Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Umhverfi

Röskuð eða óröskuð náttúra

Til er fólk sem talar um óraskaða náttúru á Íslandi og telur það umhverfisverndarstefnu að raska núverandi náttúru sem minnst. Það er þó greinilegt á öllum heimildum, bæði rituðum og náttúrulegum, að íslensk mannskepna hefur breytt ásýnd landsins svo um munar frá landnámi. Fyrirrennarar okkar náðu að breyta öllu landinu nema jöklunum. Það var ekki fyrr en með 20. öldinni sem mannskepnan náði að hafa áhrif á viðgang þeirra.

Nýlegar rannsóknir á minjum um skóga benda til að breytingin hafi verið mest fyrstu þrjár aldir búsetu en þær átta sem fylgdu voru hreint ekki áhrifalausar heldur.

Það er þess vegna ekki spurningin um hvort fólk vilji breyta landinu, heldur hvernig. Hugmyndir um að við getum bætt fyrir það sem gert hefur verið krefjast þess að fólk viti vel hvert ástandið var.

Hvað sem gert verður krefst þess að fólk viti vel hvaða afleiðingar það hafi að koma hlutum í það horf sem vilji stendur til. Það er rétt að hafa í huga þegar rætt er um óraskaða náttúru að þar fer oft minni þekking en efni standa til.


Án bíls?

Hjólreiðafólki lærist fljótt að á það er litið sem skemmtilega og skrýtna sérvitringa sem eigi þó hvorki að vera á gangstéttum né götum, heldur einhvers staðar þar á milli eða annars staðar. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa búið til stíga fyrir reiðhjól sem þræða lengstu leiðir í borgarlandinu. Hjólafólk á að deila þeim með gangandi og hlaupandi fólki. Það rennur upp fyrir þeim sem nota þessa stíga að þeir voru hugsaðir fyrir frístundahreyfingu en ekki sem samgönguleiðir. Þeir sem vilja nota hjólið til daglegra nota þurfa enn að deila gangstéttum og götum með vegfarendum þar. Það verður þó að taka fram að Reykjavík er framarlega í lagningu hjólreiðastíga, og að þetta verkefni er einnig á höndum samgönguyfirvalda í landinu.

Spurning Magnúsar Bergssonar á landsfundi VG fyrr á þessu ári um það hvernig fólk hefði komið á þann fund var ekki að ástæðulausu eins og svör fundargesta sýndu. Enginn notaði almenningssamgöngur, enginn kom gangandi á fundinn og enginn kom hjólandi nema Magnús og einn fundargestur sem gaf sig fram síðar. Skýringuna er meðal ananrs að finna meðal íslensks „útivistarfólks” sem nota sérstaklega stækkaða og breytta jeppa. Eigendur þannig jeppa segjast oft þurfa að eiga þá til að komast á fjöll þegar svo ber undir. Þegar nánar er að gáð eru eigendurnir í bæjum og borg meira en 330 daga á ári og nota þessi hálfvöxnu tröll til að komast þar á milli staða. Svokölluðum borgarjeppum (SUV, sports utility vehicles) fer nú fjölgandi og mun halda áfram meðan landsmenn hafa efni á þeim eða telja sig hafa efni á þeim. Fundargestir VG fara ekki endilega þar fremst í flokki en eru greinilega að minnsta kosti alveg jafn miklir einkabílanotendur og fólk í öðrum flokkum.

Umhverfisstefnan er meiri í orði en á borði. 


Umhverfisstefna Íslendinga

Íslendingar eru allir umhverfissinnar þegar við þá er rætt. Það er sérstök tegund umhverfisverndarstefnu miðað við það sem gengur og gerist í heiminum. Að mörgu leyti sýnir umræðan að Íslendingar eru að færast nær því sem jarðarbúar halda almennt, en nokkur dæmi sýna skýrt að þjóðin er sér á báti. Oft virðist það einmitt gert til að undirstrika meinta sérstöðu lands og þjóðar.  

Almennt er umhverfisvernd þjóðarinnar meiri í orði en á borði en það sést víðar um heiminn. Um það geta þeir vitnað sem hafa reynt að spara orku, þeir sem ekki aka um á bílum, þeir sem vilja vernda lífríki á sjó og landi, þeir sem hafa farið fram á að sá sem mengar borgi brúsann og á annan hátt unnið að umhverfisvernd á þann hátt sem víðast er talið henni til framdráttar. Þannig fólk gæti hafa notað reiðhjól síðustu tuttugu ár en ekki mengandi bíla. Þannig fólk er álitið skrýtnar skepnur á Íslandi.


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband