Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Hverjir láta þjóðfélagið ganga?

Nú er ljóst að fjármálastofnanir hafa lítið vitað hvað ætti að greiða fyrir hlut í öðrum fjármálastofnunum í október síðastliðnum. Aðra ályktun er varla hægt að draga þegar markaðsverðið er orðið 30-50% lægra en það var þá og óralangt frá matsverði greiningardeildanna á sama tíma.

Stjórnmálamenn í Reykjavík keppast við að segja manni í orði og verkum að þau hafi lítið vitað hvað þau voru að gera í október.

Um leið gekk þjóðfélagið, hagur þess óx og það dafnaði. Það verður að álykta að þessir hópar sem hafa verið áberandi í umræðunni og skammtað sér drjúgar summur fyrir gott gengi hafi í raun ekki bætt haginn neitt heldur einungis flotið á góðu gengi þjóðfélagsins.

Hverjir ætli hafi haldið við þessu góða gengi? Ætli það geti verið almennir launþegar? Ætli það sé fólk í almennum þjónustu- og framleiðslustörfum?

Undanfarin 12 ár hafa verið hagfelld. Á þessum tíma hefur styrkur lífeyrissjóðanna orðið að æ meiri undirstöðu góðs fjárhags samfélagsins. Hverjir greiða til þessara sjóða? Eru það ekki almennir launþegar?

Næstu mánuði verður reynt að tala niður kröfur launafólks með þeim ummælum að ekkert svigrúm sé til launahækkana. Það er rétt að hafa í huga hverjir hafa byggt upp þetta land, ekki bara hverjir gátu reiknað sér sjálfum eða kollegum launahækkanir.


mbl.is Hamingju leitað á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veður og vetur af venjulega taginu

Nú má heyra í íbúum á höfuðborgarsvæði að þetta hafi verið voðalegur vetur. Hann er reyndar rétt byrjaður, vetur byrjar eftir jól, á nýju ári. Víst er að veðrið fyrir jól var hundleiðinlegt, sífellt hvassviðri, en þetta er búið að vera ágætt eftir þau.

Svolítill snjór liggur á götum en ekki svo mikið að ég geti ekki hjólað. Ég held að það hafi verið verra bæði 1983 og 1984. Það má eflaust fletta upp einhverjum verri mánuðum 1991, þegar ég þurfti að leggja hjólinu og eitthvað var víst leiðinlegt árið 2000.

Þetta veður síðan í október er það sama og ég ólst upp við. Venjulegur íslenskur vetur er hundleiðinlegur hér sunnan heiða. Þeim sem líkar ekki við hann þurfa að finna sér vetrarhús sunnar á hnettinum, eða búa á Akureyri þar sem veðrin eru stilltari og veturinn hvítur. Nú hjóla ég í bæinn.


Örugglega ekkert með Ólaf F. að gera?

Mér sýnist að nær alger fylgni sé milli falls úrvalsvísitölu 9. október þar til á miðvikudag 23. janúar, og fjölda daga Tjarnarkvartettsins í meirihluta borgarstjórnar.

Svo er bara að sjá hvort Ólafi F. tekst að snúa þróuninni við. 

Mig langaði bara að minnast á þetta af því að það er föstudagur, samsæriskenningasmíð í nokkrum blóma og kenningin varla galnari en aðrar um sviptingar í borgarpólitíkinni, eða hvað?


mbl.is Næstmesta hækkun hlutabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ómar orðinn áhrifamaður?

Ég sé ekki betur en að fólkið í efstu sætum F-listans til borgarstjórnar fylgi núna Íslandshreyfingunni. Ólafur skráði sig að sögn í hreyfinguna, Margét Sverrisdóttir og Ásta Þorleifsdóttir hafa báðar staðið þar í fylkingarbrjósti.

Borgarstjórinn í Reykjavík á þar með sinn stjórnmálaleiðtoga, sem er Ómar Ragnarsson. Ólafur hlustar að minnsta kosti á orð Ómars, sem er meira en hægt er að segja um flesta Íslendinga í dag.

Segið svo að bloggið gagnist engum! 


mbl.is Ólafur tekur við lyklum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjan, pólitískt vefrit

Björn Ingi hefur haldið til á vefnum á Eyjunni, vefriti sem Pétur Gunnarsson og fleiri halda úti með mörgum góðum pennum.

Þar ber núna hátt yfirlýsing Binga en ekki síður er forvitnilegt að lesa útleggingar samherja hans á Eyjunni.

Pistill Össurar Skarphéðinssonar er áhugaverður, enda hafði hann áður boðið Binga að ganga í Samfylkingu og bað hann taka sem flesta með sér. Honum virðist ekki ætla að verða að þeirri ósk sinni.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

35 ár frá gosbyrjun í Eyjum

Þegar ég var vakinn þennan morgun, 23. janúar 1973, snemma eins og flestir landsmenn, neitaði ég að trúa systur minni sem sagði að það væri byrjað að gjósa á Heimaey. Ef þú trúir því ekki, hlustaðu bara á útvarpið, sagði hún. Það var nóg til að sannfæra mig. Klukkan ekki orðin sex og útvarpið í gangi, það hlutu að vera stórtíðindi sem höfðu gerst.

Þegar er horft til baka sér maður hvað hefur breyst í viðbúnaði við gosi eins og þessu. Þar stendur upp úr að jarðskjálftamælakerfi segja okkur miklu meira en þeir fáu mælar sem sýndu hreyfingu 22. janúar 1973. Þá voru menn ekki vissir hvort hreyfingin væri við Veiðivötn eða í Vestmannaeyjum.

Mælingakerfið byrjaði að þéttast með sænska SIL-kerfinu sem náði yfir Suðurlandsundirlendið og Vestmannaeyjar á tíunda áratugnum. Síðar bættu Veðurstofan, Orkustofnun og aðrir aðilar við mælum, þannig að fréttastofa RÚV gat sagt frá því 26. febrúar 2000 að Hekla myndi byrja að gjósa innan hálftíma.

Heppnin var með Eyjamönnum þegar kom að því að bjarga mannslífum. Daginn áður var bræla en það hafði lægt með kvöldinu, þannig að flotinn lá inni og hægt var að flytja 5000 manns á örfáum klukkustundum. Bátarnir sigldu í slæmum sjó til Þorlákshafnar og undrafljótt gekk að skipa upp fólki þar, þannig að skipstjórar rétt renndu upp að og héldu við, og héldu frá um leið og síðasti farþegi var farinn frá borði. Þá tók við sigling aftur til Eyja og lítil hvíld hjá flestum þeirra. Nokkrir farþegar gátu komist með flugvélum í land en gosrásin var stutt frá enda annarrar flugbrautarinnar.

Svona heppni verður seint fullþökkuð en það er ekki hægt að treysta á að veðurguðirnir verði alltaf hagstæðir þegar tekur upp á því að gjósa, þannig að gott viðvörunarkerfi getur bjargað hundruðum mannslífa. Árið 1973 hafði síðast gosið í Heimaey um 5000 árum fyrr. Síðast gaus nærri Reykjavík fyrir um 1000 árum. Hér er ekki verið að spá um að nein slík tíðindi séu að gerast við Grindavík, en sunnanverður Reykjanesskaginn er virkt eldfjallasvæði.


mbl.is Jörð skelfur við Grindavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búa í borgríki

Einn af yngstu þingmönnum okkar er ættaður frá Sigló. Hann spyr hvort við viljum búa í borgríki? Þeirri spurningu hefur löngu verið svarað. Við búum í borgríki.

Í einu sveitarfélagi búa tæp 40% þjóðarinnar og hefur verið um áratuga skeið. Tveir þriðju þjóðarinnar búa milli Leiruvogs og Straumsvíkur. Hlutfallið hefur undanfarna áratugi aukist um tvo þriðju úr prósenti á ári.

Ef eitthvað er, þá mun minnkandi sjávarafli ýta undir meiri flutninga fremur en minni. Nokkur hundruð manns í fiskvinnslu verður sagt upp á þessu kvótaári. Einhver hluti þeirra mun flytja frá smærri stöðunum. Næga vinnu er að fá í Reykjavík.

Þetta er ekki skrifað af einhverri andstöðu við landsbyggð, heldur er þetta staða mála. Þeir flokkar sem ætla að vinna gegn þróuninni hljóta að gera það á eigin áhættu.


mbl.is Fimm mánaða vinnslustöðvun hjá Vísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta fyrirtæki landsins

Stærsta fyrirtæki landsins er Reykjavíkurborg. Borgarstjóri er framkvæmdastjóri hennar, um leið og borgarstjórar eru pólitískir leiðtogar.

Með jafnmarga borgarstjóra og hafa verið undanfarin ár má þakka fyrir að embættisfólkið standi sig.


mbl.is Ósammála um nýtt samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn lands og borgar

Það eru mikil skil milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og togstreita þarna á milli. Landsbyggðin er í vörn, mismikilli eftir svæðum, en höfuðborgarsvæðið í sókn og áhrifasvæði þess fer stækkandi.

Landsbyggðarþingmenn vilja eðlilega verja sín svæði. Stundum tekur þessi vörn á sig skringilegar myndir eins og þegar fólk er á móti framkvæmdum á höfuðborgarsvæði vegna þess að það telur að landsbyggð beri þá skarðan hlut frá borði.

Þetta verður skringilegra með árunum, þegar framkvæmdir eru á höndum einkageirans, og ákvarðanir stjórnvalda hafa lítið með málin að segja. Þau geta til dæmis ekki ákveðið að álver rísi á einum stað en ekki öðrum, ef fyrirtækin hafa gengið löglega frá sínum málum.

Það er ljóst að ýmsir eldri stjórnmálamenn eiga erfitt með að sætta sig við nýja stöðu mála. Þannig lýsti iðnaðarráðherra stöðu álvera í undirbúningi þegar hann tók við, eins og hann gæti ráðið um það hvort þau yrðu byggð á Bakka, í Helguvík, í Þorlákshöfn eða annars staðar. Þó var ljóst að sveitarfélögin á þessum þremur stöðum bæði vilja og geta komið þessum álverum upp og útvegað orku, vatn og annað sem til þeirra þarf.

Í besta falli getur svona málflutningur skapað úlfúð og í versta falli tafið framgang mála. Þetta er ekki eitthvað sem flokkarnir geta litið framhjá. Þeir stjórna landi þar sem tæpir tveir þriðju landsmanna búa á einu svæði.


Menn og málefni í borgarpólitíkinni

Talleyrand var pólitíkus sem náði að lifa af flestar hremmingar og stjórnarskipti í Frakklandi fyrir rúmum 200 árum. Sýn hans á pólitík var vel til þess fallin. Hann sá hana sem ekkert nema valdatafl. Þegar honum var sagt frá andláti spænska sendiherrans í París, á hann að hafa sagt: - Hvað ætli honum hafi gengið til með því?

Fólk sem lítur á stjórnmál fyrst og fremst eða alveg sem valdabaráttu, sér þau aðeins sem togstreitu fólks. Því finnst allt tal um málefni bara vera skinhelgi, af því að það sjálft lítur þannig á málin. Því finnst jafnvel barnalegt að tala um málefni, því það hélt að málefni væru mikilvæg þegar þau voru börn, en svo eltust þau upp úr því. Fyrir þessu fólki er allt spillt.

Fyrir öðrum skipta málefni flestu. Þeir sem gleyma málefnunum gera það á eigin áhættu. Fyrir tveimur áratugum var borgarstjóri í Reykjavík sem birti lista yfir þau verk sem hann ætlaði að ljúka fyrir lok kjörtímabils, og birti listann aftur fyrir kosningar, þar sem krossað hafði verið við það sem var lokið. Fólk gat verið sammála eða ósammála, það var að minnsta kosti hægt að taka á því hverju fólk var þá ósammála. Þetta er árangursríkasti stjórnmálamaður á Íslandi.

Það er varla ofsögum sagt að nú skipti skipulagsmál borgarinnar fólk miklu. Hvar sem drepið er niður fæti, frá beygjurein á Bústaðaveg, Sundabraut í göngum eða í ógöngum, mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, flugvöllur í Vatnsmýri og verndun húsa í miðbænum, allt þetta telur fólk núna mikilvægt. 

Ég varaði við því þegar borgarstjórn Dags B. Eggertssonar (sú fyrsta) tók við, að þau myndu aðeins reyna að stjórna frá degi til dags. Það má vara hann aftur við svona vinnubrögðum, en kannski hafði hann ekki kost á öðru.


mbl.is Allt upp á borð varðandi REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband