Færsluflokkur: Lífstíll
6.4.2010 | 17:29
101-veikin
Það hefur ekki vantað að fólk sýni miðbæ Reykjavíkur umhyggju. Það er spurning hvort sú umhyggja hafi alltaf skilað fólki betri bæ.
Það er rétt sem sagt er að helmingur af öllum störfum á höfuðborgarsvæðinu er vestan Kringlumýrarbrautar, meðan einn fjórði íbúa svæðisins býr á sama svæði. Lausnin sem hefur verið fundin hingað til, að byggja fleiri íbúðir á svæðinu, hefur ekki breytt þessari stöðu. Spurningin er eins og alltaf, hver er vandinn?
Rætt er um að byggja íbúðir fyrir allt að 20.000 manns á svæðum við höfnina og Hlemm. Á báðum stöðum verður einnig mikil uppbygging á atvinnuhúsnæði, enda er svæðið eftirsótt jafnt fyrir íbúðir sem starfsemi. Þá má óska þess að íbúar þarna vinni á svæðinu en það er eitthvað sem er alls ekki á hendi skipulagsyfirvalda og miðað við reynslu í Evrópu er það ekki raunin.
Þau svæði þar sem á að þétta byggð eru nú þegar þéttust fyrir. Fimmfalt fleiri búa á hverjum hektara í 101 en í dæmigerðu úthverfi. Fólk sem þannig býr hefur séð afskaplega mikið eftir grænum blettum og leiksvæðum sem hafa myndast þar sem lóð hefur verið óbyggð, Mikil ásókn í hefur verið í óbyggðu lóðirnar hvar sem slíkir blettir eru í gamla austurbænum og vesturbænum.
Þéttleikanum fylgir miklu meira álag fyrir íbúa miðað við að búa í úthverfi og spurning er hvort meta megi lífsgæði þannig að þau innifeli tryggingu fyrir leiksvæði fyrir börn, minni umferð en nú er, minni ágang vegna útigangsfólks, minni ágang vegna athafnafólks með miklar hugmyndir um næsta umhverfi þeirra sem þarna búa? Þarf að gæta að lífi þessa fólks sem þarna býr? Ef bætast við tugir þúsunda í vesturbæ Reykjavíkur auk stóraukinnar atvinnustarfsemi við höfnina, þá fer sú umferð sem myndast um tvær götur, Hringbraut og Mýrargötu. Segi hver sem vill og horfi framan í íbúa þar, að það sé í lagi.
Reynslan af borgum þar sem íbúafjöldi stendur í stað sýnir að hófleg og lítil atriði eins og aukin gróðursetning trjáa, fleiri græn svæði og varleg uppbygging hefur aukið lífsgæði og borgargæði. Við sem búum á þessari eyju stöndum núna frammi fyrir þeirri staðreynd að næstu árin mun fjölgun ekki verða teljandi og alls ekki í líkingu við það sem búist var við fyrir fjórum árum. Dæmið hefur hreinlega snúist alveg við og forsendur gerólíkar frá því sem áður var.
Þegar þéttingin þýðir að störfunum fjölgar hraðar en íbúunum er rétt að skoða aðrar lausnir. Reykjavíkurborg er einn stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Er fljótlegra að borgaryfirvöld flytji meira af starfsemi sinni austur fyrir Kringlumýrarbraut en að byggja hátimbraðar skipulagshugmyndir ofan á þær íbúðir sem nú standa tómar við höfnina?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2010 | 06:38
Sumartími
Sumartími er kominn í Evrópu og Bandaríkjunum, þó að víða sé vorið komið skammt á veg. Nú munar einum tíma á okkur og Bretlandi og tveimur tímum á okkur og Mið-Evrópu. Fólk spyr af hverju er ekki komið á sumartíma á Íslandi og svarið er einfalt, það er sumartími árið um kring hjá okkur.
Yfirleitt er sumartími þannig við að klukku sé flýtt um einn tíma á sumrin, þannig að sólin komi upp um sjöleytið í stað þess að koma upp um sexleytið. Þá sest hún ekki fyrr en um sjöleytið í lok mars og um níuleytið í London í lok júní. Klukka hér er þannig árið um kring og kemur sólin upp klukkutíma á eftir raunverulegum tíma á Austurlandi, um klukkutíma og korteri á Akureyri og einum og hálfum tíma á eftir í Reykjavík. Ef við myndum flýta klukkunni í lok mars eins og Evrópuþjóðir værum við á því sem kallað er tvöfaldur sumartími. Sólin kæmi þá upp um áttaleytið í lok mars.
Nú berast fréttir frá Bretlandi sem segja frá baráttu fyrir slíku kerfi þar, svokölluð 10:10-hreyfing.
Einhverjir vinnustaðir auglýsa opnun klukkutíma fyrr á sumrin. Mér fannst merkilegt að heyra umræðu um að framhaldsskólanemar ættu erfitt með að koma sér á lappir í mesta skammdeginu. Þetta er einmitt það sem við ræddum um í MH fyrir 30 árum síðan og vildum að kennsla byrjaði klukkutíma seinna. Þá lærðist mér einföld íslensk rökfræði og ég á ekki við kennslubók Guðmundar Arnlaugssonar sem Eygló Guðmundsdóttir kenndi okkur. Nei, þá fengum við að vita að kennarar hefðu rætt þetta og vildu þetta ekki. Þar með var endir umræðu. Þó við vildum vita hvort kennarar gætu til dæmis unnið við annað en sjálfa kennsluna fyrsta klukkutímann var umræðan tæmd, búin.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2009 | 07:12
Afneitun, reiði og söknuður á því herrans ári 2009
Afneitun, reiði, gremja yfir því hvað þetta er allt ósanngjarnt, að leita undankomuleiða, söknuður og hryggð, að sætta sig við það sem verður ekki umflúið. Þetta er bara kenning um þau fimm stig sem fólk gengur í gegnum þegar dauðinn er innan augsýnar, ef fólk fær ráðrúm til þess. Þetta hljómar nokkuð kunnuglega í öðru samhengi.
Einn hópur fólks er enn staddur á því herrans ári 2007 í anda að minnsta kosti. Allt sem gert var á Íslandi fram að þeim tíma var rétt að þeirra mati. Hrunið kom að utan, það var Seðlabankanum að kenna að vilja ekki lána bönkunum þegar á þurfti að halda (og taka sjálfir lán hjá Bayerische Landesbank þannig að Glitnir fékk ekki það sem áður hafði verið lofað), það var útrásarvíkingunum að kenna, að minnsta kosti ekki mér og mínum.
Annar hópur er staddur í tíma ársins 2008. Reiði og gremja yfir hvað þetta er allt ósanngjarnt ræður ríkjum hjá þeim. Það var farið illa með Ísland, beitt hryðjuverkalögum gegn friðsamri þjóð, ráðist á þá sem áttu í peningamarkaðssjóðum, ráðist á skuldara, ráðist á allt sem áður var heilagt.
Þriðji hópurinn er að leita undankomuleiða. Það var það sem gerðist 2009. Þá er reynt að semja við Icesave-skuldunauta til að kaupa andrúm í sjö ár. Hluti þjóðarinnar finnur undankomuleið í vinnu á Norðurlöndunum. Einhverjar aðgerðir eru hafnar að sætta skuldara við hlutskipti sitt svo að þeir hverfi ekki.
Við munum síðan taka á móti nýju ári með söknuði og hryggð. Þau sem eftir verða á landinu þreytast á því að ræða endalaust við þá reiðu um hvað allt sé ósanngjarnt, þreytast á þeim sem enn eru í afneitun og þreytast á því að hugsa um hvað lífið sé miklu betra á Norðurlöndunum. Þau munu finna sér hugsvölun í öllu því sem er nógu langt frá þessum leiða raunveruleika, dimma, rigningarfulla og skuldsetta veruleika. 2010 verður tími sögulegra skáldsagna, sætsúrra gamanleikja og fantasíubíómynda.
Svo kemur árið þar á eftir og árið þar á eftir og árið þar á eftir. Það verður náttúrulega að sætta sig við það sem hefur gerst. Það fer bara að verða erfiðara og erfiðara fyrir þann hóp fólks sem á að skilja eftir í súpu ársins 2008 með síhækkandi skuldir og engar leiðir út.
Kenningin sem vitnað er í er kennd við Elisabeth Kübler-Ross sem setti hana fram árið 1969 í bókinni On Death and Dying.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 08:11
Fram á brún hengiflugsins - og fram af
Maður var nefndur Hyman Minsky og hefur sagt fyrir um hvernig fjárfestingar ganga í góðæri. Ég endursegi hérna eina kenningu hans í tilefni viðburðaríks vetrar, sem nú kveður.
Í fyrsta þrepi vilja fjárfestar eiga borð fyrir báru og eiga bæði fyrir greiðslu vaxta og afborgunum af höfuðstól, og oft eitthvað að auki. Þetta má kalla gætnistig, sem Minsky nefnir hedge investors.
Þegar góðæri gengur lengra verða fjárfestar áhættusæknari og fara að auka skuldsetningu þannig að þeir eiga aðeins fyrir greiðslu vaxta en geta ekki greitt afborganir af höfuðstól að fullu. Þetta er tímabil áhættufjárfestinga sem Minsky kallar speculative investment. Þá þurfa fjárfestar stöðugt að endurfjármagna, taka ný lán til að greiða eldri. Kannast einhver við þetta?
Á þriðja stigi, sem Minsky kallar Ponzi finance, getur fjárfestir ekki greitt vaxtagreiðslur nema með lánsfé. Á þessu stigi verður fjárfestir að skuldsetja allar eignir í topp. Kannast einhver við þetta? Ponzi sem vísað er í er Charles Ponzi sem byrjaði eitt frægasta píramídafyrirtæki sögunnar.
(Sjá The Risk of Economic Crisis, s. 160-161).
Höfundur er ekki hagfræðingur en hefur áhuga á þessum málum af augljósum ástæðum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 00:08
Endur- og nýgerð gömul hús
Mér finnst alltaf gaman að sjá þegar fólk talar um að gera við timburhús sem eru farin að fylla öldina eða meira.
Sjálfur hef ég búið í 130 ára gömlu húsi (sem nú er að verða 150 ára) og flutti í það úr 80 ára gömlu húsi (sem nú er að verða 100 ára) í miðbæ Reykjavíkur.
Mér finnst það ekki fallega sagt þegar fólk talar um að gera við svo gamalt timburhús. Sannleikurinn er sá að enginn upprunalegur burðarviður eða borðviður er nýtilegur í svo öldnu húsi. Slíkur viður er ekki til frambúðar. Hann er því tekinn burtu og nýr viður settur í staðinn.
Hingað til hefur verið sett sjónarspil á svið þar sem fólk endurbyggir húsin án þess að rífa upprunalega húsið, heldur skiptir um við fyrir við og borð fyrir borð.
Sjónarspilið er ekki viðhaft núna við húsið á horni Þingholtsstrætis og Bankastrætis (beint á móti B5) heldur hefur það verið rifið niður og sett snotur mynd af því á girðingu sem var reist til að fólk þyrfti ekki að horfa á rústirnar.
Það er rétt að taka fram að ég er ekki að hnýta í Þorstein Bergmann og hans fólk. Það vinnur góða vinnu.
Fólk þarf hins vegar ekki að láta eins og við séum ekki að endurbyggja þessi gömlu hús. Þó að fylgt sé gömlum myndum, lýsingum og teikningum, þá eru þau reist í þeirri mynd sem fólki líkar vel á fyrsta áratug 21. aldar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 21:14
Tilgangur loðteninganna
Ég er stundum seintekinn, það skal viðurkennast. Ég spurði í haust, laust eftir jafndægur, hvað þetta væri með loðteningana (furry dice), hvort þetta væri alþjóðlegt pungtákn?
Nú hef ég komist að því hvaða tilgangi þeir þjóna. Þetta er ekki bara lausn fátæka fólksins sem hefur ekki efni á almennilegu reðurtákni (bimma eða reinsa) og fjárfestir í hálfhreðjum í staðinn.
Ég hef gert hávísindalega könnun. Hún fer þannig fram að ég keyri á lögleyfðum hámarkshraða. Þá kemst ég að því að Íslendingar eiga góða bíla. Nærri allir aðrir bílar eru hraðskreiðari!
Sérstaklega kemur í ljós að litlar Yaris-tíkur eða viðlíka námsmannabílar eru sérlega hraðskreiðir. Oftar en ekki skarta þeir loðteningum (furry dice). Þess vegna dreg ég þá ályktun að loðteningarnir séu ekki settir inn sem lukkutákn, heldur gegni því hlutverki að gera bílinn hraðskreiðari!
Þeir eru þess vegna bílhraðall (car accelerator). Þetta er niðurstaða könnunarinnar.
Lífstíll | Breytt 10.4.2008 kl. 07:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 19:44
Æ, ekki tala um peninga
Hvað gerist þegar fólk eignast mikið fé en skammast sín fyrir að ræða það? Of mikil eyðsla er yfirleitt niðurstaðan.
Skelfing stór hluti þjóðarinnar er fullkomlega úti að aka í fjármálum og hjá sumum gætir stolts yfir því. Þetta má sjá hjá fólki sem hefur mörg ráð með að afla fjár, en virðist enga stjórn hafa á útgjöldunum. Þannig eru þeir tekjumeiri með meiri vanda en þeir tekjuminni af því að þeim hefur leyfst meira.
Hvernig skólakerfi er það sem undirbýr ekki fólk til að lifa í samfélaginu? Oft virðist eiga að ala upp fyrirmyndarfólk fyrir löngu liðinn tíma.
Það eru nokkrir ljósir punktar í þessu myrkri. Sístækkandi hópur fer í háskóla og af þeim er stór hópur sem lærir á þessi mál. Sjötti hver háskólanemi er að læra viðskiptafræði, stjórnun, rekstur eða fræði tengd þeim. Nokkuð stór hópur lærir eitthvað um stærðir og viðskipti í verkfræði, raunvísindum og lögfræði.
Eftir stendur sá hluti sem fer í framhaldsskóla, til dæmis iðnnám, og þarf ekki að kunna skil á fjármálum við útskrift, af því að það er ekki við hæfi að binda það í skyldu. Allt of margir nemendur í hugvísindadeildum og félagsvísindadeildum háskóla eru ratar í stærðfræði og komast upp með það. Það versta er að þetta fólk þarf ekki að læra mjög flókna stærðfræði, kunna skil á þríliðu eða getað reiknað prósentuhlutfall á annan hátt, ofan á og af heildarverði, það er ágætis byrjun.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 08:10
Þrjótagæskan
Það er talað um aumingjagæsku í þjóðfélaginu. Mér sýnist miklu meira um þrjótagæsku. Fyrir nokkrum árum hefði ég kallað þetta Kioísku, en núna er nær að nefna þetta Kallabjarnaísku.
Þá kemur þrjóturinn í sjónvarp og segist saklaus af öllum ásökunum. Svokallaðir fréttamenn hafa ekki fyrir að skoða sakirnar heldur leyfa þrjótunum að væla og setja sig í hvolpastellingar, horfa tárvotum augum framan í þjóðina og fá ofurskammt af samúð.
Þetta er skylt því heilkenni þjóðarinnar að vera í orði kveðnu mótfallin afbrotum en dást undir niðri að afbrotamönnum ef þeir eru nógu töff. Fáir dásama kók- og spíttneyslu í orði, en sumir vita svo ekkert flottara en að hafa spítthaus nærri sér, gangandi mótormunn, einhvern sem aldrei hefur farið að sofa svo vitað sé.
Spíttararnir eiga meira að segja sinn eigin heimspeking sem skrifar eins og Kerouac á bensedríni um það hvernig þjóðfélagið er allt eins og Stalín spáði. Svo kemur hann í spjallþátt á RÚV. Þáttastjórnandinn, sem lítur út eins og Tweedledee fer að skríkja og segir að heimspekingurinn hafi hraðan heila. Heimspekingurinn má varla vera að því að þakka, nuddar á sér nefið í nítugasta skiptið á korteri og heldur áfram manískri ræðunni um allt og ekkert.
Afbrotamenn eiga skilda samúð og umönnun en það er engin þörf að lyfta þeim á stall. Spítthausar eru úldin tuska. Þrjótagæskan er ein hlið á löghlýðinni millistétt sem vill fá spennufíkn svalað með því að fylgjast með töffurum sem lifa svaðalegar en fólkið gerir sjálft. Önnur hlið á þeim peningi er að dást að listamönnum meira eftir því sem þeir lifa í meira sjálfskaparvíti.
Lífstíll | Breytt 4.4.2008 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2008 | 00:19
Lífið er LAN
Þessa daga og nætur hittast hópar hér og þar. Þau gömlu tefla eða spila Trivial og fara snemma að sofa. Þau yngri halda uppi pizzugerð og kókframleiðslu (drykknum) í landinu og LAN-a.
Þá varð til þessi setning: Lífið er LAN. Og annar svaraði að bragði: Sem við spilum saman sjö. Og þá kom af sjálfu sér: Nótt eftir nótt.
Lifið heil.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2008 | 21:47
Rick rolling
Vofa gengur laus um Netið, vofa níunda áratugarins. Hún birtist þannig að fólk á það til að læða inn krækjum á Rick Astley, sem öðrum fremur er mynd af froðupoppi frá þeim tíma.
Þessi lágvaxni söngvari með bassaröddina sem ekki samdi neitt sjálfur, heldur reiddi sig á krafta Stock, Aitken og Waterman, hefur öðlast nýjar vinsældir á Youtube, þökk sé alls kyns liði sem krækir á hann án þess að þau sem smella á krækjuna viti að Rick muni birtast, að syngja og dansa (svolítið afkáralega) Never gonna give you up.
Þó að aðeins ein af útgáfunum af laginu hafi verið sótt yfir sjö milljón sinnum er líklegt að fleira en eitt skipti hafi þau sem það gerðu orðið fórnarlamb Rickrolling, sem fyrirbærið er nefnt.
Hérna er viðtal við Rick Astley þar sem hann tjáir sig um þessar óvæntu vinsældir. Hann segir í viðtalinu að þau sem noti lagið til að ráðast á páfastól og á Vísindakirkjuna verði að átta sig á að Rickrolling sé aðeins póstmódernískt fyrirbæri þar sem lítill atburður sé hafinn á stall til að tjá fáránleika nútíma menningar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar