Færsluflokkur: Vísindi og fræði
22.12.2007 | 10:44
Vetrarsólhvörf 2007
Nú er lengsta nótt ársins liðin.
Það eru dimmir dagar hér sunnan heiða, dumbungur og sólin sést varla. Hún skríður líka letilega yfir Lönguhlíðina (ekki þá í Reykjavík) og skellir sér niður um leið og færi gefst.
Þá vakna spurningar um ljós og skugga. Hvernig er ljósið á litinn? Er það gult, hvítt, eða blátt?
Svarið er að það er sem betur fer gagnsætt. Annars myndum við lifa í þoku, gulri, hvítri eða blárri, þegar ljóst er og ekki sjá neitt. Ljósið sést aðeins þegar það mætir einhverri hindrun og tekur þá lit.
Myrkrið er enn dularfyllra en ljósið. Það er hvorki eitt né neitt en við sjáum ekki í gegnum það!
Vetrarsólhvörf eru þegar jörðin hættir að velta sér til suðurs á snúningi sínum um sjálfa sig, um leið og hún þeystist kringum sólina, og með henni um miðju vetrarbrautar. Þetta er nóg fyrir hvern sem er til að fá hausverk, eins og vetrarmyrkrið sjái ekki um það.
Þetta er pendúlhreyfing sem tekur ár. Mínútan sem jörðin fer að snúa sér til norðurs er átta mínútur yfir sex á laugardagsmorgni 22. desember þetta árið. Eftir það fer dag að lengja, sem gerist hægt til að byrja með.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2007 | 04:49
Fjallað um gosið í Lakagígum í Economist
Í jólahefti Economist sem kom út í London í morgun er meðal annars vitnað í Jón Steingrímsson, sem kallaður var eldklerkur.
Tilefnið er grein um gosið í Lakagígum 1783, móðuharðindin sem fylgdu í kjölfarið og áhrif gossins um heim allan.
Greinin sýnir hvernig gosið hafði áhrif á hitafar í Evrópu, Ameríku og líklega í Japan. Það hefur líklega orsakað breytingar á rennsli í Níl og leitt til hungursneyðar í Egyptalandi.
Á Íslandi urðu áhrifin mest. Stór hluti alls kvikfjár féll, og í framhaldi fjórðungur þjóðarinnar.
23.9.2007 | 00:06
Jafndægur á hausti 2007
Jafndægrin miðast við þann tíma sem miðja sólar stenst á við miðbaug jarðar. Sólin er hins vegar aðeins stærri en miðja hennar, þannig að við sjáum sólarupprás áður en við sjáum miðju hennar gægjast upp fyrir sjóndeildarhringinn, og sólarlag eftir að við sjáum miðju hennar hverfa niður fyrir hringinn. Ljósbrot í andrúmsloftinu lengir svo birtutímann, þannig að dagsbirta er lengri en 12 tímar við jafndægrin.
Þetta þýðir líka að lengsta nótt á miðjum vetri verður ekki jafnlöng og lengsti dagur verður á sumrin. Lengsti sólargangur í Reykjavík er frá tæplega kl. 3 að morgni til skömmu eftir miðnætti, en stysti sólargangur er rúmir fjórir tímar. Á Íslandi njótum við að meðaltali um 13 tíma dagsbirtu.
---
Þegar eitthvert lát verður á haustlægðunum förum við að líta til himins og sjáum stjörnufansinn glitra. Fyrir tugþúsundum ára fóru menn að raða saman stjörnum á himinfestingunni í merki. Eins og orðið himinfestingin sýnir, héldu þeir að allar stjörnur væru jafnlangt í burtu. Seinna sá fólk að svo var ekki, heldur eru stjörnur saman í merki sem er langt á milli. Þannig er Sírius í Stóra hundi 8,6 ljósár frá okkur, Adara í sama merki er 430 ljósár frá okkur og Furud í sama merki 336 ljósár frá okkur. Það tæki hraðasta mannaða geimfar sem hefur farið um 524.000 ár að komast til Síríusar. Hún skín skært, enda stærsta stjarnan sem situr nálægt okkur.
Önnur fyrirbæri sem þið sjáið á himninum eru lengra í burtu. Þegar komið er út úr borginni má stundum sjá Vetrarbrautina liggja eins og slæðu yfir þveran himininn. Hún er talin vera um 100.000 ljósár í þvermál. Við liggjum utarlega í Vetrarbrautinni. Ef tækist að koma boðum á ljóshraða yfir til einhvers sem gæti skilið þau hinum megin í Vetrarbrautinni, væru liðin 150.000 - 200.000 ár áður en fyrsta svar kæmi til baka. Mannkyn hefur þróað nær allt sem kallað er menning á þetta löngum tíma.
---
Jafndægramínútan þetta haustið er kl. 9:51 að morgni sunnudagsins 23. september.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar