Færsluflokkur: Umhverfi
6.4.2010 | 17:29
101-veikin
Það hefur ekki vantað að fólk sýni miðbæ Reykjavíkur umhyggju. Það er spurning hvort sú umhyggja hafi alltaf skilað fólki betri bæ.
Það er rétt sem sagt er að helmingur af öllum störfum á höfuðborgarsvæðinu er vestan Kringlumýrarbrautar, meðan einn fjórði íbúa svæðisins býr á sama svæði. Lausnin sem hefur verið fundin hingað til, að byggja fleiri íbúðir á svæðinu, hefur ekki breytt þessari stöðu. Spurningin er eins og alltaf, hver er vandinn?
Rætt er um að byggja íbúðir fyrir allt að 20.000 manns á svæðum við höfnina og Hlemm. Á báðum stöðum verður einnig mikil uppbygging á atvinnuhúsnæði, enda er svæðið eftirsótt jafnt fyrir íbúðir sem starfsemi. Þá má óska þess að íbúar þarna vinni á svæðinu en það er eitthvað sem er alls ekki á hendi skipulagsyfirvalda og miðað við reynslu í Evrópu er það ekki raunin.
Þau svæði þar sem á að þétta byggð eru nú þegar þéttust fyrir. Fimmfalt fleiri búa á hverjum hektara í 101 en í dæmigerðu úthverfi. Fólk sem þannig býr hefur séð afskaplega mikið eftir grænum blettum og leiksvæðum sem hafa myndast þar sem lóð hefur verið óbyggð, Mikil ásókn í hefur verið í óbyggðu lóðirnar hvar sem slíkir blettir eru í gamla austurbænum og vesturbænum.
Þéttleikanum fylgir miklu meira álag fyrir íbúa miðað við að búa í úthverfi og spurning er hvort meta megi lífsgæði þannig að þau innifeli tryggingu fyrir leiksvæði fyrir börn, minni umferð en nú er, minni ágang vegna útigangsfólks, minni ágang vegna athafnafólks með miklar hugmyndir um næsta umhverfi þeirra sem þarna búa? Þarf að gæta að lífi þessa fólks sem þarna býr? Ef bætast við tugir þúsunda í vesturbæ Reykjavíkur auk stóraukinnar atvinnustarfsemi við höfnina, þá fer sú umferð sem myndast um tvær götur, Hringbraut og Mýrargötu. Segi hver sem vill og horfi framan í íbúa þar, að það sé í lagi.
Reynslan af borgum þar sem íbúafjöldi stendur í stað sýnir að hófleg og lítil atriði eins og aukin gróðursetning trjáa, fleiri græn svæði og varleg uppbygging hefur aukið lífsgæði og borgargæði. Við sem búum á þessari eyju stöndum núna frammi fyrir þeirri staðreynd að næstu árin mun fjölgun ekki verða teljandi og alls ekki í líkingu við það sem búist var við fyrir fjórum árum. Dæmið hefur hreinlega snúist alveg við og forsendur gerólíkar frá því sem áður var.
Þegar þéttingin þýðir að störfunum fjölgar hraðar en íbúunum er rétt að skoða aðrar lausnir. Reykjavíkurborg er einn stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Er fljótlegra að borgaryfirvöld flytji meira af starfsemi sinni austur fyrir Kringlumýrarbraut en að byggja hátimbraðar skipulagshugmyndir ofan á þær íbúðir sem nú standa tómar við höfnina?
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2010 | 10:42
Skammastín stjórnmálin
Þú skalt skammast þín. Það eru til nokkuð margir sem taka stjórnmál sem ástæðu til að segja fólki að skammast sín. Alltof margir ná ekkert lengra.
Þegar ég lærði í HÍ vann ég lengst af á nóttunni og hafði ekki há laun. Þá fór ég um á reiðhjóli og grænu korti. Þetta var ekki lífstíll á þann hátt að ég hafi valið mér að vera skjálfandi á hjólinu í vetrarveðrum eða bíða langdvölum eftir vagni lengst vestur á Nesi. Ég hafði ekki efni á öðru.
Þá fékk ég nokkuð oft að heyra fólk tala fjálglega um umhverfismál og hvernig bíleign væri svo voðaleg og enginn ætti að fara um á bíl. Síðan keyrði þetta fólk burt og ég hjólaði minn veg. Mér lærðist að það væri til sérstök tegund siðfræði þar sem maður kenndi öðrum og færi svo sjálfur aðra leið.
Þetta fólk þarf öðrum fremur að segja öðru fólki að skammast sín, sama hvað gerist. Skammastín ef þú notar plastpoka (voðalegt), skammastín ef þú notar rafmagn (gildir einu hvernig það er framleitt, viðkomandi hefur heyrt svakalegar sögur frá Danmörku), skammastín ef þú keyrir jeppa þó það sé á Íslandi (sér maður Dana keyra jeppa?), skammastín bara.
Getur verið að þó við næðum að búa til rafmagn á umhverfisvænasta hátt sem til er, hafa bestu vatnsvernd í Evrópu, hreinna loft og öfundsverða stjórn á veiðum, þá myndi þetta fólk finna það hjá sér að segja okkur að skammast okkar? Ég varpa þessu fram sem spurningu, ef við næðum þessum markmiðum, hvað myndi þá gerast?
Takmörk þessa umvöndunar eru augljós. Fólki lærist fljótt að vandinn liggur hjá þeim sem er alltaf að segja öðrum að skammast sín og það er nokkurn veginn ekkert sem hægt er að byggja á þessari afstöðu.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2010 | 06:38
Sumartími
Sumartími er kominn í Evrópu og Bandaríkjunum, þó að víða sé vorið komið skammt á veg. Nú munar einum tíma á okkur og Bretlandi og tveimur tímum á okkur og Mið-Evrópu. Fólk spyr af hverju er ekki komið á sumartíma á Íslandi og svarið er einfalt, það er sumartími árið um kring hjá okkur.
Yfirleitt er sumartími þannig við að klukku sé flýtt um einn tíma á sumrin, þannig að sólin komi upp um sjöleytið í stað þess að koma upp um sexleytið. Þá sest hún ekki fyrr en um sjöleytið í lok mars og um níuleytið í London í lok júní. Klukka hér er þannig árið um kring og kemur sólin upp klukkutíma á eftir raunverulegum tíma á Austurlandi, um klukkutíma og korteri á Akureyri og einum og hálfum tíma á eftir í Reykjavík. Ef við myndum flýta klukkunni í lok mars eins og Evrópuþjóðir værum við á því sem kallað er tvöfaldur sumartími. Sólin kæmi þá upp um áttaleytið í lok mars.
Nú berast fréttir frá Bretlandi sem segja frá baráttu fyrir slíku kerfi þar, svokölluð 10:10-hreyfing.
Einhverjir vinnustaðir auglýsa opnun klukkutíma fyrr á sumrin. Mér fannst merkilegt að heyra umræðu um að framhaldsskólanemar ættu erfitt með að koma sér á lappir í mesta skammdeginu. Þetta er einmitt það sem við ræddum um í MH fyrir 30 árum síðan og vildum að kennsla byrjaði klukkutíma seinna. Þá lærðist mér einföld íslensk rökfræði og ég á ekki við kennslubók Guðmundar Arnlaugssonar sem Eygló Guðmundsdóttir kenndi okkur. Nei, þá fengum við að vita að kennarar hefðu rætt þetta og vildu þetta ekki. Þar með var endir umræðu. Þó við vildum vita hvort kennarar gætu til dæmis unnið við annað en sjálfa kennsluna fyrsta klukkutímann var umræðan tæmd, búin.
Umhverfi | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2010 | 17:27
Viðskiptatrúin
Það er til dæmis sagt að önnur viðmið gildi í opinberum rekstri og þess vegna verði hann óhagkvæmur. Það er skrýtin stjórnun sem ekki getur breytt viðmiðum. Ef rekstur er að þjóna einhverjum tilgangi er ekkert lögmál sem breytir árangrinum af honum, ef stjórnendurnir eru ekki starfi sínu vaxnir.
Stjórnmál eru aðeins til í samfélagi. Það þýðir lítið að kjósa fólk til forystu í stjórnmálum sem hefur andúð á samfélagsmálum eða lítur niður á þá vinnu. Ef það er gert, þá velst til forystu fólk sem er tilbúið að láta skipulagsmál í hendur framkvæmdaaðila, heldur að kaupmenn geti betur stjórnað umhverfinu á Laugavegi en til þess kjörnir fulltrúar og heldur að kaupsýslufólki sé best treystandi fyrir almannafé. Það segir að ekki sé til þjóðareign, þó að þjóðin sé vel skilgreindur hópur hverju sinni, að opinber rekstur sé alltaf verri en einkarekstur, þrátt fyrir að árið 2008 hafi komið og farið, og það er ekki fært um að stjórna sjálfu sér, hvað þá öðrum.
Góður kaupmaður getur stjórnað sinni eigin verslun vel. Kostir kaupmanna eru að bjóða verð sem hæfir vörugæðum, þjónusta viðskiptavini sína vel og veita starfsfólki sínu góð kjör og umbúnað. Kostir þeirra felast ekki í að skipuleggja miðbæ Reykjavíkur. Þar koma til hagsmunir kaupmanns, en góður kaupmaður veit að hagsmunir hans enda um þremur metrum frá innganginum að versluninni, þegar viðskiptavinurinn sér hvað er í boði og býst til að ganga inn.
Áþreifanlegt dæmi um þetta má sjá á yfirbyggðum Laugavegi. Hvaða yfirbyggða Laugavegi? Jú, þegar Kringlan var að verða að veruleika á níunda áratugnum átti að byggja yfir Laugaveg í samvinnu kaupmanna og borgaryfirvalda. Árangurinn má sjá á tveimur hliðum sem nú geyma auglýsingar og yfirbyggðri gangstétt fyrir framan Laugaveg 43. Bogaþakið átti að vera í sömu hæð og hliðin sýna.
Samkeppnin er kostur í verslun á Laugavegi og reyndar hvar sem er á Íslandi. Hún er enginn kostur í opinberum rekstri, þó stundum sé látið þannig. Samkeppni sveitarstjórna um lóðaúthlutanir kostaði íbúa höfuðborgarsvæðis milljarða. Fólk má gjarnan trúa öðru, en það þarf ekki að kjósa þannig fólk til forystu.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2010 | 14:20
Þetta er aðeins eitt land
Við erum ekki nema hundrað þúsund ferkílómetrar. Það tekur innan við klukkutíma að fljúga landshorna á milli, minna en tíu tíma að keyra á ystu nöf.
Við verðum að haga okkur eftir því. Allt sem er gert snertir aðra á landinu. Það er ekki til nein einkamál landsbyggðar eða höfuðborgar. Allar stórframkvæmdir verða að fara í eitt heildarskipulag ef við viljum eitthvert skipulag yfirleitt.
Ef við viljum að það búi fólk hér yfirleitt fremur en að allt besta fólkið flytji til landa sem betra er að búa í, þurfum við að gera landið lífvænlegt fyrir venjulegt fólk, en ekki aðeins fyrir útvalda.
Hér hafa öll stjórnmál gengið út á að þjóna hagsmunum ákveðinna Íslendinga, ekki allra, yfirleitt sem fæstra.
Landbúnaðarkerfið hyglir kjúklinga- og svínabændum og heldur uppi iðnaði þar sem fáir Íslendingar sjást nema þeir sem eiga búin. Núverandi kvótakerfi hefur tryggt að allur arður sem gæti orðið af sjávarútvegi renni til nokkurra hundraða. Fyrirtæki í almannaeigu borga ofurlaun en skila litlum eða engum arði til eigendanna, sem fá ekki að vita á hvaða kjörum afurðirnar eru seldar.
Það má merkja að það stjórnmálafólk sem ekki ætlar að skera upp stjórnskipun, skipulag og skiptingu arðs, breyta lífskjörum þannig að almenningur og fyrirtæki geti lifað við stöðugt verðlag og gert fyrirætlanir til nokkurra ára í senn, það er fólk sem ætlar að þjóna litlum hópum þjóðfélags.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2010 | 12:32
Það sem enginn frambjóðandi segir
Það blasir við þegar keyrt er um höfuðborgarsvæðið. Það æpir á þig og það vita það allir. Það var kapphlaupið að úthluta lóðum, kapphlaupið að þóknast athafnafólkinu, kapphlaupið að skipuleggja þannig að aðalskipulagi var umturnað á þriggja mánaða fresti, deiliskipulag beið eftir nýjasta útspili verktakanna og hundrað ára gömul hús áttu líf sitt undir stýrivaxtastiginu hverju sinni. Það er morgunljóst.
Svarið er augljóst öllum sem vilja hugsa en enginn má segja þetta. Að minnsta kosti hef ég ekki séð neinn af þessum fjölmörgu snjöllu frambjóðendum segja þetta. Það hljóta því að vera til reglur sem banna að minnst sé á þetta þó ég hafi ekki séð þær. Þau eru kannski í handbók sveitarstjórnarframbjóðenda.
Auðvitað þarf að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Svæðið er ein atvinnuheild, ein skipulagsheild. Það eru alveg nægjanleg rök að geta forðað því að aftur tapist þó ekki sé nema eins og nokkrir af þeim milljörðum sem fóru í súginn 2007 og 2008, þá verða þessi sveitarfélög að sameinast.
Ég hef heyrt fólk sem þekkir vel til segja að þar skapist of sterkt sveitarfélag miðað við landsbyggðina. Svarið er að það eru ekki til of sterk sveitarfélög og að hlutskipti landsbyggðarinnar er ekkert betra ef það eru 7 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fremur en eitt.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2009 | 06:57
Hvernig hefði þetta orðið með hærri sköttum?
Ein af kennisetningum þeirra sem hafa ráðið ferðinni undanfarin 18 ár er að einkarekstur verði alltaf hagkvæmari en opinber rekstur. Þar liggi ábyrgðin hjá þeim sem taki áhættuna, og að þau sömu reyni alltaf að reka allar einingar á sem hagkvæmastan hátt. Þetta þýði að því meiri einkarekstur, því betra fyrir þjóðfélagið í heild þar sem skilvirkni aukist. Ríkara þjóðfélag geti síðan skilað meiri skatttekjum til rekstrar á vegum hins opinbera, en þá eigi það helst að bjóða út þann rekstur.
Mörgum af hægri vængnum þykir margur opinber rekstur fremur fánýtur eins og sjá má af tekjum umönnunarstétta, ummælum um bruðl á vegum hins opinbera og hugsjón þeirra að losa sem mest af þessum rekstri frá hinu opinbera.
Það fylgir þessari hugsjón að segja að hærri skattar séu slæmir því þeir taki fé af fólki sem myndi nota þá til nytsamlegri hluta en hið opinbera gerir. Þetta er alveg rétt ef hið opinbera hagar sér eins og fáviti. Það eru mörg dæmi þess en þetta er engan veginn algild regla.
Ég lít til dæmis núna á yfir þúsund tómar fullbyggðar íbúðir og annað eins sem er í byggingu. Ef þrjú þúsund íbúðir standa tómar eða hálfbyggðar og annað eins magn atvinnuhúsnæðis má ætla að þar liggi jafnvirði 100-150 milljarða.
Ef þetta fé hefði ekki farið í byggingar einkaaðila heldur til hins opinbera væri það komið nýja sjúkrahúsbyggingu Landspítalans, Sundabraut, Norðfjarðargöng eða eitthvað álíka.
Ef þér finnst allt sem hið opinbera gerir versta bruðl þá er þér líklega sama. Ef ekki, þá ertu líklega til í að skoða dæmið betur. Það er ekkert lögmál að opinber rekstur sé verri en einkarekstur. Ef maður rekur opinbera stofnun illa, þá er það þannig. Ef maður rekur einkafyrirtæki illa, þá er það á hinn veginn.
Lærdómurinn sem ég dreg er að það skiptir máli hvernig allt er rekið og það er ekki síður mikilvægt að fá gott fólk í opinberan rekstur en í einkareksturinn.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 00:08
Endur- og nýgerð gömul hús
Mér finnst alltaf gaman að sjá þegar fólk talar um að gera við timburhús sem eru farin að fylla öldina eða meira.
Sjálfur hef ég búið í 130 ára gömlu húsi (sem nú er að verða 150 ára) og flutti í það úr 80 ára gömlu húsi (sem nú er að verða 100 ára) í miðbæ Reykjavíkur.
Mér finnst það ekki fallega sagt þegar fólk talar um að gera við svo gamalt timburhús. Sannleikurinn er sá að enginn upprunalegur burðarviður eða borðviður er nýtilegur í svo öldnu húsi. Slíkur viður er ekki til frambúðar. Hann er því tekinn burtu og nýr viður settur í staðinn.
Hingað til hefur verið sett sjónarspil á svið þar sem fólk endurbyggir húsin án þess að rífa upprunalega húsið, heldur skiptir um við fyrir við og borð fyrir borð.
Sjónarspilið er ekki viðhaft núna við húsið á horni Þingholtsstrætis og Bankastrætis (beint á móti B5) heldur hefur það verið rifið niður og sett snotur mynd af því á girðingu sem var reist til að fólk þyrfti ekki að horfa á rústirnar.
Það er rétt að taka fram að ég er ekki að hnýta í Þorstein Bergmann og hans fólk. Það vinnur góða vinnu.
Fólk þarf hins vegar ekki að láta eins og við séum ekki að endurbyggja þessi gömlu hús. Þó að fylgt sé gömlum myndum, lýsingum og teikningum, þá eru þau reist í þeirri mynd sem fólki líkar vel á fyrsta áratug 21. aldar.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2008 | 17:41
Edinborgararnir koma með lausnir
Ég fékk að vinna með einum arkitekt sem var að senda inn tillögur í þessa keppni. Hann var líklega nokkuð langt frá því að komast í úrslit sá, enda hugmyndir hans nokkuð róttækar. Allt um það, þá var hressandi að fara yfir hugmyndir um þetta svæði og hvernig það getur bæði tengst best byggð sem fyrir er, og breytt allri borginni.
Í mínum huga var stórt atriði að við svæðið verða þrír stórir vinnustaðir með um 10.000 starfsmenn og hálfu fleiri stúdenta, ef áætlanir ganga eftir. Það eru HR í Hlíðarfæti, Landspítali og HÍ.
Skotarnir Graeme Massie architects komu, sáu og sigruðu eins og þeir gerðu fyrir norðan. Mér leist nú ekki vel á hugmyndina um síki þar, en flest annað þótti mér glæsilegt.
Grímur er þá orðinn áhrifamesti arkitekt á Íslandi síðan Guðjón Samúelsson leið, eða hvað?
Úrslit í keppni um skipulag Vatnsmýrar kynnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfi | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2008 | 21:56
Friðun þýðir allt annað á Íslandi
Friðun er eitt af þeim orðum sem margir sveifla kringum sig, hvort sem það er um hús á Laugavegi eða svæði á hálendinu, eða jafnvel svo margt annað.
Eins og svo oft þegar landar mínir velja orð, þá eiga þeir við eitthvað annað. Í besta falli er hægt að kalla þetta rósamál eða dulyrði (euphemism) en í versta falli þýðir þetta oft þveröfugt við það sem haldið er fram.
Þannig vilja engir að hús séu látin í friði, sem betur fer, heldur endurbyggja þau eða umbyggja, eins og nú er oft ofar á blaði. Hér er ég ekki að segja að betra væri að friða þau, heldur að orðið friðun er ekki það sem fólk ætlast fyrir.
Friðun á einhverjum hluta landsins er fjarri flestum, einnig sem betur fer. Fólk vill opna svæði fyrir ferðamönnum en ekki friða þau. Það vill ekki hafa aðrar framkvæmdir en fyrir ferðamennina. Í þessu tilfelli er það ekki eins augljóst að aldrei stendur til hjá neinum að friða svæði þó fólk tali þannig og í þessum tilfellum er þetta villandi og hættulegt.
Það skiptir miklu fyrir náttúru hvort flytja á hingað til lands hálfa milljón ferðamanna til viðbótar á næstu árum, með flugvélum að sjálfsögðu, sjá þá ferðast um landið, á stórum fjallabílum að sjálfsögðu, og skoða land sem nú er lítið skoðað. Það er einfaldlega ekki önnur leið fyrir ferðamenn að komast utan úr heimi upp á hálendi Íslands heldur en með farþegaþotu til landsins og einhverjum vélknúnum farartækjum upp á hálendið. Örlítill hluti fer með ferju til landsins og notar síðan vélknúnu farartækin, afskaplega lítill hópur notar einhverjar aðrar leiðir eins og fjallahjól.
Friðun? Er hægt að fá nánari útskýringu?
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar