Færsluflokkur: Menning og listir
31.1.2008 | 19:11
Íslensku fagurbókmenntaverðlaunin 2008
Einn daginn setti Siggi Páls upp baskahúfu og alltof langan trefil, sveiflaði treflinum í boga aftur fyrir bak og kunngerði að hann ætlaði að verða skáld. Þannig byrjaði bloggfærsla hjá mér í desember.
Svo sagði ég undan og ofan af Minnisbók (Sigurðar Pálssonar) og endaði á að gefa bókinni einkunn.
Mjög gott.
Sigurður og Þorsteinn fá bókmenntaverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2008 | 23:27
Zizek á spítti
Margir hafa sagt mér hversu frábær fyrirlesari Zizek sé.
Ég hef samt ekki látið vera af því að hlusta á manninn því það sem hann skrifar er fyrir mér það sama og svo margir franskmenntaðir vinstrimenn skrifa. Fyrir mig er þar fátt nýtt.
Margir þeirra hljóma sem umbótasinnaðir menn en eru í raun íhöld, eins og Einar Már Jónsson. Þetta eru fínir stílistar. Þeir taka heimsatburði sem einhvers konar ímyndun, tilbúna í sjónvarpi og telja að heimurinn sé að sveigjast aftur að sovétinu. Fyrir marga þeirra er sovétið það eina raunverulega, það eina sem hönd er á festandi. Þeir eru búnir að vera í eftirsjá síðan Múrinn féll.
Nú sá ég hann í Silfrinu, miðaldra sófakomma á spítti, annað hvort því innbyggða eða aðkeyptu, en alger mótorkjaftur. Ég held að maður þyrfti viskíflösku til að halda hann út í nálægð.
29.1.2008 | 08:12
Að fá Ólínu til að dæma um húmor
Að fá Ólínu Þorvarðardóttur til að meta hvað sé gott og gilt hjá Spaugstofu er líkt og að fá Atla Heimi Sveinsson til að dæma Rolling Stones.
Bæði hefur verið reynt og bæði er jafn fánýtt.
Spaugstofan sér ekki eftir neinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.1.2008 | 08:04
Jafnrétti, ekki jöfnuður
Margir telja að jafnrétti og jöfnuður sé eitt og hið sama. Það er ekki svo.
Jafnrétti er að eiga jafna möguleika í krafti eiginleika sem skipta máli hverju sinni og horft sé fram hjá öðrum málum. Þannig hafi kyn, trú, húðlitur, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð ekki áhrif á möguleika til vinnu og skipti ekki máli í íþróttum, svo nefnd séu dæmi.
Jöfnuður er þegar litið er framhjá eiginleikunum. Allir sem eru orðnir 18 ára hafa rétt til að kjósa í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Innan hvers kjördæmis eða sveitarfélags hefur hvert atkvæði jafnan rétt við það næsta.
Nú virðist sem allir eigi að hafa rétt til alls. Þetta er angi af því sem má kalla öfgasinnaða jafnaðarmennsku, þar sem allir eigi að vera góðir við alla og til að tryggilega sé gengið frá því, þá er það bundið í lög.
Jafnrétti er það ef öll sem vinna í búð geta orðið að borgarstjóra, ef þau ná að standa öðrum framar. Jöfnuður er að gera alla að borgarstjóra. Að því virðist keppt núna.
27.1.2008 | 14:42
The Darjeeling Limited - bíórýni
Það lítur út fyrir að Jason Schwartzman sé hrifinn af áttunda áratugnum. The Darjeeling Limited byrjar á stuttmynd og fyrsta myndin er af honum, með klippingu sem hefði sómt sér vel í All the President's Men eða Marathon Man. Þar til hann setur iPodinn af stað, gæti myndin sómt sér vel árið 1972.
Fyrst datt mér til hugar hvort hann og vinur hans Roman Coppola hafi fengið að róta í gömlum handritageymslum, fundið eitt frá 1972 og breytt nokkrum atriðum þar til hún gerist, að nafninu til, árið 2005.
Sagan er ekki bundin við tíma, það er svarið. Þrír bræður hittast á Indlandi eftir lát föður þeirra. Sá elsti, leikinn af Owen Wilson, er að reyna að sætta þá. Hann velur til þess þaulskipulagt lestarferðalag um norðurhluta Indlands, þar sem þeir eiga að sækja sem flest hof á leiðinni og verða fyrir uppljómun. Bræðurnir eru efnishyggjumenn þar sem allt gengur út á hver á hvað, hvað hlutir kosta (mikið) og hver sofi hjá sæta súraldininu. Þetta er vegamynd, road movie, eða öllu frekar rail movie, járnbrautarmynd. Sagan tekur breytta stefnu og þeir finna svörin að lokum.
Wes Anderson leikstýrir. Leikurinn, sviðsetningin og myndin eru tilgerðarleg og sverja sig í ætt við sálarleitarmyndir frá enda sjöunda áratugarins og byrjun þess áttunda.
Af því að Roman Coppola kemur hér við sögu sem handritsskrifari, þá verður að minnast á ágæti þess að heita Coppola í bíóbransanum. Sofia og Roman bróðir hennar hafa fengið að gera ýmislegt sem aðrir myndu varla fá að gera í krafti föður síns, Francis Ford Coppola. Bróðursonur Francis heitir Nicholas Cage. Hann taldi að Coppola-nafnið myndi geta orðið honum til trafala, þar sem fólk myndi segja að hann fengi hlutverk bara út á það. Nokkuð glöggur, kallinn.
Endilega að líta á Darjeeling Limited ef þið viljð sjá sálarleit. Brody og Wilson leika vel. Smástirnið Amara Karan á góðan sprett og fleiri góðir leikarar koma við sögu, Bill Murray og Angelica Houston. Ef þið hafið ekki áhuga á sálarleit verður þetta bara tilgerðarleg gaman- og vegamynd.
Ég átti ekki gott með að meta hvort myndin var vel tekin þar sem brennipunkturinn var ekki á sýningartjaldinu í sal 3 í Háskólabíó á laugardagskvöldið og myndin var sýnd með loðinn ramma. Textavél gekk heldur ekki í takt við mynd. Sýningarmaður þarf að þrífa linsur og gæta að brennipunktinum.
20.1.2008 | 04:13
Að njóta kvikmynda
Ég var alinn upp við að horfa gagnrýninn á kvikmyndir. Annað hvort væri nú, sonur kvikmyndagagnrýnanda á Tímanum.
Þegar ég fletti IMDb (Internet Movie Database), þeim merka gagnagrunni, sé ég það sem er kallað Goofs, eða mistök. Dæmi úr The Wizard of Oz: Crew or equipment visible: The shadow of the camera crew is visible as it pans across the nest of the munchkins hatching in Munchkinland. Einmitt það, já. IMDb telur þetta þó greinilega til minna mikilvægra þátta í myndum, þar sem það er flokkað undir Fun Stuff.
Vandinn er að margir sjá þetta ekki sem neitt alvöruleysi. Sumir kunningjar mínir voru afar uppteknir af þess háttar hlutum og örugglega hægt að finna nóg af þessu í ódýrt framleiddum myndum frá öllum áratugum.
Fyrir mér var þetta svipuð leið að horfa á myndir eins og standa upp með reglulegu millibili í salnum og hrópa: - En þetta er allt skáldskapur! Ég horfði á myndir og leikrit og vildi lifa mig inn í skáldskapinn. Öðruvísi hefði maður varla getið lesið bók, þær eru bara prentaður pappír bundinn saman á einni hlið ef maður sleppir skáldskapnum.
Það hefur eflaust gildi fyrir metnaðarfulla kvikmyndagerðamenn að reyna að sjá mistök, sérstaklega þau sem eru að stíga sín fyrstu spor. En þetta er ekki það sem myndin gengur út á. Hún er afþreying, skemmtun, saga sem er sögð í tvo tíma. Gott handrit, góð taka, gott hljóð, góð tónlist, góður leikur, góð klipping, góð sviðsetning, þetta býr til góða mynd.
Svona goofs fara ekki að leika mikið hlutverk nema í afbragðs lélegum myndum sem maður horfir reyndar einmitt á af því hversu illa þær eru gerðar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 04:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2008 | 18:23
Nýleg hús sem verða rifin
Það er athyglisvert í tillögum um breytingar í Reykjavík að það eru á nokkrum stöðum rúmlega tvítug hús sem fá að víkja.
Þannig á Læknagarður (Tanngarður) sem liggur milli eldri og nýrri Hringbrautar að fara. Þetta hús er frá því um 1980 ef ég man rétt, og átti greinilega að tengjast Landspítala þegar Hringbraut yrði færð. Nú hefur það gerst en skipulag sjúkrahússins breyst. Líklega gráta þetta fáir.
Listaháskóli á að rísa milli Hverfisgötu og Laugavegar, á reitnum bak við húsið sem hýsir Vínberið, Laugaveg 43 og húsið við Frakkastíg sem einhvern tíma hýsti L.A. Café (Ellakaffi á íslensku). Það er sjónarsviptir að Laugavegi 43 ef það hús verður látið fara. Ég held að færri sakni hússins við Frakkastíginn, sem var reist um 1985.
Hús var reist við Lækjartorg um 1978 og hefur lengi verið kennt við strætisvagna, þó að skiptistöð Strætó hafi fengið sífellt minna pláss þar og að lokum eiginlega horfið þaðan. Þetta er ágætis hús, hefur hýst Kaffi Torg, Optik, Segafredo og aðrar menningarstofnanir, en ef þar kemur fallegt hús í staðinn munu fáir gráta það.
Það eru ekki bara gömul hús í útrýmingarhættu. Mun einhver standa upp og verja þessi hús?
16.1.2008 | 00:24
MacBook Hot Air
Það er þriðjudagskvöld og á heimili mínu er eitthvað að gerast. Ég birtist með venjulegt A4-umslag og opna það, og dreg út ... MacBook heimilisins.
Hún er í hvítu plasti og heilum sentimetra þykkari en tækniundrið sem Steve Jobs var að kynna fyrr í kvöld vestur í Kaliforníu. Auk þess er hún með hraðari gjörva (cpu), stærri harðan disk og jafnstóran skjá. Bíddu við, og kostar líklega rúman helming af því sem MacBook Air í sínu fína pússaða áli mun kosta.
Ef maður kaupir útgáfuna af MacBook sem kom í verslanir fyrir jól, má fá 2,2 Ghz Core 2 Duo gjörva með 800 Mhz braut, svokallað Santa Rosa chipset, fyrir 130.000 krónur. Það er í Apple-búðinni, sem mér skilst að sé ein okurbúlla.
Maður getur fengið sér Dell-fartölvu hjá EJS með sömu grunngerð, Dell Inspiron 1720, sem kostaði í haust 180.000 krónur. Hún kemur í fleiri litum. MacBook Air verður aðeins í pússuðu áli en verður varla ódýrari.
Kaupið, kaupið!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2008 | 00:23
Húsaníð
Viðtal Egils Helgasonar við Sigmund Gunnlaugsson í Silfri Egils á sunnudag hefur vakið sterk viðbrögð.
Sigmundur hefur sýnt með tiltölulega einföldum myndum hvernig falleg hús í Reykjavík hafa verið gerð að dauðum kumböldum. Því miður var það gert í góðri trú og sporin hræða.
Það sem kom þó fram sterkast hjá honum er að hvatinn er ennþá til að láta hús grotna niður og byggja nýtt og stærra á sömu lóð, selja og fara, endurtaka svo leikinn á næsta stað.
Þetta hefur komið fram áður en Sigmundur getur sett fram málefnið á þann hátt sem lætur fáa ósnortna. Það má því búast við viðhorfsbreytingu þegar þættir frá honum verða sýndir síðar í vetur.
Nú er rætt um að það þurfi að greiða skaðabætur til þeirra sem höfðu öðlast byggingarrétt þar sem nú á að friða. Þá verður manni hugsað til hvort borgarbúar eigi ekki rétt á skaðabótum frá þeim sem gerðu falleg hús að ljótum. Þannig gæti bankinn sem eignaðist hús Útvegsbankans við Lækjartorg bætt fyrir það sem þar var gert. Tryggingafyrirtækið sem eignaðist Almennar tryggingar og þar með húsið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks gæti rétt hlut borgaranna eða átt á hættu að vera minnst fyrir þessa framhlið svo lengi sem fólk gengur um Austurvöll.
Einfaldar teikningar og samsettar myndir hafa orðið sterkt vopn í höndum húsfriðunarsinna. Teikning Snorra Freys Hilmarssonar af húsinu sem gæti komið við Laugaveg 51 (við hornið á Frakkastíg, þar sem nú er verslunin Vínberið) vakti mikla athygli. Einfaldar myndir Sigmundar þar sem hann sýndi áður falleg hús og óskapnaðinn sem við þekkjum í dag voru jafn sláandi.
Það má kalla ódýrt bragð að setja verstu húsgafla Reykjavíkur inn í fallega borgarmynd Kaupmannahafnar, en Sigmundur er að vekja athygli á málum sem þarf að mála í sterkum litum. Það er einfaldlega erfitt að sjá hvað er mögulegt á Laugavegi þegar maður er alinn upp við að þetta sé stræti sem allt of margir ganga illa um.
Það vekur athygli mína strax hvað önnur mynd er á húsum við Laugaveg sem eru lægri í dag en þau voru, þar sem gatan hefur fyllt upp í hálfa hæð. Svipur húsanna gerbreytist og það er augljóst af hverju lagt er til að lyfta þeim, það er búið að grafa þau að hluta niður!
13.1.2008 | 20:04
Að byggja upp miðbæ Reykjavíkur
Það stendur miðbæ Reykjavíkur fyrir þrifum að þar fer fram ýmis konar barátta meðan það ætti að vera uppbygging, að byggja upp miðbæ.
Húsaverndunarfólkið stendur í skotgrafahernaði, varnarbaráttu upp á líf og dauða, eins og sjá má af greinum þeirra. Fjórtán daga frestur fenginn, það má ekki gerast að húsið verði rifið, í guðanna bænum sjáið að ykkur og látið þetta hús ekki hverfa.
Meginhluti borgarbúa vill ekki standa í baráttu í miðbænum, heldur að þar þrífist fólk.
Miðbæ þarf að byggja upp til langs tíma. Hann verður ekki byggður með því að taka afstöðu til hvers húss fyrir sig og ekki með því að fylgja stundarskoðunum.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar