Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
5.3.2008 | 18:26
Vinsældir vinnu þinnar
Hvernig þætti þér að búa við það að vinnan þín færi eftir vinsældalista?
Margir fulltrúar á Alþingi sjá hlutverk sitt þannig að þeir eigi að setja lög, bein eða óbein, til að hlaða undir eða koma í veg fyrir atvinnu sem þeim líkar vel eða illa, allt eftir atvikum.
Hér á ég ekki við neina glæpsamlega starfsemi. Nei, hér á ég við að það eigi að skipta máli hvort sett sé upp gagnaver, álver, fiskiver eða annað ver við Stakksfjörð. Þá skiptir öllu máli hvar á vinsældalista það er, það ver, svo að þingmenn fari ekki að finna leiðir til að koma í veg fyrir að það verði til. Þá er hægt að nota þessa reglu alls staðar á landinu, ekki bara á Suðurnesjum, og um hvaða atvinnu sem er.
Nú er atvinnufrelsi í landinu. Ný vinnutækifæri sem verða til hljóta að njóta verndar 75. grein stjórnarskrár eins og þau sem fyrir eru. Atvinnustarfsemi innan ramma laganna getur ekki farið eftir vinsældavali á Alþingi hverju sinni. Það er ekki eins og mannfólkið í landinu eigi að þurfa að keppa eftir viðurkenningu þingmanna á starfi sínu. Löggjafinn er ekki dómnefnd í neinni fegurðarsamkeppni atvinnugreina.
4.3.2008 | 23:47
Bjartsýni og svartsýni
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2008 | 19:57
Vísindi sem komast öll að einni niðurstöðu
Þegar vísindafólk á alltaf eitt og sama svarið við öllum spurningum sem það varpar fram, þá má fara að draga í efa að um mikil vísindi sé að ræða.
Ef ég stofna rannsóknarstofnun um Evrópumál og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að það sé best sem Evrópusambandið hefur ákveðið, og að besta niðurstaðan í hverju máli sé að Ísland gangi í sambandið, þá má álykta að tilgangur stofnunarinnar sé ekki hlutlaus rannsókn.
Þá má álykta að hlutverk stofnunarinnar sé að vinna stjórnmálaskoðun ásmegin. Það er ekkert rangt við að færa rök að stjórnmálaskoðunum sínum, en það er ekki rétt að almenningur greiði fyrir slíka vinnu og að hún sé kölluð rannsóknir. Í besta falli er þar um að ræða rannsóknir stofnunarinnar á því sem gerist í kolli þeirra sem þar starfa.
Það er gott að fólk færi rök að ágæti Evrópusambandsins og því að Ísland gangi í það. Það fer best á því að það sé gert af áhugamannasamtökum sem finni áhuga félaga sinna farveg. Það er rangt að kalla það vísindi.
3.3.2008 | 19:56
Hvers vegna eru háir vextir á Íslandi?
Hvað eru vextir? Vextir eru verð, sem sett er á fé, sem er fengið að láni.
Ég er með þúsundkall í veskinu. Hann safnar engum vöxtum meðan hann situr þar. Ef ég lána öðrum hann, tek ég vexti af láninu. Þeir eru með öðrum orðum verð á peningum, sem maður á ekki.
Eins og kom í ljós þegar ódýrari húsnæðislán buðust í bönkum, þá sló aðeins á yfirdrátt Íslendinga þegar þeir endurfjármögnuðu húsnæði sitt. Þegar frá leið, sótti í sama farið og ótrúlega hátt hlutfall þeirra fullnýtti yfirdráttinn. Þetta er ofan á kortagreiðslur, raðgreiðslur, skammtímalán og önnur lán.
Eftirspurn Íslendinga eftir lánsfé er gífurleg, í engu samræmi við eignir þeirra, og er enn óuppfyllt. Þegar þannig er í landinu, eru háir vextir.
2.3.2008 | 20:24
Morðingi Nönnu Birk Larsen
Þegar þetta er skrifað eiga allir góðir Forbrydelsen-aðdáendur að sitja límdir fyrir framan skjáinn, samanber það fornkveðna:
Krumminn á skjánumkallar hann inn
sestu nú við sjónvarpstækið
sjónvarpsþrællinn minn
Þá kemur í ljós hið rétta eðli jafnaldra míns, Vagns Skærbæk.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2008 | 09:14
Að láta bloggið ekki hafa áhrif
Það hefur verið að heyra á Vilhjálmi Vilhjálmssyni undanfarnar vikur að hann vilji geta hugsað sín mál í næði og ekki undir þrýstingi frá fjölmiðlum, þar á meðal nefndi hann bloggið.
Stjórnmálafólk sem vill fá næði frá almenningi á náttúrulega að velja sér starf þar sem það vinnur ekki í umboði almennings. Það er sama í hvernig formi það ónæði birtist.
2.3.2008 | 09:13
Þegar stríðið er eðlilegt ástand
Ferðalangar í Bretlandi verða fljótlega varir við tvennt: Að það er mikilvægt að standa í röð, og að Bretar tuða. Þeir mótmæla ekki eins og Frakkar, heldur fara í röð og safna undirskriftum, en mest tuða þeir bara. Hlutirnir ganga svona, en þetta kemur undarlega fyrir sjónir.
Það er vegna þess að tveir aðrir hlutir skipta máli, sem eru ekki jafn augljósir. Hinn fyrri er að Bretum líkar ekki 21. öldin. Þeim líkaði ekki 20. öldin heldur. Það var 19. öldin sem var þeirra öld. Hinn seinni er að þessi árin eru Bretar ekki í sínu náttúrulega ástandi. Bretar fara ekki að taka við sér fyrr en þeir heyja stríð. Það er þeirra náttúrulega ástand.
Heimsveldi eiga í stöðugum stríðum. Þau eru stöðugt að verja hagsmuni sína, annað hvort beint eða verja bandalagsþjóðir sínar. Bandaríkjamenn eru að venja sig við þetta, að náttúrulegt ástand þjóðarinnar er að vera í stríði.
1.3.2008 | 10:56
Dagur heilags Davíðs, nei, þessi í Wales
Í dag, 1. mars er dagur heilags Davíðs, sem er þjóðardýrlingur Wales.
Í tilefni þess er hér söguleg upptaka frá þessum degi fyrir nítján árum í Cardiff, sem fólk tekur vonandi ekki allt of alvarlega.
Lagið Something good is going to happen fékk heilmikið að láni frá Kate Bush úr lagi hennar Cloudbusting, bæði í laginu og í upprunalega myndbandinu. Það var allt gert með leyfi söngkonunnar.
Lagið kom út 1992, þannig að velska danshetjan okkar hér hefur verið á undan sinni framtíð, eins og sagt er.
Something good is going to happen again 08
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2008 | 00:31
Netscape gengið fyrir ætternisstapa
Í dag, 1. mars 2008, verður hætt að styðja við og þróa Netscape vefskoðarann. Það þýðir ekki að Netscape verði ónothæft um leið. Nýlega notaði ég vefskoðara sem hætt var að styðja við og þróa 1995, um svipað leyti og Netscape var að ryðja sér rúms.
Ætli það hafi ekki verið fyrir fimmtán árum sem nokkrir vinir mínir sem stóðu að rekstri Miðheima, sýndu mér framtíðina í netmálum. Það var Mosaic, fyrsti vefskoðarinn sem setti myndir inn á síðu, í stað þess að opna þær í sérglugga.
Mosaic varð óhemju vinsæll í stuttan tíma snemma á tíunda áratugnum. Haustið 1994 kom Netscape sem var miklu þægilegri í notkun og vann markaðinn. Microsoft fór að markaðssetja Internet Explorer ókeypis með Windows. Það, ásamt því að Netscape var ekki þróað mikið áfram, þýddi að færri og færri notuðu vefskoðarann.
Á grunni kóðans bak við Netscape var búinn til Firefox, sem er sá vefskoðari sem ég nota mest þessi árin.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar