Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
20.4.2008 | 13:08
Höfundaréttur verndar vinnu
Höfundaréttur er gerður til að vernda hugverk, vinnu sem lögð er í að setja saman verk sem byggir að miklu leyti á hugmyndum. Rétturinn þýðir að ýmsir sjá sér hag í að leggja í þá vinnu og gefa hana út. Ef ekki kæmi endurgjald, verndað af höfundarétti, yrði þessi flóra miklu fátæklegri og allir myndu bera skaða af.
Það líta ekki allir þannig á málið og sumir telja að höfundaréttur sé til trafala. Eins og má sjá á umræðu sem Salvör Gissurardóttir kveikti eftir fund Wikifólks á fimmtudaginn, þá sýnist sitt hverjum. Mér finnst meinlegt að sjá hversu margir sem þar tjá sig hafa lítið haft fyrir að kynna sér margslunginn heim höfundaréttar.
Þeir sem lesa þessi orðaskipti þurfa að hafa í huga að vilji margra stendur til að ekkert efni á Vefnum sé varið reglum höfundaréttar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2008 | 21:14
Tilgangur loðteninganna
Ég er stundum seintekinn, það skal viðurkennast. Ég spurði í haust, laust eftir jafndægur, hvað þetta væri með loðteningana (furry dice), hvort þetta væri alþjóðlegt pungtákn?
Nú hef ég komist að því hvaða tilgangi þeir þjóna. Þetta er ekki bara lausn fátæka fólksins sem hefur ekki efni á almennilegu reðurtákni (bimma eða reinsa) og fjárfestir í hálfhreðjum í staðinn.
Ég hef gert hávísindalega könnun. Hún fer þannig fram að ég keyri á lögleyfðum hámarkshraða. Þá kemst ég að því að Íslendingar eiga góða bíla. Nærri allir aðrir bílar eru hraðskreiðari!
Sérstaklega kemur í ljós að litlar Yaris-tíkur eða viðlíka námsmannabílar eru sérlega hraðskreiðir. Oftar en ekki skarta þeir loðteningum (furry dice). Þess vegna dreg ég þá ályktun að loðteningarnir séu ekki settir inn sem lukkutákn, heldur gegni því hlutverki að gera bílinn hraðskreiðari!
Þeir eru þess vegna bílhraðall (car accelerator). Þetta er niðurstaða könnunarinnar.
Lífstíll | Breytt 10.4.2008 kl. 07:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 19:44
Æ, ekki tala um peninga
Hvað gerist þegar fólk eignast mikið fé en skammast sín fyrir að ræða það? Of mikil eyðsla er yfirleitt niðurstaðan.
Skelfing stór hluti þjóðarinnar er fullkomlega úti að aka í fjármálum og hjá sumum gætir stolts yfir því. Þetta má sjá hjá fólki sem hefur mörg ráð með að afla fjár, en virðist enga stjórn hafa á útgjöldunum. Þannig eru þeir tekjumeiri með meiri vanda en þeir tekjuminni af því að þeim hefur leyfst meira.
Hvernig skólakerfi er það sem undirbýr ekki fólk til að lifa í samfélaginu? Oft virðist eiga að ala upp fyrirmyndarfólk fyrir löngu liðinn tíma.
Það eru nokkrir ljósir punktar í þessu myrkri. Sístækkandi hópur fer í háskóla og af þeim er stór hópur sem lærir á þessi mál. Sjötti hver háskólanemi er að læra viðskiptafræði, stjórnun, rekstur eða fræði tengd þeim. Nokkuð stór hópur lærir eitthvað um stærðir og viðskipti í verkfræði, raunvísindum og lögfræði.
Eftir stendur sá hluti sem fer í framhaldsskóla, til dæmis iðnnám, og þarf ekki að kunna skil á fjármálum við útskrift, af því að það er ekki við hæfi að binda það í skyldu. Allt of margir nemendur í hugvísindadeildum og félagsvísindadeildum háskóla eru ratar í stærðfræði og komast upp með það. Það versta er að þetta fólk þarf ekki að læra mjög flókna stærðfræði, kunna skil á þríliðu eða getað reiknað prósentuhlutfall á annan hátt, ofan á og af heildarverði, það er ágætis byrjun.
8.4.2008 | 08:49
Meira af Karli Sighvatssyni
Í október skrifaði ég um Kalla Sighvats:
Má þakka tækninni?
Já, ég held að margt smátt geri margt gott og tæknin er alltaf að hjálpa til með litlum þægindum.
Eitt dæmið er að geta hlustað á þátt um mesta organista íslenskrar dægurtónlistar, Karl Sighvatsson, næsta hálfa mánuðinn. Magnað.
Jæja, nú er búið að endurflytja þáttinn og enn má hlusta á hann í hálfan mánuð, til sunnudagsins 20. apríl. Enn magnaðra.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 20:56
Pound og Písasöngvarnir
Magnús Sigurðsson hefur þýtt Písasöngva Ezra Pounds, sem var fyrst frægur fyrir ljóðlist en síðar frægari fyrir fasisma.
Það má segja um Pound eins og samtímamann hans, James Joyce, sem á að hafa sagt að hann krefðist ekki neins af lesendum sínum, öðru en því að þeir eyddu allri sinni ævi að lesa verk hans og reyna að skilja þau.
Þetta er hið ferlegasta torf, fullt af slettum í ýmsustu tungumál og þarf að hafa frönsku, kínversku, latínu og fleiri mál á hraðbergi til að skilja hvað hann er að fara.
Þetta er of mikið fyrir venjulegan mann. Þá kemur að óvenjulegum manni, sem er Magnús Sigurðsson, ættaður frá Ísafirði og úr Mosó, sonur Áslaugar og Sigga blóma.
Hér verður hægt að hlusta á þátt um þetta stórvirki næstu tvær vikur, eða til sunnudags 20. apríl.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2008 | 20:27
Hálfur sannleikurinn um dauða Díönu og Dodi
Í september skrifaði ég:
Díana prinsessa er aðalefni frétta í Bretlandi, 46 árum eftir fæðingu hennar og 10 árum eftir lát hennar. Réttarrannsókn á láti hennar hefst á þriðjudag og lýkur um hálfu ári síðar með þeirri niðurstöðu að bílstjórinn Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn að auki þegar hann ók á burðarsúlu í Pont d'Alma-göngunum á 100 km hraða á klukkustund að morgni sunnudagsins 31. ágúst 1997. Mohammed Al Fayed mun neita að horfast í augu við niðurstöðuna, en það eru fréttir komandi viku einhvern tíma á næsta ári, með hækkandi sól.
Jæja, ég náði að hafa þrjú atriði rétt þarna, en það fjórða bættist við. Nú er hækkandi sól, og Mohammed Al Fayed neitar að horfast í augu við niðurstöðuna, sem var að dauði Díönu og Dodi Al Fayed eru að kenna því að Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn en líka að papparassarnir hafi átt sinn þátt í drápi þeirra.
Mohamed Al Fayed vonsvikinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 00:02
Skoska úrvalsdeildin í byrjun apríl
Á laugardagskvöld leit út fyrir að Rangers væru búnir að tryggja sér skoska deildarmeistaratitilinn. Celtic tapaði 0-1 fyrir Motherwell (ekki lengur ne'er do well Motherwell) og Rangers voru með pálmann í höndunum.
Þá tók Dundee United völdin í sunnudagsleiknum á móti Rangers og skoraði þrjú mörk. Jafnoft náðu Rangers að svara í sömu mynt og niðurstaðan varð jafntefli. Baráttan er núna hörð milli Dundee United, Motherwell og Hibs um sæti í UEFA-keppni í haust.
Nokkur lið eru búin með 33 leiki og ljóst að Hearts, Inverness Caledonian Thistle, Kilmarnock og St. Mirren verða í neðri hluta deildarinnar eftir að 33. umferð lýkur. Þá er deildinni skipt í tvennt, og spila efri 6 liðin innbyrðis og neðri 6 liðin innbyrðis. Lið í neðri hlutanum getur ekki náð ofar en 7. sæti, þannig að Hearts lenda í hæsta lagi þar.
Aberdeen og Falkirk mætast á mánudagskvöld. Liðið sem vinnur lendir í efra hluta deildarinnar, en jafntefli þýðir að Falkirk vermi það sæti. Þau keppa á Pittodrie í Aberdeen og ég spái heimasigri.
Deildin er með 12 lið og aðeins eitt sem fellur. Gretna er löngu fallið með 6 stig á botninum og mun eiga í miklum erfiðleikum að halda úti liði í skosku 1. deildinni næstu leiktíð. Hamilton Academicals (Accies) eru þar í efsta sæti með 4 stiga forskot á Dundee (City) sem mun veita þeim harða keppni, enda vant að vera í efstu deild. Hamilton og Dundee mætast í síðustu umferð 1. deildarinnar.
Á laugardagskvöld voru Rangers með 6 stigum meira en Celtic og 2 leiki til góða. Þeir hafa náð lengra í UEFA en Celtic gerði í Meistaradeild Evrópu og frestað leikjum af þeim sökum. Þó að liðin eigi eftir að keppa tvisvar innbyrðis í deildinni mátti heita að titillinn væri í höndum Rangers en eftir jafnteflið við Dundee má segja að Celtic hafi möguleika. Celtic og Rangers keppa næst á Parkhead, heimavelli Celtic þann 16. apríl.
Rangers keppa svo við Sporting Lisboa á fimmtudag eftir 0-0 jafntefli á Ibrox, um hvort þeirra mætir sigurvegara úr leik Fiorentina og PSV. Það er að miklu að keppa. Sporting er um þessar mundir í fjórða sæti deildarinnar í Portúgal, sem Porto er nú búið að vinna með miklum glæsibrag, 18 stiga forskot á Benfica og Guimaraes þegar 5 leikir eru eftir.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 23:04
Blessað Vefritið
Nú þykir mér týra á skarinu hjá gamla manninum. Hvorki meira né minna en heilt vefrit vill verða bloggvinur. Með fullri virðingu fyrir því úrvals fólki sem fyllir þennan flokk hjá mér fyrir, þá er ekkert þeirra heilt vefrit.
Ég hef nokkrum sinnum gluggað í ritið en fór núna að skoða betur hverjir skrifa það. Ég þóttist vita áður að þarna færi ungt jafnaðarfólk en af einhverjum ástæðum segjast þau tengjast hvorki stjórnmálaflokkum né félagasamtökum. Gott og vel, en þau fáu nöfn sem ég þekki þarna er ungt jafnaðarfólk.
Veri þau velkomin öll, svo lengi sem ég þarf ekki alltaf að vera sammála þeim!Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 17:51
Samúð þeirra með sjálfum sér er takmarkalaus
Það er sérkennilegt að horfa á hópa mótmæla hækkandi eldsneytisverði, hópa sem reynast svo hafa borgað lægsta eldsneytisverðið í þjóðfélaginu. Hópa sem mótmæla lögum sem ætlað er að auka öryggi á vegum landsins. Hópa sem eiga í viðskiptum og hljóta að velta eldsneytisverðinu yfir á neytandann.
Það hefur síðan komið í ljós að hlutur hins opinbera er lægri hér á landi en á Norðurlöndum og öðrum nágrannalöndum, þannig að eldsneytisverðið er þar með lægra en þar.
Þannig blasir þetta við að fólk á eftir að eiga í viðskiptum við þá sem stöðvuðu umferð til að mótmæla annars vegar hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti og hins vegar almennum reglum sem ætlað er að varðveita líf og limi. Þannig reglur eru bæði í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. Hvernig íslensk mannslíf verða öðruvísi metin á þröngum vegum landsins er enn óútskýrt.
Hvenær skyldu verða tekin upp mótmæli gegn fólki sem hefur takmarkalausa samúð með sjálfu sér og er tilbúið að skurkast í þjóðfélaginu bara til að viðskiptastaða þess batni? Er ekki hætt við að það verði ansi tímabundið? Hver vill eiga viðskipti við þannig fólk?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 08:10
Þrjótagæskan
Það er talað um aumingjagæsku í þjóðfélaginu. Mér sýnist miklu meira um þrjótagæsku. Fyrir nokkrum árum hefði ég kallað þetta Kioísku, en núna er nær að nefna þetta Kallabjarnaísku.
Þá kemur þrjóturinn í sjónvarp og segist saklaus af öllum ásökunum. Svokallaðir fréttamenn hafa ekki fyrir að skoða sakirnar heldur leyfa þrjótunum að væla og setja sig í hvolpastellingar, horfa tárvotum augum framan í þjóðina og fá ofurskammt af samúð.
Þetta er skylt því heilkenni þjóðarinnar að vera í orði kveðnu mótfallin afbrotum en dást undir niðri að afbrotamönnum ef þeir eru nógu töff. Fáir dásama kók- og spíttneyslu í orði, en sumir vita svo ekkert flottara en að hafa spítthaus nærri sér, gangandi mótormunn, einhvern sem aldrei hefur farið að sofa svo vitað sé.
Spíttararnir eiga meira að segja sinn eigin heimspeking sem skrifar eins og Kerouac á bensedríni um það hvernig þjóðfélagið er allt eins og Stalín spáði. Svo kemur hann í spjallþátt á RÚV. Þáttastjórnandinn, sem lítur út eins og Tweedledee fer að skríkja og segir að heimspekingurinn hafi hraðan heila. Heimspekingurinn má varla vera að því að þakka, nuddar á sér nefið í nítugasta skiptið á korteri og heldur áfram manískri ræðunni um allt og ekkert.
Afbrotamenn eiga skilda samúð og umönnun en það er engin þörf að lyfta þeim á stall. Spítthausar eru úldin tuska. Þrjótagæskan er ein hlið á löghlýðinni millistétt sem vill fá spennufíkn svalað með því að fylgjast með töffurum sem lifa svaðalegar en fólkið gerir sjálft. Önnur hlið á þeim peningi er að dást að listamönnum meira eftir því sem þeir lifa í meira sjálfskaparvíti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.4.2008 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar