Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að fá Ólínu til að dæma um húmor

Að fá Ólínu Þorvarðardóttur til að meta hvað sé gott og gilt hjá Spaugstofu er líkt og að fá Atla Heimi Sveinsson til að dæma Rolling Stones.

Bæði hefur verið reynt og bæði er jafn fánýtt. 


mbl.is Spaugstofan sér ekki eftir neinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnrétti, ekki jöfnuður

Margir telja að jafnrétti og jöfnuður sé eitt og hið sama. Það er ekki svo.

Jafnrétti er að eiga jafna möguleika í krafti eiginleika sem skipta máli hverju sinni og horft sé fram hjá öðrum málum. Þannig hafi kyn, trú, húðlitur, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð ekki áhrif á möguleika til vinnu og skipti ekki máli í íþróttum, svo nefnd séu dæmi.

Jöfnuður er þegar litið er framhjá eiginleikunum. Allir sem eru orðnir 18 ára hafa rétt til að kjósa í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Innan hvers kjördæmis eða sveitarfélags hefur hvert atkvæði jafnan rétt við það næsta.

Nú virðist sem allir eigi að hafa rétt til alls. Þetta er angi af því sem má kalla öfgasinnaða jafnaðarmennsku, þar sem allir eigi að vera góðir við alla og til að tryggilega sé gengið frá því, þá er það bundið í lög.

Jafnrétti er það ef öll sem vinna í búð geta orðið að borgarstjóra, ef þau ná að standa öðrum framar. Jöfnuður er að gera alla að borgarstjóra. Að því virðist keppt núna.


Verð og verðmæti

Markaðir samtímans ganga út frá því að verð sé sama og verðmæti. Annars væri fólk að greiða vitlaust verð fyrir það sem það vill fá.

Kenningar eru jafnan uppi um að markaðirnir geymi fullkomnar upplýsingar og rangt verð sé ekki til. Þetta er ekki rétt. Það geymir enginn fullkomnar upplýsingar um neinn hlut eða málefni, því allir eru bundnir af tíma, og læra að treysta á það sem kallað er innsæi.

Tvö dæmi sem ættu að heita augljós sýna að verðmæti og verð er ekki það sama. Hið fyrra er verðfall markaða um allan heim í janúar 2008. Verð hluta í öllum heiminum féll um 5.000 milljarða dollara ($5 trn), eða um þrítugasta hluta (3,3%) þess sem talinn er veraldarauðurinn. Á sama tíma gekk þó ekki neitt ógurlega illa í heiminum. Þar var hagvöxtur, engar auðlindir þurrkuðust óvænt upp og engar borgir fórust. Það kom ekkert geimskrímsli sem át hluta af Jörðinni. Verðið lækkaði vegna þess að traust manna á fjármálastofnunum þvarr við láns- og lausafjárvanda. Þetta er sami heimurinn, örlitlu ríkari en samt metinn aðeins lægri í verði.

Annað dæmi er af fólki sem keypti sér fasteign, íbúð í Reykjavík, rétt fyrir aldamótin. Árið 2008 er eign þeirra metin þrefalt hærra í fasteignamati og að markaðsverði en þegar þau keyptu hana. Þau hafa ekkert gert fyrir eignina. Það er kominn tími á að mála og gera við annað að utanverðu, það þarf að pússa upp  og lakka parketið, mála eitt og annað innandyra og fólkið langar að endurnýja í eldhúsi og á baði. Verðið er orðið þrefalt hærra en íbúðin er sama fasteignin. Fasteignagjöld eru hærri, viðgerðir kosta meira og vaxtabæturnar horfnar. Verðið fylgir ekki verðmæti.

Fólk þarf því miður að taka tölum eins og verðmæti á mörkuðum með fyrirvara og ekki að trúa því að allar upplýsingar séu alltaf til staðar. Ísland er með viðskiptahalla við önnur lönd, er í mínus. Nokkur stór og smá lönd eru með viðskiptaágóða (jákvæðan viðskiptajöfnuð), eru í plús við önnur lönd. Þau sem hafa lært grunnskólastærðfræði kunna að líta svo á að samanlagður viðskiptahalli milli landa heimsins hljóti að vera 0, plúsar og mínusar jafni hvern annan út. Því miður hefur komið í ljós að heimurinn er með mikinn viðskiptahalla. Tvennt kemur til greina; Viðskipti við aðrar plánetur hafa ekki reynst okkur hagfelldar eða að þessi halli er ekki að sýna það sem hann á að sýna.

Markaðirnir eru ekki slæmir, þeir hafa reynst illskásta leiðin til að miðla gæðum. Hins vegar þarf ekki að upphefja þá og láta eins og þeir séu alviturt tæki.


mbl.is Nærri 40 milljarða hagnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálaskóli borgarstjórnar

Reykvíkingar greiða nú fyrir dýrasta stjórnmálaskóla Íslandssögunnar, þar sem borgarfulltrúar reyna fyrir sér á ýmsa vegu.

Þar sem ég er einn af þeim sem greiði fyrir þetta nám, þá vil ég nota tækifærið og draga ályktanir af atburðum undanfarinnar viku.

  1. Ef traust er undirstaða velfarnaðar í stjórnmálum, þá er mikil vinna framundan hjá öllum borgarfulltrúum, nema þeir ætli ekki að bjóða sig fram að nýju eftir tvö ár.
  2. Sá borgarfulltrúi sem stendur með meira traust eftir vikuna en fyrir hana er Dagur B. Eggertsson, hvað sem síðar verður. 
  3. Mótmælin á pöllum ráðhússins á fimmtudag hafa aukið veg Ólafs F. og Sjálfstæðismanna en ekki minnkað hann.
  4. Stjórnmálaskólanum er ekki lokið og hann á eftir að kosta meira. 
Góðar stundir.
mbl.is Ólafur sagði F-lista frá samtölum við sjálfstæðismenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vinna forsetakosningar

Í nóvember kjósa Bandaríkjamenn um forseta, neðri deild þings, um þriðjung öldungadeildarþingmanna auk ríkiskosninga og kosninga um smærri atriði.

Það er því ekki skrýtið þó fólk leggi áherslu á forkosningar, sem formlega eru um forsetaframbjóðanda. Í raun getur farsæll frambjóðandi kallað fram góða kosningu til þings. Þá er talað um að þingmenn komist inn á jakkalöfum forsetans.

Aðeins um helmingur þeirra sem hafa rétt til að kjósa, gera það. Fólk þarf að skrá sig til að komast á kjörskrá. Þar sem oft er jafnt á milli repúblikana og demókrata er fólki í mun að ná til þeirra sem ekki myndu annars skrá sig, sérstaklega ungs fólks.

Eftir kosningarnar árið 2000, þegar þjóðin var skipuð í nærri jafnstórar fylkingar, varð þetta augljósara en áður en er ekki neitt nýtt í sögunni. Oft munar ekki nema um 10.000 atkvæðum til að vinna heil ríki og þar með allan kjörmannafjölda þeirra.

Repúblikanar hafa nú um þrjátíu ára skeið reynt að ná til tveggja stórra hópa til að tryggja sér sigur. Það eru íhaldsfólk í samfélagsmálum (social conservatives) sem berjast á móti fóstureyðingum og með vopnaburði almennings, svo nefnd séu dæmi, og frjálslyndir í markaðsmálum, sem vilja sem minnst afskipti ríkisins af viðskiptalífinu. Þessir hópar fylktu sér að baki Nixon, kusu Reagan og Bush-feðga. Hlutverk Karls Rove var ekki síst að tryggja fylgi þessara hópa. Þegar demókratar sóttu inn á miðjuna sóttu repúblikanar enn lengra til hægri. 

Demókratar höfðuðu til þeirra sem minna mega sín og reyndu að ná inn fylgi svartra þegar þeir tóku í auknum mæli þátt í kosningum á sjöunda áratugnum. Þeir reyndu líka að ná fylgi spænskumælandi fólks þegar sá hópur vann sér þegnrétt og stækkaði. Vel stætt fólk úr báðum þessum hópum hefur reynst kjósa repúblikana.

Engu að síður reyna báðir flokkar sífellt að sækja inn á miðjuna, sækja nýtt fylgi ungs fólks, og bæta við kjósendum sem ekki kæmu annars á kjörstað. Þess vegna skiptir kjörþokki miklu. Nú, þegar átta dagar eru til ofurþriðjudags eða sprengidagsins 5. febrúar, veðja margir á þann frambjóðanda sem er líklegastur til þessara verka.

Hjá repúblikönum á McCain betra tækifæri á þessu en Rudy Giuliani, sem nú kemur af krafti inn í baráttuna. McCain er enn í þeirri stöðu að safna fé til baráttunnar en Giuliani hefur digra sjóði. Romney er einnig vel settur með fé,en Huckabee síður. Allir fjórir eru enn í spilinu. Meðan umræðan á Íslandi virðist stundum gera ráð fyrir að frambjóðendur demókrata hljóti að vinna forsetakosningarnar, má minna á að undanfarin 40 ár hafa demókratar átt tvo forseta en repúblikanar fjóra, demókratar ríkt í 12 ár en repúblikanar í 28.

Hjá demókrötum eru línur skýrari en alls ekki ljóst hvort Clinton eða Obama eiga sprengikraftinn á sprengidaginn. Bæði sækja þau fylgi til hópa utan kjarnafylgis. Obama höfðar til fólks úr mörgum hópum þjóðfélagsins en Clinton meira til kjarnafylgis demókrata og til kvenna. Hún keppir nú að því að tryggja sér einnig atkvæði svartra í New York. Líklega á hún sterkt fylgi þar, bæði í Harlem þar sem skrifstofa hennar er, sem og annars staðar í ríkinu.

Aðrir stórir slagir á sprengidag eru í Kaliforníu, Illinois, New Jersey, Massachussets og 19 öðrum ríkjum. Í nokkrum þeirra kjósa bara demókratar og í einu þeirra bara repúblíkanar, en í 19 ríkjum kjósa báðir flokkar. Á öskudag verður ljóst hvernig um 40% kjörmanna dreifast.


mbl.is Obama sigraði í Suður-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir láta þjóðfélagið ganga?

Nú er ljóst að fjármálastofnanir hafa lítið vitað hvað ætti að greiða fyrir hlut í öðrum fjármálastofnunum í október síðastliðnum. Aðra ályktun er varla hægt að draga þegar markaðsverðið er orðið 30-50% lægra en það var þá og óralangt frá matsverði greiningardeildanna á sama tíma.

Stjórnmálamenn í Reykjavík keppast við að segja manni í orði og verkum að þau hafi lítið vitað hvað þau voru að gera í október.

Um leið gekk þjóðfélagið, hagur þess óx og það dafnaði. Það verður að álykta að þessir hópar sem hafa verið áberandi í umræðunni og skammtað sér drjúgar summur fyrir gott gengi hafi í raun ekki bætt haginn neitt heldur einungis flotið á góðu gengi þjóðfélagsins.

Hverjir ætli hafi haldið við þessu góða gengi? Ætli það geti verið almennir launþegar? Ætli það sé fólk í almennum þjónustu- og framleiðslustörfum?

Undanfarin 12 ár hafa verið hagfelld. Á þessum tíma hefur styrkur lífeyrissjóðanna orðið að æ meiri undirstöðu góðs fjárhags samfélagsins. Hverjir greiða til þessara sjóða? Eru það ekki almennir launþegar?

Næstu mánuði verður reynt að tala niður kröfur launafólks með þeim ummælum að ekkert svigrúm sé til launahækkana. Það er rétt að hafa í huga hverjir hafa byggt upp þetta land, ekki bara hverjir gátu reiknað sér sjálfum eða kollegum launahækkanir.


mbl.is Hamingju leitað á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örugglega ekkert með Ólaf F. að gera?

Mér sýnist að nær alger fylgni sé milli falls úrvalsvísitölu 9. október þar til á miðvikudag 23. janúar, og fjölda daga Tjarnarkvartettsins í meirihluta borgarstjórnar.

Svo er bara að sjá hvort Ólafi F. tekst að snúa þróuninni við. 

Mig langaði bara að minnast á þetta af því að það er föstudagur, samsæriskenningasmíð í nokkrum blóma og kenningin varla galnari en aðrar um sviptingar í borgarpólitíkinni, eða hvað?


mbl.is Næstmesta hækkun hlutabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ómar orðinn áhrifamaður?

Ég sé ekki betur en að fólkið í efstu sætum F-listans til borgarstjórnar fylgi núna Íslandshreyfingunni. Ólafur skráði sig að sögn í hreyfinguna, Margét Sverrisdóttir og Ásta Þorleifsdóttir hafa báðar staðið þar í fylkingarbrjósti.

Borgarstjórinn í Reykjavík á þar með sinn stjórnmálaleiðtoga, sem er Ómar Ragnarsson. Ólafur hlustar að minnsta kosti á orð Ómars, sem er meira en hægt er að segja um flesta Íslendinga í dag.

Segið svo að bloggið gagnist engum! 


mbl.is Ólafur tekur við lyklum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjan, pólitískt vefrit

Björn Ingi hefur haldið til á vefnum á Eyjunni, vefriti sem Pétur Gunnarsson og fleiri halda úti með mörgum góðum pennum.

Þar ber núna hátt yfirlýsing Binga en ekki síður er forvitnilegt að lesa útleggingar samherja hans á Eyjunni.

Pistill Össurar Skarphéðinssonar er áhugaverður, enda hafði hann áður boðið Binga að ganga í Samfylkingu og bað hann taka sem flesta með sér. Honum virðist ekki ætla að verða að þeirri ósk sinni.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

35 ár frá gosbyrjun í Eyjum

Þegar ég var vakinn þennan morgun, 23. janúar 1973, snemma eins og flestir landsmenn, neitaði ég að trúa systur minni sem sagði að það væri byrjað að gjósa á Heimaey. Ef þú trúir því ekki, hlustaðu bara á útvarpið, sagði hún. Það var nóg til að sannfæra mig. Klukkan ekki orðin sex og útvarpið í gangi, það hlutu að vera stórtíðindi sem höfðu gerst.

Þegar er horft til baka sér maður hvað hefur breyst í viðbúnaði við gosi eins og þessu. Þar stendur upp úr að jarðskjálftamælakerfi segja okkur miklu meira en þeir fáu mælar sem sýndu hreyfingu 22. janúar 1973. Þá voru menn ekki vissir hvort hreyfingin væri við Veiðivötn eða í Vestmannaeyjum.

Mælingakerfið byrjaði að þéttast með sænska SIL-kerfinu sem náði yfir Suðurlandsundirlendið og Vestmannaeyjar á tíunda áratugnum. Síðar bættu Veðurstofan, Orkustofnun og aðrir aðilar við mælum, þannig að fréttastofa RÚV gat sagt frá því 26. febrúar 2000 að Hekla myndi byrja að gjósa innan hálftíma.

Heppnin var með Eyjamönnum þegar kom að því að bjarga mannslífum. Daginn áður var bræla en það hafði lægt með kvöldinu, þannig að flotinn lá inni og hægt var að flytja 5000 manns á örfáum klukkustundum. Bátarnir sigldu í slæmum sjó til Þorlákshafnar og undrafljótt gekk að skipa upp fólki þar, þannig að skipstjórar rétt renndu upp að og héldu við, og héldu frá um leið og síðasti farþegi var farinn frá borði. Þá tók við sigling aftur til Eyja og lítil hvíld hjá flestum þeirra. Nokkrir farþegar gátu komist með flugvélum í land en gosrásin var stutt frá enda annarrar flugbrautarinnar.

Svona heppni verður seint fullþökkuð en það er ekki hægt að treysta á að veðurguðirnir verði alltaf hagstæðir þegar tekur upp á því að gjósa, þannig að gott viðvörunarkerfi getur bjargað hundruðum mannslífa. Árið 1973 hafði síðast gosið í Heimaey um 5000 árum fyrr. Síðast gaus nærri Reykjavík fyrir um 1000 árum. Hér er ekki verið að spá um að nein slík tíðindi séu að gerast við Grindavík, en sunnanverður Reykjanesskaginn er virkt eldfjallasvæði.


mbl.is Jörð skelfur við Grindavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband