Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Eineygði kötturinn Kisi & leyndarmálið

Teiknimyndabókin Eineygði kötturinn Kisi & leyndarmálið eftir Hugleik Dagsson er fyrir börn á öllum aldri.

Kisi býr (í Leynimýri) í Öskjuhlíð og er nokkuð óreyndur í lífsins málum. Það er þess vegna ekki góð reynsla fyrir hann að fara til Eyja og lenda í klóm Árna og skrímslisins Gong-Pa. Vinir Kisa, Kata og Skúli, bjarga honum þaðan en byrla honum svo eitur meðan þau fara að skemmta sér. Við sjáum nýja hlið á hljómsveitinni Á móti sól og hetjan Magni leikur nokkuð hlutverk. Í lok bókar kynnumst við svo Kládíusi, sem virðist geta orðið hetjan í nýrri sögu.

Þetta er frambærilegasta saga og myndi njóta sín vel sem hreyfimynd.

Nokkuð gott. 


1968

Það eru nokkur umfjöllunarefni sem virðast ekki tæmast, því meira sem skrifað er um þau. Þvert á móti, þá eykst áhuginn, ef eitthvað er.

Þannig kemur út fjöldi bóka um spænsku borgarastyrjöldina á hverju ári, þótt nóg sé fyrir. Þegar árið 1980 voru komnar 5000 bækur um efnið og var ekki lát á.

Næsta ár má búast við hrinu af bókum um 1968, þetta töfrum gædda ár. Fyrir þau sem eru að rifja þetta upp er ágætt að velja bókina 1968: The Year that Rocked the World eftir Mark Kurlansky.


Söngur steinasafnarans - ljóð eftir Sjón

Sjón gaf út ljóð af miklum krafti hér áður en nú eru liðin 8 ár síðan hann gaf síðast út ljóðabók, telst mér til.

Kveðskapurinn hefur ekki breyst mikið á 8 árum, fremur farið í eldra far ef eitthvað er. Allt sem við lærum í sextíuogátta ára bekk líkist því sem hann skrifaði á níunda áratugnum. Annað dæmi um þetta eru Fórnargjafir handa 22 reginöflum.

Kannski eru þetta ljóð frá löngum tíma, eins konar anþólógía. Titilljóðið er undir áhrifum frá Braga Ólafssyni, nema að Sjón hafi haft svona mikil áhrif á Braga.

Nokkuð gott.

Að einu leyti er bókin mjög góð: Ef fólk vill fá nasa-Sjón af kveðskap hans, þá er þetta ágætis bók til þess.


Minnisbók (Sigurðar Pálssonar)

Einn daginn setti Siggi Páls upp baskahúfu og alltof langan trefil, sveiflaði treflinum í boga aftur fyrir bak og kunngerði að hann ætlaði að verða skáld. Hann er skáld. Auk þess býr hann til gott kaffi.

Minnisbókin byrjar þegar Sigurður kemur til Parísar í fyrsta skipti. Hann er þá reyndar á leið til Toulouse en ástin á borginni er greinilega kviknuð og það var ekki langt að bíða þar til hann var kominn aftur. Hann drepur niður fæti og segir samviskusamlega frá dvalarstöðum sínum og KJ í borginni, kettinum Gertrude, skáldunum sem hann þorði ekki að ræða við og Íslendingunum sem hann hitti þar.

París kviknar til lífs við lestur fyrir þeim sem hafa heimsótt borgina og þekkja sögusviðið. Montmartre, Marais, Latínuhverfið, Montparnasse, Cité Universitaire og ótal aðrir staðir verða ljóslifandi í meðförum Sigurðar. Ýmsir kaflar vekja minningar um svipuð tök í Parísarhjólinu, skáldsögu sem kom út fyrir nokkrum árum. Þessi hluti frásagnarinnar er á við bestu Parísarferð og má mæla með bókinni, ef ekki væri fyrir annað. Sigurður er góður stílisti. Mér sýnist hann hafa gefið sér góðan tíma að vinna margt af þessum köflum. Þar er hvergi ofaukið orði.

Það verður erfiðara fyrir marga að lesa útleggingar hans á meginviðfangsefni sínu þessi Parísarár, sem eru leikhúsfræðin. Mörg bókmenntakenningin mun fara framhjá flestum lesendum.

Mjög gott.


Hliðarspor

Hliðarspor er fyrsta skáldsaga Ágústs Borgþórs Sverrissonar. Hann er að fikra sig af smásögum yfir á stærra svið, en þetta er nóvella (stutt skáldsaga með inngangi, meginmáli og lokaþætti), vel uppbyggð og snyrtilega hnýtt í endann.

Veikleikarnir liggja í smáatriðunum. Samtöl eru sum fremur formleg. Tölvupóstur leikur stórt hlutverk og það er líka stirt að lesa hann. Frásögnin er betri, enda hefur Ágúst reynslu á því sviði.

Framvindan er góð enda segir nóvellan stutta sögu af tveimur köllum og þremur ungum konum á litlu svæði.

Nokkuð gott.


Skjálfti færist í rithöfunda

Aldrei hef ég öfundað höfunda fyrir jól. Hvað þá útgefendur.

Nú byrjar sá tími að bæði höfundar og útgefendur fara að titra nokkuð. Hvernig skyldi bókum mínum vegna? Seljast nógu margar fyrir jólin? Það eru yfir 800 titlar í Bókatíðindum, bæði nýjar bækur og eldri, og annar eins fjöldi bókatitla sem ekki finnst þar, sem slást um sölu nú fyrir jólin.

Þá hefur þetta reynst tími stórkarlalegra yfirlýsinga um ágæti höfunda. Einn er nefndur arftaki þjóðskálda, annar svar við metsöluhöfundum erlendis, sú þriðja verður að erfðaprinsessu.

Svo kemur að þeim tíma þegar einum finnst einhver ritdómarinn hafa vegið illilega að sér, kannski út af gömlu rifrildi við barinn á Borginni eða Þjóðleikhúskjallaranum. Skammirnar fara að dynja á Þórhalli Gunnarssyni ef ekki er nógu ljúfmannlega rætt um eina bók í Kastljósinu, eða á Agli Helgasyni ef Kiljan fjallar ekki um aðra.

Svo koma jólin og sem betur fer hverfur skjálftinn. Svo er að takast á við nýtt ár, nýja bók og stundum nýja útgáfu.


Harðskafi

Lesendur reyfara leita að formúlu og Arnaldur lætur þá fá það sem þeir vilja.

Í bókinni er augunum beint nær eingöngu að Erlendi. Félagar hans í löggunni fá að spila örlítil aukahlutverk. Til að gera þetta fær Erlendur frið fyrir morðmálum í gangi, utan sjálfsmorðsmáls sem hann vill rannsaka sjálfur, og hefur tíma til að rannsaka eldri mál sem aldrei hafa leyst.

Það hefur slaknað á vandanum hjá börnum hans og tækifærið er notað til að kafa dýpra í vanda Erlendar sjálfs. 

Nokkrar góðar aukapersónur eru nefndar til sögunnar. Mér kæmi ekki á óvart að sjá Orra (ekki Onna) Fjeldsted skjóta upp kollinum hjá Arnaldi síðar.

Þetta er góður plottari og alveg í takt við bestu bækurnar sem Arnaldur hefur skrifað, minnir á Ed McBain og Sjöwall & Wahlöö á góðum degi. Þá á ég við að þetta er góður reyfari.


Íslenskir bókstafstrúarmenn

Er einhver ástæða að hampa íslenskum bókstafstrúarmönnum fremur en þeim sem búa annars staðar?

Mikil er trú þeirra manna sem telja að texti breytist við það að vera þýddur öðruvísi. 


Í bókatíð

Nú kemur sá tími að maður finnur eitthvað nýtt íslenskt efni á hverjum degi eða því sem næst, í bókabúðunum. Það má því finna mig í Máli og menningu á Laugavegi 18 eða Eymundsson í Austurstræti 18 þegar kvöldar.

Kaffið á báðum stöðum er gott. Eymundsson hefur vinninginn í augnablikinu, vegna þess að maður getur rölt með kaffið og virt fyrir sér varninginn á meðan, sem er ágætis tilfinning. Súfistinn er með gott kaffi, en heimtar að maður kúldrist á agnarsmáum borðum eins og hæna á priki.

Þegar ég skrifa þessa færslu berast þær fregnir að írska skáldkonan Anne Enright hafi hlotið Man Booker-verðlaunin þetta árið. Hún var ekki talin líklegust til þess og keppti við þungaviktarskáld eins og Ian McEwan.


mbl.is Enright hlaut Booker verðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókaútgáfa á Íslandi 1999 til 2005

Upp úr aldamótum skrifaði ég greinar þar sem ég hélt því fram að bókaútgáfa á Íslandi væri að aukast ár frá ári. Ég hafði þá upplýsingar til ársins 2000 á Íslandi úr Íslenskri bókaskrá og nýrri tölur erlendis frá.

Nú er til á vefnum Íslensk útgáfuskrá sem sýnir aðra þróun eftir aldamót. 


Eins og sjá má, hefur fjöldi skáldsagna haldist viðlíka og 1999 og jókst reyndar nokkuð 2004 og 2005. Fjöldi annarra bóka náði hámarki árið 2000 og hefur fækkað frá því.

Tölur íslenskrar útgáfuskrár eru þegar þetta er skrifað frá janúar 2007. Þá voru ekki komnar tölur fyrir árið 2006, sem líklega koma með næstu uppfærslu útgáfuskrárinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband