Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Auglýsingar flokkanna, þú færð að borga

Nú hellast yfir okkur auglýsingar flokkanna, enda baráttan stutt og snörp. Það gildir jafnt um þær sem koma beint frá flokkunum og svo frá þessum félögum sem taka að sér hluta baráttunnar.

Við sjáum á því litla sem gefið er upp af bókhaldi flokkanna að neytendur borga meira en helming þessara auglýsinga á endanum í hærri sköttum og hærra neysluverði.

Gjörðu svo vel.


Of auðvelt að ruglast á frjálshyggju og græðgi

Margir kenna frjálshyggjunni um allt illt sem gerðist á Íslandi og í heiminum á þessum vetri. Ég held að hér sé verið að nota orðið frjálshyggja í staðinn fyrir það sem ég kalla fullkomna ágóðahyggju.

Ágóðahyggjan þýddi að allur rekstur, opinber, félagslegur og einkarekstur var settur undir þann hatt að hann ætti að skila sem mestum ágóða. Aðrir þættir voru skildir eftir, jafnvel taldir hjákátlegir. Svo varð ágóðahyggjan að meira og meira skammtímamarkmiði og öll meðul notuð til að þrýsta upp hlutabréfaverði með alþekktum afleiðingum.

Frjálshyggjan er ekki það sama og gróðahyggja. Það verður því miður að segja að það var auðvelt að rugla þessu saman síðustu 18 ár á Íslandi. Frjálshyggjufólk gekk í fararbroddi þessarar ágóðahyggju. Það gerði ekkert til að slíta sundur tengsl ríkisvalds og auðmanna sem ætti að vera einn af hornsteinum frjálshyggjunnar, heldur þvert á móti elfdi þessa samvinnu. Þá gerir lítið þó sumt gott fólk bendi á að ríkisábyrgð á skuldbindingum fyrirtækja eins og einkarekinna banka sé alger andstæða frjálshyggjunnar.

Helsta von hægrimanna er nú að vinstrimenn geri þau mistök að vilja aukinn opinberan rekstur. Það hefur verið reynt og var enn ömurlegra en rekstrarumhverfið í vetur.

Í öllum rekstri, einkarekstri, opinberum og félagslegum rekstri verður að taka tillit til fjár, félagslegra og siðferðilegra þátta allra í senn.


Hvernig hefði þetta orðið með hærri sköttum?

Ein af kennisetningum þeirra sem hafa ráðið ferðinni undanfarin 18 ár er að einkarekstur verði alltaf hagkvæmari en opinber rekstur. Þar liggi ábyrgðin hjá þeim sem taki áhættuna, og að þau sömu reyni alltaf að reka allar einingar á sem hagkvæmastan hátt. Þetta þýði að því meiri einkarekstur, því betra fyrir þjóðfélagið í heild þar sem skilvirkni aukist. Ríkara þjóðfélag geti síðan skilað meiri skatttekjum til rekstrar á vegum hins opinbera, en þá eigi það helst að bjóða út þann rekstur.

Mörgum af hægri vængnum þykir margur opinber rekstur fremur fánýtur eins og sjá má af tekjum umönnunarstétta, ummælum um bruðl á vegum hins opinbera og hugsjón þeirra að losa sem mest af þessum rekstri frá hinu opinbera.

Það fylgir þessari hugsjón að segja að hærri skattar séu slæmir því þeir taki fé af fólki sem myndi nota þá til nytsamlegri hluta en hið opinbera gerir. Þetta er alveg rétt ef hið  opinbera hagar sér eins og fáviti. Það eru mörg dæmi þess en þetta er engan veginn algild regla.
SkulagotuBlokkir8feb2009a
Ég lít til dæmis núna á yfir þúsund tómar fullbyggðar íbúðir og annað eins sem er í byggingu. Ef þrjú þúsund íbúðir standa tómar eða hálfbyggðar og annað eins magn atvinnuhúsnæðis má ætla að þar liggi jafnvirði 100-150 milljarða.

Ef þetta fé hefði ekki farið í byggingar einkaaðila heldur til hins opinbera væri það komið nýja sjúkrahúsbyggingu Landspítalans, Sundabraut, Norðfjarðargöng eða eitthvað álíka.

Ef þér finnst allt sem hið opinbera gerir versta bruðl þá er þér líklega sama. Ef ekki, þá ertu líklega til í að skoða dæmið betur. Það er ekkert lögmál að opinber rekstur sé verri en einkarekstur. Ef maður rekur opinbera stofnun illa, þá er það þannig. Ef maður rekur einkafyrirtæki illa, þá er það á hinn veginn.

Hofdatorgsturn8feb2009aLærdómurinn sem ég dreg er að það skiptir máli hvernig allt er rekið og það er ekki síður mikilvægt að fá gott fólk í opinberan rekstur en í einkareksturinn.


Að fara verr með fé en fullur sjóari

Því er haldið fram að Íslendingar hafi haft stjórn á eigin gjaldmiðli síðan á þriðja áratugnum, í um 80 ár. Það er fullkomlega ofsagt.

Meðferðin á krónunni líkist aðeins svipugöngum. Þó að þetta hafi hjálpað til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu þá gerir það ekki lengur, enda eru ástæður atvinnustigsins að hér búa fáir og lengi þurfti marga til að vinna úr fiski og öðrum auðlindum. Verðbólgan var látin hjálpa til að halda launum niðri sem gerði það auðveldara að ráða fólk.

Á þessum 80 árum hafa sambærilegir gjaldmiðlar á Norðurlöndum tapað gildi sínu en íslenska krónan hefur tapað verðgildi tvöþúsundfalt hraðar. Í árdaga heimastjórnar á Íslandi fóru fjárlög hér á landi í fyrsta skipti yfir milljón krónur. Það samsvarar 10.000 krónum í dag. Þó að framkvæmdir hafi verið margfalt minni voru þessar krónur notaðar til að greiða laun og eftirlaun hundraða, sumu af því hæst launaða fólki sem þá var á landinu.

Einhverjir hafa látið svo um mælt að krónan sé metin eins og Matadorpeningar. Það hefur þó ekki heyrst að þar standi til að skera tvö núll aftan af gjaldmiðlinum eins og gert var hér 1. janúar 1981, í tíð 50% verðbólgu. Þessi aðferð var notuð til að styrkja atvinnuvegina en þýddi að 3000% launahækkanir (30-földun) launa á 20 árum eyddist í 3000% verðbólgu. Þúsund króna laun hækkuðu í þrjátíuþúsund en á sama tíma varð hver þúsundkall þrjátíu sinnum minni að verðgildi, þannig að launþegar stóðu með sama kaupmátt eftir tuttugu ára baráttu og vinnu, gátu keypt það sama fyrir þrjátíuþúsundkallinn eins og þau höfðu getað gert tuttugu árum áður fyrir þúsundkallinn, fyrir sömu vinnu.

Afleiðingin tók nokkurn tíma að koma fram að fullu en endaði á því að enginn treysti gjaldmiðlinum. Þetta átti þátt í að þjóðin eyddi meiru en fullur sjóari, því sjóarinn hættir yfirleitt að eyða þegar peningarnir eru búnir, fer á sjóinn og reynir að afla meira. Þjóðin hélt áfram að eyða. Farið var fram á hengiflugið. Stjórnendur teymdu hana síðan fram af í október 2008.

Um stund var þjóðin í frjálsu falli en hugsaði að þetta væri ekki svo slæmt. Þetta verður ekki slæmt fyrr en þjóðin er kominn í botn gljúfursins. Landsmenn eru þessa stundina að sjá hluta af þessu falli á skattframtölum fyrir árið 2008. Þetta mun halda áfram á næsta skattframtali.

Það slæma við þetta er ekki bara rekstrarumhverfi þar sem það skiptir engu hvað fólk leggur sig fram, þá verða utanaðkomandi þættir yfirsterkari. 

Það slæma er líka að gengisbreytingar krónunnar hafa ekki verið annað en dulbúin skattheimta og eignatilfærsla, framkvæmd af fólki sem átti að bera ábyrgð á ríkisfjármálum.

 


Févana fjármálamenn íslenskir

Fréttir herma að íslenskir fjármálamenn hafi sóst eftir að kaupa Kaupþing í Lúxemborg en ekki verið taldir eiga til þess nóg fé.

Nú kemur kaupverðið í ljós, 1 evra.

Eða, svo ég sé ekki með hótfyndni, um 135 milljónir evra sem þeir þurfa að leggja sem hlutafé, samkvæmt fréttinni og miðað við gengi dagsins.

Hvernig sem á það er litið virðist hafa verið um févana fjármálamenn að ræða.


mbl.is Kaupþing í Lúxemborg selt á 1 evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningin í öryggisráðið

Undanfarinn mánuð hafa orðið mikil tíðindi í efnahag landsins. Einhver hefur lýst því svo að þetta væri eins og að hafa búið með ofdrykkjumanni í mörg ár, sitja nú uppi með skuldirnar og þurfa að borga sukkið.

Þetta má til sanns vegar færa. Nú þegar rykið fellur til jarðar eftir efnahagshrunið verða nokkrar lexíur ljósar. Ein er sú að sannfæring Íslendinga um að þeir séu mestir og bestir þó þeir séu fáir, er stórhættuleg sjálfsblekking.

Hér eftir má taka allan vara á því í hvert skipti sem Íslendingar segjast nota sérreglur af því að þeir séu svo sérstakir. Nei, þið eruð það ekki og þið skuluð fylgja sömu reglum og aðrar Evrópuþjóðir.

Hluti þessarar sjálfsblekkingar er viðleitni í smáu samfélagi til að þagga niður alla gagnrýni. Hvort sem Íslendingar eru gagnrýndir af samlöndum sínum eða öðrum, þá ráðast þeir af krafti og persónulega á hvern þann sem leyfir sér að gera svo.

Sjálfsblekkingin nær um allt þjóðfélagið. Ummæli ráðamanna um möguleika Íslendinga á að komast í öryggisráðið sýna þetta.

Ef þjóðin er nýkomin úr sambúð með ofursukkara fjármálanna má hún ekki hlaupa beint í fangið á sömu manntegund stjórnmálanna.


Höfundaréttur verndar vinnu

Höfundaréttur er gerður til að vernda hugverk, vinnu sem lögð er í að setja saman verk sem byggir að miklu leyti á hugmyndum. Rétturinn þýðir að ýmsir sjá sér hag í að leggja í þá vinnu og gefa hana út. Ef ekki kæmi endurgjald, verndað af höfundarétti, yrði þessi flóra miklu fátæklegri og allir myndu bera skaða af.

Það líta ekki allir þannig á málið og sumir telja að höfundaréttur sé til trafala. Eins og má sjá á umræðu sem Salvör Gissurardóttir kveikti eftir fund Wikifólks á fimmtudaginn, þá sýnist sitt hverjum. Mér finnst meinlegt að sjá hversu margir sem þar tjá sig hafa lítið haft fyrir að kynna sér margslunginn heim höfundaréttar.

Þeir sem lesa þessi orðaskipti þurfa að hafa í huga að vilji margra stendur til að ekkert efni á Vefnum sé varið reglum höfundaréttar.


Æ, ekki tala um peninga

Hvað gerist þegar fólk eignast mikið fé en skammast sín fyrir að ræða það? Of mikil eyðsla er yfirleitt niðurstaðan.

Skelfing stór hluti þjóðarinnar er fullkomlega úti að aka í fjármálum og hjá sumum gætir stolts yfir því. Þetta má sjá hjá fólki sem hefur mörg ráð með að afla fjár, en virðist enga stjórn hafa á útgjöldunum. Þannig eru þeir tekjumeiri með meiri vanda en þeir tekjuminni af því að þeim hefur leyfst meira.

Hvernig skólakerfi er það sem undirbýr ekki fólk til að lifa í samfélaginu? Oft virðist eiga að ala upp fyrirmyndarfólk fyrir löngu liðinn tíma.

Það eru nokkrir ljósir punktar í þessu myrkri. Sístækkandi hópur fer í háskóla og af þeim er stór hópur sem lærir á þessi mál. Sjötti hver háskólanemi er að læra viðskiptafræði, stjórnun, rekstur eða fræði tengd þeim. Nokkuð stór hópur lærir eitthvað um stærðir og viðskipti í verkfræði, raunvísindum og lögfræði.

Eftir stendur sá hluti sem fer í framhaldsskóla, til dæmis iðnnám, og þarf ekki að kunna skil á fjármálum við útskrift, af því að það er ekki við hæfi að binda það í skyldu. Allt of margir nemendur í hugvísindadeildum og félagsvísindadeildum háskóla eru ratar í stærðfræði og komast upp með það. Það versta er að þetta fólk þarf ekki að læra mjög flókna stærðfræði, kunna skil á þríliðu eða getað reiknað prósentuhlutfall á annan hátt, ofan á og af heildarverði, það er ágætis byrjun.


Samúð þeirra með sjálfum sér er takmarkalaus

Það er sérkennilegt að horfa á hópa mótmæla hækkandi eldsneytisverði, hópa sem reynast svo hafa borgað lægsta eldsneytisverðið í þjóðfélaginu. Hópa sem mótmæla lögum sem ætlað er að auka öryggi á vegum landsins. Hópa sem eiga í viðskiptum og hljóta að velta eldsneytisverðinu yfir á neytandann.

Það hefur síðan komið í ljós að hlutur hins opinbera er lægri hér á landi en á Norðurlöndum og öðrum nágrannalöndum, þannig að eldsneytisverðið er þar með lægra en þar.

Þannig blasir þetta við að fólk á eftir að eiga í viðskiptum við þá sem stöðvuðu umferð til að mótmæla annars vegar hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti og hins vegar almennum reglum sem ætlað er að varðveita líf og limi. Þannig reglur eru bæði í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. Hvernig íslensk mannslíf verða öðruvísi metin á þröngum vegum landsins er enn óútskýrt.

Hvenær skyldu verða tekin upp mótmæli gegn fólki sem hefur takmarkalausa samúð með sjálfu sér og er tilbúið að skurkast í þjóðfélaginu bara til að viðskiptastaða þess batni? Er ekki hætt við að það verði ansi tímabundið? Hver vill eiga viðskipti við þannig fólk? 


Hvað á stjórnin að gera?

Þrýstingurinn eykst á stjórnina að gera eitthvað í efnahagsmálunum. Til þess að vita hvað á að gera, þarf að vita hvað er um að vera.

Með fullri virðingu fyrir hagspekingum þá eru flestir þeirra að reyna að ráða í stöðuna sem breytist á hverjum degi. Meðan fólk veit ekki hvað mun gerast er ekki gott að fara að gera eitthvað, bara til að það sjáist að sé verið að gera eitthvað.

Um leið má sjá að það eru nokkrir hópar sem fara illa út úr láns- og lausafjárskorti. Þegar Gylfi Arnbjörsson bendir á að forsendur nokkurra vikna gamalla kjarasamninga séu brostnar, þá dugir ekki að bíða og sjá hvort allt falli ekki í ljúfa löð síðar á árinu. Til þess að það gerðist þyrfti að verða verðhjöðnun. Það er ekki neitt sem bendir til þess núna. Þvert á móti bendir allt til að verðbólga aukist hér á landi um leið og hún mun aukast í viðskiptalöndunum. Þess vegna verður að hefja aðgerðir til að bæta fyrir brostna samninga strax.

Aðrar aðgerðir í efnahagsmálum verða að bíða þess að fólk viti hvert stefnir. Það steðjar ekki hætta að samfélaginu. Vöruverð hækkar en aðalútflutningsvörur okkar, fiskur og ál, hækka meira en flestar aðrar vörur. (Við fáum tekjur af álinu fyrst og fremst í rafmagnsverði). Verðbólgan þýðir að þjónustan sem við höfum haft mestar tekjur af, fjármálaþjónustan, verður minna virði. Hinar stærstu þjónustugreinarnar, forritun og ferðaþjónusta, styrkja stöðu sína.

Það eru aumingja skuldararnir sem munu hafa það verst eins og alltaf. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband