Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.2.2008 | 21:44
FBR, fullorðin börn á Range Rover
Ein tegund fólks mun fara illa út úr samdrætti ef hann skellur á. Það er sú tegundin sem kom sér vel fyrir á raðgreiðslum.
Einn hluti raðgreiðslufólks er tekjuhár og samfélagið skuldar þeim að heilsa þeim á götu. Það sem stoppar almenning í að sýna þeim virðingu er að þau eru blanda af sæmilega gefnu fólki í mörgu og algerum vitleysingum í fjármálum.
Með yfirdráttinn stilltan á yfir milljón og fullnýttan, með raðgreiðslur á svipuðum nótum í hverjum mánuði, með skuldir hér og skuldir þar, er þetta fólk ómetanlegt fyrir hluthafa bankanna. Þetta eru fullorðin börn á Range Rover, FBR.
Þau borga stóran hluta af 70 milljörðum sem Íslendingar greiða fyrir yfirdrátt árlega og greiðslukortafyrirtækin væru verr sett án þeirra.
18.2.2008 | 00:11
Starfsánægja á landsbyggðinni
Eitt af því sem skiptir miklu fyrir landið utan Reykjavíkur er að fá fleiri opinber þjónustustörf, hvort sem það er fyrir hámenntaða eða fólk án langrar skólagöngu.
Eitt verkefni sem er rakið dæmi að verður unnið betur á landsbyggðinni er að fara yfir upptökur umferðamyndavéla í Reykjavík. Þetta er starf sem kostar mannskap því að það er mannlegt auga sem verður að sjá og skrá brotið.
Á landsbyggð er meiri möguleiki að fá fólk til að haldast í vinnu, sætta sig við einhæft starf á föstum launum og að sekta Reykvíkinga.
Ég held að þetta síðastnefnda þýði að ánægja við vinnu haldist mikil og þarna sé innbyggður hvati fyrir marga starfsmenn á landsbyggð að halda sig við efnið. Með fullri virðingu.
Umferð fer vaxandi í Reykjavík um leið og lögregla hefur minni tími til að standa við göturnar í alls kyns veðrum, enda upptekin við að fanga brotafólk af alvarlegra tagi. Myndavélum mun því fjölga og um leið því fólki sem fer yfir upptökurnar úr þeim.
17.2.2008 | 14:43
Varlegt fyrir verkafólk að treysta á gæskuna
Íslenskt verkafólk virðist eiga fáa málsvara á þingi. Af er sem áður var.
Stjórnmálafólk gengur alls ekki fram fyrir skjöldu og segist vera á móti verkafólki, það væri banabiti. Margir í Samfylkingu, Íslandshreyfingu og VG vinna þó leynt og ljóst á móti öllum nýjum störfum fyrir verkafólk.
Allt sem heitir uppbygging iðju, vinnustaðir eins og verksmiðjur eru óæskileg hjá þessu fólki. Í stað þess á að einbeita sér að ferðamennsku, skólahaldi, forritun og öðrum þekkilegri greinum. Hafnir, flugvellir og iðnaðarsvæði eru skítug, hávaðasöm og skulu burt.
Það er merkilegt fólkið sem tekur í orði undir að búa til störf í fjarvinnslu á landsbyggðinni, en finnur því allt til foráttu þegar eitthvað slíkt gert. Þá er forkastanlegt að búa til störf fyrir ófaglærða þar sem einungis faglærðir eiga að vinna.
Það má gæta sín á gæsku þessa fólks.
Grétar: Hóflega bjartsýnn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 14:27
Hvernig Ísland mun verjast kreppu
Það var við þær aðstæður sem samfélagið breyttist upp úr 1990. Það sem telst markvert er að enginn flokkur vill fara til ástands eins og það var fyrir þann tíma.
Nú spyr fólk hvort íslenskt þjóðfélag sé búið undir kreppu og vísar til þess hversu margt fjármálafólk er alið upp í eintómum uppgangi. Svarið er að landið er vel varið kreppu. Það hefur miklar innistæður í lífeyriskerfi sem er uppsöfnunarkerfi, ólíkt löndunum í kringum okkur. Það hefur góða afkomu ríkissjóðs og stærstu sveitarfélögin hafa lagað afkomu sína mikið á síðustu árum.
Fjármálafólkið er ekki föst stærð. Þau sem voru áberandi fyrir 5 árum voru það ekki fimm árum fyrr, og eru að detta út af sjónarsviðinu núna. Það hvílir ekki á herðum þeirra sem voru áberandi í fyrra að laga ástand næsta árs, heldur verða það aðrir.
Það sem er öruggt, er að þetta þýðir miklar breytingar á starfsumhverfi bankanna. Spurningin er núna hvort þeir flytja meiri hluta starfsemi sinnar úr landi, eða alfarið.
Persónuafsláttur hækkaður meira en gert var ráð fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2008 | 00:40
Geir að verða sýnilegri
Ég fjalla hérna fyrir neðan um nýlega könnun um fylgi flokkanna, sem hlýtur að teljast nokkur tíðindi, að Samfylking hafi mun meira fylgi en Sjálfstæðisflokkur. Það má finna margar skýringar. Sú sem ég stakk upp á þarna, að skrif Morgunblaðsins um Samfylkingu hafi fælt miðjufólk frá Sjálfstæðisflokki, er bara einn þáttur af mörgum.
Stór þáttur er hvað forysta Sjálfstæðisflokks er lítið sýnileg þegar vandi steðjar að eins og nú er í borgarstjórn. Fólk er ekki hrifið af því að heyra of mikið í stjórnmálaleiðtogum fjalla um allt og ekkert, en þegar mikilvæg mál eru í gangi, þá er mikilvægt að heyra afstöðu þeirra. Þar má telja atvinnumál á landsbyggðinni, umhverfismál, efnahagsmál, borgarstjórn Reykjavíkur og kjaraviðræður. Þá er ég bara að tala um þessa viku sem hefur verið að líða. Afstöðuleysi er ekki dyggð hjá stjórnmálamönnum og hógværð á ekki alltaf við, eins og fræg orð Churchills um Attlee sýna, a modest man, who has much to be modest about. Nú má sjá tákn um að Geir sé að verða sýnilegri.
Til happs fyrir Sjálfstæðisflokk má segja að hann hafi góðan tíma til að safna vopnum sínum, enda hefði Geir ekki haldið sig svona til hlés ef styttra hefði verið til næstu kosninga. Það er þá eins gott að það sé nægur tími til næstu þingkosninga. Tíðindin í borgarstjórnarflokknum þýða að baráttan um næstu kosningar í Reykjavík vorið 2010 er þegar hafin.
Tíðindi í Reykjavík þau tvöföldu áhrif á starf flokkanna um allt land, að þar búa tæp 40% þjóðarinnar, um helmingur hennar vinnur þar og hinn helmingurinn sækir þangað eitt eða annað á lífsleiðinni, að undanskildum fáeinum aðdáunarverðum sérvitringum. Þannig lætur fólk sig miklu skipta hvernig málin skipast þar af því að það skiptir miklu fyrir alla.
Ræddu stöðu á fjármálamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2008 | 17:41
Edinborgararnir koma með lausnir
Ég fékk að vinna með einum arkitekt sem var að senda inn tillögur í þessa keppni. Hann var líklega nokkuð langt frá því að komast í úrslit sá, enda hugmyndir hans nokkuð róttækar. Allt um það, þá var hressandi að fara yfir hugmyndir um þetta svæði og hvernig það getur bæði tengst best byggð sem fyrir er, og breytt allri borginni.
Í mínum huga var stórt atriði að við svæðið verða þrír stórir vinnustaðir með um 10.000 starfsmenn og hálfu fleiri stúdenta, ef áætlanir ganga eftir. Það eru HR í Hlíðarfæti, Landspítali og HÍ.
Skotarnir Graeme Massie architects komu, sáu og sigruðu eins og þeir gerðu fyrir norðan. Mér leist nú ekki vel á hugmyndina um síki þar, en flest annað þótti mér glæsilegt.
Grímur er þá orðinn áhrifamesti arkitekt á Íslandi síðan Guðjón Samúelsson leið, eða hvað?
Úrslit í keppni um skipulag Vatnsmýrar kynnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2008 | 17:26
Styrmir safnar fyrir Samfylkingu
Ég hef áður fjallað um þá miklu heift sem Morgunblaðið sýnir Samfylkingu og er nokkuð augljós. Það má núna heita jafn augljóst að það er aðallega einn höfundur leiðara og Staksteina sem það gerir. Hann snerist áður öndverður gegn öllu sem Ingibjörg Sólrún sagði og gerði, en er í seinni tíð farinn að beina spjótum sínum að Degi B. Eggertssyni. Fyrst og fremst er honum þó afar illa við flest það sem Samfylking segir og gerir.
Ég sýndi í pistlinum hvernig leiðir blaðsins og Samfylkingar liggja oft saman. Ég leiddi líkum að því að þarna héldi á penna sá Morgunblaðsmaður sem var tengdasonur tveggja krataleiðtoga, þeirra Finnboga Rúts og Huldu. Þess vegna var þetta á margan hátt lítt skiljanleg afstaða.
Þá hélt ég að þarna færi heift þeirra sem berjast á sama stað í litrófi stjórnmálanna. Samfylking og Sjálfstæðisflokkur eru löngu farin að berjast á miðjunni þar sem flest atkvæðin eru og líklega mun Framsóknarflokkur reyna að sækja á sömu mið. Það er alþekkt að persónuleg og málefnaleg heift verður þeim mun meiri sem fólk berst á litlu plássi.
Nú virðist sem þessi heiftarbarátta skili Sjálfstæðisflokki litlu en Samfylkingu þeim mun meira. Er ekki kominn tími til að láta af þessu, nema að tilgangurinn sé sá að auka veg Samfylkingar?
Margt Samfylkingarfólk sagðist hafa sagt upp áskrift að Mogga þegar gusur gengu frá Staksteinum. Kannski ættu þeir að athuga hvort það er ekki affarasælla fyrir fylkinguna að Moggi lifi góðu lífi.
Samfylkingin stærst allra flokka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2008 | 06:04
Það eru 38 vikur til kosninga
Forskot Obama hjá demókrötum og McCain hjá repúblikönum þýðir að eftir daginn í dag þarf stórtíðindi ef þeir eiga ekki að verða frambjóðendur flokkanna í nóvember.
Það mun eiga eftir að ganga á með forskoti annars þeirra yfir hinum þessar 38 vikur. Baráttan á eftir að harðna.
Hópar sem eru að nafni til ótengdir hvorum flokki, en eru í raun öfgahópar, eiga eftir að taka upp skítugasta hluta baráttunnar.
McCain þarf að vinna traust innan síns eigin flokks og báðir munu bítast um miðjufylgið. Þetta er breyting frá því að Bush átti fylgi hægri afla í repúblikanaflokki og þjóðin skiptist milli stóru flokkanna, eins og gerðist árið 2000.
Obama hefði betur en McCain | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2008 | 05:56
Raunverulegir banabitar landsbyggðar
Það fá flestir að heyra að kvótakerfið sé að ganga af byggðunum dauðum. Ef rétt væri, þá væri það alveg nóg ástæða til að slá af hvaða kerfi sem er.
Fólksflótti og atvinnumissir byggðanna er ekki það áfall fyrir mannlíf sem iðulega er brugðið upp. Fólk hefur flutt milli staða á Íslandi alla tíð og það er enginn harmleikur fólginn í því að fólk þurfi að flytja, þó oft sé látið öðruvísi.
Ísland er eitt land, ein eyja og hér býr fólk í öllu landinu með því að búa á einum stað. Landið er ekki stærra en svo.
Kvótakerfi er afleiðing minnkandi fiskafla, ekki ástæða hans. Önnur afleiðing er atvinnumissir á stöðum sem byggja allt sitt á sjávarafla. Þetta er ljóst flestu landsbyggðafólki. Það gerir annað af tvennu, flytur burt eða reynir að finna annað við að vera.
Skrumið gengur hins vegar ótrúlega lengi og alltaf er endað á að kenna kvótakerfi um allt illt. Spurningin er hvers vegna og hverjum á þessi barlómur að gagnast?
13.2.2008 | 05:48
Orkuveitan sem einkamál
Undir öllum þeim óróa sem hefur skekið Orkuveituna og dótturfyrirtæki hennar undanfarið ár, liggur dýpri vandi. Þessi vandi er ekki nýr í OR. Starfsmenn fyrirtækisins biðja nú um starfsfrið og vilja að stjórnmálamenn hætti að bítast um það.
Vandinn liggur í þeirri staðreynd að OR hefur viljað haga sér eins og einkafyrirtæki í rekstri en almannafyrirtæki í þjónustu og í almannaeigu. Þetta tvennt fer ekki saman.
OR er opinbert hlutafélag. Breyting á fyrirtæki í hlutafélag þýðir ekki að það fari að starfa eins og einkafyrirtæki. Hlutafélagaformið er einungis ákveðin leið til að einfalda eignarhald og viðskipti með hluta fyrirtækja, um leið og ábyrgð eigenda er takmörkuð, í raun við eignarhluta þeirra.
Hlutafélagaformið eitt og sér breytir því ekki að fyrirtæki eins og OR er í opinberri eigu (sveitarfélaga) og er í almannaþjónustu.
Vandinn er að forstjórar og margir starfsmenn fyrirtækisins eru ekki sáttir við þessa staðreynd og hafa hagað sér þannig undanfarin ár.
Orkuveitan á ekki að vera bitbein stjórnmálamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar