Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
24.3.2008 | 16:25
Kreppan þýðir breytingar
Með fullri virðingu fyrir raunum íslenskra félaga á markaði, þá snerta örlög þeirra lítið heimilisbókhaldið hér. Peningar í eigu Pálma, Jóns Ásgeirs eða Bakkavararbræðra breyta litlu um hvernig efnahagurinn er á þessu heimili.
Það eru stærri breytingar sem skipta máli í því sambandi. Krónan lækkar og sjávarútvegurinn hættir taprekstri. Fiskeldi verður arðbærara þannig að það eykst á ný. Sókn í loðnu, kolmunna og makríl til að fóðra þessa fiska verður meiri, svo furðuleg viststefna sem það nú er.
Í Bandaríkjunum og Evrópu hafa orðið stórtíðindi, falin á bak við tíðindi af einstökum félögum, rétt eins og hér. Fólk kennir ennþá lausafjárkreppuna við undirmálslán, þó að það sé löngu orðið ljóst að herkostnaðurinn í Írak og Afganistan eigi þar miklu stærri þátt.
Þá gerist það sama og á áttunda áratugnum, þegar skattar voru lækkaðir um leið og herkostnaðurinn í Víetnam gleypti æ stærri hluta af kökunni, en var af sömu pólitísku ástæðunum falinn fyrir fólki.
Lágt gengi á dollar gat ekki til langs tíma haldið burtu ódýrari innfluttum vörum. Bandaríkjamenn fara að framleiða aftur fyrir nýríka markaði í Asíu og Evrópu, þó að heimamarkaðurinn sé sem fyrr sá langmikilvægasti í heiminum.
Hátt gengi evru þýðir að verð á innfluttum vörum frá Bandaríkjunum lækkar í Evrópu og ferðamenn flykkjast þaðan til Bandaríkjanna.
Á áttunda áratugnum komu afleiðingarnar fram á líkan hátt. Verðbóga jókst um leið og atvinnuleysi. Þetta var kallað stagflation, stöðnun með verðbólgu.
Lausafjárkreppunni hefur núna verið mætt með því að bankar losa nýtt fjármagn. Á íslensku þýðir það að peningar eru prentaðir. Það hefur þýtt verðbólgu hingað til.
24.3.2008 | 14:27
Gott að vera lögfræðingur
Ef niðursveiflan í heiminum ætlar að reynast verða jafn djúp og hún lítur út fyrir núna, þá verður gott að vera lögfræðingur.
Þegar maður lendir í vanda hefur maður samband við lögfræðing og það eru margir í vanda núna.
Svo segja fréttir og hvísl að núna eftir páska komist skriður á sameiningu fjármálastofnana.
Önnur félög verða tekin út af markaði, þar sem markaðsvirði þeirra er komið niður fyrir skráðar eignir.
Nóg að gera fyrir lögfræðingana.
21.3.2008 | 19:14
Exista að kaupa Skipti og borgar með hlutum í sjálfu sér
3.3.2008 | 19:56
Hvers vegna eru háir vextir á Íslandi?
Hvað eru vextir? Vextir eru verð, sem sett er á fé, sem er fengið að láni.
Ég er með þúsundkall í veskinu. Hann safnar engum vöxtum meðan hann situr þar. Ef ég lána öðrum hann, tek ég vexti af láninu. Þeir eru með öðrum orðum verð á peningum, sem maður á ekki.
Eins og kom í ljós þegar ódýrari húsnæðislán buðust í bönkum, þá sló aðeins á yfirdrátt Íslendinga þegar þeir endurfjármögnuðu húsnæði sitt. Þegar frá leið, sótti í sama farið og ótrúlega hátt hlutfall þeirra fullnýtti yfirdráttinn. Þetta er ofan á kortagreiðslur, raðgreiðslur, skammtímalán og önnur lán.
Eftirspurn Íslendinga eftir lánsfé er gífurleg, í engu samræmi við eignir þeirra, og er enn óuppfyllt. Þegar þannig er í landinu, eru háir vextir.
20.2.2008 | 19:47
Snúningsárið 2008?
Það er hátt olíuverð, erfitt um lánsfé, minnkandi þorskafli og uppsjávarafli gæti verið að bresta. Fyrir 20 árum hefði þetta þýtt fólksflótta frá landinu.
Ástandið er um margt betra en þá. Árin 1985 til 1994 komu sæmileg ár, stöðnunarár og ár sem efnahag hrakaði. Þegar upp var staðið hafði efnahagur staðið í stað í 10 ár.
Það var margt reynt til að koma honum upp úr sporunum. Ríkisstjórnin gekk á eftir fjárfestum með grasið í skónum og reyndi að fá þá til að setja upp álver, fiskeldi og hugmyndir um krókódílaeldi eða búskap með risarækjur áttu greiðan aðgang á hæstu stöðum.
Það er greinilega allt annar tími, þar sem tvö álver eru í bígerð og bankarnir helst að hugsa sig um hvort þeir eigi að starfa áfram á landinu eða flytja höfuðstöðvar til annarra landa. Þetta er breyting frá 1994. Fjármál ríkisins eru í góðu lagi eftir 13 feit ár og jafnvel stærstu sveitarfélögin hafa verið að snúa við rekstri á síðustu árum.
Samt má sjá gífurlegar breytingar sem verða ef bæði þorskafli og loðna minnka á sama árinu um leið og lánsfé fæst varla og olía er í hæsta verði. Aðflutningur til landsins og sérstaklega til landsbyggðar hættir og flutningur til baka hefst, nema á þeim stöðum sem enn eru framkvæmdir. Þetta ár verður það aðeins á svæðinu sunnan Hvalfjarðar, eins og mál líta út núna. Það verður stóri snúningurinn árið 2008 ef þetta ástand breytist ekki.
Olíuverð setur nýtt met | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.2.2008 | 02:55
Milljarðamál hjá einum af okkar minnstu bræðrum
Ísland, Noregur og Liechtenstein mynda EES-svæðið með Evrópusambandinu. Ég heimsótti í sumar þennan minnsta bróður í þessu sérkennilega sambandi, sem vann sér það til frægðar að skella landsliðinu okkar á Rínarbökkum síðastliðið haust. Landið hefur lengi verið bankamiðstöð og jafnvel talað um það sem skattaparadís. Þegar ég leit í morgunmat heyrði ég nærstadda segja Geld bewegt die Welt og var þá fljótur að finna mér aðra staði að snæða. Þetta þýðir að peningar hreyfi heiminn og rímar þegar sagt er með linmæltum framburði furstadæmisins.
Þarna er hægt að setja upp eignarhaldsfélög með litlum tilkostnaði. Lögfræðingur setur upp fyrirtæki með pósthólfi í furstadæminu. Það greiðir eignaskatt sem svarar 0,1%. Fjármagnstekjuskattur er enginn. Eignarhaldsfélagið er með umboðsmann í ríkinu. Nafn þess sem á fyrirtækið og þar með eignirnar þarf ekki að koma fram. Sannkölluð skattaparadís.
Nú er furstadæmið svo sannarlega í fréttum. Fyrrum forstjóri Deutsche Post, Klaus Zumwinkel og fjöldi annarra framámanna í þýsku fjármálalífi virðast hafa stungið undan fé og geymt í Liechtenstein. Í mörgum löndum og þar á meðal í Þýskalandi er pósturinn risafjármálastofnun með innláns- og lifeyrisreikninga.
Lögregluaðgerðin til að rekja slóð peninganna var umfangsmikil. Upplýsingarnar virðast hafa komið frá fyrrum starfsmanni bankans LGT sem rændi trúnaðargögnum og bauð þau til kaups undanfarið eitt og hálft ár. Lögreglan reynir nú að hafa upp á bróður póstforstjórans, Hartwig Zumwinkel, sem líklega er staddur á Mæjorku. Sambandsstjórnin í Berlín hefur snardregið úr viðskiptum við furstadæmið. Otmar Hasler, forsætisráðherra Liechtenstein mun eiga viðræður við framámenn í Berlín í dag, miðvikudag.
Annað sem komið hefur í ljós er að bankar í Liechtenstein virðast geyma fé sem kom frá SED, flokknum sem réð Austur-Þýskalandi. Arftaki hans, PSD og nú vinstriflokkurinn Die Linke, vill að sjálfsögðu fá yfirráð yfir fénu. Angela Merkel virðist fá nóg um að ræða við Hasler í Berlín í dag.
Spiegel Online segir frá.
19.2.2008 | 21:44
FBR, fullorðin börn á Range Rover
Ein tegund fólks mun fara illa út úr samdrætti ef hann skellur á. Það er sú tegundin sem kom sér vel fyrir á raðgreiðslum.
Einn hluti raðgreiðslufólks er tekjuhár og samfélagið skuldar þeim að heilsa þeim á götu. Það sem stoppar almenning í að sýna þeim virðingu er að þau eru blanda af sæmilega gefnu fólki í mörgu og algerum vitleysingum í fjármálum.
Með yfirdráttinn stilltan á yfir milljón og fullnýttan, með raðgreiðslur á svipuðum nótum í hverjum mánuði, með skuldir hér og skuldir þar, er þetta fólk ómetanlegt fyrir hluthafa bankanna. Þetta eru fullorðin börn á Range Rover, FBR.
Þau borga stóran hluta af 70 milljörðum sem Íslendingar greiða fyrir yfirdrátt árlega og greiðslukortafyrirtækin væru verr sett án þeirra.
16.2.2008 | 23:38
Eniga meniga, allt snýst orðið um peninga
Ég fór einu sinni á tónleika með Megasi. Þetta var í hátíðarsal MH og þeir hétu Drög að sjálfsmorði. Næstu árin bar lítið á skáldinu. Mér kom á óvart þegar ég heyrði árið eftir að hann hefði kvatt þennan heim, því daginn áður hafði ég séð hann á sýningu í Fjalakettinum.
Nú eru haldnir tónleikar með Megasi í nafni Kreditkorta, held ég. Ég fer að minnsta kosti ekki.
Það kemur undurfurðulega við mig að sjá auglýsingu fyrir fjármálastofnun undir lagi og ljóði Ólafs Hauks, Eniga meninga, sem Olga Guðrún söng. Á yfirborðinu var þetta barnalag en ég held að það hafi átt að vera ógurlega pólitískt, enda átti pólitíkin erindi til allra. Var það ekki ádeila á neysluhyggju?
Æi, það eru 30 ár síðan. Og nú eiga allir nóg af peningum. Eða, vilja það að minnsta kosti.
29.1.2008 | 08:04
Jafnrétti, ekki jöfnuður
Margir telja að jafnrétti og jöfnuður sé eitt og hið sama. Það er ekki svo.
Jafnrétti er að eiga jafna möguleika í krafti eiginleika sem skipta máli hverju sinni og horft sé fram hjá öðrum málum. Þannig hafi kyn, trú, húðlitur, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð ekki áhrif á möguleika til vinnu og skipti ekki máli í íþróttum, svo nefnd séu dæmi.
Jöfnuður er þegar litið er framhjá eiginleikunum. Allir sem eru orðnir 18 ára hafa rétt til að kjósa í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Innan hvers kjördæmis eða sveitarfélags hefur hvert atkvæði jafnan rétt við það næsta.
Nú virðist sem allir eigi að hafa rétt til alls. Þetta er angi af því sem má kalla öfgasinnaða jafnaðarmennsku, þar sem allir eigi að vera góðir við alla og til að tryggilega sé gengið frá því, þá er það bundið í lög.
Jafnrétti er það ef öll sem vinna í búð geta orðið að borgarstjóra, ef þau ná að standa öðrum framar. Jöfnuður er að gera alla að borgarstjóra. Að því virðist keppt núna.
25.1.2008 | 17:24
Örugglega ekkert með Ólaf F. að gera?
Mér sýnist að nær alger fylgni sé milli falls úrvalsvísitölu 9. október þar til á miðvikudag 23. janúar, og fjölda daga Tjarnarkvartettsins í meirihluta borgarstjórnar.
Svo er bara að sjá hvort Ólafi F. tekst að snúa þróuninni við.
Mig langaði bara að minnast á þetta af því að það er föstudagur, samsæriskenningasmíð í nokkrum blóma og kenningin varla galnari en aðrar um sviptingar í borgarpólitíkinni, eða hvað?
Næstmesta hækkun hlutabréfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar