Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
20.1.2008 | 04:13
Að njóta kvikmynda
Ég var alinn upp við að horfa gagnrýninn á kvikmyndir. Annað hvort væri nú, sonur kvikmyndagagnrýnanda á Tímanum.
Þegar ég fletti IMDb (Internet Movie Database), þeim merka gagnagrunni, sé ég það sem er kallað Goofs, eða mistök. Dæmi úr The Wizard of Oz: Crew or equipment visible: The shadow of the camera crew is visible as it pans across the nest of the munchkins hatching in Munchkinland. Einmitt það, já. IMDb telur þetta þó greinilega til minna mikilvægra þátta í myndum, þar sem það er flokkað undir Fun Stuff.
Vandinn er að margir sjá þetta ekki sem neitt alvöruleysi. Sumir kunningjar mínir voru afar uppteknir af þess háttar hlutum og örugglega hægt að finna nóg af þessu í ódýrt framleiddum myndum frá öllum áratugum.
Fyrir mér var þetta svipuð leið að horfa á myndir eins og standa upp með reglulegu millibili í salnum og hrópa: - En þetta er allt skáldskapur! Ég horfði á myndir og leikrit og vildi lifa mig inn í skáldskapinn. Öðruvísi hefði maður varla getið lesið bók, þær eru bara prentaður pappír bundinn saman á einni hlið ef maður sleppir skáldskapnum.
Það hefur eflaust gildi fyrir metnaðarfulla kvikmyndagerðamenn að reyna að sjá mistök, sérstaklega þau sem eru að stíga sín fyrstu spor. En þetta er ekki það sem myndin gengur út á. Hún er afþreying, skemmtun, saga sem er sögð í tvo tíma. Gott handrit, góð taka, gott hljóð, góð tónlist, góður leikur, góð klipping, góð sviðsetning, þetta býr til góða mynd.
Svona goofs fara ekki að leika mikið hlutverk nema í afbragðs lélegum myndum sem maður horfir reyndar einmitt á af því hversu illa þær eru gerðar.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 04:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2008 | 17:54
And-evrópskar leitarvélar og fleira gott
Um aldamótin hittust leiðtogar Evrópusambandsins í Lissabon, því þá fóru Portúgalar með leiðtogahlutverk, og settu fram Lissabon-áætlunina um samkeppnishæfni Evrópu. Í stuttu máli átti Evrópa að geysast fram úr Bandaríkjunum (þó þau væru ekki nefnd á nafn) og vera í fremstu röð í heiminum um samkeppnishæfni.
Því miður átti þetta að gerast fyrir tilverknað opinberra stofnana. Í huga margra klingdu orð Hrjúsjoffs (Krusjev), aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna frá 1960 þegar hann lofaði að borgarar þar færu fram úr efnalegri velsæld vestan hafs.
Hér verður því ekki spáð að niðurstöðurnar verði jafn svakalegar og gerðust eystra. Þegar efnaleg velsæld var orðið keppikeflið, var ljóst hvor aðilinn hefði betur. Ef Evrópa ætlar að gera samkeppnishæfni að leiðarhnoða, þá má fara að beina sjónum annað.
Um tíma virtist að vel gengi í Evrópu með þessi markmið, eins og gerist oft í byrjun opinberra átaksverkefna. Peningum er dælt í þessi verkefni og eins og gera má ráð fyrir, eykst bjartsýni. Evran fór að taka við sér í hlutfalli við dollar.
Undir niðri voru engar breytingar. Ósveigjanleg atvinnupólitík þýðir að athafnafólk (ljótt orð í Evrópu) ræður ekki fólk til vinnu nema allt annað sé komið í óefni. Sérstaklega er slæmt að ráða ungt fólk. Það flykkist nú til Bretlands þar sem atvinnuöryggið er minna og betra að fá vinnu (ef þetta hljómar sem þversögn hjá einhverjum lesenda, er bent á að lesa svokallaða hagfræði). Hagvöxtur var mældur í prómillum og styrkjakerfið letur fyrirtæki til breytinga sem þjóna notendum, en hvetur til að þjóna opinberum markmiðum.
Fordildin hjá Evrópusambandinu kom best í ljós þegar ákveðið var að búa til svar við Google. Samkvæmt sambandinu þurfti evrópska leitarvél sem svar við Google. Nú hafði Google ekki verið sérlega and-evrópsk fram að þessu. Undirritaður og margir evrópskir kunningjar hafa notað Google einmitt vegna þess hversu auðvelt var að finna heimildir frá eigin landi þar. Fólk getur gert litla tilraun og slegið inn leitarorð úr þessari færslu í Emblu annars vegar og Google hins vegar og séð hvoru megin niðurstöðurnar birtast. Google var náttúrulega ekki spurning til Evrópusambandsins, heldur gott leitartæki, ætlað að auðvelda fólki lífið og skapa eigendum og starfsfólki sínu ágóða. Það var búið til af fólki árið 1998 sem vissi vel hvað Vefurinn var, lifði og starfaði með hann stöðugt á skjáborðinu. Hversu margir af leiðtogunum í Lissabon árið 2000 gerðu þetta? Svarið er þekkt, en engin verðlaun fyrir að svara 0.
Svo má minna á að markmið Lissabon-áætlunarinnar um samkeppnishæfni árið 2000 var hvorki meira né minna en að Evrópusambandið yrði samkeppnishæfnasta svæði í heimi árið 2010. Lítið á það.
18.1.2008 | 16:32
Um handbolta, hóflausa drykkju og Kusturica
Á fimmtudagskvöld, meðan þjóðin horfði á handboltaleik í Þrándheimi, fór ég í bíó. Það var einfaldlega of nöturlegt að horfa á öll mistökin og eftir hálftíma var ég búinn að fá nóg. Eins og góður maður sagði, þá spilaði íslenska liðið eins og kjánar.
Fyrr á árum gat ég dottið í það eins og það kæmi ekki dagur eftir þann dag, föstudags- og laugardagskvöld flestar helgar ársins. Svo hætti ég að hafa gaman af því og þá var það búið. Þegar drykkjan var búin og svefninn tók völd, tók við ruglingslegur draumur.
Þann draum sá ég í bíó á fimmtudagskvöldið og hann heitir Lofaðu mérá íslensku, Promets moi á frönsku. Ég veit ekki hvað myndin er að gera á franskri kvikmyndahátíð, líklega framleidd af Frökkum. Þetta er serbnesk mynd, um brjálaða Serba, og er eftir Emir Kusturica. Fyrir þau sem eru að sjá Kusturica í fyrsta skipti er þetta hin besta skemmtun.
Frásagnarmátinn er teiknimynd, leikin á tjaldi, slapstick. Það vantar pólitíska broddinn sem hann sýndi í Neðanjarðar, dýpri tilfinningar sem hann sýndi í Svartur köttur, hvítur köttur, eða þá að þetta fari fyrir ofan garð og neðan hjá Íslendingi og að Serbarnir sjái kannski einhverja ádeilu sem við skynjum ekki. Fyrir okkur er þetta bara Buster Keaton með ávæningi af Dusan Makavjev. Sem er ekki slæmt, þetta var hin ágætasta skemmtun.
Það var ágætt að ganga út af fylleríinu en sjálfur áfengislaus.
17.1.2008 | 18:23
Nýleg hús sem verða rifin
Það er athyglisvert í tillögum um breytingar í Reykjavík að það eru á nokkrum stöðum rúmlega tvítug hús sem fá að víkja.
Þannig á Læknagarður (Tanngarður) sem liggur milli eldri og nýrri Hringbrautar að fara. Þetta hús er frá því um 1980 ef ég man rétt, og átti greinilega að tengjast Landspítala þegar Hringbraut yrði færð. Nú hefur það gerst en skipulag sjúkrahússins breyst. Líklega gráta þetta fáir.
Listaháskóli á að rísa milli Hverfisgötu og Laugavegar, á reitnum bak við húsið sem hýsir Vínberið, Laugaveg 43 og húsið við Frakkastíg sem einhvern tíma hýsti L.A. Café (Ellakaffi á íslensku). Það er sjónarsviptir að Laugavegi 43 ef það hús verður látið fara. Ég held að færri sakni hússins við Frakkastíginn, sem var reist um 1985.
Hús var reist við Lækjartorg um 1978 og hefur lengi verið kennt við strætisvagna, þó að skiptistöð Strætó hafi fengið sífellt minna pláss þar og að lokum eiginlega horfið þaðan. Þetta er ágætis hús, hefur hýst Kaffi Torg, Optik, Segafredo og aðrar menningarstofnanir, en ef þar kemur fallegt hús í staðinn munu fáir gráta það.
Það eru ekki bara gömul hús í útrýmingarhættu. Mun einhver standa upp og verja þessi hús?
Umhverfi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2008 | 00:24
MacBook Hot Air
Það er þriðjudagskvöld og á heimili mínu er eitthvað að gerast. Ég birtist með venjulegt A4-umslag og opna það, og dreg út ... MacBook heimilisins.
Hún er í hvítu plasti og heilum sentimetra þykkari en tækniundrið sem Steve Jobs var að kynna fyrr í kvöld vestur í Kaliforníu. Auk þess er hún með hraðari gjörva (cpu), stærri harðan disk og jafnstóran skjá. Bíddu við, og kostar líklega rúman helming af því sem MacBook Air í sínu fína pússaða áli mun kosta.
Ef maður kaupir útgáfuna af MacBook sem kom í verslanir fyrir jól, má fá 2,2 Ghz Core 2 Duo gjörva með 800 Mhz braut, svokallað Santa Rosa chipset, fyrir 130.000 krónur. Það er í Apple-búðinni, sem mér skilst að sé ein okurbúlla.
Maður getur fengið sér Dell-fartölvu hjá EJS með sömu grunngerð, Dell Inspiron 1720, sem kostaði í haust 180.000 krónur. Hún kemur í fleiri litum. MacBook Air verður aðeins í pússuðu áli en verður varla ódýrari.
Kaupið, kaupið!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2008 | 00:23
Húsaníð
Viðtal Egils Helgasonar við Sigmund Gunnlaugsson í Silfri Egils á sunnudag hefur vakið sterk viðbrögð.
Sigmundur hefur sýnt með tiltölulega einföldum myndum hvernig falleg hús í Reykjavík hafa verið gerð að dauðum kumböldum. Því miður var það gert í góðri trú og sporin hræða.
Það sem kom þó fram sterkast hjá honum er að hvatinn er ennþá til að láta hús grotna niður og byggja nýtt og stærra á sömu lóð, selja og fara, endurtaka svo leikinn á næsta stað.
Þetta hefur komið fram áður en Sigmundur getur sett fram málefnið á þann hátt sem lætur fáa ósnortna. Það má því búast við viðhorfsbreytingu þegar þættir frá honum verða sýndir síðar í vetur.
Nú er rætt um að það þurfi að greiða skaðabætur til þeirra sem höfðu öðlast byggingarrétt þar sem nú á að friða. Þá verður manni hugsað til hvort borgarbúar eigi ekki rétt á skaðabótum frá þeim sem gerðu falleg hús að ljótum. Þannig gæti bankinn sem eignaðist hús Útvegsbankans við Lækjartorg bætt fyrir það sem þar var gert. Tryggingafyrirtækið sem eignaðist Almennar tryggingar og þar með húsið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks gæti rétt hlut borgaranna eða átt á hættu að vera minnst fyrir þessa framhlið svo lengi sem fólk gengur um Austurvöll.
Einfaldar teikningar og samsettar myndir hafa orðið sterkt vopn í höndum húsfriðunarsinna. Teikning Snorra Freys Hilmarssonar af húsinu sem gæti komið við Laugaveg 51 (við hornið á Frakkastíg, þar sem nú er verslunin Vínberið) vakti mikla athygli. Einfaldar myndir Sigmundar þar sem hann sýndi áður falleg hús og óskapnaðinn sem við þekkjum í dag voru jafn sláandi.
Það má kalla ódýrt bragð að setja verstu húsgafla Reykjavíkur inn í fallega borgarmynd Kaupmannahafnar, en Sigmundur er að vekja athygli á málum sem þarf að mála í sterkum litum. Það er einfaldlega erfitt að sjá hvað er mögulegt á Laugavegi þegar maður er alinn upp við að þetta sé stræti sem allt of margir ganga illa um.
Það vekur athygli mína strax hvað önnur mynd er á húsum við Laugaveg sem eru lægri í dag en þau voru, þar sem gatan hefur fyllt upp í hálfa hæð. Svipur húsanna gerbreytist og það er augljóst af hverju lagt er til að lyfta þeim, það er búið að grafa þau að hluta niður!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2008 | 18:36
Illa farið með Seltirninga
Seltjarnarnesið er eitt merkilegt nes. Á landi Seltjarnarneshrepps býr helmingur þjóðarinnar og hinn helmingurinn hefur átt erindi þangað, að undanskildum nokkrum aðdáunarverðum sérvitringum. Á landi þess sitja nú mestöll Reykjavík, Kópavogur og upprunasveitarfélagið Seltjarnarnes.
Seltjarnarnesið gaf þetta allt og hefur þegið lítið í staðinn. Það átti fyrst sveitarfélaga byggðasamlag með Reykjavík þegar það greiddi með rekstri strætisvagna, þannig að einn þeirra gengi um Nesið. Seltjarnarnesið greiddi með rekstri Sinfóníuhljómsveitar við hlið Reykjavíkur, en það gerðu ekki önnur sveitarfélög.
Um langa hríð hafa Seltirningar tekið þátt í rekstri hjúkrunarheimilins Eirar. Fyrsti áfangi þess var byggður í Grafarvogi. Næsti áfangi átti að vera í miðbæ Nessins, á Hrólfsskálamel. Því miður fór miðbæjarskipulagið þar á flug og hefur varla lent, ef miða á við íbúðaverð sem er þar í boði núna. Í staðinn ætluðu Seltirningar að taka þátt í að reisa hjúkrunarheimili með Reykvíkingum á gömlu Lýsislóðinni við enda Grandavegar.
Það er illa farið með Seltirninga að taka fyrst allt landið af þeim og höggva svo aftur í sama knérunn og finna allt til að torvelda að hjúkrunarheimilið verði reist þar.
Það er ætíð vindur á Nesinu, nema einn dag á ári. Það veit enginn hvenær hann verður, en ef hann kemur snemma á árinu er almenn sorg, því þá kemur ekki annar logndagur á því ári. Það er alltaf sama vindáttin á Nesinu. Það er hafátt.
Ég bjó á Rein, á Melabrautinni í sjö ár og langar alltaf aftur á Nesið.
13.1.2008 | 20:04
Að byggja upp miðbæ Reykjavíkur
Það stendur miðbæ Reykjavíkur fyrir þrifum að þar fer fram ýmis konar barátta meðan það ætti að vera uppbygging, að byggja upp miðbæ.
Húsaverndunarfólkið stendur í skotgrafahernaði, varnarbaráttu upp á líf og dauða, eins og sjá má af greinum þeirra. Fjórtán daga frestur fenginn, það má ekki gerast að húsið verði rifið, í guðanna bænum sjáið að ykkur og látið þetta hús ekki hverfa.
Meginhluti borgarbúa vill ekki standa í baráttu í miðbænum, heldur að þar þrífist fólk.
Miðbæ þarf að byggja upp til langs tíma. Hann verður ekki byggður með því að taka afstöðu til hvers húss fyrir sig og ekki með því að fylgja stundarskoðunum.
13.1.2008 | 13:51
Leiðaraskrif Morgunblaðsins að undanförnu
Ég get vel skilið að fjölmennur flokkur innan Sjálfstæðisflokks finnist það ekki góð tilhugsun að vera með Samfylkingu í ríkisstjórn.
Samfylkingin hefur sýnt sig að taka aðra stefnu um samstarfið en Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur höfðu gert í 16 ár. Í fyrsta lagi er þetta stór flokkur sem ætlar sér að keppa við Sjálfstæðisflokk að stærð, hvenær sem það getur nú gerst, og vill halda fullu tré við samstarfsflokkinn út af því. Í öðru lagi eru flokkarnir að einhverju leyti að berjast um sömu atkvæði á miðjunni. Í þriðja lagi eru forsvarsmenn Samfylkingar þess fullviss að pólitískt líf þeirra bíði þess ekki bætur ef þau reynast Sjálfstæðisflokki leiðitöm, líkt og komið hefur á daginn með Framsóknarflokk.
Það hlýtur þó að vera fremur fámennur hluti Sjálfstæðisflokks sem vill ganga jafn hart fram og leiðarahöfundar Morgunblaðsins gegn Samfylkingu og mæla um leið fyrir samstarfi við Vinstri Græn.
Það er því furðulegra, að ritstjóri Morgunblaðs var í eina tíð talin brú Sjálfstæðisflokks yfir til krata, þar sem hann var tengdasonur tveggja af leiðtogum þeirra.
Samstarf við Vinstri Græn hefur greinilega kosti í för með sér fyrir Sjálfstæðisflokk. Flokkarnir bítast varla um sömu atkvæðin og geta einmitt þess vegna unnið betur saman en flokkar sem þurfa að berjast á þeim vígvelli. Flokkarnir eru að miklu leyti sammála um Evrópumál.
Það er samt einkennilegt að sjá jafn harða afstöðu og Moggi sýnir gegn Samfylkingu, þar sem blaðið mælir fyrir málum á svipaðan hátt og margir innan þess flokks. Til sanns vegar verður að færa, að blaðið er alls ekki ógagnrýnið á VG.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2008 | 02:46
Alþjóðlegur miðbær
Farðu um miðbæ Reykjavíkur snemma á laugardagsmorgni eða fyrir hádegi á sunnudagsmorgni. Það fyrsta sem þú heyrir er líklega pólska. Þá heyrirðu norsku, sænsku, ensku, þýsku, frönsku eða dönsku, áður en þú heyrir íslensku.
Svona er það nú bara. Miðbær Reykjavíkur er alla jafna fullur af fólki sem er að koma til landsins, bæði ferðamenn, nýkomið fólk og námsmenn. Þetta er eðlilegur staður fyrir ferðamennina, og fyrir hádegi um helgar verður það áberandi að þeir eru í meirihluta í bænum.
Ennþá er svipað dýrt að leigja nærri miðbæ Reykjavíkur eins og það er í úthverfunum. Það er því eðlilegra fyrir marga námsmenn sem koma til landsins að festa sig þar. Um tíundi hluti námsmanna í Háskóla Íslands er til dæmis frá öðrum löndum og fer fjölgandi.
Eins má heyra í röðinni í Bónus í Kjörgarði að margir sem koma til að vinna hér á landi hafa fundið sér stað nálægt miðbænum. Þannig er miðbærinn og nánasta umhverfi hans orðið að alþjóðlegasta hverfi landsins, að fráskildum nokkrum stöðum á Vestfjörðum.
Er nóg gert fyrir þetta fólk? Hvar eru merkingar á öðrum tungumálum en ensku? Eru ekki ferðamennirnir mikilvægur viðskiptahópur? Á ekki að gera eitthvað fyrir þá, eða lita borgaryfirvöld bara á þá sem tekjulind? Nokkur upplýsingaskilti eru þarna en margt betra mætti gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar