Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Íslenska miðjustjórnin

Andstæðingar New Labour hafa lengi sagt að það stæði einungis fyrir einhverja óljósa hugmynd um að færa Verkamannaflokkinn nær miðju.

Gordon Brown telur að New Labour sé að beita sér fyrir öflugum efnahag með leiðum frjáls markaðar, og fá þannig aukið skattfé til að veita til að bæta félagslega aðstoð og opinbera heilbrigðiskerfið.

Eitt það fyrsta sem hann gerði sumarið 1997 var að veita Englandsbanka sjálfstæði sem Íhaldsflokkurinn hafði aldrei viljað gera. Síðan voru efnahagsumbætur Thatchers látnar standa. Það var greinilega hægri armur Verkamannaflokksins sem réð, og náði miðjufylginu sem Íhaldsflokkurinn hafði haft frá 1979 til 1992. 

Það er sú leið sem flest Evrópuríki hafa síðan fetað að meira eða minna leyti. Flest  bendir til að stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni fara sömu slóð og New Labour hefur gert í 10 ár. Einn ráðherra hefur unnið með Verkamannaflokknum í kosningum á þessum tíma.

Nú er einnig ljóst að þrátt fyrir að Samfylking sé stærri samstarfsflokkur en Framsóknarflokkurinn mun Sjálfstæðisflokkur ekki breyta afstöðu í neinum grundvallarmálum.  Allt tal um upptöku evru og þátttöku í Evrópusambandinu verður bara það, umtal.

Línur eru að skýrast með íslensku miðjustjórnina. Hún hefur stillt saman strengi og markað hvaða mál flokkarnir eru sammála um að vera ósammála um. 

 


Skotland

Ég bjó um aldamótin í Skotlandi um árs skeið, stundaði nám í Glasgow og var í starfsnámi í Edinborg. Skólinn heitir University of Strathclyde og er í miðri Glasgow og ég vann nokkrar vikur hjá skjalasafni Royal Bank of Scotland í Dundas House í Edinborg.

Síðan fylgist ég með Skotum, skoskri pólitík, skoskum fótbolta, skoskri tónlist og því sem almennan áhuga vekur. Ég fæ oft að heyra að þetta sé einhver sérviska, sem kom mér nokkuð á óvart að heyra, sérstaklega frá fólki sem hafði lært á Norðurlöndunum og fylgdist af áhuga með öllu sem gerðist í þeim löndum. Ég komst að því að margir halda að Skotland sé hálfgert hérað í Englandi, svona með smáskrýtilegheit eins og að kallar klæðist pilsum og þenji pípur.

Skotland er enginn útvöxtur af Englandi. Þar búa 5 milljónir manna í landi sem er ólíkt Englandi, þjóð sem er ólík Englendingum og svipar á margan hátt fremur til Norðurlanda. Stór hluti landsins er lítið byggður, bæði norðan og sunnan við miðbeltið milli Glasgow og Edinborgar. Fólkið sem býr á láglenda svæðinu sem nær frá Ayr í suðri, norður og austur til Aberdeen kallast Láglendingar (Lollanders) og hafa frá fornu fari talað tungu sem er skyld ensku. Robert Burns er höfuðskáld þessa fólks.

Utan þessa svæðis búa annars vegar um 100.000 manns sunnan þess, sem kallað er Borders, og um 200.000 manns norðan þess, í Hálöndum og eyjunum (the Highlands and the Islands). Þar talaði fólk gelískt mál fram á síðustu öld og lærði ensku sem annað tungumál. Það má því heyra ensku drottningar í Inverness, sem var setuliðsborg, en leifar af gamla tungutakinu í Glasgow og þar um kring, sem er oft erfitt að skilja.

Pilsaþytur kalla sem blása í pípu er ættaður úr Hálöndunum. Skoska mynstrið er gamall þáttur í vefnaði en hnésíðu pilsin sem nú tíðkast eru um 300 ára gömul að sniði og voru gerð upphaflega í þessari mynd af Englendingi.

Skotar eru í sjálfstæðishug núna, enda er Skoski þjóðernisflokkurinn við völd í heimastjórninni (SNP, Scottish National Party). SNP horfir mikið til Norðurlandanna um fyrirmyndir. Þar á bæ trúa menn því að náttúrulegar auðlindir Skotlands geri gott betur en að jafna lífskjör við Englendinga, en Skotar hafa alltaf verið fátækari en nágrannar þeirra. Það hefur ekki komið í veg fyrir góða menntun þjóðarinnar, sem hefur alið af sér fjölda uppfinningamanna og vísindamanna.

Hörð lífskjör hafa þýtt að Skotar hafa flutt burtu undanfarnar aldir og um 10 sinnum fleiri telja sig af skoskum stofni í Bandaríkjunum einum, heldur en búa í Skotlandi sjálfu. Síðan má finna Skota um allan heim. 


Kraftar sem munu þrýsta fasteignaverði upp á við

Greiningardeild Landsbanka hefur spáð viðsnúningi í verðþróun á fasteignamarkaði um mitt næsta ár. Ég hef leyft mér að efast að það gangi eftir eins og sjá má í færslu frá 19. september.

Ég benti á að deildin hefði spáð því í september 2006 að verð á fasteignamarkaði hætti að hækka. Það sem gerðist var að  fasteignaverðið hækkaði að nafnverði um 11% fram í júlí þetta ár, eða um 6% fram yfir verðbólgu. Ég taldi að deildin hefði vanmetið eftirspurnarþáttinn og sýnist hún hafa fallið í sömu gryfju núna.

Niðurskurður á þorskkvóta þýðir samdrátt í tekjum fyrir sjómenn og útgerðarmenn. Fyrir fiskverkafólk þýðir niðurskurðurinn töpuð störf. Þetta mun koma niður á fjölda fólks sem hefur flutt til landsins undanfarin ár til að vinna við fiskvinnslu og önnur störf sem landinn gegnir ekki.

Þetta fólk mun flytja þangað sem störfin eru, á höfuðborgarsvæði, og það mun gerast hratt. Það þýðir að spurn verður eftir ódýrasta húsnæðinu þar, sem hefur áhrif á spurn eftir dýrari fasteignum.

Ef litið er á landið allt sem eitt atvinnusvæði verður ljóst að það á eftir að greinast í þenslu- og samdráttarsvæði. Á höfuðborgarsvæði og í 100 km radíus frá Reykjavík, í nágrenni Reyðarfjarðar og jafnvel á Akureyri verður fólksfjölgun með tilheyrandi spurn eftir fasteignum.

Á þessum svæðum búa 90% þjóðarinnar og þess vegna verður að álykta að fasteignaverð muni hvorki lækka né standa í stað á Íslandi á næstu árum.

Afleiðingunum hef ég lýst í annarri færslu.


mbl.is Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir komandi viku

Einhver ykkar hafa kannski lesið fréttir komandi viku sem ég skrifaði á föstudaginn var, 21. september. Þetta var skrifað með því fororði að skrifari er ekki fréttamaður heldur bloggari. Þið getið séð hvort ykkur finnst ég hafa séð þetta sæmilega fyrir, en hér fylgja fréttir komandi viku.

Það vita allir sem vilja að Alþingi Íslendinga kemur saman mánudaginn 1. október til fyrsta þingfundar, og að frumvarp til fjárlaga verður lagt fram daginn eftir. Það sem gerist við þetta er:

Stjórn: Össur hverfur úr stjórnarandstöðu við að setjast í ráðherrastól í þinghúsinu og fer að verða mjög varfærinn í tali. Honum líkar það stórilla en fer vel með það. Margir óbreyttir Samfylkingarþingmenn máta sig stjórnarmegin í nefndir og verða glaðbeittir að sjá í fyrsta skipti í 12 ár.

Eins og ég sagði frá í síðustu viku munu Árni Johnsen og nokkrir fleiri stjórnarþingmenn mótmæla mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna þorskkvótaskerðingar frá fyrsta degi sem þeir taka til máls en þjappa sér að öðru leyti að baki stjórninni, ef þeir vilja ekki þurfa að fara í sérframboð 2011. Orðið ójöfnuður mun heyrast meira í röðum stjórnarliða en fólk hefur átt að venjast.

Stjórnarandstaða: Steingrímur kemur fram eins og sá sem valdið hefur og gerir ljóst að á honum er ekkert fararsnið úr stóli formanns VG, nema síður sé. Guðni mun koma fram eins og sá sem valdið hefur misst og verður hinn landsföðurlegi leiðtogi stjórnarandstöðu að eigin mati, en Steingrímur og Guðjón Arnar verða honum ekki sammála um það. Guðjón Arnar og Frjálslyndi flokkurinn munu koma fram eins og flokkurinn tali með einum rómi, en fáum mun dyljast að flokkurinn er klofinn í marga búta. Allur annar bragur verður á Bjarna Harðarsyni alþingismanni eftir að hann sest í fyrsta skipti á þing.

Díana prinsessa er aðalefni frétta í Bretlandi, 46 árum eftir fæðingu hennar og 10 árum eftir lát hennar. Réttarrannsókn á láti hennar hefst á þriðjudag og lýkur um hálfu ári síðar með þeirri niðurstöðu að bílstjórinn Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn að auki þegar hann ók á burðarsúlu í Pont d'Alma-göngunum á 100 km hraða á klukkustund að morgni sunnudagsins 31. ágúst 1997. Mohammed Al Fayed mun neita að horfast í augu við niðurstöðuna, en það eru fréttir komandi viku einhvern tíma á næsta ári, með hækkandi sól.

Bretar velta fyrir sér hvort Brown vilji efna til kosninga í haust. Hann ætlar ekki að halda þær en segir hvorki af né á, enda þarf hann að sætta öfl innan eigin flokks.

Í Bandaríkjunum verða málaliðafyrirtækið Blackwater og fallandi dollar í fréttunum. Þetta eru skyld fyrirbæri, eins og ég benti á í færslu um herkostnað Bandaríkjamanna og hvaða áhrif hann hefði á gengi dollarans fyrr í þessum mánuði.

Í Mjanmar reynir herforingjastjórn allt sitt til að kveða niður mótmæli líkt og henni tókst 1988. Betliskálin hefur ekki reynst nógu afdrifaríkt vopn gegn sjálfvirkum rifflum.


mbl.is Herstjórn Myanmar kennir BBC um óróann í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að djöflast í dómurunum

Dómarar landsins eru ekki hafnir yfir gagnrýni. Mér þykir þó skotið illa framhjá markinu núna síðustu vikur þegar meðal annars nöfn þeirra voru birt eins og um hrakmenni væri að ræða.

Dómarar dæma eftir lögum landsins. Lögfræðinga greinir á um hversu vel þeir fylgja þeim en þeir fylgja lögunum.

Gagnrýni þeirra sem telja of væga dóma fylgja afbrotum, og sérstaklega kynferðisafbrotum, verða að beina spjótunum að þeim sem búa til lögin. Þeir sem það gera heita alþingismenn og hittast á vinnustað sínum á mánudaginn kemur, 1. október.

Dómarar verða að fylgja almennum reglum um sönnunarbyrði. Í sakamálum gildir að sekt verður að sanna, það er ekki nóg að ásaka menn og láta þá um að sannfæra aðra um að þeir séu ekki sekir.

Margir telja illt að til séu lögmenn sem taka að sér að verja sakborninga í sakamálum. Það má vera, en það væri alvont ef sakborningar yrðu ekki varðir. Eins er deilt á Fangelsismálastofnun að vilja gera afbrotafólki auðveldara að komast út í lífið eftir langa dóma með því að koma þeim í afplánun utan fangelsa síðasta spölinn. Það er slæmt en það væri sýnu verra ef það væri ekki hægt að gera þetta.

Það er rétt að gagnrýna dómara þegar þeir dæma á svig við lög, gegn lögum eða búa til ný lög. Lögfræðingar hafa haldið fram að þetta síðastnefnda hafi gerst í öryrkjadómnum svo dæmi sé nefnt. Það má gagnrýna alla lögfræðinga og þar með talda dómara fyrir sín verk, en það á að gagnrýna löggjafann og engan annan fyrir það hvernig lögin eru.


mbl.is Sýknudómur í kynferðisbrotamáli ómerkur og sendur heim í hérað á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bjarga mannslífum eða minnka kolefnislosun

Margt gott fólk hefur beint á þá einföldu staðreynd að betra sé að nota tiltækt fé til að leysa einfaldan vanda, eins og það að útvega gott vatn, og minnka þar með þann óheyrilega fellidauða sem nú er látinn viðgangast, en að veita því í aðgerðir sem hafa litla verkun.

Á hverju ári deyja milljónir, flest börn, úr sjúkdómum sem má auðveldlega koma í veg fyrir. Hvert foreldri getur hugleitt þann möguleika að hafa ekki getað fengið nein lyf eða neina læknishjálp fyrir börnin sín. Þannig er auðvelt að sjá hvernig barnadauði tók meira en fimmta hvert barn á Íslandi fyrir tveimur öldum, og hvers vegna ástandið er litlu betra núna í mörgum löndum sunnan Sahara.

Það er ábyrgðarhluti að horfa fram hjá þessari staðreynd. Það er líka ábyrgðarhluti að vilja frekar veita fé í aðra þætti áður en tekist er á við þetta grunnvandamál, sem er vel leysanlegt. Það var leyst á nokkrum tugum ára í Evrópu og er hægt að gera á skömmum tíma sunnan Sahara.

Bill & Melinda Gates Foundation hefur tekið þá afstöðu að einbeita sér að þessu vandamáli. Ef börn vaxa ekki úr grasi verður erfitt að vinna bug á vandamálum framtíðar.

Það er gott að vita til þess að Norðmenn hafi lagst með á sveif í þessu átaki. 


mbl.is Norðmenn veita milljarði dala til baráttu gegn ungbarnadauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er þetta með loðteningana?

Ég hef tekið eftir ýmsu sameiginlegu með liðinu sem straujar fram hjá manni og skellir sér á annað hundraðið á Hringbrautinni.

Þeir hafa aðeins efni á að láta loga í einu framljósi, hitt er greinilega ofrausn. Skoðunin er löngu útrunnin. Ef það er ekki miði frá síðasta ári, þá eru liðnir svona níu mánuðir síðan átti að skoða.

Þeir hafa náttúrulega ekki efni á nýrri peru eða senda bílinn í skoðun, peningurinn fór í radarvara. Sem reynist svo ekki nógu vel.

Og hvað er með þessa loðteninga? Er þetta alþjóðlegt pungtákn?


Eyjan: Engar fréttir í fyrirrúmi

Eyjan er lifandi og merkilegur frétta- og skoðanavefur. Þeim hefur tekist að halda nokkuð lifandi umræðu á bloggarasvæði með því að hafa sterkan hóp en raða þeim eftir nýjustu færslunum.

Pétur Gunnarsson hefur greinilega kappkostað nokkru að fá Þráin Bertelsson til að koma með hnyttnar athugasemdir um fréttir líðandi stundar, kallað Annarleg sjónarmið. Þetta var fínt efni meðan það gekk.

Nú hefur Þráinn haft öðrum hnöppum að hneppa um skeið. Hann hefur að minnsta kosti ekki sett inn nein annarleg sjónarmið í hálfan mánuð þegar þetta er skrifað. Það er um fjórðungur af líftíma Eyjunnar.

Það er ekkert við því að segja að önnum kafið fólk hafi ekki tíma eða nennu til að blogga. Það er hins vegar merkilegt að Eyjan haldi Annarlegum sjónarmiðum enn á forsíðu.

Forsíður vefja eru dýrmætt pláss. Þær eru dýrmætari en forsíða á prentuðu blaði þar sem fólk kemst ekki inn á neitt á vef nema gegnum forsíðuna. Ef ég má ráðleggja Eyingum, þá myndi ég nota þetta pláss vel.


Lélegasti sparnaðurinn

Ég ætla að prófa að hrinda af stað fyrstu skoðanakönnuninni á þessu bloggi. Ég ætla að spyrja um lélegasta sparnaðinn sem maður getur gert.

Næsta hálfa mánuðinn vona ég að fá uppástungur frá lesendum og bæti þeim bestu inn á skoðanakönnunina.

Fyrst varpa ég fram þremur möguleikum. Eftir því sem ég bæti við sést það bæði á könnuninni og á þessari færslu. Athugasemdir verða opnar til 7. október.

  1. Fyrsti möguleikinn sem er nefndur ætti að vera kunnuglegur. Það er að kaupa dýrari hlut þegar maður kemst á útsölu, vegna þess að sami afsláttur í prósentum gefur hærri sparnað við dýrari hlutinn! Magnað.
  2. Sá næsti er að nota yfirdrátt. Er nauðsynlegt að nota hann? Þá á ég við að meðan bankar auglýsa það sem eitthvert sérstakt keppikefli að vera bara með tæp 17% í yfirdráttarvexti, þá er líklega til mikils að vinna að komast hjá því að borga þetta.
  3. Þriðja sem ég nefni er að á því horni heimsins sem ég bý, kostar 1200 á ári fyrir fullorðna að eiga bókasafnsskírteini, sem gildir í öll bókasöfnin hérna á Innnesjum. Þó maður ætli aðeins að lesa eina bók eða líta á tvær myndir er þetta líklega búið að borga sig á fyrsta útláni.

Gjörið svo vel, þetta er ókeypis. 


Jafndægur á hausti 2007

Árstíðirnar myndast af því hvernig jörðin hallar sér, eða kinkar kolli til norðurs eða suðurs, og horfir þannig við sólinni. Hún byrjaði að halla sér til norðurs 21. júní og er núna bráðum komin hálfa leið á vegferð sinni. Þegar það gerist, er dagur og nótt jafnlöng, og er svo um alla jörð.
 
Jafndægrin miðast við þann tíma sem miðja sólar stenst á við miðbaug jarðar. Sólin er hins vegar aðeins stærri en miðja hennar, þannig að við sjáum sólarupprás áður en við sjáum miðju hennar gægjast upp fyrir sjóndeildarhringinn, og sólarlag eftir að við sjáum miðju hennar hverfa niður fyrir hringinn. Ljósbrot í andrúmsloftinu lengir svo birtutímann, þannig að dagsbirta er lengri en 12 tímar við jafndægrin.
 
Þetta þýðir líka að lengsta nótt á miðjum vetri verður ekki jafnlöng og lengsti dagur verður á sumrin. Lengsti sólargangur í Reykjavík er frá tæplega kl. 3 að morgni til skömmu eftir miðnætti, en stysti sólargangur er rúmir fjórir tímar. Á Íslandi njótum við að meðaltali um 13 tíma dagsbirtu.
---
Þegar eitthvert lát verður á haustlægðunum förum við að líta til himins og sjáum stjörnufansinn glitra. Fyrir tugþúsundum ára fóru menn að raða saman stjörnum á himinfestingunni í merki. Eins og orðið himinfestingin sýnir, héldu þeir að allar stjörnur væru jafnlangt í burtu. Seinna sá fólk að svo var ekki, heldur eru stjörnur saman í merki sem er langt á milli. Þannig er Sírius í Stóra hundi 8,6 ljósár frá okkur, Adara í sama merki er 430 ljósár frá okkur og Furud í sama merki 336 ljósár frá okkur. Það tæki hraðasta mannaða geimfar sem hefur farið um 524.000 ár að komast til Síríusar. Hún skín skært, enda stærsta stjarnan sem situr nálægt okkur.
 
Önnur fyrirbæri sem þið sjáið á himninum eru lengra í burtu. Þegar komið er út úr borginni má stundum sjá Vetrarbrautina liggja eins og slæðu yfir þveran himininn. Hún er talin vera um 100.000 ljósár í þvermál. Við liggjum utarlega í Vetrarbrautinni. Ef tækist að koma boðum á ljóshraða yfir til einhvers sem gæti skilið þau hinum megin í Vetrarbrautinni, væru liðin 150.000 - 200.000 ár áður en fyrsta svar kæmi til baka. Mannkyn hefur þróað nær allt sem kallað er menning á þetta löngum tíma.
 
---
Jafndægramínútan þetta haustið er kl. 9:51 að morgni sunnudagsins 23. september.

Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband