Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.10.2007 | 21:28
Að njóta ekki þjónustu sérsveitarinnar
Oft lætur fólk vita að því sárni að greiða fyrir alls kyns þjónustu hins opinbera með sköttum, en njóta hennar ekki. Þannig njóta þeir trúlausu ekki þjónustu kirkjunnar, antisportistar njóta ekki þess sem látið er renna til íþróttahreyfingarinnar og hestlausir fá varla notið reiðleiða.
Maður heyrir samt ekki kvartað undan öllum svona útlátum. Til dæmis hafa þeir sem eiga fyrir eigin útför varla gert athugasemdir við hvernig þeir eru greftraðir sem ekkert eiga. Það gæti haft með þá staðreynd að gera að þetta fólk er ekki lengur á lífi, en hver veit?
Mér finnst þó langt til seilst að kvarta undan því að hafa ekki sérsveit lögreglunnar í nágrenninu, eins og það sé einhver þjónusta sem maður óski sérstaklega eftir. Með fullri virðingu fyrir störfum þeirra þá þakka ég ekki þeim dögum sem þeir þurfa að sinna sérsveitarstörfum. Sem betur fer eru þeir við fremur friðsamleg, venjuleg lögreglustörf flesta daga ársins.
Víkingasveitin verði skipuð 52 lögreglumönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2007 | 00:59
Hvað skiptir máli í menntun?
Skiptir eignarform á skólum öllu máli eða skiptir það máli hvernig menntun er þar? Margir stjórnmálamenn tala eins og það skipti öllu máli hvaða rekstrarform er á skólunum.
Ég held að þessir sömu stjórnmálamenn hafi ekki eyru annarra en kennaranna og einungis sumra þeirra. Ég held að fólk sé löngu farið að sjá hversu miklu máli góð menntun skiptir og að það fari að gera kröfur til skólastjórnendanna um meira en það sér í dag. Þetta mun aukast núna þegar menntunarstig þjóðarinnar hækkar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 19:33
Snjógerð
Það er fátt sem lýsir betur breyttum tímum en að helsti vaxtarbroddur norðanlands sé snjóframleiðsla.
Framkvæmdastjóri Skíðasambandsins lýsir því með stolti að ekki einungis Akureyringar, heldur einnig Dalvíkingar og Sauðkrækingar framleiði núna snjó sem aldrei fyrr.
17.10.2007 | 18:46
Röskvukynslóðin við völd
Þegar ég sá fyrst til Dags B. Eggertssonar, var það í háskólapólitíkinni. Hann var í framlínusveit Röskvu með Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni, Guðmundi Steingrímssyni og Dagnýju Jónsdóttur.
Guðmundur hefur líklega verið þekktastur þeirra á þessum árum, bæði vegna uppruna og harmonikkuleiks. Dagný varð þeirra fyrst að fara á þing og er núna fyrst til að fara af þingi, hvað sem síðar verður.
15.10.2007 | 17:49
REI ehf.
Borgarfulltrúar til hægri og vinstri hafa talað eins og þeir sem völdin höfðu og völdin munu fá þessa viku sem var að líða. Þeir telja sig geta skákað til REI og málum í OR eins og samviska þeirra býður. Nú er OR aðeins undir óbeinni stjórn kjörinna borgarfulltrúa, hvað sem verður í framtíðinni. Áhrif borgarfulltrúa eru þar með aðeins óbein, eins og ljóslega hefur komið fram.
Aðalbitbeinið, REI, er síðan fyrirtæki á vegum opinbers hlutafélags og annarra fjárfesta. Það er gert til að leiða saman þekkingu sem hefur skapast í vinnslu á jarðvarma og annarri orkuvinnslu annars vegar, og hins vegar fjármagn. Það fjármagn hefur bæði komið úr einkageira og opinbera geiranum. Inntak fyrirtækisins er því þekkingin á orkuvinnslunni. Hún er augljóslega bundin í kolli verkfræðinganna og annarra starfsmanna, og þeim skjölum sem þeir hafa búið til.
Ef viðbrögð nýs borgarstjórnar-meirihluta verða að ætla að binda þetta fyrirtæki í opinberri eigu, hvað er það þá sem heldur aftur af þessum starfsmönnum að stofna eigið fyrirtæki utan um starfsemina? Þeir vita að fjármagn úr einkageiranum muni standa þeim til boða.
Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir sé ég ekki neina meinbugi á þessu. Mér sýnist líklegt að fólk vilji síður vera í hlutverki bitbeinsins, og fremur að vinna að þeim hlutum sem það hefur gert vel. Bitbeinin hljóta að verða leið á að vera milli tannanna á fólki og vilja fá vinnufrið. Ef fjárfestarnir bíða við dyrnar er fátt til að halda aftur af þeim. Iceland Energy Invest ehf. getur þess vegna verið orðið til þegar þetta er skrifað.
Það vekur svo upp spurninguna, að ef REI var aðeins stofnað til að virkja þekkingu og átti aðeins að starfa erlendis, hvað er það þá sem stöðvar að stofnað verði hlutafélag án opinberrar þátttöku um þann rekstur? Málinu hefur verið stillt svona upp, og fyrst ekki er orðið til ehf. utan um reksturinn, má álykta að fleira hangi á spýtunni, eitthvað sem almenningur hefur ekki verið upplýstur um, almenningur sem á þó að heita eigandi bæði OR og stórs hluta HS. Einhver hluti skýringarinnar gæti verið umræddur samningur OR og REI.
Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2007 | 10:44
Myndir þú kaupa notaðan bíl af þessu fólki?
Ég ætla ekki að væna neinn borgarfulltrúa Reykvíkinga um óheilindi, ósannsögli eða óværu af neinu tagi. Það eru nógir aðrir í þeim slag.
Ég er hins vegar ekki sannfærður, eftir framgöngu þeirra allra undanfarna viku, að þeir séu nægilega vel í stakk búnir að stjórna því mikla fyrirtæki sem Reykjavíkurborg er.
Var þetta fólk það besta sem stjórnmálaflokkarnir gátu boðið upp á? Líklega hefur færni þeirra til að fyrta sem fæsta í sínum flokki fleytt þessu fólki áfram í prófkjörum. Góð kosningavél hlýtur að vera gulls ígildi, og greinilega freistandi að verðlauna vélstjórana með einhverjum ráðum að kosningum loknum.
Stjórnun opinbers rekstrar er jafn mikilvæg stjórnun og í einkafyrirtækjum.
Nýr meirihluti nýtur stuðnings 56,5% borgarbúa samkvæmt könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2007 | 14:21
Fréttir komandi viku
Undanfarnar þrjár vikur hef ég boðið upp á sérstaka þjónustu, sem ég kalla Fréttir komandi viku.
- Fréttir komandi viku, skrifað 5. október
- Fréttir komandi viku, skrifað 28. september
- Fréttir komandi viku, skrifað 21. september
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ég spáði ekki falli borgarstjórnarmeirihluta í síðasta pistli. Sá pistill var enda í styttra lagi. Þessi atburður setur náttúrulega mark sitt á næstu daga, ekki síst á þriðjudaginn 16. október þegar nýr borgarstjóri tekur formlega við. Það fer að fenna yfir þetta eins og annað þegar frá líður. Fólk sér fljótlega að það þarf að reka borgina svipað og áður og lítið svigrúm til stórra breytinga þar. Sjálfstæðismenn fara í hlutverk sem þeir höfðu í 12 ár og kunna vel.
Tvennt hefur fallið í skuggann á meðan:
- Það fyrra er afgreiðsla fjárlaga með 16.000 milljóna króna aukafjárveitingum og 31.000 milljóna króna afgangi. Það kemur öðru fremur í ljós núna hvert er eðli stjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, vegna þess að í fjárlögum felst útfærsla á stefnumótun, framkvæmd á lögum. Einhverjir kunna að hafa aðrar hugmyndir en að láta milljarðana 31 renna til að greiða niður skuldir.
- Það seinna eru kjarasamningar um áramót. Það fer að hitna eitthvað í kolunum en enn má sjá Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Egilsson ræða í bróðerni fyrir framan Alþingishúsið.
Svo færist lif í lúkurnar.
- Í næstu viku fyllist síðan bærinn af sérstöku fólki. Andstuttir Ameríkanar sem kunna eitt atviksorð og eitt lýsingarorð í ensku (wow, great!) og aðrir gestir sækja heim íslenska og erlenda rokkhunda á Airwaves.
Góðar stundir.
Náttúruverndarmál rædd á Umhverfisþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2007 | 20:19
Eitt er að ná völdum og annað að halda þeim
Seint á síðustu öld átti Sjálfstæðisflokkurinn margt, en tvennt átti hann sem enginn annar átti; Hann átti borgina og hann átti gott með að vinna innbyrðis.
Þetta breyttist fyrst 1978, þegar Alþýðubandalag vann óvænt 5 fulltrúa í borgarstjórn og leiddi vinstri meirihluta til 1982. Sjálfstæðisfólk var bæði reitt og sárt, því borgin hafði verið tekin af þeim, þeirra réttmæta eign. Því miður voru 8 manns í vinstri-meirihlutanum sem allir vildu ráða. Niðurstaðan varð að í öllum málum var valin sú leið sem allir gátu sæst á, lægsti mögulegi samnefnari. Þetta var pólitík sem vakti enga aðdáun, enda féll þessi meirihluti strax.
Davíð tók við og yfirgaf skútuna 9 árum síðar. Í stað þess að láta fólk í borgarstjórnarflokknum kljást um hver ætti að verða eftirmaður, skipaði hann Markús Örn Antonsson sem eftirmann sinn. Það er góð regla að skipa ekki borgarstjóra í Reykjavík, heldur verður að kjósa hann. Þegar Markús Örn yfirgaf fleyið skömmu fyrir næstu kosningar fékk Árni Sigfússon loks að spreyta sig. Lýðum var ljóst að hann naut ekki stuðnings Davíðs, sem þá var formaður flokksins og forsætisráðherra.
Þá hafði flokkurinn bæði tapað borginni og hæfileikanum til að gera út um innbyrðis mál svo hægt færi. R-listi náði völdum og hélt þeim í 12 ár. Fyrst var kjörinn borgarstjóri, sem fór eftir 9 ár, skipaði eftirmann sem var svo látinn fara. Þá voru komnir brestir í samstarfið og flokkarnir misstu hreinan meirihluta.
Að lokinni þeirri eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins fékk flokkurinn aðeins 43% fylgi og 7 fulltrúa. Það er ljóst að samheldnin er enn ekki nægileg. Flokkurinn hefur þó vaknað til lífs eftir að hafa setið sár og í gærdag og virðist ætla að veita öfluga mótspyrnu. Það er ein forsenda þess að vinna næstu kosningar, önnur er að sannfæra fólk um að hlutir hafi í raun gengið betur í stuttri valdatíð Vilhjálms, sem er núna eini borgarstjórnartími flokksins síðan 1994, og þriðja er að ná upp gamalli samheldni.
Vinstriflokkar mega vara sig á því sem hefur gerst tvisvar áður, að meirihluti með marga oddvita hefur náð ekki meiru en lendingu í mikilvægum málum, pólitík sem dæmd er til að verða metin léttvæg í næstu kosningum.
Svandís: Valhöll getulaus í erfiðum málum" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2007 | 19:33
Kynslóðaskipti í stjórn borgarinnar
Þegar Davíð Oddsson tók við sem borgarstjóri að loknu fyrsta valdatímabili vinstriflokka í borginni 1982, var hann ekki gamall maður. Hann lauk störfum 9 árum síðar, gerðist forsætisráðherra og var það lengur samfellt en nokkur annar hefur verið, lauk þeim störfum og gerðist Seðlabankastjóri. Hann er varla enn orðinn gamall maður.
Þegar hann hafði setið eitt kjörtímabil sem borgarstjóri var blásið til kosninga. Þá brá svo við að margir listamenn skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við hann, listamenn sem taldir höfðu verið í einkaumráðum vinstri flokka þangað til. Nokkrir þeirra fengu tiltal fyrir tiltækið.
Það sem hafði gerst var að fyrsti forystumaður landsins af eftir-stríðsára-kynslóð hafði tekið við völdum og mótað annars konar stjórn en áður gerðist. Þetta er kynslóð sem kennd er við baby boom í Bandaríkjunum, fædd 1946-1964. Þau elstu eru því nýorðin sextug og þau yngstu að vera 45 ára bráðum.
Þegar Davíð fór úr Ráðhúsinu í Stjórnarráðið börðust þrír menn aðallega um að taka við af honum; Árni Sigfússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson. Vilhjálmur þótti nokkuð gamaldags á þessum árum, Júlíus reyndist ekki sterkur í slagnum og Árni virtist hafa yfirhöndina þar til Davíð skipaði Markús Örn Antonsson. Þegar hann fór frá og Árni tók við var fólki ljóst að Árni hefði ekki fullan stuðning flokksins. Um leið buðu vinstrimenn fram saman í fyrsta skipti og niðurstaðan varð 12 ára valdatími R-listans.
Þegar Vilhjálmur fyrir þrautseiglu varð oddviti Sjálfstæðismanna að Birni Bjarnasyni gengnum fór það því fram hjá mörgum að Vilhjálmur var enn af kynslóð sem hafði verið sagt bless við um tuttugu árum fyrr, og að það skipti máli. Það var kynslóð sem var sagt bless við vegna þess að Sjálfstæðisfólk vildi segja bless við þau gildi sem þá réðu. Þegar kynslóð Vilhjálms talaði um frelsi til athafna átti hún við að auðvelt væri að stofna fyrirtæki og að Sambandið gini ekki yfir öllu athafnalífi á stórum svæðum landsins. Þegar Sjálfstæðisfólk sem fæddist eftir 1950 talaði um athafnafrelsi átti það við afgreiðslutíma allan sólarhringinn, að hið opinbera væri ekki að búa til ný fyrirtæki, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, að skattar séu í raun lágir og þar fram eftir götunum.
Ekki síst var það þó stjórnunarstíll sem var um margt gamaldags hjá Vilhjálmi. Á stundum spurði maður sig hvort hann hefði einhverja ráðgjöf, eða hvort hann hlustaði á samherja sína. Hvað sem líður samheldni borgarstjórnarflokksins fyrir framan myndavélar að kvöldi fimmtudags var ljóst að átök höfðu orðið. Ef Vilhjálmur hefði eytt meiri tíma í samræður við samherja hefðu mál þróast hægar og öðruvísi.
Eins og yngri kynslóðir áttu margt sameiginlegt með ungum borgarstjóra á 9. áratugnum, er ekki ósennilegt að ungt fólk á miðjunni verði framtíðarfylgi Dags B. Eggertssonar, ef hann heldur rétt á spöðunum. Það hægrafólk sem hristir hausinn yfir þessu skyldi muna að Davíð tókst að ná í fylgi úr flestum flokkum.
Sviptingar í borgarstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.10.2007 | 17:10
Hver er hann, Dagur sá?
Hver er hann, dagur sá, er nú lítur okkur nær?
Hvar er hann, dagur sá, er nú, nú er okkur fjær?
- spurði Egill Ólafsson um það leyti sem Dagur, sonur Bergþóru og Eggerts leit nafna síns ljós. Hann tók móðurnafn til viðbótar við föðurnafn um það leyti sem hann var að brjóta sér leið í háskólapólitíkinni og er síðan nefndur Dagur B. Eggertsson.
Ég hef alltaf haft ótrú á fólki sem að öllu leyti hefur pólitískast í HÍ og farið beint þaðan í kerfisverk hjá sínum flokki eða á hans vegum. Það er komið að Degi að afsanna þessa ótrú fyrir mér og ég frýja honum ekki vits. Vilhjálmur Vilhjálmsson var maður margra góðra verka, en hann réð illa við stór mál.
Það sem helst vekur athygli núna er þó ekki Dagur, Svandís, Margrét eða Björn Ingi, heldur að Sjálfstæðisflokki tókst ekki að vera í meirihlutasamstarfi nema 17 mánuði eftir 12 ára setu R-lista.
Það tvennt verður ekki síður athyglivert að borgin verði í samstarfi félagshyggjuflokka og að forystumenn verða af annarri kynslóð en Vilhjálmur er.
Dagur er þegar farinn að sanna sig, því hann dregur Björn Inga upp úr flensunni. Það er greinilega ekki ónýtt að hafa lækni á stóli borgarstjóra.
Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar