Færsluflokkur: Umhverfi
26.1.2008 | 13:47
Veður og vetur af venjulega taginu
Nú má heyra í íbúum á höfuðborgarsvæði að þetta hafi verið voðalegur vetur. Hann er reyndar rétt byrjaður, vetur byrjar eftir jól, á nýju ári. Víst er að veðrið fyrir jól var hundleiðinlegt, sífellt hvassviðri, en þetta er búið að vera ágætt eftir þau.
Svolítill snjór liggur á götum en ekki svo mikið að ég geti ekki hjólað. Ég held að það hafi verið verra bæði 1983 og 1984. Það má eflaust fletta upp einhverjum verri mánuðum 1991, þegar ég þurfti að leggja hjólinu og eitthvað var víst leiðinlegt árið 2000.
Þetta veður síðan í október er það sama og ég ólst upp við. Venjulegur íslenskur vetur er hundleiðinlegur hér sunnan heiða. Þeim sem líkar ekki við hann þurfa að finna sér vetrarhús sunnar á hnettinum, eða búa á Akureyri þar sem veðrin eru stilltari og veturinn hvítur. Nú hjóla ég í bæinn.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2008 | 18:23
Nýleg hús sem verða rifin
Það er athyglisvert í tillögum um breytingar í Reykjavík að það eru á nokkrum stöðum rúmlega tvítug hús sem fá að víkja.
Þannig á Læknagarður (Tanngarður) sem liggur milli eldri og nýrri Hringbrautar að fara. Þetta hús er frá því um 1980 ef ég man rétt, og átti greinilega að tengjast Landspítala þegar Hringbraut yrði færð. Nú hefur það gerst en skipulag sjúkrahússins breyst. Líklega gráta þetta fáir.
Listaháskóli á að rísa milli Hverfisgötu og Laugavegar, á reitnum bak við húsið sem hýsir Vínberið, Laugaveg 43 og húsið við Frakkastíg sem einhvern tíma hýsti L.A. Café (Ellakaffi á íslensku). Það er sjónarsviptir að Laugavegi 43 ef það hús verður látið fara. Ég held að færri sakni hússins við Frakkastíginn, sem var reist um 1985.
Hús var reist við Lækjartorg um 1978 og hefur lengi verið kennt við strætisvagna, þó að skiptistöð Strætó hafi fengið sífellt minna pláss þar og að lokum eiginlega horfið þaðan. Þetta er ágætis hús, hefur hýst Kaffi Torg, Optik, Segafredo og aðrar menningarstofnanir, en ef þar kemur fallegt hús í staðinn munu fáir gráta það.
Það eru ekki bara gömul hús í útrýmingarhættu. Mun einhver standa upp og verja þessi hús?
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2008 | 18:36
Illa farið með Seltirninga
Seltjarnarnesið er eitt merkilegt nes. Á landi Seltjarnarneshrepps býr helmingur þjóðarinnar og hinn helmingurinn hefur átt erindi þangað, að undanskildum nokkrum aðdáunarverðum sérvitringum. Á landi þess sitja nú mestöll Reykjavík, Kópavogur og upprunasveitarfélagið Seltjarnarnes.
Seltjarnarnesið gaf þetta allt og hefur þegið lítið í staðinn. Það átti fyrst sveitarfélaga byggðasamlag með Reykjavík þegar það greiddi með rekstri strætisvagna, þannig að einn þeirra gengi um Nesið. Seltjarnarnesið greiddi með rekstri Sinfóníuhljómsveitar við hlið Reykjavíkur, en það gerðu ekki önnur sveitarfélög.
Um langa hríð hafa Seltirningar tekið þátt í rekstri hjúkrunarheimilins Eirar. Fyrsti áfangi þess var byggður í Grafarvogi. Næsti áfangi átti að vera í miðbæ Nessins, á Hrólfsskálamel. Því miður fór miðbæjarskipulagið þar á flug og hefur varla lent, ef miða á við íbúðaverð sem er þar í boði núna. Í staðinn ætluðu Seltirningar að taka þátt í að reisa hjúkrunarheimili með Reykvíkingum á gömlu Lýsislóðinni við enda Grandavegar.
Það er illa farið með Seltirninga að taka fyrst allt landið af þeim og höggva svo aftur í sama knérunn og finna allt til að torvelda að hjúkrunarheimilið verði reist þar.
Það er ætíð vindur á Nesinu, nema einn dag á ári. Það veit enginn hvenær hann verður, en ef hann kemur snemma á árinu er almenn sorg, því þá kemur ekki annar logndagur á því ári. Það er alltaf sama vindáttin á Nesinu. Það er hafátt.
Ég bjó á Rein, á Melabrautinni í sjö ár og langar alltaf aftur á Nesið.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2008 | 02:46
Alþjóðlegur miðbær
Farðu um miðbæ Reykjavíkur snemma á laugardagsmorgni eða fyrir hádegi á sunnudagsmorgni. Það fyrsta sem þú heyrir er líklega pólska. Þá heyrirðu norsku, sænsku, ensku, þýsku, frönsku eða dönsku, áður en þú heyrir íslensku.
Svona er það nú bara. Miðbær Reykjavíkur er alla jafna fullur af fólki sem er að koma til landsins, bæði ferðamenn, nýkomið fólk og námsmenn. Þetta er eðlilegur staður fyrir ferðamennina, og fyrir hádegi um helgar verður það áberandi að þeir eru í meirihluta í bænum.
Ennþá er svipað dýrt að leigja nærri miðbæ Reykjavíkur eins og það er í úthverfunum. Það er því eðlilegra fyrir marga námsmenn sem koma til landsins að festa sig þar. Um tíundi hluti námsmanna í Háskóla Íslands er til dæmis frá öðrum löndum og fer fjölgandi.
Eins má heyra í röðinni í Bónus í Kjörgarði að margir sem koma til að vinna hér á landi hafa fundið sér stað nálægt miðbænum. Þannig er miðbærinn og nánasta umhverfi hans orðið að alþjóðlegasta hverfi landsins, að fráskildum nokkrum stöðum á Vestfjörðum.
Er nóg gert fyrir þetta fólk? Hvar eru merkingar á öðrum tungumálum en ensku? Eru ekki ferðamennirnir mikilvægur viðskiptahópur? Á ekki að gera eitthvað fyrir þá, eða lita borgaryfirvöld bara á þá sem tekjulind? Nokkur upplýsingaskilti eru þarna en margt betra mætti gera.
Umhverfi | Breytt s.d. kl. 03:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2008 | 18:25
Húsavernd: Allt nema breytingar
Ég kem stundum á kaffihús við neðanverðan Skólavörðustíginn, sem fyrir löngu er orðið hluti af bæjarsögu Reykjavíkur. Þetta kaffihús þykir einkar hlýlegt og eigandinn vill að innréttingarnar verði friðaðar. Þið getið séð margar myndir þaðan á teikniblogginu, sem er krækt á hérna til hægri.
Á þessu húsi hitti ég fólk sem er mikið á móti því að við Laugaveg 4-6 rísi fjögurra hæða steinsteypuhús sem á að hýsa hótel, verslanir og veitingahús, svipað og Hótel Frón á Laugavegi 24.
Þau sitja sjálf í kaffihúsi í fjögurra hæða steinsteypuhúsi við Skólavörðustíginn, sem snýr baki að þessu húsi sem á að rísa á Laugavegi 4-6.
Það er fólk sem býr til sál í bæjum, ekki byggingarefni. Það skiptir miklu máli hvernig hús eru byggð og hvernig skipulag er í bæjum, en það er ekki sjálfgefið að hús og skipulag frá fyrri öldum henti núverandi starfsemi. Það gerir það reyndar ekki nema í bæjum sem taka afar litlum breytingum.
Breytingar, breytinganna vegna er slæm lausn. Enn verra er að vera á móti öllum breytingum.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2007 | 00:30
Umhverfisvernd eða umhverfisnýting
Umhverfisráðherra hefur rætt um þá áráttu sveitarstjórna að hunsa umhverfisvernd á kostnað atvinnusjónarmiða.
Ég er hræddur um að sveitarfélag sem á í vök að verjast hlýtur að hugsa fyrst um hvort einhver atvinna sé í héraði. Engin atvinna, ekkert líf, ekkert fólk. Ekkert sveitarfélag. Til eru sveitir á Íslandi þar sem náttúruvernd skiptir miklu máli. Það er til dæmis Sléttuhreppur, norðan Jökulfjarða og Ísafjarðardjúps þar sem enginn býr. Annað dæmi eru Fjörður norðan við Grenivík. Þar býr heldur enginn.
Fyrir utan þetta held ég að umhverfisráðherrann tali oft um náttúruvernd en eigi við að landið eigi að vera nýtt fyrir ferðamennsku. Það er ekki endilega náttúruvernd. Sléttuhreppur og Fjörður hafa sloppið tiltölulega vel hvað þetta varðar. Þar liggja nær engir vegir og er aðeins fært örfáa mánuði á ári fyrir venjulegt ferðafólk.
Annars staðar er ekki svo gott um að litast. Allt landið kringum Mývatn og norður í Kelduhverfi er núna skorið af vegarslóðum. Þar þarf að takmarka umferð, ekki að auka hana. Nógur er uppblástur þar samt.
Auk þess þarf að huga að því hvaða áhrif ferðamennska til Íslands hefur á heiminn. Tvöföldun á fjölda þeirra, líkt og nú gerist á áratug, þýðir gífurlega aukningu á kolefnislosun.
Íslendingar eru í þeirri aðstöðu að þurfa yfirleitt að fljúga til annarra landa, vilji þeir fara út fyrir landsteinana. Ferð með skipi krefst enn meiri orkunotkunar á hvern farþega. Við þurfum þess vegna að huga að því hvað við getum boðið upp á að mikil kolefnislosun sé einungis vegna okkar eigin ferða, hvað þá vegna ferðamanna sem koma til landsins. Á nokkrum stöðum á landinu þarf einnig að huga að því að hvernig eigi að fara með landið við stöðugt meiri umferð.
Mikilvægast er þó að hafa í huga að þegar rætt er um umhverfisvernd er oftast verið að ræða um að nýta landið fyrir ferðamennsku. Undantekningar eru þegar svæði eins og Surtsey eru lokuð almennum ferðamönnum og aðeins nýtt til rannsókna.
Umhverfi | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2007 | 00:14
Eru veður að skipast í umhverfismálum?
Tveir hópar hafa verið áberandi í umræðu um fallvatnsvirkjanir á Íslandi. Annar hópurinn hafnar öllum eða nærri öllum sllíkum virkjunum vegna náttúruspjalla. Hinn hópurinn telur lítt byggjandi í landinu ef við notum ekki fallvötnin og jarðvarmaorku.
Stærsti hópur Íslendinga liggur þó líklega þarna á milli og setur ýmsa fyrirvara við virkjanir, hversu mikil spjöll verði af þeim, hvernig iðnaður sé rekinn með orkunni og hvað bygging virkjana þýði að öðru leyti. Þessi hópur hafnar ekki virkjunum alfarið, heldur telur að byggðasjónarmið, náttúruverndarsjónarmið og athafnasjónarmið verði að vega og meta saman. Ákvörðun Landsvirkjunar að orka úr neðri hluta Þjórsár verði ekki látin renna til álvera er nokkur vendipunktur í þeirri umræðu.
Það er greinilegt af pistli iðnaðarráðherra um þessa ákvörðun að hann sér færi á að Samfylking dragi vígtennur úr VG þegar Landsvirkjun kemur að einhverju leyti til móts við sjónarmið þessa hóps. Hann virðist vanmeta möguleika sveitarfélaga eins og Grindavíkur, Ölfuss (Þorlákshafnar) og Norðurþings (Húsavíkur) til að nema orku í eigin landi og nota til atvinnusköpunar í héraði. Að minnsta kosti gætir hann sín að minnast sem minnst á þessa staðreynd.
Það er ljóst að hér hefur verið beygt af leið sem fylgt hafði verið síðan á áttunda áratugnum, sem var að iðnaðarráðuneytið gerði allt til að búa í haginn fyrir þá sem á annað borð vildu setja á stofn orkufrekan iðnað á Íslandi. Sú stefna réð til dæmis verkum Jóns Sigurðssonar (A) þegar reynt var að setja á stofn álver á Keilisnesi. Þetta var yfirlýst stjórnarstefna í tvo áratugi og ráðherrar voru einungis að framfylgja þeirri stefnu.
Eins og Jón Sigurðsson (F) sagði (og var hæddur fyrir) var ráðuneytið hætt að vinna að þessu í hans tíð, enda nægir kaupendur til að orku. Í tíð Össurar hefur þetta síðan gengið svo langt að opinberu orkufyrirtækjunum er nú uppálagt að taka tillit til umhverfissjónarmiða.
Það gengur þó ekki svo langt að ekki eigi að virkja, þannig að samkvæmt þessum síðustu fregnum verða enn til þrjú uppistöðulón í farvegi Þjórsár neðan Búrfells, ef vilji þeirra sem stjórna fær að ráða. Það þýðir að sumir náttúruverndarsinnar hafa brugðist ókvæða við ákvörðuninni.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2007 | 01:04
Að vernda hús eða fólk
Hús eru rammi um líf fólks. Þau eru einnig heimild um þann tíma sem þau eru byggð á.
Þau verða að gegna margs kyns hlutverki. Þau verða að líta vel út en fyrst og fremst verða þau að vera góð að búa í eða starfa í. Hús sem ekki gegnir því hlutverki á að fara og annað hús að koma í staðinn sem gegnir því hlutverki betur.
Því miður horfa margir einungis til þess hvort hús líti vel út en huga minna að því sem bak við þau er, eða hvort þau sinni hlutverki sínu. Þannig er með gömul hús í miðbæ Reykjavíkur. Eins fallegt og er á þau að horfa, þá sýnist mér mörg þessara gömlu húsa ekki valda því hlutverki að vera miðbæjarhús á 21. öldinni.
Sú starfsemi sem helst þrífst í þeim eru krár. Það þýðir í mínum huga að þau eigi að fara burt og annað að koma í staðinn.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2007 | 01:49
Umhverfisvernd á villigötum á Íslandi
Því miður er umhverfisverndarstefna á Íslandi á of mörgum stöðum á villigötum í dag:
- Þegar barist er gegn fallorku og jarðorku en látið vera að berjast gegn meira mengandi orku.
- Þegar barist er gegn nýjum iðnaði en látið vera að berjast gegn eldri iðnaði sem mengar meira.
- Þegar barist er fyrir verndun gamals iðnaðarhverfis og rétti íbúa þar til að sjá engar breytingar á næsta nágrenni sínu.
- Þegar barist er gegn ræktun landsins.
- Þegar ekki er barist fyrir verndun sjávarlífs; botngróðurs, fiska, sjávarspendýra og annarra sjávarlífvera.
- Þegar ekki er barist gegn óheftri ferðamannavæðingu.
- Þegar látið er eins og til sé óröskuð náttúra á Íslandi.
- Þegar ekki er viðurkennt að mannskepnan hefur haft áhrif á alla náttúru á Íslandi og umverfisvernd er fólgin í mannanna verkum, þar með talinni gróðursetningu þar sem hún á við.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 00:08
Umhverfið er skepna
Umhverfisvernd á Íslandi árið 2007 sýnir ekki beinlínis mikla tilfinningu fyrir náttúru. Þess í stað er rifist um hvaða iðnaður teljist góður og hver slæmur. Mörgum þykir furðulegt þegar umræða um umhverfisvernd snýst svo mikið um verndun á sjötugu iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ sem raskaði öllu sínu umhverfi á sínum tíma og litaði Varmá í öllum klæðalitum.
Þetta er engin fjarstæða. Margir hugsa fyrst og fremst um umhverfi sem náttúru. Umhverfi er öllu víðtækara eins og sést þegar lesendur þessara orða segja við sjálfa sig nánasta umhverfi og líta svo í huganum yfir hvað það er. Það er ljóst að orðið náttúra ræður engan veginn við það, heldur hugsar fólk um alls kyns manngerða hluti og stofnanir, vinnustað, skóla, verslanir, þá staði sem það ver frístundum og svo kannski náttúru.
Nýleg skilgreining hljóðar þess vegna svona: Umhverfi: Samheiti fyrir samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta. (Lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, 2. grein.) Það er ljóst að skilgreiningin er víðtæk. Margir munu vilja skilgreina umhverfi þrengra en þetta skýrir hvernig á því stendur að fjöldi fólks sér það sem helstu umhverfisvernd að halda hlífiskildi yfir gömlu iðnaðarhverfi.
Verndun Álafosshverfis er ekkert eindæmi. Um allt land er fólk sem dregur taum eldri iðnaðar á kostnað þess sem á að koma. Þannig heyrist lítið talað um mengun og umhverfisvá af fiskimjölsverksmiðjum, járnblendiverksmiðju og sementsverksmiðju, en álver teljast ill. Hér verður ekki dregið í efa að álver mengi. Það virðist skipta meira máli hver á og rekur iðjuverin en ekki hversu mikið þau mengi. Einnig skiptir máli hvort iðnaðurinn hafi haslað sér völl fyrir meira en mannsaldri, þannig að núlifandi fólk þekki ekki annað en að þessi mengun hafi verið til staðar.
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar