Færsluflokkur: Bækur
16.3.2010 | 17:24
Mest notaði rafbókalesarinn
Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.
Rafbækur eru ekki bækur. Það er ein ástæðan fyrir því að þú heldur ekki á einni slíkri núna. Bækur eru fínar til síns brúks og eru ekkert að hverfa núna, ekki fremur en um síðustu aldamót þegar þú hefur kannski fengið að heyra að þær væru að hverfa.
Líkt og með pappírslausu skrifstofuna er stóra spurningin, til hvers? Þegar þú ert engu betur sett með rafbók en venjulega bók, þá kaupirðu hana ekki. Fyrst þarftu að setja pening í misdýra rafbókalesara eða að minnsta kosti fartölvu sem ræður við þetta. Helst viltu hafa græju eins og iPad, með alvöru skjá og sem ræður við meira en bara að birta bækur. Þar fóru 100 þúsund, og þú hefðir getað keypt 20 bækur í staðinn.
Svo er það spurningin um að eiga bækur. Allt viðskiptamódelið með rafbækur hefur gengið út á að fólk verði að kaupa sig inn í eitt eða tvö lokuð form, að sjálfsögðu þannig að fólk getur ekki afritað með góðu móti. Í raun kaupir fólk aðeins aðgangsréttindi að bókunum eða lesefninu. Dæmin hafa sýnt að bækur hverfa í orðsins fyllstu merkingu úr rafbókalesaranum þegar samningar milli dreifingaraðila bregðast. Það kórónaði kaldhæðni þeirra örlaga þegar bókin 1984 féll út af Kindle-lesurum eftir að Macmillan dró til baka leyfi til Amazon.
Mest notaði rafbókalesarinn er þó fyrir framan þig og þú ert að nota hann einmitt núna til að lesa þessi orð. Yfir 99% af öllu lesefni öðru en á pappír er lesið með vafra. Hann hentar vel til að lesa dæmigerðan texta á neti, þar sem fólk les stutta kafla og notar fremur til stuðnings en afþreyingar. Skáldsögur hafa alltaf verið mikill minnihluti þess sem fólk les hvort eð er, minna en 25% af bóksölu og aðeins örlítill hluti annars útgefins efnis. Það er gott að hafa í huga að metsölubók Íslands ár eftir ár (já það er Símaskráin) er núna að mestu notuð á neti. Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.
Fólki er illa við að borga hátt verð fyrir lög, myndir eða texta sem er ekki til eignar. Búnaður fyrir aðgangsréttindi (Digital Rights Management, DRM) er ekki vinsæll hjá fjöldanum ef hann hamlar venjulegri notkun og afritun. Fólk vill ekki þurfa að nota sérstakt forrit eða sérstök tæki til þess eins að geta spilað lög, horft á myndir eða lesið texta. Fólki er illa við að borga jafnmikið fyrir rafræna útgáfu eins og prentaða bók. Fólk mun velja útgáfu sem það getur lesið og notað á hvaða tölvu sem er og þá er vafrinn hentugasta tækið. Útgefendur munu þurfa að finna verð, form og útgáfu sem er handhæg og aðlaðandi.
Tim O'Reilly segir hagnað af Safari-bókasafninu vera meiri en tölur sem oft sjást um heildarveltu rafbóka. Safari Books Online byggir á einfaldri áskrift, annað hvort að 10 bókum sem notandi velur í rafræna hillu í hverjum mánuði, eða aðgangi að öllu safninu. Að því leyti er þetta eins og áskriftarsöfnin sem borgarar í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa rekið yfir tveggja alda skeið. Það virkar.
Dæmi um áskriftarsafn af gamla skólanum er London Library, 170 ára gamalt með um 7000 meðlimi. Áskrift kostar 395 pund á ári þegar þetta er skrifað. Safnið á gamlar og nýrri bækur og er auk þess með áskrift að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum. Sjá http://www.londonlibrary.co.uk/.
Dæmi um áskriftarsafn á vef er Safari Books Online sem geymir tölvubækur O'Reilly, um 8000 titla og býður tvenns konar áskrift að rafbókum fyrir einstaklinga. Fyrir 23 dollara á mánuði má velja 10 bækur í sína hillu fyrir mánuðinn. Fyrir 43 dollara á mánuði má valsa um allt safnið auk þess að hafa aðgang að ýmsu stuðningsefni á vef. Nú er einnig í boði áskrift fyrir 20 dollara á mánuði að meira úrvali bóka og stuðningsefnis á vef. Sjá nánar á http://www.safaribooksonline.com.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 20:56
Pound og Písasöngvarnir
Magnús Sigurðsson hefur þýtt Písasöngva Ezra Pounds, sem var fyrst frægur fyrir ljóðlist en síðar frægari fyrir fasisma.
Það má segja um Pound eins og samtímamann hans, James Joyce, sem á að hafa sagt að hann krefðist ekki neins af lesendum sínum, öðru en því að þeir eyddu allri sinni ævi að lesa verk hans og reyna að skilja þau.
Þetta er hið ferlegasta torf, fullt af slettum í ýmsustu tungumál og þarf að hafa frönsku, kínversku, latínu og fleiri mál á hraðbergi til að skilja hvað hann er að fara.
Þetta er of mikið fyrir venjulegan mann. Þá kemur að óvenjulegum manni, sem er Magnús Sigurðsson, ættaður frá Ísafirði og úr Mosó, sonur Áslaugar og Sigga blóma.
Hér verður hægt að hlusta á þátt um þetta stórvirki næstu tvær vikur, eða til sunnudags 20. apríl.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2008 | 20:42
Jesús var enginn Ítali
Nú er dymbilvikan liðin og kristnir minnast þess um allan heim að Jesús reis frá dauðum. Þetta er undirstaða kristinnar trúar ásamt kærleiksboðorðinu.
Þá verður fyrir mér smávægilegur hlutur sem er beygingarmyndin Jesúm í þolfalli. Það hefur alltaf komið mér furðulega fyrir sjónir að skella latneskri endingu á nafn Gyðings sem talaði aramísku.
Jesús var ekki neinn Rómverji. Af hverju eru Íslendingar þá að nota þessa latnesku beygingarmynd þarna?
Sem betur fer fyrir venjulega Íslendinga stoppaði latínuáráttan þarna og nafn hans er Jesú í öðrum föllum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 03:21
Blóð mun fljóta - There will be blood
Blóð mun fljóta eða There will be blood byggir á sögunni Olíu eftir Upton Sinclair. Sinclair kunni að segja stórar sögur og það þarf ekki að undra að hann hafði áhrif á ungan Halldór Laxness. Sagan er um baráttu þeirra sem láta fátt standa sér í vegi og hinna, sem jörðina erfa. Hún minnir þannig á Heaven's Gate.
Bíósalurinn ætlaði seint að fyllast. Fram að miðnætti var að koma inn fólk. Eftir því sem myndinni vatt lengur fram varð fólkið sem kom inn með eldri og eldri hárgreiðslu þangað til ég hélt að níundi áratugurinn væri kominn. Þá sá ég ekki betur en einhver kæmi með stríðsáragreiðslu. Sambíóin við Álfabakka eru skrýtin tímavél því að myndin náði ekki einu sinni svo langt í sögunni. Hún var skrifuð árið 1927. Því er lýst betur í bók eftir Laxness, að mig minnir í Skáldatíma.
Leikarar eru góðir, leikstjórn góð og sviðsetning mjög góð . Tónlistin var á stundum skelfileg, en þá aðeins til að undirstrika boðskap myndarinnar, sem fólst í lokaorðum sonar Plainview, þegar hann kvaddi föður sinn.
Mjög gott.
Bækur | Breytt s.d. kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2008 | 02:54
Wikipedia neitar að taka burtu myndir af spámanninum
Í kaflanum um Múhameð spámann í ensku Wikipediunni eru gamlar persneskar (íranskar) myndir af spámanninum.
Hart hefur verið lagt að þeim sem skrifa í alfræðiritið að taka þessar myndir burtu, en það hefur ekki enn gerst.
Sunni-múslimar og Shia-múslimar, sem eru fjölmennir í Íran, hafa ekki alveg sömu sýn á það hvort það teljist leyfilegt að sýna andlit spámannsins.
Pakistönsk stjórnvöld mótmæla Múhameðsmyndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 02:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 21:13
Dauði trúðsins eftir Árna Þórarinsson
Það létti yfir Einari blaðamanni, aðalhetju sagnanna eftir Árna Þórarinsson sem bera nafn gamalla slagara, eftir að hann lét renna af sér og flutti til Akureyrar.
Sögusvið Dauða trúðsins er Akureyri í júlí og ágúst, með heimsókn á meðferðarheimili í Reykjavík. Hús sem staðið hefur autt er svið glæps. Mér fannst sjálfum átt við hús næst við umferðarmiðstöðina í Hafnarstræti og þótti merkilegt að sjá það í fréttum nú í febrúar.
Glæpirnir eru svolítið fjarlægir hjá Árna. Þetta er plott sem við sjáum frá sjónarhóli blaðamanns sem greinir frá staðreyndum máls. Við verðum að áhorfendum og fáum þetta matreitt frá Árna.
Það er farið að vanta svolítið sálarháskann í þetta. Góð flétta engu að síður og Árni hefur góð tök á persónum og sögusviði.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 21:04
Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur
Aska geymir góða fléttu. Persónur eru dregnar skýrt fram en þær vantar mannleikann.
Kvenpersónur sögunnar eru misgeðfelldar og það er erfitt að eiga samúð með þeim, einnig aðalhetjunni.
Karlarnir fá sýnu verri útreið. Þeir spanna geðrófið frá því að vera afleitir yfir í að vera raktir djöflar, allir nema tveir. Annar þeirra tveggja er ekki orðinn ársgamall og hinn er þúsund mílur í burtu.
Yrsa nær vonandi að skrifa næst um mál sem fær okkur til að langa að vita meira um persónurnar. Án þess er hættan sú að hversu góð sem fléttan er, þá les maður ekki 300 síðna skáldsögu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2008 | 19:11
Íslensku fagurbókmenntaverðlaunin 2008
Einn daginn setti Siggi Páls upp baskahúfu og alltof langan trefil, sveiflaði treflinum í boga aftur fyrir bak og kunngerði að hann ætlaði að verða skáld. Þannig byrjaði bloggfærsla hjá mér í desember.
Svo sagði ég undan og ofan af Minnisbók (Sigurðar Pálssonar) og endaði á að gefa bókinni einkunn.
Mjög gott.
Sigurður og Þorsteinn fá bókmenntaverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 23:27
Zizek á spítti
Margir hafa sagt mér hversu frábær fyrirlesari Zizek sé.
Ég hef samt ekki látið vera af því að hlusta á manninn því það sem hann skrifar er fyrir mér það sama og svo margir franskmenntaðir vinstrimenn skrifa. Fyrir mig er þar fátt nýtt.
Margir þeirra hljóma sem umbótasinnaðir menn en eru í raun íhöld, eins og Einar Már Jónsson. Þetta eru fínir stílistar. Þeir taka heimsatburði sem einhvers konar ímyndun, tilbúna í sjónvarpi og telja að heimurinn sé að sveigjast aftur að sovétinu. Fyrir marga þeirra er sovétið það eina raunverulega, það eina sem hönd er á festandi. Þeir eru búnir að vera í eftirsjá síðan Múrinn féll.
Nú sá ég hann í Silfrinu, miðaldra sófakomma á spítti, annað hvort því innbyggða eða aðkeyptu, en alger mótorkjaftur. Ég held að maður þyrfti viskíflösku til að halda hann út í nálægð.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2008 | 02:44
Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson
Sveitasagan Sandárbókin - pastoralsónata eftir Gyrði Elíasson fékk mig til að hugsa um margt.
Einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um alla aðra hluti en það sem þar var skrifað þegar ég las hana. Ekki fyrir það að hún hlaupi um víðan völl. Þvert á móti er hún stutt, skörp, auðlæs og segir allt í fáum orðum.
Hugurinn kallar upp Walden eftir Henry David Thoreau, sem Gyrðir vitnar reyndar beint til, en einnig Walt Whitman og Carl Sandburg. Kannski hefur það ekkert með bókina að gera en undirritaður er ekki bókmenntafræðingur.
Hugurinn reikar líka til Tolstoj, einhverra hluta vegna, sögu hans af manninum sem mátti helga sér eins mikið land og hann kæmist kringum. Sögurnar eru ólíkar en leiða samt að svipuðum endi.
Það skal viðurkennast hér að ég er aðdáandi annars skálds úr Skagafirðinum sem kunni að segja margt í knöppum stíl. Án þess að ég beri saman þá Gyrði og Indriða að öðru leyti, þá er stíll Gyrðis enn hnitmiðaðri, áferðarléttari og segir samt stóra sögu.
Afbragð.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar