Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fræðin leysa ekki allan vanda ein og sér

Það er gott og gilt að fást við fræði. Margir telja að hægt sé að leysa öll vandamál með því að beita fræðilegri nálgun á allt. Nóg sé að ræða alla hluti þar til þeir eru leystir. En heimurinn er ekki kennslustofa í háskóla.

Gott háskólanám er gott vegarnesti, hjálpar þegar fólk er farið að vinna faglega vinnu. Fræðimennskan er hins vegar ekki fagleg vinna nema fyrir þau sem fást við kennslu eða rannsóknir. Það gera ekki allir, meira að segja ekki allir sem vinna í háskólum.

Því miður sé ég hér stóran hóp af fólki sem heldur að umræðan sé upphaf og endir alls. Það eru miklar takmarkanir á þessum hugsanagangi. Honum hefur fylgt hroki í garð framkvæmda, vinnu og sérstaklega iðnaðar, nema þá helst iðnaðar sem er orðinn nógu gamall (ekki verra ef fræðifólkið hefur alist upp við þennan iðnað) en allt sem er nýtt er ógnandi.

Ef þetta fólk gæti tekist á við þessa umræðu, komist að niðurstöðu og tekið ákvörðun væri þetta ekki slæmt, en margt af því er haldið ákvörðunarfælni á háu stigi, stigi sem nefna má ákvörðunarlömun (decision paralysis). Þetta fylgir þeirri stöðu þeirra sem þau hafa valið sér þar sem umræðan er viðfangsefnið og ekki nauðsynlegt að ná niðurstöðu í málinu þegar hægt er að ræða það áfram. Það getur jafnvel verið verra að ná niðurstöðu af einberum ótta við að umræðunni ljúki.

Það er einnig til spegilmynd þessa vandamáls, sem er framkvæmdagleðin sem hraunar yfir alla umræðu. Meðalvegurinn er vandrataður en hefur alltaf þann kost að vera gullinn, og þá á ég ekki við efnislega.

6,1 segir USGS

Þessi skjálfti kom eins og högg hér í byrjun, en svo komu þrjár greinilegar bylgjur. Það var líkast því að vera í skipi þegar verið er að ræsa stóra aðalvél.

Þegar svona stórir skjálftar verða, eins og 17. og 21. júní 2000, þá er erfitt að greina stærð þeirra afar nálægt. Oft koma betri upplýsingar í byrjun lengra frá, en fræðingar eiga eftir að greina þetta betur.

Ég vildi á meðan vísa á Earthquake Hazards Program hjá bandarísku landmælingunum, U.S. Geological Survey. Þau gáfu upp stærðina 6,7 en hafa nú endurmetið þetta sem 6,1 (opnast í nýjum glugga).

Þau sem vilja lesa meira um skjálfta víða um heim geta litið á forsíðu þeirra (opnast í nýjum glugga).


mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafndægur, fullt tungl á föstudaginn langa og páskar

Einfalda reglan sem margir nota um tímasetningu páskanna er að þeir beri upp á fyrsta sunnudag eftir fyrsta fullt tungl eftir jafndægur. Það gekk hratt þetta árið. Jafndægur voru á skírdag, jafndægramínútan kl. 05.48 ef einhver skyldi vilja vita. Fullt tungl er í dag, föstudaginn langa, klukkan 18.40.

Þannig verða páskar með snemmsta móti. Það þýðir að uppstigningardagur verður 40 dögum síðar, 1. maí, sjálfan verkalýðsdaginn, og að hvítasunna verður 11. maí, lokadag gömlu vetrarvertíðar. Tímasetning páska er fundin á öllu flóknari hátt en reglan sem er hérna að ofan dugir í nær öllum tilfellum og er auðveld að muna. Gleðilega páska! 


Lognið hlær svo dátt

Ég átti leið framhjá Veðurstofunni fyrr í dag. Ég sá fólk að rölta eftir Bústaðaveginum en eitthvað stemmdi ekki alveg. Það var ekki fyrr en ég var kominn vestur í bæ að það kviknaði á perunni: Það hafði ekki baksað með eða á móti vindinum.

Það var logn á hádegi í dag og aftur núna undir kvöldið á Litlu-Öskjuhlíð, eða hvað sem veðurathugunarstaður Reykvíkinga er kallaður um þessar mundir.

Mér finnst þetta ekki hafa gerst síðan í október. Kannski er minnið farið að bresta og ég treysti á að haukfránir lesendur leiðrétti mig. Á meðan svelgi ég í mig lognið.

Á Litlu-Öskjuhlíð, líklega þar sem seinna kom vatnstankur við gamla golfskálann, fögnuðu Reykvíkingar nýjum aldamótum á síðasta degi ársins 1900. Þrjátíu árum síðar tóku þeir á móti pósti þar úr loftfarinu Zeppelin. Þar reyndi hópur fólks að búa til skíðabrekku, sem nú liggur milli Hörgshlíðar og Bústaðavegar, við mikið erfiði. 

 


Vísindi sem komast öll að einni niðurstöðu

Þegar vísindafólk á alltaf eitt og sama svarið við öllum spurningum sem það varpar fram, þá má fara að draga í efa að um mikil vísindi sé að ræða.

Ef ég stofna rannsóknarstofnun um Evrópumál og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að það sé best sem Evrópusambandið hefur ákveðið, og að besta niðurstaðan í hverju máli sé að Ísland gangi í sambandið, þá má álykta að tilgangur stofnunarinnar sé ekki hlutlaus rannsókn.

Þá má álykta að hlutverk stofnunarinnar sé að vinna stjórnmálaskoðun ásmegin. Það er ekkert rangt við að færa rök að stjórnmálaskoðunum sínum, en það er ekki rétt að almenningur greiði fyrir slíka vinnu og að hún sé kölluð rannsóknir. Í besta falli er þar um að ræða rannsóknir stofnunarinnar á því sem gerist í kolli þeirra sem þar starfa.

Það er gott að fólk færi rök að ágæti Evrópusambandsins og því að Ísland gangi í það. Það fer best á því að það sé gert af áhugamannasamtökum sem finni áhuga félaga sinna farveg. Það er rangt að kalla það vísindi. 


Besta frétt vikunnar

Besta frétt vikunnar er að nú er loks spáð skaplegu veðri, í næstu viku.

Mér finnst varla hafa komið sjö samhangandi dagar án þess að einhver hvellur hafi orðið, síðan í október. Þetta er kannski ekki voðalegt, lítill snjór og engin manndrápsveður, aðallega leiðinlegt til lengdar.

Svo er bara að sjá hvernig helst. Það eru enn eftir 12 vikur af vetri. Það held ég nú. 


mbl.is Stormi og mikilli rigningu spáð seint í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð langafastan

Undanfarna daga hafa verið haldin karnivöl um víðan heim. Carne vale þýðir að kveðja kjötið. Nú hefst nefnilega langafasta.

Hinir kristnu Íslendingar halda hana að sjálfsögðu heilaga og bragða ekki kjöt aftur fyrr en að 40 dögum liðnum, á sjálfan páskadag.

Hann er snemma á ferðinni þetta árið, eins snemma og hann getur orðið. Á morgun kviknar nýtt tungl, þorratungl. Útreikningar á því hvenær páskadagur verður geta orðið flóknar, þannig að stundum deildu kirkjudeildir um það hvenær þeir væru. Á Íslandi má miða að jafnaði við að páskadagur sé fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fulla tungl eftir þorratungl.

Nýja tunglið á morgun þýðir nýtt ár hjá stórum hluta mannkyns. Þá byrjar ár rottunnar. 


Veður og vetur af venjulega taginu

Nú má heyra í íbúum á höfuðborgarsvæði að þetta hafi verið voðalegur vetur. Hann er reyndar rétt byrjaður, vetur byrjar eftir jól, á nýju ári. Víst er að veðrið fyrir jól var hundleiðinlegt, sífellt hvassviðri, en þetta er búið að vera ágætt eftir þau.

Svolítill snjór liggur á götum en ekki svo mikið að ég geti ekki hjólað. Ég held að það hafi verið verra bæði 1983 og 1984. Það má eflaust fletta upp einhverjum verri mánuðum 1991, þegar ég þurfti að leggja hjólinu og eitthvað var víst leiðinlegt árið 2000.

Þetta veður síðan í október er það sama og ég ólst upp við. Venjulegur íslenskur vetur er hundleiðinlegur hér sunnan heiða. Þeim sem líkar ekki við hann þurfa að finna sér vetrarhús sunnar á hnettinum, eða búa á Akureyri þar sem veðrin eru stilltari og veturinn hvítur. Nú hjóla ég í bæinn.


35 ár frá gosbyrjun í Eyjum

Þegar ég var vakinn þennan morgun, 23. janúar 1973, snemma eins og flestir landsmenn, neitaði ég að trúa systur minni sem sagði að það væri byrjað að gjósa á Heimaey. Ef þú trúir því ekki, hlustaðu bara á útvarpið, sagði hún. Það var nóg til að sannfæra mig. Klukkan ekki orðin sex og útvarpið í gangi, það hlutu að vera stórtíðindi sem höfðu gerst.

Þegar er horft til baka sér maður hvað hefur breyst í viðbúnaði við gosi eins og þessu. Þar stendur upp úr að jarðskjálftamælakerfi segja okkur miklu meira en þeir fáu mælar sem sýndu hreyfingu 22. janúar 1973. Þá voru menn ekki vissir hvort hreyfingin væri við Veiðivötn eða í Vestmannaeyjum.

Mælingakerfið byrjaði að þéttast með sænska SIL-kerfinu sem náði yfir Suðurlandsundirlendið og Vestmannaeyjar á tíunda áratugnum. Síðar bættu Veðurstofan, Orkustofnun og aðrir aðilar við mælum, þannig að fréttastofa RÚV gat sagt frá því 26. febrúar 2000 að Hekla myndi byrja að gjósa innan hálftíma.

Heppnin var með Eyjamönnum þegar kom að því að bjarga mannslífum. Daginn áður var bræla en það hafði lægt með kvöldinu, þannig að flotinn lá inni og hægt var að flytja 5000 manns á örfáum klukkustundum. Bátarnir sigldu í slæmum sjó til Þorlákshafnar og undrafljótt gekk að skipa upp fólki þar, þannig að skipstjórar rétt renndu upp að og héldu við, og héldu frá um leið og síðasti farþegi var farinn frá borði. Þá tók við sigling aftur til Eyja og lítil hvíld hjá flestum þeirra. Nokkrir farþegar gátu komist með flugvélum í land en gosrásin var stutt frá enda annarrar flugbrautarinnar.

Svona heppni verður seint fullþökkuð en það er ekki hægt að treysta á að veðurguðirnir verði alltaf hagstæðir þegar tekur upp á því að gjósa, þannig að gott viðvörunarkerfi getur bjargað hundruðum mannslífa. Árið 1973 hafði síðast gosið í Heimaey um 5000 árum fyrr. Síðast gaus nærri Reykjavík fyrir um 1000 árum. Hér er ekki verið að spá um að nein slík tíðindi séu að gerast við Grindavík, en sunnanverður Reykjanesskaginn er virkt eldfjallasvæði.


mbl.is Jörð skelfur við Grindavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef fitan er faraldur, hvað er þá gert í málunum?

Góðar heimildir segja að það sé offitufaraldur í gangi og styðja mál sitt með þekktum stærðum. Hlutfall þeirra sem eru með massahlutfall (BMI, body-mass index) hærra en 30, fer síhækkandi.

Þetta leiðir af sér þekkta sjúkdóma, skemmir líf þeirra sem búa við þessa þyngd og dregur þetta fólk til dauða fyrr en ella. Hér er þess vegna um alvarlegan heilbrigðisvanda að ræða.

Hvað er verið að gera? Ég þekki góð ráð frá Lýðheilsustöð, ummæli lækna um að taka upp betri lífshætti og góðan áróður víðs vegar.

Ég sé minna af ráðum til að auka raunverulega heilsusamlegt líferni, auka hreyfingu og færa mataræði yfir á þekkta hollustu.

Enn er ódýrasti maturinn bæði sætur, feitur og saltur. Feitmeti er niðurgreitt og séð er um að sætmeti sé á lágum tollum. Um leið er hollur matur flokkaður og tollaður sem lúxusfæði.

Er verið að gera eitthvert raunverulegt átak í að auðvelda umferð gangandi fólks og hjólandi? Ég spyr, vegna þess að ég nota bæði fætur og hjól og fæ góð orð í eyra, en lítið meira.

Spurningin er því: Hvað er verið að gera vegna offitunnar? Ef stjórnvöld ætla að reka stofnanir sem reka bara áróður fyrir hollari lífsháttum, meðan sömu stjórnvöld stefna gegn því með ódýrri óhollustu og óheilbrigðum samgöngum, þá verður vandinn til staðar.


Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband