Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Litið um farinn bloggveg og fram á veg

Eins og ég segi frá í kynningu á mér sem bloggara, hafði ég aldrei ætlað að blogga. Ég sendi grein í Mogga (þetta rímar) til birtingar í blaðinu í maí, um hvalveiðar.

Blaðið áskildi sér rétt að birta greinar í blaðinu eða sem netgrein. Ég hugsaði lítið meira um það, en svo birtist greinin, sem netgrein.  Þá hefur Moggi þann hátt á að netgreinar birtast á bloggi. Þar sem ég var ekki með blogg, þá stofnaði Moggi það fyrir mig. Takk fyrir!

Þá fékk ég fljótlega einn bloggvin og hugsaði lítið meira um dæmið allt sumarið, enda hafði ég ekki hugsað mér að blogga. Þetta er hinn mesti tímaþjófur og það vissi ég.

Svo bættist við annar bloggvinur í september, tvöföldun í vinahóp. Þá ákvað ég að ég skyldi blogga eitthvað fram eftir hausti. Ég hef eitthvað fjallað um líðandi stund, skrifað um tvær bækur sem eru að koma út, en þó mest um stjórnmál og þá sérstaklega umhverfismál. Ég hef ekki hugsað mér að breyta því mikið þó lesendahópurinn sé ekki stór.

Svo er bara að blogga áfram, enda margt ósagt. 


Hægri umhverfisverndarfólk sem bara nær þessu ekki

David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins, hefur reynt að snúa ímynd flokksins og sýna að hann sjálfur væri umhverfisverndarsinnaður. Hann hefur sett upp vindmyllu á húsið sitt, hjólar um London og fer í upplýsingaleit um heiminn.

Það er ekki víst að fólk í Bretlandi kunni að meta þetta. Venjulegir kjósendur Íhaldsflokksins eru síður en svo hrifnir af formanni á reiðhjóli. Kjósendur úr öðrum flokkum benda á að ritari fylgi Cameron eftir á bíl á öllum hans hjólaferðum, með pappíra og lífverði.

Upplýsingaleit Camerons hefur ekki slegið alveg í gegn meðal umhverfisverndarsinna. Hann þarf náttúrulega að komast á milli staða eins og Bretlands og Grænlands á þotu. Cameron fer ferða sinna á einkaþotu í eigu Lord Ashcroft til Grænlands,  Súdan og annarra landa. William Hague hefur farið til Brasilíu, Falklandseyja og Íslands auk annarra staða með þessari sömu þotu, samanber grein Guardian.

Samtals hefur skuggaráðuneyti Camerons flogið 184.000 mílur með þotum Ashcroft og losað 1.289 tonn af koltvíildi, en til samanburðar losar flug í fullri farþegaþotu milli London og Kaupmannahafnar 0,1 tonn af koltvíildi, báðar leiðir.

Cameron fór til Grænlands til að segja að heimur færi hlýnandi. Fréttir af heimsókn hans voru skreyttar myndum af ísbjörnum að klifra upp á ísjaka á auðu hafi og gefið í skyn að ísinn væri allur að bráðna, þannig að ísbirnirnir væru að drukkna. Fyrir utan þá staðreynd að það eru enn eftir 6 milljónir ferkílómetra íss á Norðurpól þegar verst lætur, og 14 milljónir ferkílómetra þegar best lætur (sjá grein Veðurstofunnar) og að ísinn á Grænlandsjökli hefur ekki minnkað að flatarmáli svo nemi 1%, og að það eru fleiri ísbirnir á norðurslóðum en áður voru, þá stendur eftir spurningin:

Þurfti að fljúga með einkaþotu til Grænlands til að ræða málin? 

 


Ásakanir um spillingu geta slegið til baka

Margir virðast halda að réttarfar sé fólgið í því að ásaka fólk um glæpi og að sá sem er ásakaður skuli síðan sjá um að hreina mannorð sitt eða afsanna aðkomu að glæpnum.

Þetta er kallað ásökunarréttarfar eða sakbendingarregla og hefur margoft verið reynt í sögunni. Spænski rannsóknarrétturinn vann eftir þessari reglu. Óameríska nefndin var ekki dómstóll en vann eftir svipaðri reglu á 6. áratugnum í Bandaríkjunum.

Ókostir þessa réttarfars eru margir, en helsti ókosturinn er að alvarleiki máls ræðst af þeim hug sem ásakandi ber. Til að gera málin illvígari, því hér er oft um mjög persónuleg mál að ræða, koma fram þriðju aðilar sem ásaka fyrir hönd annarra. Eftir það virðist einungis hefndarhugur ásakanda setja málinu takmörk. Það er píslarsaga, þar sem allir sem að málinu koma bíða hnekki, eins þeir sem eru dregnir að málinu gegnt vilja sínum.

Af hverju gengur svona réttarfar ekki upp? Það er fyrst og fremst vegna þess að einstaklingurinn, þú og ég, njótum ákveðinna mannréttinda. Þessi réttindi voru fyrst hugsuð til að vernda einstaklinginn gegn ásælni stjórnvalda.

Nú á dögum er það ekki dómskerfið sem beitir ásökunarréttarfari eins og var á tímum galdrafárs. Nú eru það einstaklingar og fjölmiðlar sem hafa tekið upp þetta réttarfar. Í fjölmiðlum kemur í ljós stærsti ókostur rannsóknaréttarfarsins. Hann er sá að þó sá ásakaði sé sýknaður, fylgir ákæran honum, jafnvel ævilangt.

Rannsóknarréttarfarið og sakbendingarreglan hafa tekið á sig ýmsar myndir. Hjá Rannsóknarréttinum birtist það í ómengaðri mynd en síðar í mismiklu dulargervi. Á tímum óamerísku nefndarinnar gat það birst sem spurning í miðjum réttarhöldum: „Getur þú sagt að þú hafir ekki haft áhrif á nefndina?” Þarna er ákærði látinn afsanna staðhæfingu ákæranda. Einnig var hægt að spyrja svo vítt að ákærði veit ekki hvort hann hafi sagt satt: „Ert þú eða hefur þú einhvern tíma verið félagi í kommúnistaflokki eða skyldum samtökum?” Þegar spurt var hvað væru skyld samtök, var ekki um neinn tæmandi lista að ræða, heldur gátu það verið friðarsamtök, verkalýðssamtök eða hvaða önnur frjáls félagasamtök, bara ef nefndinni fannst þau geta verið kommúnísk.

Ásakanir um spillingu eru því miður allt of oft settar fram á þennan hátt, án nokkurra sannana, nema kannski sem regla sem höfundurinn hefur sett fram og sannar sig sjálf. Þannig segir fólk til dæmis að Framsóknarflokkurinn sé gerspilltur og þar af leiðandi sé það augljóst að þessi eða hinn Framsóknarmaðurinn hljóti að vera spilltur. Þetta er líkt og „reglan” sem margir virðast þekkja að allir sem stundi verslun séu þar með að stela af þeim sem þeir eiga viðskipti við. Þá er fólk fljótt að stimpla þá sem glæpamenn. 

Síðan er það nóg að einn standi upp og segi: „Nú er nóg komið, ég sætti mig ekki við að vera borinn sökum á opinberum vettvangi án þess að sannanir liggi fyrir, ég kæri þá sem þannig haga sér.”


Lagarammi um opinber hlutafélög

Getur verið að stjórnendur OR haldi að þau reki sjálfseignarstofnun? Mér virðist á viðbrögðum þeirra undanfarna daga að það sé engu líkara.

Dæmi um sjálfseignarstofnun er Háskólinn á Bifröst þar sem ég starfaði í tvö ár. Amma mín myndaði sjálfseignarstofnun um eyjaklasa í Breiðafirði sem síðan er í eigu fjölskyldunnar, þannig að ég þekki þetta félagaform nokkuð.

Það er annað hvort að fólkið telji OR sjálfseignastofnun eða að það hafi talið að þegar fyrirtækið var gert ohf. hafi afskiptum fulltrúa almennings lokið. Það sem hefur ekki breyst er að almenningur á ennþá fyrirtækið og óumdeilt er að fulltrúar almennings í þeim sveitarfélögum mynda stjórn þess.

Það virðist vera nauðsyn á að skerpa fyrir fólki hvert eignarhald á fyrirtækjum í almannaeigu er. Það verður best gert með lagaramma um opinber hlutafélög og öðrum um fyrirtæki í blandaðri eigu opinberra aðila og einkaaðila. Ég hef fyrr kallað eftir þannig lagaramma.

Í dag er sérstakur lagabálkur um einkahlutafélög og annar um hlutafélög. Svo var skotið inn hálfri málsgrein um opinber hlutafélög í hlutafélagalögin. Þó hlutafélagaformið henti vel til rekstrar opinberra fyrirtækja af ýmsu tagi er ekki þar með sagt að þau líkist fyrirtækjum á einkamarkaði við það eitt að breyta um rekstrarform, þó að margir láti þannig. 


Hugrakkir stjórnendur OR

Sem óbreyttur borgari í Reykjavík finnst mér forstjóri og lögfræðingar OR vera nokkuð hugrakkt fólk svo ekki sé sterkara til orða tekið.

Frávísunarkrafa verjenda OR kann vel að standast lögformlega. Um það dæmi ég ekki, þar sem ég þekki ekki málið í þeim smáatriðum sem þarf til að geta um það sagt. Úr því verður skorið á mánudaginn kemur.

Það sem kemur mér á óvart er að stjórnendur OR skuli leggja fram slíka kröfu gegn borgarstjórnarfulltrúa úr meirihlutanum. Ég veit ekki betur en að Svandís Svavarsdóttir sé á leið í stjórn OR. Ég ætla ekki að gera Ástráði Haraldssyni upp skoðanir, en geri ráð fyrir að vilji hans í stjórn OR núna liggi ekki órafjarri vilja Svandísar.

Það sama gildir um álit Júlíusar Vífils Ingvarssonar á ólögmæti fundar 3. október. Hann situr núna í stjórn OR ásamt Kjartani Magnússyni fyrir hönd minnihlutans og afstaða þeirra hefur verið býsna skýr, þar sem þeir hafa ekki fallist á skilning stjórnenda.

Hvernig ætla stjórnendur OR að vinna með stjórn fyrirtækisins næstu mánuði?


mbl.is Júlíus Vífill er ósammála skilgreiningu borgarlögmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

If I can make it there, I'll make it everywhere

Spár um hverjir muni kljást í forsetakjörinu í Bandaríkjunum að ári liðnu markast af tvennu.

Á demókratavæng virðist Clinton vera óstöðvandi. Hún kemur rétt fyrir í ræðustól, safnar meira fé en nokkur annar, hefur þrautreynda kosningavél og að því er virðist öll spil á hendi. Þá er einungis eftir spurningin, líkar kjósendum við hana?

Þá gerist það að fólk fer ósjálfrátt að leita að andstæðingi Clinton repúblikanamegin og staðnæmast við Guiliani. Mér virðist að fólk máti saman andstæðinga frá New York. Ég er ekki alveg viss um að þjóðin sé svo hrifin af því sem gerist í New York. Til dæmis er Guiliani mjög nálægt miðju, ólíkt síðustu forsetum repúblikana, Reagan og Bush-feðgum.

Ég fylgist náttúrulega aðeins með úr fjarlægð, en það gera líka flestir kjósendur að ári liðnu. Við fáum þetta allt saman gegnum sjónvarp og aðra miðla.

Eins og mál standa, virðist þó Clinton eiga meiri möguleika að fá tilnefningu sín megin en Guiliani á sínum væng. Það er ekki víst að demókratar græði á því. 


mbl.is Spá því að Clinton og Giuliani muni kljást í forsetakjörinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfið er skepna

Umhverfisvernd á Íslandi árið 2007 sýnir ekki beinlínis mikla tilfinningu fyrir náttúru. Þess í stað er rifist um hvaða iðnaður teljist góður og hver slæmur. Mörgum þykir furðulegt þegar umræða um umhverfisvernd snýst svo mikið um verndun á sjötugu iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ sem raskaði öllu sínu umhverfi á sínum tíma og litaði Varmá í öllum klæðalitum.

Þetta er engin fjarstæða. Margir hugsa fyrst og fremst um umhverfi sem náttúru. Umhverfi er  öllu víðtækara eins og sést þegar lesendur þessara orða segja við sjálfa sig „nánasta umhverfi” og líta svo í huganum yfir hvað það er. Það er ljóst að orðið náttúra ræður engan veginn við það, heldur hugsar fólk um alls kyns manngerða hluti og stofnanir, vinnustað, skóla, verslanir, þá staði sem það ver frístundum og svo kannski náttúru.

Nýleg skilgreining hljóðar þess vegna svona: „Umhverfi: Samheiti fyrir samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta.“ (Lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, 2. grein.) Það er ljóst að skilgreiningin er víðtæk. Margir munu vilja skilgreina umhverfi þrengra en þetta skýrir hvernig á því stendur að fjöldi fólks sér það sem helstu umhverfisvernd að halda hlífiskildi yfir gömlu iðnaðarhverfi.

Verndun Álafosshverfis er ekkert eindæmi. Um allt land er fólk sem dregur taum eldri iðnaðar á kostnað þess sem á að koma. Þannig heyrist lítið talað um mengun og umhverfisvá af fiskimjölsverksmiðjum, járnblendiverksmiðju og sementsverksmiðju, en álver teljast ill. Hér verður ekki dregið í efa að álver mengi. Það virðist skipta meira máli hver á og rekur iðjuverin en ekki hversu mikið þau mengi. Einnig skiptir máli hvort iðnaðurinn hafi haslað sér völl fyrir meira en mannsaldri, þannig að núlifandi fólk þekki ekki annað en að þessi mengun hafi verið til staðar. 


Röskuð eða óröskuð náttúra

Til er fólk sem talar um óraskaða náttúru á Íslandi og telur það umhverfisverndarstefnu að raska núverandi náttúru sem minnst. Það er þó greinilegt á öllum heimildum, bæði rituðum og náttúrulegum, að íslensk mannskepna hefur breytt ásýnd landsins svo um munar frá landnámi. Fyrirrennarar okkar náðu að breyta öllu landinu nema jöklunum. Það var ekki fyrr en með 20. öldinni sem mannskepnan náði að hafa áhrif á viðgang þeirra.

Nýlegar rannsóknir á minjum um skóga benda til að breytingin hafi verið mest fyrstu þrjár aldir búsetu en þær átta sem fylgdu voru hreint ekki áhrifalausar heldur.

Það er þess vegna ekki spurningin um hvort fólk vilji breyta landinu, heldur hvernig. Hugmyndir um að við getum bætt fyrir það sem gert hefur verið krefjast þess að fólk viti vel hvert ástandið var.

Hvað sem gert verður krefst þess að fólk viti vel hvaða afleiðingar það hafi að koma hlutum í það horf sem vilji stendur til. Það er rétt að hafa í huga þegar rætt er um óraskaða náttúru að þar fer oft minni þekking en efni standa til.


Án bíls?

Hjólreiðafólki lærist fljótt að á það er litið sem skemmtilega og skrýtna sérvitringa sem eigi þó hvorki að vera á gangstéttum né götum, heldur einhvers staðar þar á milli eða annars staðar. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa búið til stíga fyrir reiðhjól sem þræða lengstu leiðir í borgarlandinu. Hjólafólk á að deila þeim með gangandi og hlaupandi fólki. Það rennur upp fyrir þeim sem nota þessa stíga að þeir voru hugsaðir fyrir frístundahreyfingu en ekki sem samgönguleiðir. Þeir sem vilja nota hjólið til daglegra nota þurfa enn að deila gangstéttum og götum með vegfarendum þar. Það verður þó að taka fram að Reykjavík er framarlega í lagningu hjólreiðastíga, og að þetta verkefni er einnig á höndum samgönguyfirvalda í landinu.

Spurning Magnúsar Bergssonar á landsfundi VG fyrr á þessu ári um það hvernig fólk hefði komið á þann fund var ekki að ástæðulausu eins og svör fundargesta sýndu. Enginn notaði almenningssamgöngur, enginn kom gangandi á fundinn og enginn kom hjólandi nema Magnús og einn fundargestur sem gaf sig fram síðar. Skýringuna er meðal ananrs að finna meðal íslensks „útivistarfólks” sem nota sérstaklega stækkaða og breytta jeppa. Eigendur þannig jeppa segjast oft þurfa að eiga þá til að komast á fjöll þegar svo ber undir. Þegar nánar er að gáð eru eigendurnir í bæjum og borg meira en 330 daga á ári og nota þessi hálfvöxnu tröll til að komast þar á milli staða. Svokölluðum borgarjeppum (SUV, sports utility vehicles) fer nú fjölgandi og mun halda áfram meðan landsmenn hafa efni á þeim eða telja sig hafa efni á þeim. Fundargestir VG fara ekki endilega þar fremst í flokki en eru greinilega að minnsta kosti alveg jafn miklir einkabílanotendur og fólk í öðrum flokkum.

Umhverfisstefnan er meiri í orði en á borði. 


Umhverfisstefna Íslendinga

Íslendingar eru allir umhverfissinnar þegar við þá er rætt. Það er sérstök tegund umhverfisverndarstefnu miðað við það sem gengur og gerist í heiminum. Að mörgu leyti sýnir umræðan að Íslendingar eru að færast nær því sem jarðarbúar halda almennt, en nokkur dæmi sýna skýrt að þjóðin er sér á báti. Oft virðist það einmitt gert til að undirstrika meinta sérstöðu lands og þjóðar.  

Almennt er umhverfisvernd þjóðarinnar meiri í orði en á borði en það sést víðar um heiminn. Um það geta þeir vitnað sem hafa reynt að spara orku, þeir sem ekki aka um á bílum, þeir sem vilja vernda lífríki á sjó og landi, þeir sem hafa farið fram á að sá sem mengar borgi brúsann og á annan hátt unnið að umhverfisvernd á þann hátt sem víðast er talið henni til framdráttar. Þannig fólk gæti hafa notað reiðhjól síðustu tuttugu ár en ekki mengandi bíla. Þannig fólk er álitið skrýtnar skepnur á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband