Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
22.9.2007 | 00:21
Heimshlýnunin og hagsmunir Íslendinga
Það er greinilega lífi á Íslandi í hag að hér hlýni eitthvað. Þessi kuldi er ofmetinn. Þetta er engin auðlind.
Hvað með það þó eitthvað fjölgi geitungum á haustin og nýjar fuglategundir sjáist hér á vorin, grásleppan gangi fyrr á grunnsævið að fjölga sér og haftyrðillinn hrekist norður í Grímsey? Er þessu ekki til fórnandi að fá fleiri en þrjá hlýja daga á sumri? Jafnvel þó haftyrðillinn sjáist ekki einu sinni í Grímsey.
Eru ísbirnir einhverjir aufúsugestir? Fyrir þau sem ekki til þekkja, þá eru hafísár ekkert nema ömurleiki hvernig sem litið er á þau.
Sem betur fer virðist heimurinn vera að vinna með okkur þrátt fyrir allar bókanir. Þær hafa bætt við heita loftið ef eitthvað er. Evrópulönd losa sífellt meira kolefni þrátt fyrir fögur orð.
Við getum tekið þátt í dansinum og bókað meira um vilja okkar til að vinna gegn heimshlýnun. Það vita allir að við meinum ekkert með því, enda glapræði fyrir okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 12:53
Fréttir komandi viku
Fréttafólk fæst við það skemmtilega verkefni að reyna að skýra ruglingslegan heim og endursegja okkur hinum hvað hafi gerst.
Ég er ekki bundinn af þessu, enda bloggari en ekki fréttamaður. Þess vegna get ég sagt frá því sem á eftir að gerast. Það er nokkur föstudagskeimur af þessu háttalagi.
Fréttir verða þar sem fréttafólk er. Enginn fréttamaður, engin frétt. Því fleira fréttafólk, því meira er skrifað. Það má því bóka að fylgst verður með hverju fótspori Mahmoud Ahmadinejad, forseta Írans, sem heimsækir New York í næstu viku. Og ég vona svo sannarlega að íslenskir fréttalesarar hætti að gleypa andann á lofti í hvert skipti áður en þeir leggja í að bera nafn hans fram, þannig að skýrt heyrist. Ach-madín-edjad. Svo einfalt er það.
Annað nafn sem er oft illa borið fram verður í fréttum næstu viku. Portúgali nokkur er nefndur José Mourinho. Vangaveltur um atvinnu hans munu verða efni í fréttaumfjöllun, án þess að neinar fréttir af þeim berist. Það verður nóg að einhverjum íþróttafréttamanni detti til hugar að hann eigi vel heima á einum stað eða öðrum.
Af innlendum fréttum verður mikið sagt frá dópfundinum á Fáskrúðsfirði, en fréttir munu ekki berast þaðan, því þar eru engir fréttamenn. Hins vegar verður rætt mikið við alla sem vilja svara til um málið á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Kannski Austfirðingar gráti það ekki.
Í lok næstu viku færist nær mánudagurinn 1. október, þegar Alþingi kemur saman. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar munu fara að hljóma sem samstilltur hópur, en einstakir óbreyttir þingmenn þessara flokka fara að skipa sér í óánægjustellingar, án þess að vera alveg sammála stjórnarandstöðuflokkunum. Formaður fjárlaganefndar verður tíður gestur í fréttum.
Ég veit að þið vissuð um eitthvað af þessu, allavega flest ykkar. Ég vildi samt undirstrika að gúrkutíðin er búin.
Rúmlega sextíu kíló af amfetamíni og e-töflum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2007 | 13:00
Leno úr sjónvarpinu í tölvuna, fyrirboði þess sem koma skal?
Nú berast fréttir af því að Skjárinn ætli að hætta að sýna þætti Jay Leno í lok september, sjá frétt á Vísir.is.
Þá kynnir NBC að sami þáttur verði eitt af því fyrsta sem boðið verður upp á að hala niður ókeypis með auglýsingum, í viku frá því að þátturinn er sýndur, sjá frétt New York Times.
Þjónustan mun heita NBC Direct. Ekki er ljóst af frétt NYT hvort hún verður í boði utan Bandaríkjanna. Þarna verða einnig þættir eins og Heroes og bandaríska útgáfan af The Office.
NBC heimilar ókeypis niðurhal á vinsælu sjónvarpsefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.9.2007 | 17:38
Svandísi stillt upp við vegg að ósekju
Hér hefur fólk stillt upp málinu þannig að Svandís Svavarsdóttir hafi ákveðið að fórna hagsmunum geðsjúkra fyrir það að varðveita græn svæði í Laugardal, samanber færslur Heimis Fjeldsted og Önnu Kristinsdóttur.
Þetta væri satt og rétt ef þetta væri eina lóðin í bænum sem hæfði undir þessa starfsemi. Þá væri verið að ganga á rétt geðfatlaðra með því að standa gegn byggingu nýs sambýlis þarna.
Það er greinilega ekki rétt og hér er verið að skjóta ódýrum skotum að Svandísi. Málið er flóknara en svo að því verði gerð endanleg skil hérna í stuttri færslu en Svandís hefur á engan hátt ráðist að geðfötluðum með því að leggja til að úrræði verði fundin fyrir þá annars staðar.
Skipulagsráð samþykkti að byggja húsnæði fyrir geðfatlaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.9.2007 | 00:03
Hvenær rætast spár greiningardeildar Landsbanka?
Verðhækkunum á fasteignamarkaði lokið í bili, sagði greiningardeild Landsbanka 25. september 2006, sjá frétt Vefmogga á http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1225398.
Síðan hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæði um 11% fram í júlí á þessu ári, eða um 6% umfram verðbólgu eins og hún er núna.
Má ég virða spá þeirra núna í samræmi við fengna reynslu? Það er ljóst að viðleitni er hjá deildinni að tala niður fasteignaverð um leið og það er viðleitni hjá þjóðinni að hækka það.
Í þetta skiptið þorir greiningardeildin ekki að kveða jafn fast að orði en spáir þó viðsnúningi í verðþróun á fasteignamarkaði. Nánar tiltekið spáir deildin því að verðlag á fasteignamarkaði sígi eftir mitt næsta ár.
Það er greinilegt að greiningardeildin vanmat eftirspurnarþáttinn á síðasta ári. Getur verið að það sama hafi gerst núna?
Landsbankinn spáir viðsnúningi í verðþróun á fasteignamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2007 | 20:50
Skemmtilegur þessi miðbær, kemur alltaf jafnmikið á óvart
Seint á níunda áratugnum bjó ég á Amtmannsstíg. Eitt sinn, snemma dags, þegar ég átti leið að kaupa í matinn var hús á Lækjargötunni sem hindraði för. Þarna fór Lækjargata 4 sem endaði uppi á Árbæjarsafni.
Það kom flutningsmönnum á óvart að Bakarabrekkan skyldi setja hrygg á Lækjargötuna. Þess vegna hallaði Lækjargata 4 sér á hliðina og hvíldi öxlina við Austurstræti 22, á horni Lækjargötu og Austurstrætis, sem nú hefur verið brennt.
Svo kemur í ljós að götur eru kúptar í gamla bænum. Einmitt. Það kemur einnig í ljós að þær eru þröngar. Já, einmitt.
Nýjustu hugmyndir segja að rétt sé að flytja gömlu Lækjargötu 4 niður á Lækjartorg og lyfta því, bæta við einni hæð. Það mun líta út eins og minni útgáfa af MR. Hugmyndin lítur vel út, kallast á við Stjórnarráðið og Menntaskólann hinu megin við Lækjargötu.
Ætli það verði ekki fljótlegra að byggja nýtt timburhús frá grunni á Lækjartorgi en að flytja gömlu Lækjargötu 4 þangað til þess eins að breyta henni? Það var skipt um allt timbur og alla klæðningu í henni á Árbæjarsafni.
Kannski að það megi ekki. Þá er ekki hægt að halda í sjónhverfinguna. Í Austurstræti 20 var sagt að væri 200 ára gamalt timburhús. Það var þó ekki með nokkri upprunalegri spýtu og ekki nálægt neinni upprunalegri mynd. Eldstæðið í húsinu var þó líklega frá fyrstu árum þess.
Fógetahúsið við Aðalstræti er allt frá 20. öld, þó byggt í mynd húss sem stóð þar frá 18. öld. Það má samt ekki segja frá því.
Óraunhæft að áætla tvo tíma í flutning hússins" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2007 | 00:18
Þjóðerniskennd á grimmdarforsendum
Það er ekki slæmt að þykja vænt um föðurland sitt eða finna til stolts að tilheyra þjóð sinni. Ég er stoltur af því þegar landsmenn standa sig vel eða þegar Íslendingar fá hrós fyrir það sem þeir gera.
Við getum stundum staðið þéttar saman en stærri þjóðir, enda eins og hálfgert klan, ssynir og dætur.
Það er ekki fallegt þegar þjóðerniskenndin er á forsendum haturs til annarra eða grimmdar. Það er leitt en sumir Íslendingar hafa látið eins og það sé einkenni á Íslendingum að veiða hvali, verka hvali og éta hvali.
Það er ekki annað en skálkaskjól að telja grimmd einhverja þjóðargáfu. Íslendingar stæra sig af því að vera friðsöm þjóð, en það leggst fyrir lítið ef þeir ganga í skrokk á óvitandi dýrum. Það sýnir einungis heigulskap.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 16:56
Fíllinn í stofunni í bandarískum efnahagsmálum
Bandaríkin háðu lengstu átök sín í Víetnam árin 1963 til 1973. Þau byrjuðu að senda hermenn sem svokallaða ráðgjafa en fjöldi þeirra jókst ár frá ári. Um leið fjármögnuðu þau nær algerlega her Suður-Víetnams, sem hélt áfram baráttu til 30. apríl 1975.
Þessi stríðsrekstur kostaði yfir 50.000 bandarísk mannslíf og margfalda þá tölu fyrir Víetnama. Stríðskostnaðurinn var að auki óhemju hár og þýddi að árið 1973 var dollarinn á fallanda fæti. Það var þá sem Nixon ákvað að aftengja gullfót dollara.
Nú er annað stríð í gangi og kostar ekki lítið fé. Það þýðir að dollari stendur lágt og órói er á fjármálamörkuðum. Það má ekki tala um það stríð, að það kosti mannslíf og fé, þannig að skuldinni er skellt á þá sem best er að skella skuldinni á.
Þá verða fyrst fyrir þeir sem ekki eru reglulega gestir í bönkum Bandaríkjanna. Það styggir ekki neinn að segja að þeir beri ábyrgð á óróanum. Þetta eru kallaðir sub-prime lenders og hafa að jafnaði ekki haft inngrip í fjármálakerfið. Lán þeirra til húsnæðiskaupa nema umtalsverðri upphæð, þar til hún er skoðuð í hlutfalli við það sem fjármálakerfi Bandaríkjanna veltir. Þá má sjá að hún er eins og vatnsglas í Perlunni borið saman við vatnsmagnið í geymunum sem Perlan stendur á.
Hins vegar má ekki nefna fílinn í stofunni, sem er stríðið í Írak. Þar verja Bandaríkin 9 milljörðum dollara á mánuði, eða sem svarar 600 milljörðum íslenskra króna. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að Rumsfeld vildi ekki senda jafnmarga hermenn inn í Írak og hershöfðingjarnir höfðu krafist, því það hefði kostað þrefalt meira. Stríðið kostar um 0,6% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og þó það sé aðeins einn dollari af hverjum 160 segir það til sín þegar til lengdar lætur.
Eldri Bush fór þá leið þegar hann réðst á Írak að fá stuðning þjóða sem greiddu fyrir herkostnaðinn. Honum gekk svo vel í því að Bandaríkin þurftu ekki að greiða neinn kostnað þegar upp var staðið.
Dollari mun halda áfram að vera lágur og óróinn á fjármálamörkuðum mun halda áfram, fram eftir hausti.
Þau sem þekkja til táknmynda í bandarískum stjórnmálum munu skilja myndlíkinguna í fyrirsögninni.
Lækkun á Wall Street | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 00:17
Hvað kemur í staðinn fyrir engan þorsk?
Síðastliðna viku hafa margir keppst við að tala niður mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ég átti í fyrstu svolítið erfitt með að átta mig á því í hverju gagnrýnin fólst, en komst svo að því að hjá mörgum fólst hún í því að ríkisstjórnin hafði ekki búið til þorsk í staðinn fyrir þann sem hvarf.
Eða, að ríkisstjórnin átti víst að hjálpa þeim sem bjuggu við tímabundna skerðingu á þorskafla að þreyja þorrann og góuna. Þetta var semsagt þorskveiðifólk og því bar að hjálpa sem slíku.
Vinnuflokkur frá Rafmagnsveitum ríkisins kom í byrjun áttunda áratugarins til Raufarhafnar að vinna við spennistöð þar. Þeir þurftu að fá bíl með krana til að flytja spenninn. Það var ekki hægt að fá neinn bíl með krana í það verk. Þeir sem voru tiltækir þar sögðust bara flytja síld. Síldin var horfin og hefur ekki komið til baka. Það búa 40% færri á Raufarhöfn í dag en fyrir 10 árum.
Svipull er sjávarafli. Hvað ætli þeir telji sig græða sem skætast í því ef verið er að skapa fjölbreyttari störf fyrir ófaglært fólk?
Hér er ekki verið að draga fjöður yfir það, að þetta er hrikalegt áfall fyrir byggðir um allt land. Útgerðarmenn missa tekjur en hvert þorskkíló verður núna verðmætara og framlegð meiri um leið og skatti er aflétt af veiðileyfum. Sjómenn sjá að sama skapi fram á uppsagnir og færri úthaldsdaga, en þeir sem halda plássi fá líklega hærri hlut fyrir veitt tonn. Verra lítur það út fyrir fjölda ófaglærðra sem hafa ekki lengur vinnu í landi. Fjöldi útlendinga hefur sinnt þessum undirstöðuatvinnuvegi og má búast við að það fólk fái litla samúð Íslendinga, heldur flytji sig einfaldlega til þeirra staða þar sem nóg er vinnan.
Þegar upp er staðið er þetta hluti af þróuninni sem færir fólk frá jaðarbyggðum til staða þar sem vinnu verður að fá. Hér er ekki verið að fagna þeirri þróun, en hún er orðin yfir hundrað ára saga í þessu landi, nokkuð sem flestir myndu kalla staðreynd sem þurfi að viðurkenna og lifa eftir, ekki gegn. Byggðir eru ekki annað en sá staður sem fólk hefur valið sér til búsetu. Við erum eitt land og eitt samfélag. Það er ekki áfall að fólk skuli flytja sig á milli staða, heldur hluti af heilbrigðu þjóðlífi.
16.9.2007 | 21:36
Þegar ég var vitavörður
Ég var að vinna í steypuverksmiðju. Ég steypti, þurrkaði og hlóð á bretti 1000 sex tommu steypurörum þegar vel gekk. Það eru um 30 tonn á góðum degi. Þegar Þorbergur Þórsson stakk upp á að ég reyndi að komast í sumarvinnu á vita leist mér vel á. Hann hafði ráðið sig um veturinn á Galtarvita með Jóhanni Péturssyni.
Mér bauðst að vera um sumarið með Jóa á Hornbjargsvita. Þar hafði hann verið vitavörður í 25 ár þar til hann komst á eftirlaun 3 árum fyrr. Jói varð sjötugur þetta ár og hafði verið að taka að sér afleysingar á vitunum. Til aðstoðar fékk hann menn eins og okkur Þorberg.
Það er villandi að tala um vitavörslu á Hornbjargi á sumrin. Slökkt er á vitum fyrir norðan land 1. maí og kveikt aftur 15. ágúst, ef ég man rétt. Fyrir sunnan línu sem er held ég 65. breiddarbaugurinn, er hins vegar slökkt frá 15. maí til 1. ágúst. Það þurfti þess vegna ekki að sjá um ljósvitann. Ég fékk samt Jóa til að sýna mér handbrögðin við það, sem var auðfengið. Hins vegar var radíóviti þarna sem við máttum reyna að halda gangandi. Þegar þarna var komið sögu voru ekki margir sem notuðu radíóvita. Það voru þess vegna ekki keyptir í hann varahlutir en við höfðum nægan tíma að dútla í honum.
Aðalstarfið var við veðurathugun. Veðrið var tekið á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn. Strangt til tekið gæti einn sinnt því. Á svona afskekktum stað þýðir það að það verða að vera tveir á staðnum. Ef annar veikist snögglega eða eitthvað ber út af getur hinn fengið hjálp og sinnt því sem sinna þarf í nokkra daga. Þegar allt gengur eins og það á að vera skiptum við með okkur vöktum, þannig að annar tók athuganir frá 9 að kvöldi til 6 að morgni, en hinn frá 9 að morgni til 6 að kvöldi. Við skiptum vikulega að taka dag- og næturvakt.
Á þessum tíma árs er bjart allan sólarhringinn og gott að lifa. Ég kom um miðjan maí. Við áttum að vera rúma tvo mánuði. Allir vitaverðir fengu staðaruppbót á frí, mismikið eftir þvi hversu afskekktur staðurinn var. Á Hornbjargsvita var fríið tvöfalt, en minna á öðrum stöðum. Launin voru strípaður lægsti taxti hjá Dagsbrún. Við fengum húsnæði, hita og rafmagn, en greiddum mat og allt annað sjálfir. Maður eyddi náttúrulega ekki miklu á þessum stað. Mig minnir að ég hafi keypt ég kexpakka og kartöflupoka til viðbótar við matarskammtinn sem Jói sá um, en afraksturinn eftir tvo mánuði urðu tæpar 50.000 krónur þegar upp var staðið.
Við vorum að leysa af Ólaf Þ. Jónsson sem er betur þekktur sem Óli kommi. Sameignarsinninn hafði komið þarna um haustið og var að fara í sitt fyrsta frí. Hann sagðist ætla til Sovétríkjanna áður en þau liðuðust undir lok, en ég held að hann hafi aldrei séð fyrirheitna landið. Jói vildi ekki tala við hann, þannig að ég fór yfir allt með honum þennan klukkutíma sem varðskipsmenn stoppuðu. Hornbjargsviti er í raun rétt sunnan við bjargið, í Látravík. Lending þar er svo góð sem engin. Þarna bjó enginn fyrr en nokkrum árum áður en vitinn var byggður 1930. Til að hægt sé að koma fólki og farangri í land þarf að vera nokkuð gott í sjóinn. Óla var greinilega farið að lengja að komast í frí. Hann tilkynnti allt í einu minna en hálfs metra ölduhæð, þar sem hafði verið yfir tveggja metra hæð. Vind hafði ekki lægt þannig að Jóa grunaði að ekki væri allt með felldu. Þegar varðskipið sigldi fyrir Horn og inn á móts við víkina sáum við að Jói hafði haft rétt fyrir sér, það var enn tveggja metra alda. Eftir að hafa ráðfært sig við Jóa ákvað skipstjóri að við skyldum samt prófa að taka land. Stýrimaður og fimm aðrir skelltu sér og okkur í flotgalla, hífðu út Zodiakinn og héldu af stað. Jói leiðbeindi inn á víkina og um leið og við vorum komnir á gúmmíbátnum á mannhæðarhátt dýpi var manni skipað út fyrir að draga bátinn í land. Við vorum fjórir sem það gerðu og þannig heilsaði Látravík mér. Jói var í stafni og benti okkur, til vinstri við þetta sker, til hægri við hitt og svo beint upp að stiganum sem lá 30 metra niður bjargið í fjöruna. Sem betur fer var renna og spil sem hægt var að nota til að draga upp farangurinn með. Allur farangur hafði verið settur í stóra svarta ruslapoka, sem stýrimaður setti hnút á og setti í annan poka með sömu tilfærslu þannig að allt komst nú þurrt í land. Sameignarsinninn lét okkur fá til fósturs stálpaðan hvolp sem hann kallaði Lappa. Hann sagði varðskipsmönnum að Rússar hefðu komið með á kafbát þegar þeir komu að heimsækja hann. Af hverju heitir hundurinn þá ekki Rússi, spurði ég. Hundurinn var veturgamall og var það heimskasta grey sem ég hef séð. Hann var að upplifa sitt fyrsta vor og við Jói vorum að reyna að ala hann eitthvað upp en gekk lítið. Hann elti hvern einasta fugl sem flaug, sem þýddi að það var mikið að gera hjá honum, því fljótlega varð bjargið eins og stórborg. Refirnir stríddu honum og höfðu gaman að.
Ég hélt að vorið væri að koma um miðjan maí, en fann fljótt að það hlýnar ekkert mikið á þessum stað, að minnsta kosti ekki þetta sumar, því hafísinn var ekki langt undan. Maður fann kalsann af sjónum. Ég man að það gat munað nokkrum hitastigum á okkur og Æðey, sem er næsti veðurathugunarstaður.
Nokkrir vinir höfðu boðað komu sína um Jónsmessu og voru fyrstu gestir okkar Jóa það sumarið. Upp úr því fóru að koma ferðamannahópar, fyrst frá Ferðafélaginu í byrjun júlí og skömmu síðar kom Gísli Hjartar með hóp hestamanna. Þetta var líklega fyrsti reiðhópurinn um Hornstrandir, því fólk fór þarna um áður á bát eða gangandi. Landið var slæmt yfirferðar og ekki talið fært hestum milli víkna. Þorvaldur Thoroddsen talaði um hestlaust helvíti. Vestfirsku hestamennirnir voru með úrvalsgæðinga með sér og kom í ljós að þeir fóru þetta nokkuð auðveldlega. Þegar þeir fóru, fór Lappi með þeim. Við reyndum að ná honum til baka en hann vildi ekki. Mér skilst að hann hafi endað á bæ í Djúpinu.
Um miðjan júlí var von á Óla til baka. Þremur dögum fyrr sáum við varðskip á ferð norður Strandir sem var að þjónusta sjálfvirku vitana. Þeir voru með þyrlu, flugu með fulla gaskúta og annað sem þurfti, skiptu um og tóku tómu kútana með til baka. Meðan skipið sigldi var eitt gengi í þyrlunni og annað sem tók til efni fyrir þá á skipinu. Það varð úr að ég fór með þeim inn á Ísafjörð og Jói sagðist myndu taka að sér athuganirnar þar til Óli kæmi til baka. Mér skilst að þeir hafi ekki ræðst við þegar að því kom. Þessar leiðir sem ég hafði vanist að labba og ætla mér einn og tvo tima til að fara, eins og yfir í Hornvík, urðu allt í einu að fimm mínútna ferð með þyrlunni í skipið sem dólaði fyrir norðan Hælavík, þegar við lentum. Þá var um tveggja tíma stím með skipinu inn til Ísafjarðar. Daníel sá um að skutla mér á völlinn þar sem beið flugvél. Klukkutíma síðar var ég svo kominn heim á Amtmannsstíg. Ég var kominn úr kyrrðinni.
Horft um öxl | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar