Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
31.1.2008 | 20:22
Kalifornía, stóra eplið á vesturströndinni
Repúblikanar halda forval og forkosningar í 21 ríki á þriðjudag, 5. febrúar. Í mörgum þeirra gildir að sá sem fær flest atkvæði vinnur allla kjörmenn ríkisins á landsþing.
Nú er McCain í forystu og getur sópað vel á sprengidag. Kalifornía hefur um sjöunda hluta þeirra kjörmanna sem þarf til að vinna útnefningu hjá repúblikönum, um fimmtung hjá demókrötum. Það skiptir miklu að vinna þar. Kosningabaráttan er háð í fjölmiðlum í þessu fjölmenna ríki og stuðningur Schwarzenegger hefur mikið að segja.
Clinton leggur mikið undir til að vinna þar. Bæði hún og Obama eru með digra sjóði og munu keppa um fjölmiðlapláss fram á þriðjudagskvöld.
Stór hluti atkvæða skilar sér með pósti. Þar sem fólk hefur verið að kjósa í pósti síðan í byrjun janúar, þá nýtist gott gengi McCain ekki til fulls.
Slagurinn á þriðjudag er sá stærsti í forkosningum hingað til og getur hæglega endað baráttuna, því báðir flokkar vilja finna sigurvegara sem fyrst, og hylla hann eða hana fram til byrjunar nóvember.
Schwarzenegger styður McCain | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2008 | 19:11
Íslensku fagurbókmenntaverðlaunin 2008
Einn daginn setti Siggi Páls upp baskahúfu og alltof langan trefil, sveiflaði treflinum í boga aftur fyrir bak og kunngerði að hann ætlaði að verða skáld. Þannig byrjaði bloggfærsla hjá mér í desember.
Svo sagði ég undan og ofan af Minnisbók (Sigurðar Pálssonar) og endaði á að gefa bókinni einkunn.
Mjög gott.
Sigurður og Þorsteinn fá bókmenntaverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 23:27
Zizek á spítti
Margir hafa sagt mér hversu frábær fyrirlesari Zizek sé.
Ég hef samt ekki látið vera af því að hlusta á manninn því það sem hann skrifar er fyrir mér það sama og svo margir franskmenntaðir vinstrimenn skrifa. Fyrir mig er þar fátt nýtt.
Margir þeirra hljóma sem umbótasinnaðir menn en eru í raun íhöld, eins og Einar Már Jónsson. Þetta eru fínir stílistar. Þeir taka heimsatburði sem einhvers konar ímyndun, tilbúna í sjónvarpi og telja að heimurinn sé að sveigjast aftur að sovétinu. Fyrir marga þeirra er sovétið það eina raunverulega, það eina sem hönd er á festandi. Þeir eru búnir að vera í eftirsjá síðan Múrinn féll.
Nú sá ég hann í Silfrinu, miðaldra sófakomma á spítti, annað hvort því innbyggða eða aðkeyptu, en alger mótorkjaftur. Ég held að maður þyrfti viskíflösku til að halda hann út í nálægð.
30.1.2008 | 20:20
Þrír leikir hjá A-landsliði karla 2.-6. febrúar
Nú fer landsliðið til keppni á smámóti á Möltu. Á laugardaginn keppa þeir við Hvít-Rússa kl. 14, við heimamenn á mánudagskvöld kl. 18.30 og við Armena á miðvikudag kl. 16.30.
Hermann verður ekki með fyrr en á miðvikudaginn, sem er alþjóðlegur leikdagur, sem og nokkrir sterkir.
Upphaflegi hópurinn er hér á pdf-skjali, en nokkrir hafa dottið út, eins og lesa má hjá KSÍ.
Hermann á bekknum á Old Trafford | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2008 | 08:12
Að fá Ólínu til að dæma um húmor
Að fá Ólínu Þorvarðardóttur til að meta hvað sé gott og gilt hjá Spaugstofu er líkt og að fá Atla Heimi Sveinsson til að dæma Rolling Stones.
Bæði hefur verið reynt og bæði er jafn fánýtt.
Spaugstofan sér ekki eftir neinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.1.2008 | 08:04
Jafnrétti, ekki jöfnuður
Margir telja að jafnrétti og jöfnuður sé eitt og hið sama. Það er ekki svo.
Jafnrétti er að eiga jafna möguleika í krafti eiginleika sem skipta máli hverju sinni og horft sé fram hjá öðrum málum. Þannig hafi kyn, trú, húðlitur, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð ekki áhrif á möguleika til vinnu og skipti ekki máli í íþróttum, svo nefnd séu dæmi.
Jöfnuður er þegar litið er framhjá eiginleikunum. Allir sem eru orðnir 18 ára hafa rétt til að kjósa í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Innan hvers kjördæmis eða sveitarfélags hefur hvert atkvæði jafnan rétt við það næsta.
Nú virðist sem allir eigi að hafa rétt til alls. Þetta er angi af því sem má kalla öfgasinnaða jafnaðarmennsku, þar sem allir eigi að vera góðir við alla og til að tryggilega sé gengið frá því, þá er það bundið í lög.
Jafnrétti er það ef öll sem vinna í búð geta orðið að borgarstjóra, ef þau ná að standa öðrum framar. Jöfnuður er að gera alla að borgarstjóra. Að því virðist keppt núna.
28.1.2008 | 18:37
Verð og verðmæti
Markaðir samtímans ganga út frá því að verð sé sama og verðmæti. Annars væri fólk að greiða vitlaust verð fyrir það sem það vill fá.
Kenningar eru jafnan uppi um að markaðirnir geymi fullkomnar upplýsingar og rangt verð sé ekki til. Þetta er ekki rétt. Það geymir enginn fullkomnar upplýsingar um neinn hlut eða málefni, því allir eru bundnir af tíma, og læra að treysta á það sem kallað er innsæi.
Tvö dæmi sem ættu að heita augljós sýna að verðmæti og verð er ekki það sama. Hið fyrra er verðfall markaða um allan heim í janúar 2008. Verð hluta í öllum heiminum féll um 5.000 milljarða dollara ($5 trn), eða um þrítugasta hluta (3,3%) þess sem talinn er veraldarauðurinn. Á sama tíma gekk þó ekki neitt ógurlega illa í heiminum. Þar var hagvöxtur, engar auðlindir þurrkuðust óvænt upp og engar borgir fórust. Það kom ekkert geimskrímsli sem át hluta af Jörðinni. Verðið lækkaði vegna þess að traust manna á fjármálastofnunum þvarr við láns- og lausafjárvanda. Þetta er sami heimurinn, örlitlu ríkari en samt metinn aðeins lægri í verði.
Annað dæmi er af fólki sem keypti sér fasteign, íbúð í Reykjavík, rétt fyrir aldamótin. Árið 2008 er eign þeirra metin þrefalt hærra í fasteignamati og að markaðsverði en þegar þau keyptu hana. Þau hafa ekkert gert fyrir eignina. Það er kominn tími á að mála og gera við annað að utanverðu, það þarf að pússa upp og lakka parketið, mála eitt og annað innandyra og fólkið langar að endurnýja í eldhúsi og á baði. Verðið er orðið þrefalt hærra en íbúðin er sama fasteignin. Fasteignagjöld eru hærri, viðgerðir kosta meira og vaxtabæturnar horfnar. Verðið fylgir ekki verðmæti.
Fólk þarf því miður að taka tölum eins og verðmæti á mörkuðum með fyrirvara og ekki að trúa því að allar upplýsingar séu alltaf til staðar. Ísland er með viðskiptahalla við önnur lönd, er í mínus. Nokkur stór og smá lönd eru með viðskiptaágóða (jákvæðan viðskiptajöfnuð), eru í plús við önnur lönd. Þau sem hafa lært grunnskólastærðfræði kunna að líta svo á að samanlagður viðskiptahalli milli landa heimsins hljóti að vera 0, plúsar og mínusar jafni hvern annan út. Því miður hefur komið í ljós að heimurinn er með mikinn viðskiptahalla. Tvennt kemur til greina; Viðskipti við aðrar plánetur hafa ekki reynst okkur hagfelldar eða að þessi halli er ekki að sýna það sem hann á að sýna.
Markaðirnir eru ekki slæmir, þeir hafa reynst illskásta leiðin til að miðla gæðum. Hins vegar þarf ekki að upphefja þá og láta eins og þeir séu alviturt tæki.
Nærri 40 milljarða hagnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2008 | 23:31
Stjórnmálaskóli borgarstjórnar
Reykvíkingar greiða nú fyrir dýrasta stjórnmálaskóla Íslandssögunnar, þar sem borgarfulltrúar reyna fyrir sér á ýmsa vegu.
Þar sem ég er einn af þeim sem greiði fyrir þetta nám, þá vil ég nota tækifærið og draga ályktanir af atburðum undanfarinnar viku.
- Ef traust er undirstaða velfarnaðar í stjórnmálum, þá er mikil vinna framundan hjá öllum borgarfulltrúum, nema þeir ætli ekki að bjóða sig fram að nýju eftir tvö ár.
- Sá borgarfulltrúi sem stendur með meira traust eftir vikuna en fyrir hana er Dagur B. Eggertsson, hvað sem síðar verður.
- Mótmælin á pöllum ráðhússins á fimmtudag hafa aukið veg Ólafs F. og Sjálfstæðismanna en ekki minnkað hann.
- Stjórnmálaskólanum er ekki lokið og hann á eftir að kosta meira.
Ólafur sagði F-lista frá samtölum við sjálfstæðismenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2008 | 14:42
The Darjeeling Limited - bíórýni
Það lítur út fyrir að Jason Schwartzman sé hrifinn af áttunda áratugnum. The Darjeeling Limited byrjar á stuttmynd og fyrsta myndin er af honum, með klippingu sem hefði sómt sér vel í All the President's Men eða Marathon Man. Þar til hann setur iPodinn af stað, gæti myndin sómt sér vel árið 1972.
Fyrst datt mér til hugar hvort hann og vinur hans Roman Coppola hafi fengið að róta í gömlum handritageymslum, fundið eitt frá 1972 og breytt nokkrum atriðum þar til hún gerist, að nafninu til, árið 2005.
Sagan er ekki bundin við tíma, það er svarið. Þrír bræður hittast á Indlandi eftir lát föður þeirra. Sá elsti, leikinn af Owen Wilson, er að reyna að sætta þá. Hann velur til þess þaulskipulagt lestarferðalag um norðurhluta Indlands, þar sem þeir eiga að sækja sem flest hof á leiðinni og verða fyrir uppljómun. Bræðurnir eru efnishyggjumenn þar sem allt gengur út á hver á hvað, hvað hlutir kosta (mikið) og hver sofi hjá sæta súraldininu. Þetta er vegamynd, road movie, eða öllu frekar rail movie, járnbrautarmynd. Sagan tekur breytta stefnu og þeir finna svörin að lokum.
Wes Anderson leikstýrir. Leikurinn, sviðsetningin og myndin eru tilgerðarleg og sverja sig í ætt við sálarleitarmyndir frá enda sjöunda áratugarins og byrjun þess áttunda.
Af því að Roman Coppola kemur hér við sögu sem handritsskrifari, þá verður að minnast á ágæti þess að heita Coppola í bíóbransanum. Sofia og Roman bróðir hennar hafa fengið að gera ýmislegt sem aðrir myndu varla fá að gera í krafti föður síns, Francis Ford Coppola. Bróðursonur Francis heitir Nicholas Cage. Hann taldi að Coppola-nafnið myndi geta orðið honum til trafala, þar sem fólk myndi segja að hann fengi hlutverk bara út á það. Nokkuð glöggur, kallinn.
Endilega að líta á Darjeeling Limited ef þið viljð sjá sálarleit. Brody og Wilson leika vel. Smástirnið Amara Karan á góðan sprett og fleiri góðir leikarar koma við sögu, Bill Murray og Angelica Houston. Ef þið hafið ekki áhuga á sálarleit verður þetta bara tilgerðarleg gaman- og vegamynd.
Ég átti ekki gott með að meta hvort myndin var vel tekin þar sem brennipunkturinn var ekki á sýningartjaldinu í sal 3 í Háskólabíó á laugardagskvöldið og myndin var sýnd með loðinn ramma. Textavél gekk heldur ekki í takt við mynd. Sýningarmaður þarf að þrífa linsur og gæta að brennipunktinum.
27.1.2008 | 13:07
Að vinna forsetakosningar
Í nóvember kjósa Bandaríkjamenn um forseta, neðri deild þings, um þriðjung öldungadeildarþingmanna auk ríkiskosninga og kosninga um smærri atriði.
Það er því ekki skrýtið þó fólk leggi áherslu á forkosningar, sem formlega eru um forsetaframbjóðanda. Í raun getur farsæll frambjóðandi kallað fram góða kosningu til þings. Þá er talað um að þingmenn komist inn á jakkalöfum forsetans.
Aðeins um helmingur þeirra sem hafa rétt til að kjósa, gera það. Fólk þarf að skrá sig til að komast á kjörskrá. Þar sem oft er jafnt á milli repúblikana og demókrata er fólki í mun að ná til þeirra sem ekki myndu annars skrá sig, sérstaklega ungs fólks.
Eftir kosningarnar árið 2000, þegar þjóðin var skipuð í nærri jafnstórar fylkingar, varð þetta augljósara en áður en er ekki neitt nýtt í sögunni. Oft munar ekki nema um 10.000 atkvæðum til að vinna heil ríki og þar með allan kjörmannafjölda þeirra.
Repúblikanar hafa nú um þrjátíu ára skeið reynt að ná til tveggja stórra hópa til að tryggja sér sigur. Það eru íhaldsfólk í samfélagsmálum (social conservatives) sem berjast á móti fóstureyðingum og með vopnaburði almennings, svo nefnd séu dæmi, og frjálslyndir í markaðsmálum, sem vilja sem minnst afskipti ríkisins af viðskiptalífinu. Þessir hópar fylktu sér að baki Nixon, kusu Reagan og Bush-feðga. Hlutverk Karls Rove var ekki síst að tryggja fylgi þessara hópa. Þegar demókratar sóttu inn á miðjuna sóttu repúblikanar enn lengra til hægri.
Demókratar höfðuðu til þeirra sem minna mega sín og reyndu að ná inn fylgi svartra þegar þeir tóku í auknum mæli þátt í kosningum á sjöunda áratugnum. Þeir reyndu líka að ná fylgi spænskumælandi fólks þegar sá hópur vann sér þegnrétt og stækkaði. Vel stætt fólk úr báðum þessum hópum hefur reynst kjósa repúblikana.
Engu að síður reyna báðir flokkar sífellt að sækja inn á miðjuna, sækja nýtt fylgi ungs fólks, og bæta við kjósendum sem ekki kæmu annars á kjörstað. Þess vegna skiptir kjörþokki miklu. Nú, þegar átta dagar eru til ofurþriðjudags eða sprengidagsins 5. febrúar, veðja margir á þann frambjóðanda sem er líklegastur til þessara verka.
Hjá repúblikönum á McCain betra tækifæri á þessu en Rudy Giuliani, sem nú kemur af krafti inn í baráttuna. McCain er enn í þeirri stöðu að safna fé til baráttunnar en Giuliani hefur digra sjóði. Romney er einnig vel settur með fé,en Huckabee síður. Allir fjórir eru enn í spilinu. Meðan umræðan á Íslandi virðist stundum gera ráð fyrir að frambjóðendur demókrata hljóti að vinna forsetakosningarnar, má minna á að undanfarin 40 ár hafa demókratar átt tvo forseta en repúblikanar fjóra, demókratar ríkt í 12 ár en repúblikanar í 28.
Hjá demókrötum eru línur skýrari en alls ekki ljóst hvort Clinton eða Obama eiga sprengikraftinn á sprengidaginn. Bæði sækja þau fylgi til hópa utan kjarnafylgis. Obama höfðar til fólks úr mörgum hópum þjóðfélagsins en Clinton meira til kjarnafylgis demókrata og til kvenna. Hún keppir nú að því að tryggja sér einnig atkvæði svartra í New York. Líklega á hún sterkt fylgi þar, bæði í Harlem þar sem skrifstofa hennar er, sem og annars staðar í ríkinu.
Aðrir stórir slagir á sprengidag eru í Kaliforníu, Illinois, New Jersey, Massachussets og 19 öðrum ríkjum. Í nokkrum þeirra kjósa bara demókratar og í einu þeirra bara repúblíkanar, en í 19 ríkjum kjósa báðir flokkar. Á öskudag verður ljóst hvernig um 40% kjörmanna dreifast.
Obama sigraði í Suður-Karólínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar