Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

BAFTA: Verðlaunin fyrir dagskrárstjórn varla til RÚV

Mér kom nokkuð á óvart að RÚV ætlaði að sýna frá afhendingu BAFTA-verðlauna en byrja ekki útsendinguna fyrr en nokkuð langt var liðið á hana.

Hugmyndin hefur líklega verið að taka athöfnina upp og sýna með seinkun. Það er ekki glæný tækni, heldur hefur hún verið stunduð í rúm 40 ár. Það var þetta sem ýtti á framleiðslu myndbanda á sjöunda áratugnum.

Eitthvað hefur farið úr skorðum þannig að við sáum beina útsendingu og aðeins það litla sem var eftir þegar Forbrydelsen hafði runnið sitt skeið. Meðan ég man, Forbrydelsen hefur löngu verið til lykta leidd í Danmörku og morðinginn er ... æi, nei, best að bíða með þetta.

Við skulum telja okkur lukkuleg að sjá síðasta hálftímann af BAFTA en ekki þann fyrsta.


Enska úrvalsdeildin óensk

Nú spilar 331 maður í ensku úrvalsdeildinni (Premier League) sem ekki eru breskir. Þeir voru 11 við upphaf deildarinnar 1992.

Deildin hefur nú um helming tekna sinna utan heimalandsins. Deildin var stofnuð utan um það sem enskur fótbolti var orðinn þegar fyrir aldamótin 1900. Hann var afþreying fyrir fólk, eins og kvikmyndir, leikhús eða hvaða önnur íþrótt sem er.

Þess vegna kemur fram tillaga um að spila hluta leikja annars staðar. Þetta hefur verið reynt áður. Á sjöunda áratugnum voru mynduð sérstök ensk lið til að spila í Bandaríkjunum yfir sumarið. Þá var sumarhléið lengra en núna.

Þegar deildin var mynduð réðu peningar þegar öllu um hvernig var spilað. Þá skipti mestu miðasala á völl og sjónvarpstekjur innanlands. Helgar og aðrir helgidagar skiptu öllu máli, eins og sést á leikjafjölda um jól og nýár. Nú skipta sjónvarpstekjur erlendis og munasala (treyjur og annar varningur merktur liðinu) mestu. Deildin breytist.


Ábyrgð Vilhjálms og ábyrgð annarra

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna til borgarstjórnar og náði fyrsta sæti, nokkuð örugglega. Þetta var fyrir rúmum tveimur árum, þann 6. nóvember 2005. Það getur haft mikil áhrif á flokkinn ef bola á burt oddvita flokksins og borgarstjóraefni.

Ekkert er ómögulegt í pólitík. Þáttur flokksforystu fer að verða stærri og stærri spurning í málefnum borgarstjórnar. Það er þekkt að Geir Haarde aðhyllist laissez-faire-stefnu, að minnsta kosti ef marka má skrif hans hér á árum áður í ritið Frelsið. Á íslensku hefur þetta verið kallað látið ganga eða látið vera, og þýðir afskiptaleysi af athöfnum borgaranna.

Afskiptaleysi getur tekið á sig ýmsar myndir. Þegar þeir sem ætlað er að stjórna vilja ekki grípa inn í þegar í óefni stefnir, þá hafa þeir tekið á sig ábyrgð, ábyrgð afskiptaleysisins.


mbl.is „REI - ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að axla ábyrgð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta frétt vikunnar

Besta frétt vikunnar er að nú er loks spáð skaplegu veðri, í næstu viku.

Mér finnst varla hafa komið sjö samhangandi dagar án þess að einhver hvellur hafi orðið, síðan í október. Þetta er kannski ekki voðalegt, lítill snjór og engin manndrápsveður, aðallega leiðinlegt til lengdar.

Svo er bara að sjá hvernig helst. Það eru enn eftir 12 vikur af vetri. Það held ég nú. 


mbl.is Stormi og mikilli rigningu spáð seint í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálaskóli borgarstjórnar, reikningurinn til borgarbúa

Ég hef áður rætt um dýrasta stjórnmálaskóla Íslandssögunnar, sem kallast núverandi borgarstjórn Reykjavíkur. Það kom fram þar að ekki væri bitið úr nálinni með kostnaðinn.

Það er ekkert að því að fólk læri á stjórnmál. Það eru til leiðir sem hafa minni kostnað í för með sér. 


mbl.is Efast um umboð borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REI-skýrsla, Vilhjálmur, flokkurinn og bloggið

Það er margt sem kemur upp á yfirborðið þegar REI-skýrsla kemur fram.

Á blogginu má sjá spár um fall Vilhjálms Þ. um leið og skýrslan verður gerð opinber. Eitthvað af því er brugg, eitthvað heilög reiði.

Nú er sagt að yfirlýsing Hauks Leóssonar í Kastljósinu muni þýða að Vilhjálmur verði að fara. Það er ekki hægt að skálda þetta ef það verður niðurstaðan að yfirlýsing eins nánasta vinar Vilhjálms verði honum endanlega að falli. Það má orða það þannig að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn þurfa ekki andstæðinga ef samheldnin er þessi. 

Samt verða varla allir Sjálfstæðismenn daprir ef það gengur eftir, miðað við umfjöllun á Deiglunni og víðar. Hanna Birna verður oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn og borgarstjóri að ári liðnu. Sif Sigfúsdóttir kemur inn í borgarstjórn.

Þau verða þá að geta látið fólk gleyma svona hjaðningavígum. Það er ekki ómögulegt, en mun kosta mikla vinnu. 


mbl.is Sameiginleg niðurstaða stýrihópsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óupplýst um REI

Kemur eitthvað fram þarna sem ekki hafði áður komið fram, eða var óupplýst?

Þáttur FL-group og Bjarna Ármannssonar var augljós. Þegar samningar við þá voru í burðarlið í júlí var allt í lagi að láta krafta einkaframtaksins fá að njóta sín en nú horfir líklega öðru vísi við.

Það er margt sem sveiflast með hlutabréfagenginu. 


mbl.is REI skýrslan áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur vilja breytingar, HRC kann að líða fyrir

Ef Hillary Rodham Clinton yrði kjörin forseti er ljóst að það yrði brotið blað í sögu Bandaríkjanna.

Það kann að vinna gegn henni núna, þegar Obama hefur næstum náð henni í kapphlaupinu, að kjósendur eru að hugsa um annars konar breytingar.

Hún settist fyrst að í Hvíta húsinu fyrir rúmum 15 árum og bjó þar næstu 8 árin. Þetta kann að vinna á  móti henni í komandi forkosningum, þar sem kjósendur tengja hana kannski við eldri tíma. 

Demókratar hljóta að vera ánægðir með mikla þátttöku í forkosningum hjá þeim í mannflestu ríkjunum, þar á meðal Kaliforníu. Til að vinna kosningarnar í nóvember þurfa þeir að vinna fylgi í Suður- og miðríkjunum. Miðað við úrslit í gær geta bæði Obama og Clinton náð því sem þarf, en það er langur vegur eftir.


mbl.is Kjósendur frá Rómönsku-Ameríku réðu úrslitum í Kaliforníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar í Bandaríkjum í nóvember

Kosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember geta breytt miklu þar. Þær hafa áhrif um allan heim og mikil áhrif í Evrópu. Þá er kosið um forseta eins og fólk þekkir. Hann skipar ríkisstjórn, sendiherra um allan heim og ýmis embætti önnur.

Þá er einnig kosið um alla neðri deild þingsins (House of Representatives). Það er kosið um þriðjung öldungadeildarþingmanna (Senate). Það er kosið um fjölda ríkisstjóra. Það er kosið til ríkisþinga. Það er kosið um tillögur sem fólk hefur fengið samþykkt til kosninga (resolutions). Þetta eru meiriháttar kosningar. Undanfari þeirra er kosning kjörmanna á landsfundi flokkanna. Þessir kjörmenn gera meira en að útnefna forsetaframbjóðanda.

Það er talað um þetta ár að þessi undanfari greinist í fjóra hluta. Fyrsti hluti þeirra eru forkosningar fyrir sprengidag. Í þeim hluta sigtast út þeir sem lítið fylgi hafa, menn eins og Edwards og Giuliani. Þetta árið eru forkosningar á sprengidag svo stórar að þær verða annar þáttur. Þá getur einn frambjóðandi tekið forskot, eins og hefur gerst hjá repúblikönum.

Þriðji hluti baráttunnar eru þær forkosningar sem eru eftir, þeirra stærstar í Virginia, Ohio og Texas. McCain byrjar undirbúning að sjálfum forsetakosningum fljótlega en demókratar munu fylgjast með Clinton og Obama berjast að lokatakmarkinu. Það mun koma í ljós hvort þetta er gott eða slæmt fyrir hvorn flokk, og veltur mikið á því hvernig þeir halda á spilunum og umræðunni.

Nú fara að koma fram hatursauglýsingar og harðari áróður flokkanna á persónulegum nótum gegn væntanlegum frambjóðanda. Hópar, laustengdir flokkunum, eins og Swiftboats Veterans for Truth voru 2004, munu einskins svífast í að berjast gegn andstæðingum.

Fjórði hlutinn eru svo landsþing demókrata og repúblikana í lok ágúst.


mbl.is Íslendingar áhugasamir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð langafastan

Undanfarna daga hafa verið haldin karnivöl um víðan heim. Carne vale þýðir að kveðja kjötið. Nú hefst nefnilega langafasta.

Hinir kristnu Íslendingar halda hana að sjálfsögðu heilaga og bragða ekki kjöt aftur fyrr en að 40 dögum liðnum, á sjálfan páskadag.

Hann er snemma á ferðinni þetta árið, eins snemma og hann getur orðið. Á morgun kviknar nýtt tungl, þorratungl. Útreikningar á því hvenær páskadagur verður geta orðið flóknar, þannig að stundum deildu kirkjudeildir um það hvenær þeir væru. Á Íslandi má miða að jafnaði við að páskadagur sé fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fulla tungl eftir þorratungl.

Nýja tunglið á morgun þýðir nýtt ár hjá stórum hluta mannkyns. Þá byrjar ár rottunnar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband