Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Batnandi gengi dollars og olíuverðið

Síðan George W. Bush tók við stjórn hefur gengi dollars legið niður á við. Um leið hefur verð á olíu legið upp á við, þar til þessar tvær stærðir mættust í einum viðskiptum þar sem olíufatið fór á $100.

Allar fréttir frá Bandaríkjunum þetta árið munu minna fólk á þá staðreynd, að George W. Bush fer frá völdum um þetta leyti næsta ár. Af þessum sökum einum fer gengi dollars batnandi.

Olíuverð mun haldast hátt. Bush hefur átt sinn þátt í því með innrás í Írak og stöðugum ýfingum við Írani. Meginstærðin sem ýtir verðinu upp hefur þó verið annars staðar. Um leið og Kína hefur orðið ríkara, hafa önnur fjölmenn ríki eins og Indland, Indónesía og Thailand einnig orðið ríkari. Nú eru jafnvel Víetnamar farnir að taka þátt í dansinum um gullkálfinn.

Þó að ríki Suður- og Austur-Asíu muni ekki verða nema hálft eins rík og Vesturlönd, þýðir það að neysla eykst um það sem samsvarar tvöfaldri neyslu Evrópu og N-Ameríku. Iðnframleiðslan í Asíulöndum þarf orku til að keyra þennan búskap, sem í dag er olía. Um leið hækkar verð á mörgum matvælum, þar sem eftirspurn eykst.

Háverðið á olíu hefur leitt til þess að þekktar birgðir sem þóttu dýrar að sækja, verða núna notaðar. Þannig eru nýir olíufurstar nyrst í Ameríku, í Calgary og Prudhoe Bay. Alaskabúar fá væntanlega góða ávísun þetta árið þegar framleiðslugróði ríkisins verður reiknaður. Vinir Bush-feðga í Texas hafa haft ástæðu til að kætast, en einnig óvinur þeirra í Venesúela.

Hátt olíuverð  eykur óróa í öllum olíuframleiðslulöndum Afríku og Mið-Austurlanda, og hefur einnig áhrif þar á svæðinu í löndum sem ekki njóta gróðans.


Lánsfjárvandinn

Í september skrifaði ég um minnkandi framboð á lánsfé í heiminum og þeirri skýringu að það séu undirmálslán sem orsaka þann vanda.

Ég taldi að fleiri og stærri þættir gætu verið að verki og nefndi herkostnað í Írak. Ég kallaði færsluna Fíllinn í stofunni í bandarískum efnahagsmálum. Myndlíkingin er þekkt frá fjölskyldum alkóhólista og þeirra sem þekkja táknmyndir stóru bandarísku stjórnmálaflokkanna. Sumir gætu leitt hugann að þurrum alkóhólista sem situr í Hvíta húsinu.

Nú hefur komið í ljós að báðar þessar stærðir, undirmálslán og herkostnaður í Írak eru enn stærri en áður var talið. Sem fyrr er herkostnaður miklu mun stærri. Undirmálslán teljast 8 milljarða dollara virði meðan herkostnaðurinn var áætlaður 9 milljarðar dollara á mánuði af talsmönnum stjórnarinnar.

Ekki getur verið að öll undirmálslán falli ógreidd. Ef gert er ráð fyrir að í alversta falli náist ekki 25% af þeim, þá eru það 2 milljarðar dollara. Fjárlagahallinn í Bandaríkjunum gerir þetta að smápeningum.

Sem fyrr tel ég að orsaka lánsfjárkreppunnar (credit crunch) sé að finna annars staðar. Hins vegar hafi verið þægilegt að skella skuldinni á undirmálsfólk sem eigi sér fáa málsvara í fjármálastofnum. 


Hoggið í ríkidæmið

Þær fregnir berast nú að margt fólk eigi í vanda vegna þess að þau hafi tekið lán fyrir hlutabréfakaupum sem þýði beint tap, eins og mál standa.

Sem betur fer er þetta ekki verst stæði hópur þjóðfélagsins, heldur fremur fólk sem á góð veð í húsi, lóð eða bíl. Vandinn er enn sem komið er ekki voðalegur og lýsir sér helst í að bankinn er kominn með hærra veð í húsinu, lóðinni eða bílnum, vegna þess að veðið í bréfunum dugir ekki eins vel og það gerði.

Hjá flestum er þetta þess vegna hálfgert lúxusvandamál. Fyrstu áhrifin af svona bakslagi eru að augljósasti lúxusinn verður skorinn niður. Þess vegna virðast nýársböllin verða færri en hefur verið undanfarin tíu ár eða svo.

Það verða þó einungis dýrustu böllin sem eru slegin af. Liðið hefur væntanlega efni á eins og einni eða tveimur flöskum og nokkrum rakettum, og getur skemmt sér eins og venjulegir Íslendingar.

En það verður súrt fyrir suma, sem héldu að þau væru komin í annan og ríkari hóp.


mbl.is Hlutabréf lækkuðu á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvað fá greiningardeildir bankanna greitt?

Ég hef fyrr á þessu ári dregið í efa að spá greiningardeildar Landsbanka um húsnæðisverð gangi eftir, sjá færslu frá 19. september og nánari útfærslu níu dögum seinna.

Ef fasteignaverð mun dragast saman eins og deildin spáði eru það stórmerk tíðindi vegna þess að við þær aðstæður dregst neysla saman. Fólk sér að skuldir þeirra vaxa hraðar en eignir þess, hættir að kaupa dýran varning og breytir neyslumynstri.

Þessu hefur einmitt verið spáð í Bretlandi. Ef fasteignaverð þar dregst saman hefur það mikil áhrif á smásölumarkaði, sem nokkrir Íslendingar hafa einmitt fjárfest mikið í á undanförnum árum. Sem betur fer fyrir þá hefur þetta ekki gengið eftir og fyrstu tölur um jólaverslunina sýna aukningu frá síðasta ári, enda hefur fasteignaverð hækkað í Bretlandi þetta ár.

Allir þekkja spár greiningardeilda bankanna um hækkun á hlutabréfaverði á árinu, sem voru kringum 40%, og hvernig þær spár hafa gengið eftir. Þeim til málsbóta má segja að á árinu hafi orðið tíðindi á alþjóðlegum bankamarkaði, sem kalla má svartan svan, svo vísað sé til kenninga Nassim Taleb.

Sagt er að undirmálslán í Bandaríkjunum hafi svipt fótunum undan lánum banka um allan heim. Ég leyfði mér að draga það í efa og miðaði við stærð þessara lána borið saman við önnur lán í færslu frá 17. september. Ég benti á aðra stærð sem haldið er utan við umræðuna, enda hápólitísk. Allar stærðir hafa sín áhrif og án efa eru undirmálslánin lóð á vogarskálina, en ég tel að þau séu léttvæg miðað við önnur þyngri lóð á þeirri skál.

Þá er komið að spurningunni hér í fyrirsögninni. Hafa greiningardeildirnar komið með einhverjar upplýsingar sem ekki var hægt að fá annars staðar? Voru þær einfaldlega heppnar, eins og flestir sem tóku þátt í íslenskum markaði 2002-2006? Var þeim greitt fyrir heppni?


Svo verðið megi haldast hátt

Verð á vöru skapast af framboði og eftirspurn. Aðstæður ráða hvor þátturinn verður ráðandi og þá hversu mikið.

Á Íslandi er núna eftirspurnarþjóðfélag. Allir eru með kaupæði og eru viljugir að borga meira en í gær. Launin hækka og það eru litlir möguleikar á því að þetta breytist neitt á næsta ári, nema þannig að verðið verður enn hærra.

Það er víst að kaupæði minnkar ekki. 


Oið gleymist í hf.

Það er orðið ljóst að margir gera sér ekki grein fyrir að áhætturekstur opinberra fyrirtækja er ekki sjálfgefinn.

Það eru reyndar margir á móti þessum rekstri. Það sama gildir um annað sem fylgir þessum rekstri, til dæmis að upplýsingar um hann liggja ekki opnar.

Aðalatriðið er þó að stór hluti kjósenda telur að hlutverk hins opinbera sé að sjá um samfélagslega þjónustu eins og að mennta þjóðina, sjá um heilbrigði hennar, öryggi hennar og skapa ramma um efnahag. Þeir eru síðan til sem telja að hið opinbera eigi aðeins að sjá um öryggi þjóðar og að skapa ramma um efnahaginn. Hvorugur þessara hópa telur að hið opinbera eigi að sjá um áhætturekstur eða nokkuð það sem betur fer í einkarekstri.

Ef fólk telur að það sé nóg að búa til hlutafélag um opinberan rekstur og mega þá gera hvað sem er, þá er það ekki rétt. Það minnkar áhættu eigenda. Fyrirtæki sem er ohf. (opinbert hlutafélag) eða hlutafélag í eigu opinberra aðila hefur ákveðnum skyldum að gegna sem þýða að það eigi ekki erindi í áhætturekstur.

Það verður að gefa upp ákveðnar upplýsingar um rekstur þess vegna þess að almenningur er eigandi þess, sem þessi félög hafa ekki treyst sér til. Þau keppa við einkaaðila sem geta leyst þessi mál miklu betur eins og reynslan sýnir. Þau nota opinbert fé til áhættu. Þar með er hið opinbera farið að sýsla um mál sem það á ekki að gera.

Viðtal við forsætisráðherra sýnir að hann lítur ekki þannig á málið. Fyrir Geir skipti einungis máli hvernig var farið að hlutunum. Það var klúður hjá REI, sagði hann.

Það var klúður hjá hinum en hjá okkar fólki er það flott.

Málið er stærra en þetta. Það er stór hópur fólks í öllum stjórnmálaflokkum sem er einfaldlega á móti því að hið opinbera eða opinber fyrirtæki standi í svona rekstri. Undirritaður er á móti því að fólk telji sig geta upphafið allar reglur um opinberan rekstur með því einu að búa til hlutafélag, annað hvort ohf. eða hlutafélag í eigu opinbers fyrirtækis.


Menningin og viðskiptin

Það er til kenning um að lagaval sýni stemminguna hjá fólki. Þetta hljómar ekki sem langsótt kenning, eða hvað? Það má færa hana yfir á almenning og almannahag. Efnahagur sveiflast upp og niður og þau sem geta spáð fyrir um þannig hreyfingar með góðum fyrirvara ættu að vera vel stödd. Ein kenning gengur út á að sjá breytingar á efnahag landa með því að skoða hvaða lög eru vinsæl, hálfu ári fyrr.

Prince skrifaði lagið Nothing Compares 2 You árið 1984 og það var gefið út árið 1985 án þess að hljóta mikla hlustun. Allt annað var uppi á teningnum sumarið 1990. Útgáfa Sinéad O'Connor var spiluð í ræmur og fólk naut þess að líða illa. Um áramótin þar eftir lauk vaxtarskeiði sem hafði staðið í nokkur ár í Evrópu. Kenningin var að fólk hefði fengið sig fullsatt af góðu gengi og væri til í að láta sér líða illa.

Því miður er þessi kenning ekki nákvæmur mælikvarði. Það er ekki gott að finna skýringar á efnahag stórra svæða með einu lagi. Múrinn var fallinn og mikið fé fór í að byggja upp efnahag í fyrrum austantjaldslöndum. Sinéad var góð söngkona árið 1990. Prince var frábær lagahöfundur árið 1984. Myndbandið við lagið var glæsilegt.

Nú er spurningin hvort lagavalið fyrir þessi jól lýsi að einhverju hvert markaðurinn stefnir. Bretar telja að fasteignaverð fari lækkandi og neysla minnki um leið. Þetta hefur þegar haft áhrif á eignir íslensku auðmannanna sem fjárfestu af krafti í smásölukeðjum þar.

Með þetta í huga er það ekki fjarlæg spá að Malcolm Middleton eigi lagið efst á lista um þessi jólin, sem þá verður hið ömurlega We're all going to die. Malcolm kemur úr tvíeykinu Arab Strap, sem aldrei taldist til bjartsýnustu bandanna, en það er heldur ekki sérlega bjart yfir þessu lagi. Textadæmi: We're all going to die, so what if there's nothing, we all have to face this alone. Og: You're going to die, you're going to die, you're going to die alone, all alone.

Lagið er gott, svona ef fólk lætur textann ekki of mikið á sig fá. Þau sem vilja sjá þýðari og jólalegri útgáfu ættu að líta á myndband sem birtist á vef þáttar Colin Murray hjá BBC, með fiðlu og barnakór.

En þetta er nú bara kenning.


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband