Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Af Bhutto-ætt

Nú berast þær fregnir að Asif Ali Zardari, ekkill Benazir Bhutto, taki við stjórn Þjóðarflokks Pakistans, PPP. Flokkurinn var stofnaður af föður Benazir. Fyrir Íslendinga líkist flokkurinn meira ættbálki sem velur leiðtoga en stjórnmálaflokki, en þessi flokkur hefur staðið næst Vesturlöndum í pólitík í því landi.

Sonur þeirra, Bilawal Zardari, sem nú mun kalla sig Bhutto, er ætlað að taka við stjórnartaumum í flokknum, Faðir hans er veikur maður, eins og ég fjallaði lauslega um í færslu um morðið á Bhutto.

Eins og ég sagði frá þar þekkir Jakob Ásgeirsson vel til þessarar fjölskyldu. Ég hef ekki heyrt enn rætt við hann um málið og veit ekki nákvæmlega hvað veldur. Hann deildi þó húsi með þessu fólki sem er nú í miðpunkti atburða í Pakistan, einu fjölmennasta ríki veraldar og eins af kjarnorkuveldunum.


mbl.is Sonur Bhutto einungis formaður í orði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að styrkja björgunarsveitirnar

Nú kaupa Íslendingar flugelda eins og lífið eigi að leysa þrátt fyrir afleita spá fyrir gamlárskvöld. Sem betur fer, fyrir björgunarsveitirnar.

Eins og Kristinn Ólafsson lýsti í fréttunum er þetta lífsspursmál fyrir þær og hagnaðurinn ekki í hendi fyrr en upp er staðið. Eins og Kristinn sagði, kannski óheppilega, fara björgunarsveitirnar ekki að fá í vasann fyrr en eftir hádegi á gamlársdag, því kostnaðurinn er líka mikill við allt umstangið.

Það er bara að vona að Íslendingar taki hann ekki á orðinu og mæti ekki fyrr, og segist bara vilja kaupa flugelda af þeim þegar það er hagnaður af því! Eftir hádegi 31. desember er farið sneyðast um bestu skoteldana og styttast í að verði lokað.

Það eru ekki allir jafn hrifnir af því að kaupa mikið af skoteldum. Sumum finnst þeir hættulegir, og kunna kannski slæmar sögur af óhöppum með þá. Flugeldar eru ekki beint umhverfisvænir, fullir af þungmálmum, geta myndað versta mengunarský ársins (ekki miklar líkur á því núna) og svo er bölvaður hávaði af þeim!

Ég hafði samband við Landsbjörgu fyrir þremur árum og vildi styrkja þá á annan hátt, og vildi helst að það væri auðveld leið til þess á vefnum hjá þeim. Sem betur fer hefur Landsbjörg sett þetta upp, sjá flipann „Styrkja félagið” hjá þeim. Það er hægt að velja hvaða björgunarsveit maður vill styrkja og þetta fé rennur um það bil allt til þeirra. Það er fremur einfalt að setja þetta á kort hjá sér, eða fá greiðsluseðil fyrir kortafælna.


Fyrir hvað fá greiningardeildir bankanna greitt?

Ég hef fyrr á þessu ári dregið í efa að spá greiningardeildar Landsbanka um húsnæðisverð gangi eftir, sjá færslu frá 19. september og nánari útfærslu níu dögum seinna.

Ef fasteignaverð mun dragast saman eins og deildin spáði eru það stórmerk tíðindi vegna þess að við þær aðstæður dregst neysla saman. Fólk sér að skuldir þeirra vaxa hraðar en eignir þess, hættir að kaupa dýran varning og breytir neyslumynstri.

Þessu hefur einmitt verið spáð í Bretlandi. Ef fasteignaverð þar dregst saman hefur það mikil áhrif á smásölumarkaði, sem nokkrir Íslendingar hafa einmitt fjárfest mikið í á undanförnum árum. Sem betur fer fyrir þá hefur þetta ekki gengið eftir og fyrstu tölur um jólaverslunina sýna aukningu frá síðasta ári, enda hefur fasteignaverð hækkað í Bretlandi þetta ár.

Allir þekkja spár greiningardeilda bankanna um hækkun á hlutabréfaverði á árinu, sem voru kringum 40%, og hvernig þær spár hafa gengið eftir. Þeim til málsbóta má segja að á árinu hafi orðið tíðindi á alþjóðlegum bankamarkaði, sem kalla má svartan svan, svo vísað sé til kenninga Nassim Taleb.

Sagt er að undirmálslán í Bandaríkjunum hafi svipt fótunum undan lánum banka um allan heim. Ég leyfði mér að draga það í efa og miðaði við stærð þessara lána borið saman við önnur lán í færslu frá 17. september. Ég benti á aðra stærð sem haldið er utan við umræðuna, enda hápólitísk. Allar stærðir hafa sín áhrif og án efa eru undirmálslánin lóð á vogarskálina, en ég tel að þau séu léttvæg miðað við önnur þyngri lóð á þeirri skál.

Þá er komið að spurningunni hér í fyrirsögninni. Hafa greiningardeildirnar komið með einhverjar upplýsingar sem ekki var hægt að fá annars staðar? Voru þær einfaldlega heppnar, eins og flestir sem tóku þátt í íslenskum markaði 2002-2006? Var þeim greitt fyrir heppni?


Tilræðið við Bhutto, bál og brandur í miðri Asíu

Nú hefur talsmaður Benazir Bhutto staðfest að hún hafi látist af sárum eftir sjálfsmorðssprengingu fyrr í dag.

Það er erfitt að halda fram að svæðið sem markast af Írak, Íran, Afganistan og Pakistan sé nokkru friðvænlegra í dag en fyrir innrásina í Afganistan 2001.

Tilræðið við Bhutto var eitthvað sem hún vissi að gæti gerst, og þrátt fyrir það fór hún í kosningabaráttuna. Að henni genginni er fátt sem stendur í vegi fyrir að herinn taki aftur völd, og ekki útilokað að Musharraf leiði stjórnina enn á ný.

Það sem hefur helst breyst í þessum heimshluta á þessum fimm árum, er að gamlir risar fara aftur að láta að sér kveða. Rússland er risið úr öskustó, Indland er að eflast og hefur leitað samvinnu við Kína, sem nú er óumdeilanlega að ná stöðu í hlutfalli við stærð sína í heiminum. Fyrstu sameiginlegu heræfingar Indlands og Kína voru fyrr í þessum mánuði.

Á meðan svo er, hlýtur Pakistan að reyna að leysa sín innri vandamál áður en farið er að ögra nágrönnunum. Áður fyrr var það örþrifalausn forráðamanna þar til að leiða athyglina frá vandanum heimafyrir.

Faðir Benazir, Zulfikar Ali Bhutto var tekinn af lífi 1979 fyrir sakir sem fáir taka gildar. Eiginmaður hennar, Asif Ali Zardari hefur verið dæmdur þrisvar í fangelsi í Pakistan, og gildir svipað um þær sakir sem hann hefur verið borinn. Jakob Ásgeirsson útgefandi þekkir vel til Zardari og var leigjandi hjá honum um skeið í London. Zardari býr núna í New York og er veikur maður eftir 11 ára samanlagða dvöl í fangelsi.


mbl.is Benazir Bhutto látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo verðið megi haldast hátt

Verð á vöru skapast af framboði og eftirspurn. Aðstæður ráða hvor þátturinn verður ráðandi og þá hversu mikið.

Á Íslandi er núna eftirspurnarþjóðfélag. Allir eru með kaupæði og eru viljugir að borga meira en í gær. Launin hækka og það eru litlir möguleikar á því að þetta breytist neitt á næsta ári, nema þannig að verðið verður enn hærra.

Það er víst að kaupæði minnkar ekki. 


Oið gleymist í hf.

Það er orðið ljóst að margir gera sér ekki grein fyrir að áhætturekstur opinberra fyrirtækja er ekki sjálfgefinn.

Það eru reyndar margir á móti þessum rekstri. Það sama gildir um annað sem fylgir þessum rekstri, til dæmis að upplýsingar um hann liggja ekki opnar.

Aðalatriðið er þó að stór hluti kjósenda telur að hlutverk hins opinbera sé að sjá um samfélagslega þjónustu eins og að mennta þjóðina, sjá um heilbrigði hennar, öryggi hennar og skapa ramma um efnahag. Þeir eru síðan til sem telja að hið opinbera eigi aðeins að sjá um öryggi þjóðar og að skapa ramma um efnahaginn. Hvorugur þessara hópa telur að hið opinbera eigi að sjá um áhætturekstur eða nokkuð það sem betur fer í einkarekstri.

Ef fólk telur að það sé nóg að búa til hlutafélag um opinberan rekstur og mega þá gera hvað sem er, þá er það ekki rétt. Það minnkar áhættu eigenda. Fyrirtæki sem er ohf. (opinbert hlutafélag) eða hlutafélag í eigu opinberra aðila hefur ákveðnum skyldum að gegna sem þýða að það eigi ekki erindi í áhætturekstur.

Það verður að gefa upp ákveðnar upplýsingar um rekstur þess vegna þess að almenningur er eigandi þess, sem þessi félög hafa ekki treyst sér til. Þau keppa við einkaaðila sem geta leyst þessi mál miklu betur eins og reynslan sýnir. Þau nota opinbert fé til áhættu. Þar með er hið opinbera farið að sýsla um mál sem það á ekki að gera.

Viðtal við forsætisráðherra sýnir að hann lítur ekki þannig á málið. Fyrir Geir skipti einungis máli hvernig var farið að hlutunum. Það var klúður hjá REI, sagði hann.

Það var klúður hjá hinum en hjá okkar fólki er það flott.

Málið er stærra en þetta. Það er stór hópur fólks í öllum stjórnmálaflokkum sem er einfaldlega á móti því að hið opinbera eða opinber fyrirtæki standi í svona rekstri. Undirritaður er á móti því að fólk telji sig geta upphafið allar reglur um opinberan rekstur með því einu að búa til hlutafélag, annað hvort ohf. eða hlutafélag í eigu opinbers fyrirtækis.


Er sparnaður af því að minnka útgjöld til sjúkrahúsa?

Við fyrstu sýn er þetta fáránleg spurning. Auðvitað lækkar útgjaldareikningur heilbrigðisráðuneytis við það að minnka útgjöld til sjúkrahúsa.

Á móti kemur að dregið er úr þjónustu. Er fylgst með hvað það kostar hvern og einn? Nú borga þeir sem byggja landið skatt til ríkis, sem nú ætlar að skila 39 milljarða afgangi. Sá tekjuafgangur fer ekki til heilbrigðiskerfisins samkvæmt fjárlögum sem voru samþykkt í vikunni. Sparar þá þjóðin sem ríkið er að þjóna?

Til hvers eru þessir 39 milljarðar? Þeir renna ekki til að mennta lýðinn, þeir renna ekki til að bæta heilsu lýðsins, en lýðurinn skal borga. Lýðurinn skal borga eða dæmast brotlegir við landslög.

Stjórnmál annað orð yfir það að ráða um samfélagslega þætti. Annað eru einkamál eða mál frjálsra félagasamtaka. Það er ekki auðvelt að skilja þá sem láta til sín taka í stjórnmálum með það eitt að leiðarljósi að vinna gegn samfélagslegum þáttum. Þá dæma þeir sig úr leik. Það gerist kannski ekki strax en dugir ekki til lengdar.

Heilbrigðisráðherrann hefur notið mikils fylgis innan flokks síns, sérstaklega hjá þeim yngri, þar sem þau sjónarmið þykja góð að draga úr samfélagsþjónustu. Þau rök kynnu að hljóma vel þar til kemur að því að ákveða hvar eigi að skera niður. Viltu fækka hjartaþræðingum? Þær eru dýrar. Viltu hafa kennara á lágum launum? Það segir til sín til langs tíma. Viltu skera niður? Þá áttu líklega ekki heima í stjórnmálum. Allir flokkar þurfa að athuga að þeir sækja fylgi sitt til almennings. Orðið samfélag má ekki verða að einhverju skammarorði ef fólk ætlar að vinna í stjórnmálum.


Að skera niður stjórnmálalegt traust

Hvernig á ekki að skera niður ríkisútgjöld?

Ég get skorið niður útgjöld hjá mér. Það er auðvelt. Eina spurningin er, til hvers? Ég hef hug á að standa sæmilega fjárhagslega og vil ekki eyða um efni fram.

Ef ég stæði í samfélagsþjónustu, væri þessi spurning meira aðkallandi. Hvers vegna að skera niður útgjöld? Það er skiljanlegt þegar illa árar. Það er ekki þannig ástand á Íslandi. Nú árar vel.

Ríkið hefur skilað afgangi undanfarin ár sem hefur verið notaður til að greiða upp skuldir, sem nú eru orðnar sáralitlar miðað við það sem áður var. Það er vel. Það er síðan spurning hversu langt eigi að ganga í þessu. Viljum við skera niður menntun eða heilbrigði til að eiga fé á reikningum ríkisins fyrir framtíðina?

Auður Íslands er einungis fólginn í fólkinu sem það byggir. Ríkið er ekki annað en samnefnari fyrir þetta sama fólk. Þess vegna er því falið að festa fé og vinnu í að byggja upp heilsu og menntun þegna þess.

Heilbrigðisráðherrann getur rekið sig illa á það ef hann ætlar að fresta frekar byggingu aðalsjúkrahúss landsins og skera niður fé til rekstrar þess. Fólki er alltaf að verða betur ljóst að heilsa er afar dýrmæt eign. Ef ráðherrann ætlar að skera niður fé til viðhalds þessarar eignar er flestum ljóst að ekki sparast neitt, heldur er útgjöldum aðeins slegið á frest. Þegar síðan þarf að framkvæma eru útgjöldin hærri. 


Jólafastan

Já, nú er gaman að sjá Íslendinga halda jólaföstu. Þá heldur fólk í við sig í mat og drykk og lætur ekki eftir fyrr en á jóladag.

Gott fólk. 


Umhverfisvernd eða umhverfisnýting

Umhverfisráðherra hefur rætt um þá áráttu sveitarstjórna að hunsa umhverfisvernd á kostnað atvinnusjónarmiða.

Ég er hræddur um að sveitarfélag sem á í vök að verjast hlýtur að hugsa fyrst um hvort einhver atvinna sé í héraði. Engin atvinna, ekkert líf, ekkert fólk. Ekkert sveitarfélag. Til eru sveitir á Íslandi þar sem náttúruvernd skiptir miklu máli. Það er til dæmis Sléttuhreppur, norðan Jökulfjarða og Ísafjarðardjúps þar sem enginn býr. Annað dæmi eru Fjörður norðan við Grenivík. Þar býr heldur enginn.

Fyrir utan þetta held ég að umhverfisráðherrann tali oft um náttúruvernd en eigi við að landið eigi að vera nýtt fyrir ferðamennsku. Það er ekki endilega náttúruvernd. Sléttuhreppur og Fjörður hafa sloppið tiltölulega vel hvað þetta varðar. Þar liggja nær engir vegir og er aðeins fært örfáa mánuði á ári fyrir venjulegt ferðafólk.

Annars staðar er ekki svo gott um að litast. Allt landið kringum Mývatn og norður í Kelduhverfi er núna skorið af vegarslóðum. Þar þarf að takmarka umferð, ekki að auka hana. Nógur er uppblástur þar samt.

Auk þess þarf að huga að því hvaða áhrif ferðamennska til Íslands hefur á heiminn. Tvöföldun á fjölda þeirra, líkt og nú gerist á áratug, þýðir gífurlega aukningu á kolefnislosun.

Íslendingar eru í þeirri aðstöðu að þurfa yfirleitt að fljúga til annarra landa, vilji þeir fara út fyrir landsteinana. Ferð með skipi krefst enn meiri orkunotkunar á hvern farþega. Við þurfum þess vegna að huga að því hvað við getum boðið upp á að mikil kolefnislosun sé einungis vegna okkar eigin ferða, hvað þá vegna ferðamanna sem koma til landsins. Á nokkrum stöðum á landinu þarf einnig að huga að því að hvernig eigi að fara með landið við stöðugt meiri umferð.

Mikilvægast er þó að hafa í huga að þegar rætt er um umhverfisvernd er oftast verið að ræða um að nýta landið fyrir ferðamennsku. Undantekningar eru þegar svæði eins og Surtsey eru lokuð almennum ferðamönnum og aðeins nýtt til rannsókna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband