Færsluflokkur: Menning og listir
13.1.2008 | 02:46
Alþjóðlegur miðbær
Farðu um miðbæ Reykjavíkur snemma á laugardagsmorgni eða fyrir hádegi á sunnudagsmorgni. Það fyrsta sem þú heyrir er líklega pólska. Þá heyrirðu norsku, sænsku, ensku, þýsku, frönsku eða dönsku, áður en þú heyrir íslensku.
Svona er það nú bara. Miðbær Reykjavíkur er alla jafna fullur af fólki sem er að koma til landsins, bæði ferðamenn, nýkomið fólk og námsmenn. Þetta er eðlilegur staður fyrir ferðamennina, og fyrir hádegi um helgar verður það áberandi að þeir eru í meirihluta í bænum.
Ennþá er svipað dýrt að leigja nærri miðbæ Reykjavíkur eins og það er í úthverfunum. Það er því eðlilegra fyrir marga námsmenn sem koma til landsins að festa sig þar. Um tíundi hluti námsmanna í Háskóla Íslands er til dæmis frá öðrum löndum og fer fjölgandi.
Eins má heyra í röðinni í Bónus í Kjörgarði að margir sem koma til að vinna hér á landi hafa fundið sér stað nálægt miðbænum. Þannig er miðbærinn og nánasta umhverfi hans orðið að alþjóðlegasta hverfi landsins, að fráskildum nokkrum stöðum á Vestfjörðum.
Er nóg gert fyrir þetta fólk? Hvar eru merkingar á öðrum tungumálum en ensku? Eru ekki ferðamennirnir mikilvægur viðskiptahópur? Á ekki að gera eitthvað fyrir þá, eða lita borgaryfirvöld bara á þá sem tekjulind? Nokkur upplýsingaskilti eru þarna en margt betra mætti gera.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 03:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2008 | 18:25
Húsavernd: Allt nema breytingar
Ég kem stundum á kaffihús við neðanverðan Skólavörðustíginn, sem fyrir löngu er orðið hluti af bæjarsögu Reykjavíkur. Þetta kaffihús þykir einkar hlýlegt og eigandinn vill að innréttingarnar verði friðaðar. Þið getið séð margar myndir þaðan á teikniblogginu, sem er krækt á hérna til hægri.
Á þessu húsi hitti ég fólk sem er mikið á móti því að við Laugaveg 4-6 rísi fjögurra hæða steinsteypuhús sem á að hýsa hótel, verslanir og veitingahús, svipað og Hótel Frón á Laugavegi 24.
Þau sitja sjálf í kaffihúsi í fjögurra hæða steinsteypuhúsi við Skólavörðustíginn, sem snýr baki að þessu húsi sem á að rísa á Laugavegi 4-6.
Það er fólk sem býr til sál í bæjum, ekki byggingarefni. Það skiptir miklu máli hvernig hús eru byggð og hvernig skipulag er í bæjum, en það er ekki sjálfgefið að hús og skipulag frá fyrri öldum henti núverandi starfsemi. Það gerir það reyndar ekki nema í bæjum sem taka afar litlum breytingum.
Breytingar, breytinganna vegna er slæm lausn. Enn verra er að vera á móti öllum breytingum.
24.12.2007 | 11:41
Jólatónlistin á heimilinu
Það er ljóst að einn diskur var mest keyptur á árinu á heimilinu. Ég keypti eintak af Mugiboogie til að gefa í nóvember og var að kaupa annað í Mugibúðinni. Þar næ ég í tónlistina og bíð svo bara rólegur eftir sérárituðu eintaki að vestan.
Af öðrum má nefna Sprengjuhöllina, Jakobínarínu og Hjaltalín. Sprengjuhöllin er í mestu uppáhaldi af þessum þremur. Ampop styttu mér stundir í sumar. Takk Sigur Rósar kom í minn hlut eftir að hafa stjórnað hluta af ráðstefnu í haust. LCD Soundsystem verður nefnt af erlendu efni.
Það sem hljómar í þessum skrifuðum orðum er Misa Criolla eftir Ramirez, jólatónlistin í ár og mörg önnur ár. Útgáfan er með Jose Carreras. Margir vöndust við útgáfuna frá 1970, sem Ramirez stjórnaði sjálfur, og þykir þessi of fínleg. Hann er vandrataður, millivegurinn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 00:01
Jólabarnið Shane McGowan
Meðan mannanna börn fagna fæðingu Jesú fyrir 2007 árum, svona um það bil, þá verður annað jólabarn 50 ára.
Shane McGowan fæddist 25. desember 1957. Hann öðlaðist frægð með The Pogues. Tónlistin var kölluð þjóðlagapönk en ég kalla hana bara Pogues. Gróf en viðkunnaleg rödd Shane var það sem skildi Pogues að frá öðrum böndum á svipuðum slóðum, sem kom í ljós þegar þeir ráku hann og misstu vinsældirnar í kjölfarið.
Fyrir 20 árum áttu þeir næstvinsælasta lagið um jólin, Fairytale of New York. McGowan og Jeremy Finer sömdu lagið um drauma og vonbrigði írskra fyllibytta í New York.
Pogues fluttu lagið með Kirsty McColl. Á þessu ári vildi Radio 1 hjá BBC ritskoða skammaryrðin sem þau kasta á milli sín. Lagið fær sjarma sinn öðru fremur af kaldranalegum kveðjunum, þannig að þær hafa enn fengið að hljóma.
McGowan hefur ekki þótt lifa heilsusamlegu lífi. Það má frekar segja að hann hafi reykt það sem að kjafti kemur, drukkið allt sem rennur nema skíði og skauta, og ekki slegið slöku við í annarri neyslu.
Árangurinn er vel sjáanlegur þegar Pogues og Katie Melua fluttu Fairytale of New York jólin 2005. Maðurinn er 48 ára þar, kominn að grafarbakkanum og búinn að missa röddina. Það er ekki fallegt að sjá fólk dást að þessari hryggðarmynd.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2007 | 02:27
Aldrei treysta hippa
Aldrei treysta neinum yfir þrítugu, sögðu hipparnir á sínum tíma.
Það er fínt að hafa þetta yfir við þá í dag, komnir vel á sextugsaldurinn. Pappírstígrarnir.
19.12.2007 | 21:28
Vinur Víkverja á förnum vegi
Sagt er að Víkverji Mogga sé næst-óheppnasti maðurinn á landinu. Sá óheppnasti sé vinur Víkverja.
Sem betur fer er það ekki alltaf sami maðurinn eða konan sem er Víkverji dagsins, og vinir Víkverja þannig fleiri en einn, af báðum kynjum, úr ýmsum stéttum og á ýmsum aldri.
Samt hefur maður á tilfinningunni að Víkverji og vinir hans séu í anda, ef ekki raunverulega, á aldrinum fimmtíu til sextíu eða svo. Lífinu virðist eitthvað vera í nöp við þá, en samt bara nóg til að stríða þeim.
Ég hitti kunningja á förnum vegi í dag og talið barst víða. Það kom í ljós að hann þekkir vel blaðamann á Mogga og hafði einmitt verið vinur Víkverja við fleiri en eitt tækifæri.
Sem betur fer var miklu skemmtilegra að hlusta á hann segja sögur af hræðilegri þjónustu á landsbyggðinni en að lesa þetta í Víkverja.
Ég hef þá hitt óheppnasta mann á landinu, að sögn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 00:08
Söngur steinasafnarans - ljóð eftir Sjón
Sjón gaf út ljóð af miklum krafti hér áður en nú eru liðin 8 ár síðan hann gaf síðast út ljóðabók, telst mér til.
Kveðskapurinn hefur ekki breyst mikið á 8 árum, fremur farið í eldra far ef eitthvað er. Allt sem við lærum í sextíuogátta ára bekk líkist því sem hann skrifaði á níunda áratugnum. Annað dæmi um þetta eru Fórnargjafir handa 22 reginöflum.
Kannski eru þetta ljóð frá löngum tíma, eins konar anþólógía. Titilljóðið er undir áhrifum frá Braga Ólafssyni, nema að Sjón hafi haft svona mikil áhrif á Braga.
Nokkuð gott.
Að einu leyti er bókin mjög góð: Ef fólk vill fá nasa-Sjón af kveðskap hans, þá er þetta ágætis bók til þess.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2007 | 00:02
Minnisbók (Sigurðar Pálssonar)
Einn daginn setti Siggi Páls upp baskahúfu og alltof langan trefil, sveiflaði treflinum í boga aftur fyrir bak og kunngerði að hann ætlaði að verða skáld. Hann er skáld. Auk þess býr hann til gott kaffi.
Minnisbókin byrjar þegar Sigurður kemur til Parísar í fyrsta skipti. Hann er þá reyndar á leið til Toulouse en ástin á borginni er greinilega kviknuð og það var ekki langt að bíða þar til hann var kominn aftur. Hann drepur niður fæti og segir samviskusamlega frá dvalarstöðum sínum og KJ í borginni, kettinum Gertrude, skáldunum sem hann þorði ekki að ræða við og Íslendingunum sem hann hitti þar.
París kviknar til lífs við lestur fyrir þeim sem hafa heimsótt borgina og þekkja sögusviðið. Montmartre, Marais, Latínuhverfið, Montparnasse, Cité Universitaire og ótal aðrir staðir verða ljóslifandi í meðförum Sigurðar. Ýmsir kaflar vekja minningar um svipuð tök í Parísarhjólinu, skáldsögu sem kom út fyrir nokkrum árum. Þessi hluti frásagnarinnar er á við bestu Parísarferð og má mæla með bókinni, ef ekki væri fyrir annað. Sigurður er góður stílisti. Mér sýnist hann hafa gefið sér góðan tíma að vinna margt af þessum köflum. Þar er hvergi ofaukið orði.
Það verður erfiðara fyrir marga að lesa útleggingar hans á meginviðfangsefni sínu þessi Parísarár, sem eru leikhúsfræðin. Mörg bókmenntakenningin mun fara framhjá flestum lesendum.
Mjög gott.
8.12.2007 | 01:12
Menningin og viðskiptin
Það er til kenning um að lagaval sýni stemminguna hjá fólki. Þetta hljómar ekki sem langsótt kenning, eða hvað? Það má færa hana yfir á almenning og almannahag. Efnahagur sveiflast upp og niður og þau sem geta spáð fyrir um þannig hreyfingar með góðum fyrirvara ættu að vera vel stödd. Ein kenning gengur út á að sjá breytingar á efnahag landa með því að skoða hvaða lög eru vinsæl, hálfu ári fyrr.
Prince skrifaði lagið Nothing Compares 2 You árið 1984 og það var gefið út árið 1985 án þess að hljóta mikla hlustun. Allt annað var uppi á teningnum sumarið 1990. Útgáfa Sinéad O'Connor var spiluð í ræmur og fólk naut þess að líða illa. Um áramótin þar eftir lauk vaxtarskeiði sem hafði staðið í nokkur ár í Evrópu. Kenningin var að fólk hefði fengið sig fullsatt af góðu gengi og væri til í að láta sér líða illa.
Því miður er þessi kenning ekki nákvæmur mælikvarði. Það er ekki gott að finna skýringar á efnahag stórra svæða með einu lagi. Múrinn var fallinn og mikið fé fór í að byggja upp efnahag í fyrrum austantjaldslöndum. Sinéad var góð söngkona árið 1990. Prince var frábær lagahöfundur árið 1984. Myndbandið við lagið var glæsilegt.
Nú er spurningin hvort lagavalið fyrir þessi jól lýsi að einhverju hvert markaðurinn stefnir. Bretar telja að fasteignaverð fari lækkandi og neysla minnki um leið. Þetta hefur þegar haft áhrif á eignir íslensku auðmannanna sem fjárfestu af krafti í smásölukeðjum þar.
Með þetta í huga er það ekki fjarlæg spá að Malcolm Middleton eigi lagið efst á lista um þessi jólin, sem þá verður hið ömurlega We're all going to die. Malcolm kemur úr tvíeykinu Arab Strap, sem aldrei taldist til bjartsýnustu bandanna, en það er heldur ekki sérlega bjart yfir þessu lagi. Textadæmi: We're all going to die, so what if there's nothing, we all have to face this alone. Og: You're going to die, you're going to die, you're going to die alone, all alone.
Lagið er gott, svona ef fólk lætur textann ekki of mikið á sig fá. Þau sem vilja sjá þýðari og jólalegri útgáfu ættu að líta á myndband sem birtist á vef þáttar Colin Murray hjá BBC, með fiðlu og barnakór.
En þetta er nú bara kenning.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 12:38
Jólaóróinn í ár er jólastress
Á Íslandi safna margar jólaóróum, skreytingum frá Georg Jessen eða öðrum stórsnillingum. Ég verð var við þetta ef ég á leið úr landi á haustdögum, en verð að viðurkenna að á mínu heimili er enginn svona órói til. Það er í takt við annan jólaundirbúning á heimilinu. Í gær var ég að þvo gluggatjöldin, í morgun að strauja þau og hengja upp. Svo tekur við fremur tilþrifalítil þrif og eitthvað skraut finnst nú í geymslunni til að setja upp.
Mér flaug þó í hug hvort að jólaóróinn nái að fanga hinn sanna íslenska jólaanda. Til þess þyrfti að hafa jólastressið, jólageggjunina eða jólabrjálæðið. Ég skil þó að enginn vilji hengja það upp, það er eiginlega eins og að mála skrattann á vegginn.
Það er margt gott við jólaundirbúninginn á Íslandi. Reykjavík fær stórbæjarbrag allan desember. Verslanir eru opnar fram á kvöld og það sést fólk í bænum, fjölskyldufólk að versla. Svo fer allt í leiðindafarið strax að loknum jólum. Verslanir vilja helst ekki opna milli jóla og nýárs og fáir láta sjá sig í bænum í janúar.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar