Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hillary Clinton líkt við Hitler á Wikipediu

HRC compared to HitlerÁ mánudag var ég að fletta Wikipediu að skoða upplýsingar um bandarísk stjórnmál. Þegar ég kom að síðunni um Hillary Rodham Clinton var ljóst að vandalar höfðu komist í hana.

Á síðunni var henni líkt við Hitler, sjá fyrir ofan myndina af henni. Eins og búast mátti við er síðan orðin þekkilegri í dag, skoðið hér til samanburðar. Það  má búast við því að hún verði vöktuð vel og haldist nokkuð laus við andstyggð eins og þessa.

Þetta er illa gert en barnalegt og skaðar Hillary lítið, en Wikipediu þeim mun meira. Hillary liggur væntanlega undir öllu harðari árásum frá andstæðingum sínum í dag.

Smellið á myndina til að stækka hana, og smellið á hana aftur, ef þið sjáið ekki nafn Hitlers.


mbl.is Ofurspenna í 24 ríkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar á bandarísku þjóðfélagi 2008

Um leið og ljóst er að miklar breytingar verði á æðstu stöðum bandarískra stjórnmála, þá endurspegla þær kröfur um breytingar í öllu stjórnkerfinu.

Valdatíð George W. Bush er í raun lokið, hann er lame duck. Allir helstu ráðgjafar hans hafa kvatt, verið látnir fara eða eru búnir að draga sig í hlé að undanskilinni Dr. Rice.

Um leið verður þeim ekkert ágengt sem ætla að berjast í forsetakosningum á sama grundvelli og 2004, að setja öryggi landsins ofar öllum réttindum einstaklinga, bæði innlendra og erlendra.

Það eru augljósar breytingar þegar komnar af stað í stjórnkerfinu. Viðurkenning CIA á vatnspyntingum er aðeins hluti af þeim. Allt önnur sýn á einstaklingsréttindi mun koma, hvort sem McCain, Clinton eða Obama verða í forsetastól.

Ekki er ólíklegt að þetta hafi áhrif á öryggisgæslu á flugvöllum. Það er viðurkennt að margar fyrirbyggjandi aðgerðir á síðustu 5 árum hafi sáralitla þýðingu fyrir öryggi farþega, en gegna líklega femur því hlutverki að byggja upp falska öryggiskennd. 


mbl.is CIA beitti vatnspyntingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritstjóri Spiegelvefs verður aðalritstjóri

Í dag taka við stöðu aðalritstjóra Spiegel þeir Mathias Müller von Blumencron, fyrrum ritstjóri Spiegel Online og Georg Mascolo, yfirmaður Spiegel í Berlín.

Þessi frétt kemur eftir nokkrar deilur milli starfsfólks Spiegel og útgáfufyrirtækisins Gruner + Jahr. Það má telja tímanna tákn að ritstjóri vefútgáfu verði að aðalritstjóra á þessu áhrifamikla riti.


Repúblikanar halda forskotinu

John McCainNú bendir margt til að John McCain, sá gamli hermaður, nái að lokum útnefningu Repúblikanaflokksins til framboðs forseta.

Hann hefur lengi skorið sig úr flokknum, haft sjálfstæðar skoðanir á mörgum hlutum og þótt ódæll í samstarfi. Hann er alls óhræddur við að ögra og minnir í því á Ronald Reagan. Reagan var 69 ára þegar hann tók við embætti, en McCain verður 72 ára í sumar.

Af bloggum á Íslandi mætti ráða að Ron Paul væri helsti frambjóðandi repúblikana og að demókratar væru svo gott sem búnir að tryggja sér yfir 90% atkvæða í næstu forsetakosningum.

Hvort tveggja er jafn fjarri lagi. John McCain myndi vinna kosningar gegn Clinton með 8% mun væri kosið í dag, og vinna Obama með 6% mun. Repúblikanar hafa ráðið forsetastól 27 ár af síðustu 40,  19 af síðustu 30 árum og 12 af síðustu 20 árum.

John McCain er enginn miðjumaður en hann getur hrifið fólk á miðjunni miklu fremur en Mitt Romney. Romney hefur reynst bærilegur stjórnandi (business adminstrator) og væri ekki ónýtt að hafa slíkan mann sem fjármálaráðherra eða chief-of-staff (stundum kallað starfsmannastjóri á Íslandi en er í raun aðalráðgjafi forseta) í Hvíta húsinu. Honum gengur ekki jafn vel og McCain að hrífa fólk með sér og er nú spáð illu gengi, sérstaklega þar sem repúblikanar láta alla kjörmenn úr hverju ríki á landsþing ganga til þess sem flest atkvæði hlýtur.

Að loknum sprengidegi vilja margir að fram sé kominn frambjóðandi sem hvor flokkur geti fylkt sér um. Sú óskastaða fyrir báða flokka er engan veginn tryggð. Það á eftir að velja um helming kjörmanna á landsþing sem verða haldin í lok ágúst. Það er ólíklegt að það gerist núna en keppni um kjörmenn getur staðið miklu lengur. Hún getur jafnvel staðið fram á landsþing en það óskar hvorugur flokkur sér. 


mbl.is Spennandi forkosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða breytingar ef demókrati nær kjöri?

Hvort verður það meira frávik frá hefðbundnum hvítum köllum á efri árum í forsetaframboði í Bandaríkjunum, að fá frambjóðanda sem er kona á þeim aldri, eða fá mann sem átti Keníumann að föður?

Hillary Rodham ClintonBæði Clinton og Obama teljast afar lík þeim forsetum sem hafa verið síðustu hálfa öldina. Þau koma úr sama hópi fólks. Clinton kemur af efnuðu fólki, fór í góða háskóla og er sjálfstæð kona, baby boom holdi klædd. Hún gæti hafa verið í kirkjunni í lok The Graduate, kannski jafnvel brúðurin?

Obama er af fátækara fólki en er löngu orðinn hluti af hærri lögum samfélagsins. Hörundslitur hans hefur því minna að segja sem hann talar meira.

- Ég er ekki kaþólski frambjóðandinn, ég er frambjóðandi demókrata til forseta sem er kaþólskur að trú. Ég tala ekki fyrir kirkjuna og kirkjan ekki fyrir mig. Þetta sagði John F. Kennedy fyrir kosningarnar 1960. Margir héldu fram að kaþólskur frambjóðandi gæti ekki unnið. Það lá nærri, hann vann með 0,2% atkvæða en aðeins meiri mun í fjölda kjörmanna.

John F. KennedyÞað er ljóst að það verður aftur brotið blað í sögunni ef frambjóðandi demókrata nær kjöri í nóvember. Nú er aðeins eftir að sjá hvort það verður með nýjum kynslóðaskiptum og hörundsdökkum manni, eða með fyrstu konunni á stóli Bandaríkjaforseta.

Breytingarnar verða þó engin bylting. Bandaríkjamenn eiga sína byltingu frá 1776 og vilja ekki aðra. Bæði fylgja þau harðri stefnu gagnvart hernámi Írak, stuðningi við Ísrael og andstöðu við Íran.

McCain er svo enn meiri haukur í þessum málum, enda eyddi hann tæpum sex árum sem stríðsfangi í Víetnam. Á kjördag verður hann búinn að halda upp á 72 ára afmæli sitt.


mbl.is Eldflaugatilraunir Írana fordæmdar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir stjórnmálamenn frá Illinois

Fyrir 150 árum kom fram á sjónarsviðið bandarískra stjórnmála ungur lögfræðingur frá Illinois, langur og mjór, þótti nokkuð afkáralegur að sjá. Hann hét Abraham Lincoln.

Hann háði frægar kappræður við Stephen A. Douglas, öldungadeildarþingmann demókrata, um þrælahald. Tveimur árum síðar voru þeir frambjóðendur flokkanna í forsetakosningum.

Ungur Lincoln

Fyrir tæpum fjórum árum hafði annar lögfræðingur frá Illinois framsögu fyrir frambjóðanda demókrata í forsetakosningum, John Kerry. Kerry tapaði en framsögumaðurinn Obama þykir núna hafa hrifið fólk með sér úr öllum stéttum, af öllum aldri, báðum kynjum og öllum tegundum. Aðalkeppinautur hans er reyndur stjórnmálamaður en frú Clinton hefur ekki hæfileikann til að hrífa fólk með sér.

Nú er líklegast að McCain verði frambjóðandi repúblikana. Aðalkeppinautur hans er Romney, maður með mikið fé en litla breidd í pólitík.

Barack ObamaObama hefur reynst góður ræðumaður. Hann skrifar skiljanlegt mál. Hvort sem fólk er samþykkt stefnu hans eða ekki má mæla með bókinni The Audacity of Hope, sem kom út 2006.

Það mælir með góðu gengi McCain og Obama að fólk telur atvinnu- og efnahagshorfur slæmar og er um leið tilbúið að snúa við blaðinu eftir 8 ára stjórn Bush yngra. Þegar þetta er skrifað hefur Clinton enn góða möguleika og verður að bíða til miðvikudagsmorguns til að sjá hvernig hefur farið.

 


mbl.is Kennedy fjölslyldan klofin í afstöðu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bagdad Café dubbuð á þýsku!

Ég horfi ekki á óþýskar myndir í Þýskalandi. Ástæðan: Þær eru dubbaðar á þýsku.

Það er hægt að sjá myndir ódubbaðar í einhverjum leynilegum lókölum, skilst mér, eða einu sinni í viku á stærri kvikmyndasöfnum.

Nú er Out of Rosenheim (Bagdad Café) komin dubbuð á þýsku í sjónvarpið. Æi, nei, þetta horfir maður ekki á. Eins og þetta er annars góð mynd.


Atonement - Friðþæging

Hversu góð er þessi mynd? Hún er afbragð.

James McAvoy og Keira Knightley sýna bæði hófstilltan og góðan leik. McAvoy hefur sýnt góða takta í The Last King of Scotland en ég hef ekki séð Knightley standa sig svona vel áður. Klippingin er góð og sviðsetningin afbragð, sérstaklega stórsviðið við Dunkerque. Tónlist Marianelli lyftir myndinni víða og gerir smáu atriðin stór.

Söguþráður er sagður vera af mistökum 13 ára stúlku og afleiðingum þeirra. Þó það bindi söguna saman á yfirborðinu er þetta ósvikin ástarsaga af fólki sem ekki á að fá að njótast. Það er innihald sögunnar, undirstrikað með síðustu orðum franska hermannsins sem heldur í hönd Briony þegar hann gefur upp öndina. 

Það sem brá helst skugga á að ég gæti notið myndarinnar var að sjá hana í einum af smáu sölum Háskólabíós. Við hlið hans er besti bíósalur landsins. Ef bíóið færir myndina í stóra salinn ættu allir að sjá hana.


Ísland er borgríki

Ísland er borgríki, meira að segja smáborgríki.

Eins og fleiri las ég ævintýri Grimmsbræðra þegar ég var barn og hélt að þetta væri allt saman búið til í einhverjum fantasíuheimi. Til dæmis var karlssonum oft vísað úr konungshöllinni og voru komnir út úr ríkinu að kvöldi.

Svo lærðist mér að þýsku ríkin hefðu verið svona smá. Einn daginn sat ég á ströndu Liechtenstein og horfði á Sviss hinu megin Rínar. Ef ég hefði gengið af stað í hina áttina hefði ég verið kominn til Austurríkis um miðjan dag. Ég var reyndar á góðum bíl og það tók 15 mínútur.

Ísland er stærra en það en hefur að fjölda aðeins eina smáborg og landsbyggð þar sem 100.000 manns búa á jafnmörgum ferkílómetrum.

Þetta er staða sem stjórnmálaflokkarnir verða að taka með öðrum hætti en þeir hafa gert. Hingað til hafa þeir valið að láta flokksfélögin ráða sínum málum hvert fyrir sig. Málefni höfuðborgarsvæðis annars vegar og landsbyggðar hins vegar eru þannig að þeim verður ekki deilt í fleiri einingar, og þessir tveir meginpólar verða að vinna saman en ekki sundur.

Þannig skiptir það Sjálfstæðisflokk í Reykjavík miklu máli hvernig Sjálfstæðisflokkur í ríkisstjórn hagar löggæslu. Það skiptir Samfylkingarfólk í Grafarvogi miklu máli hvernig Samfylking í ríkisstjórn heldur á málefnum Sundabrautar. Heilbrigðisþjónusta á höfuðborgarsvæði er komin að miklu undir því hvernig heilbrigðisráðherra heldur á málefnum Landspítala.

Sparnaður á þessum sviðum verður að skoðast í samhengi við 31.000 milljóna áætlaðan rekstrarafgang á þessu ári og að til Landspítala og Sundabrautar var búið að veita fé af Símapeningunum fyrir þremur árum.

Á móti má segja að ríkisstjórnin hlýtur að vilja hafa borð fyrir báru til launahækkana á samningsári enda eru laun stærsti einstaki kostnaðarþátturinn hjá hinu opinbera.

Afskipti ríkisstjórnar af samningum munu ráða miklu um vinsældir flokkanna, bæði í sveitarstjórnum og á þingi.

Flokkarnir geta ekki klofið áhrif sín hjá ríki og í þeim sveitarfélögum, þar sem 65% þjóðarinnar býr.


mbl.is Ólíkir flokkar ríkisstjórnar auka breidd í afstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri en Eggert Þorleifsson?

Margir muna eftir tilþrifum Eggerts Þorleifssonar í hlutverki Friðriks Þórs. Hann þótti hafa náð Friðriki betur en Friðrik gerir sjálfur.

Friðrik lék í hinni undurfurðulegu mynd Triers, Direktøren for det hele ásamt Benedikt Erlingssyni, Jens Albinus, Iben Hjejle, Peter Gantzler og fleiri stórleikurum. Eftir góðan leik hans þar velti maður því fyrir sér hvort Friðrik væri leikari sem léki hlutverk Friðriks Þórs Friðrikssonar, leikstjóra og framleiðanda á Íslandi.

Svo er bara að vona að Hilmir Snær festist ekki í hlutverki Friðriks Þórs. Það er ólíklegt þar sem Friðrik Þór leikstýrir myndinni en hann var lengi kunnur fyrir að gefa lítil fyrirmæli til leikara. 


mbl.is Hilmir Snær verður Friðrik Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband