engan veginn tryggð. Það á eftir að velja um helming kjörmanna á landsþing sem verða haldin í lok ágúst. Það er ólíklegt að það gerist núna en keppni um kjörmenn getur staðið miklu lengur. Hún getur jafnvel staðið fram á landsþing en það óskar hvorugur flokkur sér.
Spennandi forkosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 19:06
Verða breytingar ef demókrati nær kjöri?
Hvort verður það meira frávik frá hefðbundnum hvítum köllum á efri árum í forsetaframboði í Bandaríkjunum, að fá frambjóðanda sem er kona á þeim aldri, eða fá mann sem átti Keníumann að föður?
Bæði Clinton og Obama teljast afar lík þeim forsetum sem hafa verið síðustu hálfa öldina. Þau koma úr sama hópi fólks. Clinton kemur af efnuðu fólki, fór í góða háskóla og er sjálfstæð kona, baby boom holdi klædd. Hún gæti hafa verið í kirkjunni í lok The Graduate, kannski jafnvel brúðurin?
Obama er af fátækara fólki en er löngu orðinn hluti af hærri lögum samfélagsins. Hörundslitur hans hefur því minna að segja sem hann talar meira.
- Ég er ekki kaþólski frambjóðandinn, ég er frambjóðandi demókrata til forseta sem er kaþólskur að trú. Ég tala ekki fyrir kirkjuna og kirkjan ekki fyrir mig. Þetta sagði John F. Kennedy fyrir kosningarnar 1960. Margir héldu fram að kaþólskur frambjóðandi gæti ekki unnið. Það lá nærri, hann vann með 0,2% atkvæða en aðeins meiri mun í fjölda kjörmanna.
Það er ljóst að það verður aftur brotið blað í sögunni ef frambjóðandi demókrata nær kjöri í nóvember. Nú er aðeins eftir að sjá hvort það verður með nýjum kynslóðaskiptum og hörundsdökkum manni, eða með fyrstu konunni á stóli Bandaríkjaforseta.
Breytingarnar verða þó engin bylting. Bandaríkjamenn eiga sína byltingu frá 1776 og vilja ekki aðra. Bæði fylgja þau harðri stefnu gagnvart hernámi Írak, stuðningi við Ísrael og andstöðu við Íran.
McCain er svo enn meiri haukur í þessum málum, enda eyddi hann tæpum sex árum sem stríðsfangi í Víetnam. Á kjördag verður hann búinn að halda upp á 72 ára afmæli sitt.
Eldflaugatilraunir Írana fordæmdar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2008 | 08:45
Tveir stjórnmálamenn frá Illinois
Fyrir 150 árum kom fram á sjónarsviðið bandarískra stjórnmála ungur lögfræðingur frá Illinois, langur og mjór, þótti nokkuð afkáralegur að sjá. Hann hét Abraham Lincoln.
Hann háði frægar kappræður við Stephen A. Douglas, öldungadeildarþingmann demókrata, um þrælahald. Tveimur árum síðar voru þeir frambjóðendur flokkanna í forsetakosningum.
Fyrir tæpum fjórum árum hafði annar lögfræðingur frá Illinois framsögu fyrir frambjóðanda demókrata í forsetakosningum, John Kerry. Kerry tapaði en framsögumaðurinn Obama þykir núna hafa hrifið fólk með sér úr öllum stéttum, af öllum aldri, báðum kynjum og öllum tegundum. Aðalkeppinautur hans er reyndur stjórnmálamaður en frú Clinton hefur ekki hæfileikann til að hrífa fólk með sér.
Nú er líklegast að McCain verði frambjóðandi repúblikana. Aðalkeppinautur hans er Romney, maður með mikið fé en litla breidd í pólitík.
Obama hefur reynst góður ræðumaður. Hann skrifar skiljanlegt mál. Hvort sem fólk er samþykkt stefnu hans eða ekki má mæla með bókinni The Audacity of Hope, sem kom út 2006.
Það mælir með góðu gengi McCain og Obama að fólk telur atvinnu- og efnahagshorfur slæmar og er um leið tilbúið að snúa við blaðinu eftir 8 ára stjórn Bush yngra. Þegar þetta er skrifað hefur Clinton enn góða möguleika og verður að bíða til miðvikudagsmorguns til að sjá hvernig hefur farið.
Kennedy fjölslyldan klofin í afstöðu sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2008 | 16:14
Ísland er borgríki
Ísland er borgríki, meira að segja smáborgríki.
Eins og fleiri las ég ævintýri Grimmsbræðra þegar ég var barn og hélt að þetta væri allt saman búið til í einhverjum fantasíuheimi. Til dæmis var karlssonum oft vísað úr konungshöllinni og voru komnir út úr ríkinu að kvöldi.
Svo lærðist mér að þýsku ríkin hefðu verið svona smá. Einn daginn sat ég á ströndu Liechtenstein og horfði á Sviss hinu megin Rínar. Ef ég hefði gengið af stað í hina áttina hefði ég verið kominn til Austurríkis um miðjan dag. Ég var reyndar á góðum bíl og það tók 15 mínútur.
Ísland er stærra en það en hefur að fjölda aðeins eina smáborg og landsbyggð þar sem 100.000 manns búa á jafnmörgum ferkílómetrum.
Þetta er staða sem stjórnmálaflokkarnir verða að taka með öðrum hætti en þeir hafa gert. Hingað til hafa þeir valið að láta flokksfélögin ráða sínum málum hvert fyrir sig. Málefni höfuðborgarsvæðis annars vegar og landsbyggðar hins vegar eru þannig að þeim verður ekki deilt í fleiri einingar, og þessir tveir meginpólar verða að vinna saman en ekki sundur.
Þannig skiptir það Sjálfstæðisflokk í Reykjavík miklu máli hvernig Sjálfstæðisflokkur í ríkisstjórn hagar löggæslu. Það skiptir Samfylkingarfólk í Grafarvogi miklu máli hvernig Samfylking í ríkisstjórn heldur á málefnum Sundabrautar. Heilbrigðisþjónusta á höfuðborgarsvæði er komin að miklu undir því hvernig heilbrigðisráðherra heldur á málefnum Landspítala.
Sparnaður á þessum sviðum verður að skoðast í samhengi við 31.000 milljóna áætlaðan rekstrarafgang á þessu ári og að til Landspítala og Sundabrautar var búið að veita fé af Símapeningunum fyrir þremur árum.
Á móti má segja að ríkisstjórnin hlýtur að vilja hafa borð fyrir báru til launahækkana á samningsári enda eru laun stærsti einstaki kostnaðarþátturinn hjá hinu opinbera.
Afskipti ríkisstjórnar af samningum munu ráða miklu um vinsældir flokkanna, bæði í sveitarstjórnum og á þingi.
Flokkarnir geta ekki klofið áhrif sín hjá ríki og í þeim sveitarfélögum, þar sem 65% þjóðarinnar býr.
Ólíkir flokkar ríkisstjórnar auka breidd í afstöðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2008 | 19:51
Vinsældir Kiljansnafnsins í Frakklandi
Mannanafnalögum var breytt í Frakklandi fyrir um tuttugu árum. Þá kom í ljós að þjóðin var þyrst í breytingar. Árið 1992 var nafnið Kevin vinsælast með drengbarna, og hafði ekki verið talið franskt nokkrum árum áður, eins og sjá má á Meilleurs Prenoms.
Nú er annað nafn, skylt Kevin, nokkuð vinsælt í Frakklandi eins og sjá má á grafinu sem fylgir hér. Það er nafnið Killian. Halldór hefur líklega lítið með þetta að gera, því hann er þekktur undir Laxness-nafninu af þeim sem nú lesa hann.
Dýrlingurinn Killian var írskur trúboðsbiskup og má sjá minjar um hann víða um Evrópu. Nafnadagur Killians er 8. júlí.
Á nafnadag gefa franskir foreldrar börnum gjarnan litlar gjafir og halda upp á daginn sem eins konar auka-afmælisdag.
Smellið á grafið til að sjá það stærra.
Piu og Sven hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2008 | 20:39
Er nóg til af heitu vatni?
Fyrsta áhyggjuefni fólks varðandi Orkuveituna er líklega hvort það sé til rafmagn á heimilinu og síðan hvor það sé til heitt vatn þar. Þetta er ansi fjarlægt áhyggjuefni, eða hvað? Nóg til af rafmagni í landinu og mörg ár síðan síðast varð rafmagnslaust í betri hverfum Reykjavíkur lengur en nokkar mínútur.
Ég velti þó fyrir mér heita vatninu. Ef það þarf að skrúfa fyrir sundlaugar við 10° frost, hvað þá ef hér kemur alvöru kuldakafli? Meginhluti þjóðarinnar býr kringum 64° norðlægrar breiddar. Þar ríkir 20-40 gráðu frost meginhluta vetrar á öðrum slóðum en við Golfstrauminn og ekkert sem útilokar að hér komi nokkurra vikna kafli með 10-15 gráðu frosti. Hvað þarf að skrúfa fyrir þá?
Ég hélt að með tilkomu Nesjavallavirkjunar, þegar kælivatn af hverflum hennar bættist við heitavatnsbúskap Orkuveitunnar (þá HR) hefði komið nóg af heitu vatni. Síðan þá hefur fjölgað á svæði Orkuveitunnar, en einnig komið viðbótarvatn af Hellisheiðarvirkjun.
Fundargerðir Orkuveitunnar birtar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2008 | 20:22
Kalifornía, stóra eplið á vesturströndinni
Repúblikanar halda forval og forkosningar í 21 ríki á þriðjudag, 5. febrúar. Í mörgum þeirra gildir að sá sem fær flest atkvæði vinnur allla kjörmenn ríkisins á landsþing.
Nú er McCain í forystu og getur sópað vel á sprengidag. Kalifornía hefur um sjöunda hluta þeirra kjörmanna sem þarf til að vinna útnefningu hjá repúblikönum, um fimmtung hjá demókrötum. Það skiptir miklu að vinna þar. Kosningabaráttan er háð í fjölmiðlum í þessu fjölmenna ríki og stuðningur Schwarzenegger hefur mikið að segja.
Clinton leggur mikið undir til að vinna þar. Bæði hún og Obama eru með digra sjóði og munu keppa um fjölmiðlapláss fram á þriðjudagskvöld.
Stór hluti atkvæða skilar sér með pósti. Þar sem fólk hefur verið að kjósa í pósti síðan í byrjun janúar, þá nýtist gott gengi McCain ekki til fulls.
Slagurinn á þriðjudag er sá stærsti í forkosningum hingað til og getur hæglega endað baráttuna, því báðir flokkar vilja finna sigurvegara sem fyrst, og hylla hann eða hana fram til byrjunar nóvember.
Schwarzenegger styður McCain | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2008 | 23:27
Zizek á spítti
Margir hafa sagt mér hversu frábær fyrirlesari Zizek sé.
Ég hef samt ekki látið vera af því að hlusta á manninn því það sem hann skrifar er fyrir mér það sama og svo margir franskmenntaðir vinstrimenn skrifa. Fyrir mig er þar fátt nýtt.
Margir þeirra hljóma sem umbótasinnaðir menn en eru í raun íhöld, eins og Einar Már Jónsson. Þetta eru fínir stílistar. Þeir taka heimsatburði sem einhvers konar ímyndun, tilbúna í sjónvarpi og telja að heimurinn sé að sveigjast aftur að sovétinu. Fyrir marga þeirra er sovétið það eina raunverulega, það eina sem hönd er á festandi. Þeir eru búnir að vera í eftirsjá síðan Múrinn féll.
Nú sá ég hann í Silfrinu, miðaldra sófakomma á spítti, annað hvort því innbyggða eða aðkeyptu, en alger mótorkjaftur. Ég held að maður þyrfti viskíflösku til að halda hann út í nálægð.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar