Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Þeir dauðu hafa engan rétt

Ég hef oft heyrt að áróður geti ekki gert neitt illt. Þetta viðhorf virðist oft liggja að baki áróðursherferðum fyrir bættri umferðarmenningu.

Ég tel að því fé sem varið var í áróður fyrir minni hraða á vegum landsins hafi verið slæm ráðstöfun. Ekki einasta hefði verið hægt að verja fénu í aðrar og betri aðgerðir. Ég tel að alltof margt fólk hafi líka haldið að þar með væri nóg að gert.

Það hafði ekki tilætluð áhrif á hraðafíklanna að biðja þá að keyra hægar. Því meiri auglýsingar sem birtust þar um, því meiri hraði varð á vegum landsins og þeim mun meira fjölgaði dauðaslysum og örkumlum til lífstíðar vegna þess að árekstrar urðu á hraða langt fyrir ofan 100 km/klst.

Það var ekki fyrr en brugðist var við með meiri löggæslu að vandinn minnkaði. Nú hafa 8 farist í umferðinni á þessu ári en voru 18 á sama tíma í fyrra. Það er skelfilegt að hugsa til þess ef 15-20 manns hafa verið að falla á hverju ári og annar eins fjöldi að örkumlast fyrir lífstíð, sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, ef þessar aðgerðir hefðu hafist fyrr.

Það er einu sinni svo að flest okkar verða daglega að taka þátt í umferðinni, hvort sem okkur likar betur eða verr. Fyrsta skylda hins opinbera er að vernda líf og limi borgaranna. Þeir dauðu hafa engan rétt.

 


Stóra blaðamannamálið

Þau sem fylgjast með fréttum af íslenska glæpaheiminum reka sig fljótt á hvað þessi heimur er stór, af fréttunum að dæma.

Öll glæpamál eru fljót að verða að stóru málunum í meðferð fréttamanna. Vandinn er að greina á milli stóru fíkniefnamálanna, sem nú skipta tugum, þar sem hvert mál verður stærra en það sem á undan kom.

Einhvern tíma vildi fólk greinilega fara að skilja eitthvað á milli og fram komu stóra hassmálið, stóra e-töflumálið, stóra amfetamínmálið og stóra kókaínmálið. Þau urðu fljótt sömu viðleitni að bráð, ný mál komu fram sem voru stærri en þau sem á undan fóru og stóru málunum tók enn að fjölga.

Það eru kannski öll mál stór í litlu landi, en er nauðsynlegt að hamra á því? Væri hægt að finna nöfn á þessi mál?

Kannski er þetta bara stóra blaðamannamálið þegar upp er staðið. Of margir fréttamenn og of fáir lesendur. 


Fjölskyldan vinnur sigur

Það er merkilegt hvað þessi útvíkkaða teygjufjölskylda sem kölluð er íslenska þjóðin vill upp á dekk í samfélagi þjóðanna.

Sérstaklega er þetta áberandi þegar einhver fjölskyldumeðlimurinn verður frægur eða þegar fótboltalið fjölskyldunnar vinnur. Þetta stríðir gegn öllum líkindalögmálum, sem segir okkur að taka þau ekki of hátíðlega, heldur ögra þeim ef hægt er.

Stelpurnar hafa verið að standa sig með ágætum og strákarnir virðast vera að lifna til sigra á ný. Þau fá klapp á kollinn og verða stelpurnar og strákarnir okkar í smátíma. Af því að þetta er allt ein stór fjölskylda.

Það er merkilegt að sjá hvað Norður-Írar taka ósigrinum vel. Ég leit eitt sinn þarna í heimsókn meðan allir sprengdu alla. Það kom mér á óvart hvað þau eru góð heim að sækja. Þetta er einna gestrisnasta fólk sem ég hef hitt, á eftir íslensku sveitafólki. Þau eru bara ekki góð hvort við annað. Eitt dæmi um það er saga Neil Lennon.

Neil Lennon hefur spilað fyrir Celtic í Glasgow. Hann var fyrirliði norður-írska landsliðsins árið 2002 þegar honum og fjölskyldu hans bárust drápshótanir. Fjölskylda hans býr enn í Belfast og hann hefur ekki spilað með landsliðinu síðan.


Fleiri ferðamenn

Ég hef heyrt fólk halda því fram að margt væri hægt að gera á landinu annað en reisa fleiri álver til að vera vænni við umhverfið. Aukin ferðamennska hefur oft verið nefnd til sögunnar.

Það er gott fyrir þau sem vinna við ferðamennsku að vita að greinin hafi svona gott orð á sér. Það er þó varla hægt að segja að auknar ferðir erlendra túrista myndu fara vel með umhverfi, bæði hér á landi og annars staðar.

Fyrst þarf að koma þeim til landsins og frá því í lok ferðar, ef allt gengur vel. Flestir koma flugleiðis og losa þar með kolefni til jafns við tíunda hluta af því sem meðaleinkabíll gerir á hverju ári. Kolefnislosun bæði bíla og þotna fer minnkandi en þetta hlutfall breytist ekki mikið. Ef hingað koma tvöfalt fleiri ferðamenn til landsins eftir tíu ár samsvarar það þess vegna kolefnislosun og mengun frá 50.000 bílum til viðbótar við það sem nú er.

Þá er fólkið komið til landsins og þarf að sýna því landið. Það þarf að komast að helstu náttúrugersemunum þannig að það þarf að byggja vegi að þeim og aðstöðu við þær.

Er þetta endilega lausnin sem fer best með umhverfið?

 


Mæling heimsins

Bókarýni: Mæling heimsins eftir Daniel Kehlmann.

Ég las bókina Mælingu heimsins á ensku nú í sumar. Mér líkaði hún svo vel að þegar ég sá að hún var komin í íslenskri þýðingu keypti ég eintak til að gefa föður mínum. Ekki veit ég hvernig kalli líkar bókin sem fjallar um þýskt gáfufólk og sérvitringa (þetta er sama fólkið) með afskaplega þýskum húmor.

Að meginefni er farið yfir sögu þeirra Alexander Humboldt landkönnuðar og stærðfræðingsins Carl Friedrich Gauss.  Það verður ekki hjá því komist að láta nokkur fræg nöfn fljóta með í þannig sögu.

Íslenskir höfundar seljast grimmt í Þýskalandi og nú er rétt að sjá hvort landinn taki jafnvel við góðri þýskri bók.

Höfundur rýninnar er ekki bókmenntafræðingur.

 


Sækist eftir raforku úr neðri hluta Þjórsár

Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi ekki að bætast í hóp þeirra sem sækjast eftir raforku úr neðri hluta Þjórsár. Mér sýnist hún muni verða svo ódýr að þetta yrði fín búbót fyrir heimilið.
Einhvern veginn verð ég að fá rafmagn í tölvuna til að geta bloggað.

Tregur bloggari

Ég er tregur bloggari og viðurkenni það heils hugar.

Hvað er ég þá að gera hér, kann einhver að spyrja?

Í vor sendi ég Mogga grein til birtingar, sem þið getið lesið hér að neðan. Moggi áskildi sér rétt að birta hana sem netgrein, sem ég hugsaði að væri hið besta mál, en hélt að það þýddi að þau birtu þetta bara á vefmogga. Síðan fékk ég skilaboð um að ég væri kominn með Moggablogg, mér að óvörum!

Það var sem sagt Moggi sem setti upp bloggið en ekki ég. Ég þakka Mogga fyrir ómakið!

Nú ætla ég að reyna að bæta úr þessu og setja eitthvað hér inn í vetur. Þetta er fyrst og fremst gert í virðingarskyni við þá tvo heiðursmenn sem hafa sýnt mér þá virðingu að velja mig sem bloggvin. Það er ekki gustuk að sýna þá að maður sé á lífi.


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband