Færsluflokkur: Menning og listir
30.11.2007 | 01:35
Kitschmas - gjafir sem minna á andlegu hlið jólanna
Skyldi það vera rétt sem mörgum finnst, að hinn sanni andi jólanna hverfi í kaupæði og almennu brjálæði? Hvers vegna ætli þetta sama fólk fari þá svona gjörsamlega úr sambandi fyrir jólin?
Ég kann ekki svar við þessu en kom auga á Kitschmas-síðuna sem tekur saman gjafir sem minna á hinn sanna anda jólanna. Þær gera þó ekki betur en bara að minna á hann. Hver vill ekki eignast minnislykil í mynd Maríu, nálapúðann heilagan Sebastian eða Jesús á mótorhjóli?
Maður þarf eiginlega að segja Jesús á mótorhjóli á ensku til að skilja gildi síðasttöldu gjafarinnar. Heilagur Sebastian var særður með örvum eins og þekkt er af arfsögninni.
Vatíkans-borðspilið, þar sem sex kardínálar keppa um páfatign, hlýtur að kóróna þessar gjafir. Það eru síðan níu aðrar gjafir á síðunni fyrir þau sem vilja forvitnast um jólagjafir trúrækinna.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 12:34
Verkfall handritshöfunda í Hollywood
Mér reiknast til að verkfall handritshöfunda í Kaliforníu fari að hafa áhrif á Íslandi eftir um eitt ár. Við fáum þætti um hálfu til einu ári síðar en þeir eru sýndir í Bandaríkjunum.
Það er svipað og teiknimyndasögurnar í blöðunum. Þær eru í jólaskapi hér í maí, halda upp á Halloween hér um páska og eru um þessar mundir í Valentínusarskapi.
Einu sinni var þetta svipað með bíómyndir. Áhorfendur vildu sjá þær fyrr og bíóeigendur, þá aðallega Árni Samúelsson í SAM-bíóunum og síðar Jón Ólafsson, sömdu um að fá þær fyrr hingað.
Þetta var einfaldlega það sem kauprík þjóð bað um og þá fékk hún það. Þess vegna held ég að það fari eins með sjónvarpsþættina.
Fréttir af því að fyrsta myndin sem muni líða fyrir verkfallið sé undanfari (prequel) Da Vinci Code vekur engan grát.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 00:03
Þið hafið skapað ljótleikann
Einhvern tíma á lífsleiðinni þykist maður komast að því að smekkur ræður því hvað manni finnst fallegt eða ljótt. Maður hættir að tala um hvað sé fallegt eða ljótt, og fer að segja hvað manni finnst vera það. Síðan fer maður að draga þetta í efa.
Landið er fallegt, hvar sem á það er litið. Náttúrunni hefur ekki tekist að skapa neitt ljótt. Tröllslegt, kannski, hrikalegt eða jafnvel ferlegt, en aldrei ljótt. Svörtuloft eru ekki ljót. Þau eru hrikaleg og sjófarendur vita að það er best að halda sig fjarri þeim. Ódáðahraun er ekki ljótt. Það er úfið og dularfullt. Skeiðarársandur á líka sína fegurð. Meira að segja sá harkalegi grjótklumpur, máninn, er bara fallegur þegar ég lít á hann, hálffullur á laugardagskvöldi. Það er máninn, ekki ég.
Það sem er ljótt er skapað af manninum. Þú labbar niður Laugaveg og sérð reiðhjól hangandi í vír sem hefur gleymst frá innsetningu fyrir einhverjum árum síðan. Þú gengur áfram eftir höfuðstræti landsins og það er þakið rusli á hverjum laugardagsmorgni og sunnudagsmorgni, eftir fólk. Þú gengur áfram fram hjá brunarústum sem standa óhreyfðar eftir hálft ár, út af fólki.
Þú gengur fram hjá niðurníddum timburhúsum og ómanneskjulegum steypukumböldum, gerðum af fólki, viðhöldnum af fólki. Fólki með fullar hendur fjár, fólki sem getur gert hvað sem það vill taka sér fyrir hendur. Þetta er höfuðstræti landsins. Þetta er það besta sem boðið er upp á. Þú ert hluti af þessu fólki.
Allar stéttir og allir aldurshópar leggja sitt til. Unglingarnir krota á hvað sem fyrir verður. Þegar þau eldast ganga þau um miðbæ Reykjavíkur af einbeittum vilja til að brjóta, sóða, hávaðast og gera allt eins ljótt eins og hægt er. Eldra fólk stendur ábyrgt fyrir óbyggðum lóðum og steinsteypukumböldum. Þið hafið gert þetta allt ljótt. Hvernig líður ykkur að vera hluti af þessu?
17.11.2007 | 17:47
Jónasistar
Um sexleytið fór hópurinn að stækka fyrir framan aðalbyggingu Háskólans. Kona útdeildi stormkertum á álhöldum. Klukkan sex hélt gangan af stað að Hringbraut. Sem betur fer hafði lögregla viðbúnað þegar gengið var yfir götuna. Ef einhver hefði keyrt á hópinn hefði stór hluti af samanlagðri greind þjóðarinnar getað horfið, sá hluti sem ekki fæst við fjármál og rekstur.
Þegar gangan kom að styttu Jónasar Hallgrímssonar rétt við Hljómskálann kom í ljós að hljóðkerfið virkar ekki. Jónas hallaði þess vegna eyra að Pétri Gunnarssyni þegar hann hélt ræðu magnaralaus.
Það er alveg sérstakt fólk sem þarna var statt. Þegar Pétur var um það bil að ljúka tölunni kom vél inn til lendingar rétt yfir höfðum okkar og drukknuðu síðustu orð skáldsins algerlega, sem von var. Pétur lét það ekki á sig fá og ég nam lokaorð hans með varalestri. Viðstaddir sungu fyrsta og síðasta erindið af Vísum Íslendinga. Um stund gleymdist nálægð flugvallarins, umferðin á Sóleyjargötunni og undirbúningur fyrir brúðkaup aldarinnar í næstu götum.
Svo kvaddi ég Jónas sem enn stóð skakkur og var víst orðinn tvöhundruð ára. Um leið og ég gekk út úr lundinum mætti norðangarrinn mér og hávaðinn af umferðinni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2007 | 01:04
Að vernda hús eða fólk
Hús eru rammi um líf fólks. Þau eru einnig heimild um þann tíma sem þau eru byggð á.
Þau verða að gegna margs kyns hlutverki. Þau verða að líta vel út en fyrst og fremst verða þau að vera góð að búa í eða starfa í. Hús sem ekki gegnir því hlutverki á að fara og annað hús að koma í staðinn sem gegnir því hlutverki betur.
Því miður horfa margir einungis til þess hvort hús líti vel út en huga minna að því sem bak við þau er, eða hvort þau sinni hlutverki sínu. Þannig er með gömul hús í miðbæ Reykjavíkur. Eins fallegt og er á þau að horfa, þá sýnist mér mörg þessara gömlu húsa ekki valda því hlutverki að vera miðbæjarhús á 21. öldinni.
Sú starfsemi sem helst þrífst í þeim eru krár. Það þýðir í mínum huga að þau eigi að fara burt og annað að koma í staðinn.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar