Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Síðasti framsóknarmaðurinn

Það fer að verða líkt með síðasta framsóknarmanninn eins og fimmta Bítilinn: Þeir ætla engan endi að taka.

Reyndar lítur allt út fyrir að þessi einstaklingur verði ansi fjölmennur á suðvesturhorninu ef svo fer fram sem horfir, jafnvel fleiri en fimmtu Bítlarnir. Það er ekki allt sjálfum Framsóknarmönnum að þakka. Þeir hnakkrífast og gæðablóð eins og Guðjón Ólafur Jónsson og Björn Ingi Hrafnsson sjá rautt en ekki grænt þegar kemur að samflokksmönnum. Önnu Kristinsdóttur var ofboðið og stökk burtu þegar strákarnir fóru að slást. Fleiri ákváðu að þetta vær ekki það sem þeir ætluðu sér í pólitík og kvöddu.

Það er fólk úr öðrum flokkum sem kemur til bjargar, og Valgerður. Meðan hún var í ríkisstjórn skrúfaðist hún fastar og fastar saman þar til hún sagði varla orð. Við hver ráðherraskipti herptist munnurinn saman fastar þar til hann var orðinn örmjótt strik. Svo komu kosningar og Valgerður leystist úr læðingi.

Mér þykir reyndar oflof þegar Össur segir að andstæðingar skjálfi undan penna hennar. Stíll Valgerður er fremur unglingslegur ritarastíll og árásirnar bundnar við persónur fremur en málefni. Hún á hins vegar fína spretti í sjónvarpi. Það leiðir hugann að spurningunni hvort flokkurinn geti lokað á að Bjarni Harðarson komi í fleiri viðtöl.

Ólafur F. Magnússon safnar atkvæðum þessa stundina. Munurinn á lítt dulinni bræði hans gagnvart Tjarnarkvartettinum og rólegri framgöngu Óskars Bergssonar þýðir að atkvæðin safnast ekki hjá Ólafi, heldur Óskari.

Einhverjum kann að þykja þetta samfelld lofræða um Framsókn og ef ekki er fyrir annað skal ég stoppa núna. En það verður lífseigt í síðasta Framsóknarmanninum og hann verður fjölmennari í næstu kosningum en marga órar fyrir.


Fjarlægðin milli Geirs og Ingibjargar

Það er til fólk sem heldur því fram að það sé himinn og haf á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þetta fólk heldur fram að annað sé sáluhjálp og hitt sé dauði.

Mig undraði lengi þessar hatrömmu staðhæfingar þegar ég las Morgunblaðið, Herðubreið, Þjóðmál eða kjallaragreinar eftir Hallgrím Helgason. Svo heyrði ég um daginn viðtal við Stefán Jón Hafstein sem lýsti því hvaða bylting það var þegar Hallgrímur kom til starfa hjá honum á Rás 2 í lok níunda áratugarins.

Þá varð mér ljóst að þetta var afskaplega lítill heimur þar sem byltingarsinninn er um það bil sammála þeim sem er verið að bylta, bara aðeins hraðmæltari. Þetta er sá litli heimur þar sem pólitísk fjarlægð milli Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þýðir ódrepandi baráttu milli góðs og ills, veljið eftir því hvar þið standið.

Fyrir þeim sem standa fyrir utan þennan litla heim er þessi fjarlægð álíka og milli eyrnanna á meðalálitsgjafa á Íslandi. Einmitt þess vegna verður þetta fólk að vera svona hatrammt í málflutningi. Þetta er eins og auglýsingastríð milli sáputegunda. Þetta er skrifað meðan Geir og Ingibjörg fljúga til Búkarest. Þau eru ekki í þessum hópi, heldur geta ágætlega unnið saman. Því afkáralegri verður málflutningurinn um muninn á milli þeirra.


London kýs

Eftir mánuð, þann 1. maí, verður kosið um borgarstjóra í London. 10 hafa boðið sig fram en aðeins tveir eru taldir eiga möguleika, Ken Livingstone fyrir Verkamannaflokkinn og Boris Johnson fyrir Íhaldsflokkinn.

Af stjórnmálamönnum í fremstu röð að vera eru þeir báðir litríkir. Livingstone bauð sig fram árið 2000, í fyrsta skipti þegar þessar kosningar voru haldnar. Í prófkjöri fékk hann meirihluta flokksmanna á bak við sig en forystan valdi Frank Dobson sem opinberan frambjóðandia flokksins. Livingstone bauð sig engu að síður fram, sem óháður, og vann auðveldlega.

Steve Norris varð frambjóðandi Íhaldsflokksins í þessum kosningum þegar Jeffrey Archer var dæmdur fyrir að bera ljúgvitni. Honum gekk sæmilega en hafði ekki roð við Livingstone. Í kosningunum 2004 tókust þeir á og enn sigraði Livingstone.

Hann þótti of róttækur fyrir Verkamannaflokkinn árið 2000 en árið 2004 sá flokkurinn að hann var á sigurbraut og tók hann inn á ný. Það má þykja merkilegt að í jafn mikilli fjármálaborg og London skuli einn af þeim sem kallað var villta vinstrið (loony left) á níunda áratugnum sitja í borgarstjórastól. Livingstone hefur mært Castro og leitað samstarfs við Hugo Chavez þannig að hann er ekki hátt skrifaður hjá hægrisinnum. Þetta þykir mörgum íbúum London vænt um. Hann hefur beitt kröftum sínum að umferðarmálum sem eru stærsta vandamál stórborgarinnar.

Hann innleiddi umferðarskatt (congestion charge) í miðborginni, sem nú hefur verið færður út og nær yfir allan vesturendann. Féð af skattinum hefur verið notað til að bæta strætisvagna borgarinnar þar sem jarðlestakerfið annar ekki meiru en það flytur í dag.

Livingstone hefur meðal annars látið taka í notkun beygjustrætó, eða langa strætisvagna með liðamótum. Þeir taka 140 farþega á móts við 90 farþega sem geta farið með hefðbundnum tveggja hæða vögnum.

Nú vill Boris Johnson taka þessa beygjuvagna úr umferð og fjölga aftur tveggja hæða strætóum. Segja má að munurinn millli þessara höfuðandstæðinga í breskum stjórnmálum geti varla orðið minni og ekki líklegt að fólk flykkist bak við Johnson með svona stefnumál. Hann er sjarmatröll, með hár líkt og heysátu en á til að verða illilega fótaskortur á tungunni.200px Boris Johnson

Hann hefur verið ritstjóri Spectator en það er ekki að heyra á ræðumennsku hans. Hann á erfitt með að klára setningar og hljómar oft eins og hann viti ekki hvar hann ætli að enda.

Eins og mál standa virðist aðalbaráttuaðferð íhaldsmanna ætla að verða að halda Boris sem lengst frá því að lenda í kappræðum við Ken. Þeir hafa ráðið Lynton Crosby sem stýrði þremur árangursríkum kosningum í Ástralíu fyrir John Howard, en einnig þeirri sem hann tapaði nýlega. Crosby stýrði einnig kosningabaráttu íhaldsmanna í síðustu þingkosningum, sem ekki gekk vel.

Almennt má ætla að Livingstone vinni enn einu sinni. Hann er nú búinn að vera í pólitískri baráttu síðan á áttunda áratugnum. Hann fæddist á árs afmæli íslenska lýðveldisins, þó það hafi líklega ekki verið ofarlega í huga foreldra hans í Lambeth í lok styrjaldarinnar, í sundurskotinni borg. 19 árum og tveimur dögum síðar fæddist Boris Johnson í Bandaríkjunum með silfurskeið í munni, gekk í Eton og Oxford meðan Livingstone atti kappi við Thatcher. Hún lét leggja niður Greater London Council, borgarráð London þar sem Livingstone átti vígi sitt. Það var síðan Livingstone sem vann baráttuna um aldamótin meðan íhaldsmenn ganga enn eyðimerkurgöngu sína. Það kann að breytast í næstu þingkosningum.


Að kvöldi 1. apríl

Yfirleitt breyti ég ekki færslum en af því að 1. apríl er að kvöldi kominn fær þessi nýja fyrirsögn og verður sett í sviga. Ég sé að margir litu á þessa frétt og fóru alla leið að síðustu krækjunni, sem sagði allt sem segja þarf. Það sem er hérna fyrir neðan tilheyrir sem sagt allt 1. apríl.

--- 

Hannes H. Gissurarson skipaður sendiherra í New York

Sú ákvörðun að skipa Hannes Hólmstein Gissurarson sendiherra hjá Sameinuðu Þjóðunum og Alþjóðabankanum í New York hlýtur að vekja ólgu í samfélaginu.Hannes H. Gissurarson

Nú hafa þegar borist harðorðar yfirlýsingar frá ungum vinstri grænum og Samtökum um bætta stjórnsýslu.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytis kemur fram að Hannes sé skipaður eftir reglum um sendiherra sem ekki hafa fengið framgang í utanríkisþjónustunni heldur komi annars staðar frá. Hann hafi mikla reynslu á sviði alþjóðamála. Seta hans í bankaráði Seðlabankans komi honum til góða við samskipti við Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Það er talið mikilvægt við núverandi aðstæður að til þessara starfa veljist ötull talsmaður Íslands á alþjóða vettvangi sem njóti trausts hjá alþjóða bankastofnunum.

Háskóli Íslands birti tilkynningu í morgun þar sem sagt er að prófessorinn verði kvaddur með mikilli eftirsjá. Á heimasíðu Hannesar mátti í morgun lesa kveðjuorð samstarfsmanna úr mörgum deildum Háskólans. Eins og kom fram í yfirlýsingu rektors HÍ í morgun þýðir þessi skipun að mál Háskólans varðandi dóm yfir Hannesi vegna ritstuldar verður fellt niður og ekki aðhafst frekar í því máli.


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband