Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.10.2007 | 07:10
Almennur lagarammi og reglurammi um allan opinberan rekstur
Fólk telur margt breytast við það eitt að breyta um rekstrarform. Allt í einu er talið að opinbert fyrirtæki þurfi ekki að sinna upplýsingaskyldu þegar það er gert að hlutafélagi, eða hlutsfélagi (opinber hlutafélög eða ohf. eru oftar en ekki með aðeins einn hlut).
Margt annað er greinilega talið breytast en mér er ekki ljóst hvernig breyting á rekstrarformi þýðir að allar reglur upphefjist, eða hverfi, eins og víða gerist.
Almennur reglurammi um opinberan rekstur er varla ofrausn þegar hið opinbera sinnir 40% alls rekstrar. Á undanförnum 20 árum hafa komið fram fleiri form á þessum rekstri en áður var, og verða til fleiri á næstu árum. Allt er þetta samt enn opinber rekstur og hlýtur að fylgja reglum sem fylgja því að vera í eigu almennings.
10.10.2007 | 00:01
Hvað kenna skólarnir?
Búa skólar nemendur undir starf á 21. öldinni? Nú, þegar kennarar krefjast launahækkana fyrir sitt mikilvæga starf er ástæða til að skoða framlag þeirra fyrir þessi laun.
Skólarnir virðast því miður vera að mörgu leyti að búa til fyrirmyndarfólk fyrir síðustu áratugi en kenna lítið af þeirri leikni sem er mikilvæg í dag og verður enn mikilvægari á morgun.
Ég hef kennt stundakennslu í KHÍ, HÍ og á Bifröst. Kennaranemar og kennarar í námsleyfi stóðu greinilega langt að baki öðrum háskólanemendum um notkun á rafrænum gagnasöfnum, leitartækjum og almennri tölvunotkun. Þeir voru afskaplega opnir og ræddu mikið um þessi mál en gerðu minna af því að nota tækin.
Ég hef séð á notkunartölum landsaðgangsins að svona er þetta ennþá. Nú er það þannig með alla leikni að fólk getur aðeins lært svo og svo mikið af sjálfu sér. Nám með góðri kennslu tekur alltaf fram öðru námi. Því miður lætur fólk oft eins og upplýsingaleikni sé eitthvað sem nemendur eigi bara að læra af sjálfum sér. Það er alveg eins hægt að senda fólk út á götu að læra.
9.10.2007 | 23:44
Á móti efnishyggjunni, en þurfa samt kauphækkun
Mikið er nú gott að sjá hvað margir geta lýst fyrirlitningu sinni á kaupréttarsamningum. Þetta er ein af þeim leiðum sem fólk notar til að halda starfsfólki ákveðinna verkefna við efnið, að gefa þeim hvata til að standa sig betur. Þetta hugtak er lokað mörgum sem halda að öll vinna sé rútína.
Rútínufólkið verður væntanlega meira áberandi þegar líður á haustið að krefjast hærri launa. Það er þegar búið að láta vita að það sé þungt hljóð í mörgum stéttum og engin ástæða til að búast við öðru en að kröfurnar muni hljóða upp á eins og 30% hækkun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.10.2007 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 00:14
Smáar þjóðir geta líka skipt máli
Margir láta svo um mælt að Íslendingar eigi ekki að beita sér á alþjóðavettvangi af því við séum svo smá. Það er rétt að við erum örþjóð, meira lík klani eða stórfjölskyldu heldur en þjóð. Ef við hins vegar tökum þennan pól í hæðina, þá sannar sú staðhæfing sig sjálf.
Smáar þjóðir geta skipt máli. Stærsta stríð 20. aldarinnar hófst 22. júní 1941 og breytti gangi heimssögunnar. Innrás Þjóðverja og bandamanna þeirra í Sovétríkin stafaði af oftrú Hitlers á mátt þýskra herja og vanmætti Rauða hersins. Þessi oftrú stafaði aftur af hrakförum sovéskra herdeilda í Finnlandi. Óbeint urðu Finnar til að magna þá trú Hitlers að hann gæti sigrað Sovétríkin fyrir árslok 1941. Annað kom á daginn.
Smáar þjóðir geta líka skipt máli í friðsamlegu starfi, ef þannig er til í heiminum. Starf Norðmanna hefur gert þessa 5 milljón manna þjóð þekkta fyrir ýmislegt sem Íslendingar vildu gjarnan geta líka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2007 | 22:31
Íslensk þjónusta á toppverði, börn að vinna
Á Íslandi greiðir fólk ekki bara hátt verð fyrir allar vörur, heldur einnig fyrir þjónustu. Sjálfur hef ég lítið á móti að greiða hátt verð fyrir fyrsta flokks þjónustu.
Í alltof mörgum verslunum færðu að greiða fyrsta flokks verð en fá fjórða flokks þjónustu. Eitthvað hlýtur þetta að segja í rekstri verslana. Það á að vera ánægjuleg upplifun fyrir fólk að fara að versla. Þegar fólk finnur ekki þessa upplifun fer það annað, sé verðið svipað. Til að finna ánægjulega upplifun fara Íslendingar út í lönd.
Undanfarið hefur verið rætt um það að aðrir en Íslendingar afgreiði í verslunum og bakaríum. Um leið og ég skil að þetta getur verið erfitt fyrir þá sem aðeins tala íslensku, þá verð ég feginn þegar ég sé þetta fólk. Það er fullorðið og kurteist, veitir iðulega langtum betri þjónustu en Íslendingar, og er himnaríki miðað við að fá barn til að afgreiða sig.
Ef verslunin gæti kennt fleirum en bara verslunarstjórum að umgangast viðskiptavini, gæti þetta breyst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 00:06
Íslensk bókamessa eða aðrir bókaviðburðir
Kristján B. Jónasson svarar grein minni úr Lesbók Morgunblaðsins á laugardag 5. október. Hann gefur ekki færi á andsvörum á sínu bloggi, sem er mér að meinalausu, þannig að ég tek upp þráðinn hér.
Hann bendir á að það sé ansi bratt að tala um bókamessur í Frankfurt og Gautaborg, enda séu þær stórfyrirtæki, þegar stungið er upp á íslenskri bókamessu. Hann telur að bókamarkaður á útmánuðum sé góður vettvangur sem megi útfæra til að kynna betur bækur og annað sem gefið er út á íslenskum markaði.
Það er athyglivert sem hann bendir á, að um leið og útgefnum bókum fækkar samkvæmt Íslenskri útgáfuskrá fjölgar þeim í Bókatíðindum. Það er greinilegt að vegur Bókatíðinda fer vaxandi og þau eru talin vettvangur til að koma þessu efni á framfæri fyrir jólin.
Það sem hann tekur ekki á er það sem greinin fjallar fyrst og fremst um. Það er sú staðreynd að stórir kaupendur fá ekki kynningu á bókum fyrir jólin, sem enn er aðalútgáfutíminn. Kynningar hafa verið fyrir fólk í útgáfubransanum. Með fullri virðingu fyrir því fólki er starfsfólk annarra útgáfa ekki stórir kaupendur að bókum.
Þar með vantar slíkan vettvang, að undanskildum Bókatíðindum. Útgefendur höfðu af einhverjum ástæðum gleymt þeim mikilvæga hópi sem er starfsfólk bókasafna þar til ég fór að ræða þessi mál við Kristján fyrir tveimur árum. Hann brást vel við.
Það kom í ljós að bókaverðir höfðu ýmislegt fram að færa þegar bókasafnafólki var boðið á ráðstefnu bókaútgefenda fyrr á þessu ári. Þá kynnti Ingibjörg Sverrisdóttir, sem nú er landsbókavörður, mörg þeirra verkefna sem ganga út á að skanna inn og gera leitarhæf tímarit og bækur gefnar út á Íslandi, sem nú má helst sjá á timarit.is. Ég heyrði að það kom fólki í útgáfum mikið á óvart hversu stór þessi verkefni eru.
Nú bendi ég á að hversu mikilvægur kaupendahópur bókasöfnin í landinu eru fyrir íslenska bókaútgáfu, og hef reyndar aðeins nokkrar stikkprufur úr Gegni að styðjast við. Síðan er ég ekki að biðja um neinn vettvang, aðeins að spá því að sá eða sú sem vilji ná forskoti á þessum markaði hljóti að fara að sinna þessum hópi og öðrum betur fyrir jólin. Hvort sá vettvangur muni vera kallaður bókamessa eða ekki er ekki aðalatriði í mínum huga.
Annars finnst mér ekkert nema metnaðarleysi að hafa ekki bókamessu á Íslandi. Eitt er að kalla sig bókaþjóðina og annað að standa undir því, greinilega. Er þetta kannski tveggja eða þriggja bóka þjóð?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 00:45
Deildi lögum með öðrum og þarf að greiða 13,8 milljónir
Jammie Thomas hefur verið dæmd til að greiða 222.000 dollara, eða sem samsvarar 13,8 milljónum króna fyrir að deila 24 lögum með öðrum með skráadeiliforriti (P2P).
Tónlistarútgefendur höfðuðu mál á hendur henni í Minnesota eftir að hún hafði neitað sakargiftum og ákveðið að verja mál sitt fyrir dómstólum. International Federation of the Phonographic Industries höfðar þetta mál og hefur kært 26.000 aðra fyrir svipaðar sakir. Flestir kjósa að ná sátt með því að greiða skaðabætur upp á nokkur þúsund dollara.
IFPI sakaði Thomas um að hafa deilt yfir 1700 lögum á Kazaa undir notendanafninu tereastarr@KaZaA. Thomas sér núna fram á að um fjórðungur tekna hennar fari í að greiða þennan sektardóm það sem eftir lifir af ævi hennar. Sjá frétt BBC um málið.
Það má segja að einu lögin sem megi örugglega setja í deilimöppuna séu þau sem fólk hefur búið til sjálft eða veit fyrir víst að séu ekki í höfundarétti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2007 | 00:01
Fréttir komandi viku
Ég hef undanfarna tvo föstudaga komið með sérstaka þjónustu, sem ég hef kallað fréttir komandi viku.
Þetta hefur reynt mjög á hæfileika mína sem upplýsingafræðingur og útheimt gífurlega rannsóknarvinnu, þannig að ég bjóst við að fá einhver viðbrögð við svo einstakri þjónustu.
Þar sem viðbrögðin voru engin ætla ég að hvíla rannsóknarvinnuna sem liggur að baki svona spám.
Ég get þó sagt ykkur að Íslendingar hvíla sig á fréttum af illdeilum innan stjórnmálaflokka og flykkjast á lottósölustaði á laugardag.
2.10.2007 | 22:50
Flokkar í sjálfseyðingu
Það er alltaf leitt að sjá fólk eyðileggja sjálft sig og það sem í kringum það er, hvort sem það er eitt og sér eða í félagi við aðra.
Nú hefur Framsóknarflokkurinn rifjað upp þá gömlu kenningu, að það sem gert er í landinu, sé betra ef það er ekki gert suður með sjó. Síðan þessi kenning var mótuð í Þingeyjarsýslum seint á 19. öld hefur landslýðurinn flutt suður með sjó.
Þegar Höskuldur Þórhallsson, nýr þingmaður Framsóknar, kynnir sig fyrir sama landslýð með því að mæla á móti framkvæmdum í Helguvík til að álver verði örugglega reist á Bakka, tekst honum að fæla frá alla þá sem höfðu hugsað sér að kjósa kannski flokkinn í nánustu framtíð. Keflvíkingar og nærsveitamenn hugsa flokknum líklega þegjandi þörfina, umhverfisverndarsinnar munu taka eftir ákafa þingmannsins að setja álverið á Bakka og fólk tekur eftir því að þingmaðurinn talar eins og stjórnvöld stjórni hraða framkvæmda hjá einkafyrirtækjum.
Skyldu Framsóknarmenn bíða til næstu kosninga áður en þeir muna að atkvæði fylgja fólki en ekki landi, og að fjórir af hverjum fimm Íslendingum búa suður með sjó? Eða hvað halda þeir að mörg þingsæti fylgi Hvanndölum? Það er ekki gott ef þeir láta það villa sér sýn að uppbótarþingmaður náðist inn í Norðausturkjördæmi. Fylgi þeirra dróst meira saman þar en í Norðvesturkjördæmi.
1.10.2007 | 21:45
Átök í peningaflóðinu
Með afrakstur ríkissjóðs upp á 140 milljarða ofan striks síðustu 2 ár, viðskiptahalla upp á fimmtu hverja krónu og millibankavexti í tveggja stafa tölu á sama tíma, hvað tekur nú við?
Með samninga lausa eftir þrjá mánuði mun umræðan snúast um hversu margar krónur hver á að fá, af meira kappi en nokkru sinni fyrr. Hluti samfélagsins mun þrýsta á sem mestar hækkanir (handa þeim með lægstu tekjurnar að sögn, en allir vita að hækkanir ganga upp skalann) og hluti mun reyna að tala kröfurnar niður.
Þetta mun endurspeglast í ríkisstjórninni. Hluti hennar mælir með aðhaldi í kröfum og hluti hennar mun tala um jöfnuð.
Allt þetta fer fram í mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað. Öll vandamál sem koma upp virðast vera lúxusvandamál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar