Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.1.2008 | 02:46
Alþjóðlegur miðbær
Farðu um miðbæ Reykjavíkur snemma á laugardagsmorgni eða fyrir hádegi á sunnudagsmorgni. Það fyrsta sem þú heyrir er líklega pólska. Þá heyrirðu norsku, sænsku, ensku, þýsku, frönsku eða dönsku, áður en þú heyrir íslensku.
Svona er það nú bara. Miðbær Reykjavíkur er alla jafna fullur af fólki sem er að koma til landsins, bæði ferðamenn, nýkomið fólk og námsmenn. Þetta er eðlilegur staður fyrir ferðamennina, og fyrir hádegi um helgar verður það áberandi að þeir eru í meirihluta í bænum.
Ennþá er svipað dýrt að leigja nærri miðbæ Reykjavíkur eins og það er í úthverfunum. Það er því eðlilegra fyrir marga námsmenn sem koma til landsins að festa sig þar. Um tíundi hluti námsmanna í Háskóla Íslands er til dæmis frá öðrum löndum og fer fjölgandi.
Eins má heyra í röðinni í Bónus í Kjörgarði að margir sem koma til að vinna hér á landi hafa fundið sér stað nálægt miðbænum. Þannig er miðbærinn og nánasta umhverfi hans orðið að alþjóðlegasta hverfi landsins, að fráskildum nokkrum stöðum á Vestfjörðum.
Er nóg gert fyrir þetta fólk? Hvar eru merkingar á öðrum tungumálum en ensku? Eru ekki ferðamennirnir mikilvægur viðskiptahópur? Á ekki að gera eitthvað fyrir þá, eða lita borgaryfirvöld bara á þá sem tekjulind? Nokkur upplýsingaskilti eru þarna en margt betra mætti gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2008 | 18:25
Húsavernd: Allt nema breytingar
Ég kem stundum á kaffihús við neðanverðan Skólavörðustíginn, sem fyrir löngu er orðið hluti af bæjarsögu Reykjavíkur. Þetta kaffihús þykir einkar hlýlegt og eigandinn vill að innréttingarnar verði friðaðar. Þið getið séð margar myndir þaðan á teikniblogginu, sem er krækt á hérna til hægri.
Á þessu húsi hitti ég fólk sem er mikið á móti því að við Laugaveg 4-6 rísi fjögurra hæða steinsteypuhús sem á að hýsa hótel, verslanir og veitingahús, svipað og Hótel Frón á Laugavegi 24.
Þau sitja sjálf í kaffihúsi í fjögurra hæða steinsteypuhúsi við Skólavörðustíginn, sem snýr baki að þessu húsi sem á að rísa á Laugavegi 4-6.
Það er fólk sem býr til sál í bæjum, ekki byggingarefni. Það skiptir miklu máli hvernig hús eru byggð og hvernig skipulag er í bæjum, en það er ekki sjálfgefið að hús og skipulag frá fyrri öldum henti núverandi starfsemi. Það gerir það reyndar ekki nema í bæjum sem taka afar litlum breytingum.
Breytingar, breytinganna vegna er slæm lausn. Enn verra er að vera á móti öllum breytingum.
11.1.2008 | 08:32
Hillary látinn, Hillary lifi!
Edmund Hillary og Tenzing Norgay klifu Everest-tind daginn fyrir krýningu Elísabetar II Bretadrottningar.
Nú er Hillary fallinn frá og aldrei að vita nema að á þessu ári verði önnur kona gerð að þjóðhöfðingja, að þessu sinni í Bandaríkjunum.
Ný-Sjálendingurinn Edmund Hiillary og Sherpinn Tenzing Norgay gerðu það sem enginn hafði gert áður, að klífa Everest og koma lifandi niður aftur. Ef Tenzing hefði aðeins kunnað á myndavél hefðum við haft mynd af lokaáfanga Hillarys.
Hann var afreksmaður, barðist í flugher Breta í seinni heimsstyrjöld, kleif marga tinda auk Everest og fór til Suðurpólsins 1958.
Edmund Hillary látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 20:56
Veit þetta fólk þá ekkert um hvernig forkosningar fara?
Mörgum finnst að það ætti að vera lítill vandi að spá fyrir um úrslit forkosninga með þessar fínu spár, byggðar á mörgum könnunum, gerðum rétt fyrir sjálft forvalið.
Það er eitt af því sem er svo skemmtilegt að fylgjast með forkosningum í Bandaríkjunum, að fólk er að ákveða sig fram á síðustu stundu. Óákveðnir, bæði þau sem eru skráð í stóru flokkana tvo, og svo óháðir, eru margir. Fólk er að kjósa með baráttu í huga, hver getur unnið forsetakosningar fyrir minn flokk?
Það kann að sveiflast vegna smárra atriða sem fá það til að muna hvar það stendur. Frægt er þegar Rick Lazio, keppinautur Hillary Clinton um öldungadeildarsæti árið 2000, talaði niður til hennar í frægri kappræðu. Körlum fannst hann hafa unnið kappræðuna en konur flykktust að kjósa hana.
Niðurstöður í New Hampshire hafa opnað baráttuna upp á gátt í báðum flokkum og líklega skýrast línur ekki fyrr en að morgni 6. febrúar. Daginn áður verða kosningar í 19 ríkjum hjá báðum flokkum, og í 5 ríkjum að auki hjá öðrum hvorum þeirra. Þarna verða fjölmenn ríki sem skila mörgum kjörmönnum eins og California, New Jersey, Massachusetts, New York og Illinois.
Clinton kemur frá Illinois og keppir um atkvæði þar við Obama, sem er öldungadeildarþingmaður fyrir ríkið. Bæði keppa um atkvæði í New York-borg, þar sem til dæmis íbúar Harlem verða að gera upp á milli manns sem er ættaður frá Kenya og hvítrar yfirstéttarkonu sem hefur ákveðið að búa þar. Þau berjast hart í New Jersey þessa stundina og munu safna góðu liði frægra áhangenda í Kaliforníu. Þau hafa bæði góðan sjóð að ausa úr í baráttuna, og munu hvorugt viðurkenna tap fyrr en atkvæði meira en helmings kjörmanna verða ljós.
Hvorki McCain eða Huckabee hafa unnið nokkurn afgerandi sigur hjá repúblikönum ennþá. Romney hugsar sér gott til glóðarinnar í komandi forkosningum í Michigan, þaðan sem hann er ættaður. Þann 5. febrúar mun hann búast við sigri í Massachusetts, þar sem hann er ríkisstjóri. Hann mun einnig ætla sér nokkuð af atkvæðum í California, New Jersey og New York þann sama dag, en á þar í höggi við McCain. Þá kemur einnig Rudy Guiliani í baráttuna og býst við góðu gengi í sömu ríkjum, en Huckabee á sennilega minna gengi að fagna í þeim þann daginn. Hann mun leggja áherslu á baráttuna í miðríkjunum og suðurríkjunum sem kjósa þann dag.
9.1.2008 | 07:58
Allt opið í forkosningum í Bandaríkjunum
Obama og Romney, sem ég hafði spáð sigri í forkosningum í New Hampshire, lentu báðir í öðru sæti, á eftir Clinton og McCain. Þeir voru þó hátt á blaði og úrslitin eru enn upp á gátt hjá báðum flokkum.
Næstu forkosningar eru í Michigan. Ríkið braut reglur beggja flokka til að vera snemma á árinu með forkosningarnar. Demókratar munu ekki viðurkenna þá kjörmenn sem þar verða kosnir og frambjóðendur þeirra munu ekki berjast í ríkinu. Þrátt fyrir það verður fylgst með niðurstöðum þar næsta þriðjudag af athygli. Nú stendur baráttan einungis milli Clinton, Obama og Edwards. Michigan er vinstrisinnað ríki og Clinton fær góðan hljómgrunn þar.
Repúblikanar munu taka gilda helming kjörmanna í Michigan. Romney á ættir að rekja þangað og gerir ráð fyrir góðu gengi. Eftir sigur Huckabees í Iowa og McCain í New Hampshire, fara þessir þrír með gott vegarnesti að Super Tuesday, þegar Rudy Giuliani lætur fyrst til sín taka. Hann er þegar farinn að ná í atkvæði án þess að beita sér.
Eftir Michigan eru forkosningar í tvennu lagi í South Carolina. Edwards kemur frá nágrannaríkinu North Carolina og keppir að góðri frammistöðu þar. Í kjölfarið fylgir forval í Nevada og forkosningar i Florida. Florida er eins sett og Michigan, braut reglur beggja flokka. Demókratar viðurkenna enga kjörmenn þaðan og repúblikanar helming þeirra.
Síðan koma forkosningar í 24 ríkjum þann 5. febrúar, nú kallaður Super Duper Tuesday, þar af 19 ríki þar sem báðir flokkar velja kjörmenn. Þar á meðal eru fjölmenn ríki eins og California, New York, Illinois, Massachusetts og New Jersey. Það er fyrst þann 5. febrúar sem línur fara að skýrast, enda verður þá búið að kjósa yfir 40% kjörmanna.
9.1.2008 | 07:37
Batnandi gengi dollars og olíuverðið
Síðan George W. Bush tók við stjórn hefur gengi dollars legið niður á við. Um leið hefur verð á olíu legið upp á við, þar til þessar tvær stærðir mættust í einum viðskiptum þar sem olíufatið fór á $100.
Allar fréttir frá Bandaríkjunum þetta árið munu minna fólk á þá staðreynd, að George W. Bush fer frá völdum um þetta leyti næsta ár. Af þessum sökum einum fer gengi dollars batnandi.
Olíuverð mun haldast hátt. Bush hefur átt sinn þátt í því með innrás í Írak og stöðugum ýfingum við Írani. Meginstærðin sem ýtir verðinu upp hefur þó verið annars staðar. Um leið og Kína hefur orðið ríkara, hafa önnur fjölmenn ríki eins og Indland, Indónesía og Thailand einnig orðið ríkari. Nú eru jafnvel Víetnamar farnir að taka þátt í dansinum um gullkálfinn.
Þó að ríki Suður- og Austur-Asíu muni ekki verða nema hálft eins rík og Vesturlönd, þýðir það að neysla eykst um það sem samsvarar tvöfaldri neyslu Evrópu og N-Ameríku. Iðnframleiðslan í Asíulöndum þarf orku til að keyra þennan búskap, sem í dag er olía. Um leið hækkar verð á mörgum matvælum, þar sem eftirspurn eykst.
Háverðið á olíu hefur leitt til þess að þekktar birgðir sem þóttu dýrar að sækja, verða núna notaðar. Þannig eru nýir olíufurstar nyrst í Ameríku, í Calgary og Prudhoe Bay. Alaskabúar fá væntanlega góða ávísun þetta árið þegar framleiðslugróði ríkisins verður reiknaður. Vinir Bush-feðga í Texas hafa haft ástæðu til að kætast, en einnig óvinur þeirra í Venesúela.
Hátt olíuverð eykur óróa í öllum olíuframleiðslulöndum Afríku og Mið-Austurlanda, og hefur einnig áhrif þar á svæðinu í löndum sem ekki njóta gróðans.
8.1.2008 | 06:17
Lánsfjárvandinn
Í september skrifaði ég um minnkandi framboð á lánsfé í heiminum og þeirri skýringu að það séu undirmálslán sem orsaka þann vanda.
Ég taldi að fleiri og stærri þættir gætu verið að verki og nefndi herkostnað í Írak. Ég kallaði færsluna Fíllinn í stofunni í bandarískum efnahagsmálum. Myndlíkingin er þekkt frá fjölskyldum alkóhólista og þeirra sem þekkja táknmyndir stóru bandarísku stjórnmálaflokkanna. Sumir gætu leitt hugann að þurrum alkóhólista sem situr í Hvíta húsinu.
Nú hefur komið í ljós að báðar þessar stærðir, undirmálslán og herkostnaður í Írak eru enn stærri en áður var talið. Sem fyrr er herkostnaður miklu mun stærri. Undirmálslán teljast 8 milljarða dollara virði meðan herkostnaðurinn var áætlaður 9 milljarðar dollara á mánuði af talsmönnum stjórnarinnar.
Ekki getur verið að öll undirmálslán falli ógreidd. Ef gert er ráð fyrir að í alversta falli náist ekki 25% af þeim, þá eru það 2 milljarðar dollara. Fjárlagahallinn í Bandaríkjunum gerir þetta að smápeningum.
Sem fyrr tel ég að orsaka lánsfjárkreppunnar (credit crunch) sé að finna annars staðar. Hins vegar hafi verið þægilegt að skella skuldinni á undirmálsfólk sem eigi sér fáa málsvara í fjármálastofnum.
6.1.2008 | 03:39
Stutt spá um forkosningar í New Hampshire
Ég gerði stutta spá um úrslit forkosninga í Iowa, um það leyti sem þær voru að hefjast. Ég náði að segja rétt til um úrslit þar. Nú er röðin komin að New Hampshire, fyrsta ríkið sem heldur eiginlegar forkosningar (primary).
Nú fer leikur að æsast svolítið. Úrslit í Iowa gerðu ekki annað en að opna möguleika upp á gátt, að minnsta kosti fram til Super Tuesday. Í janúar eru eftir forkosningar í Michigan og South Carolina. Forkosningar verða einnig í Florida en vegna þess að ríkið ákvað að brjóta reglur flokkanna og færa forkosningar fram, verða fulltrúar þaðan ekki teknir gildir á þingi demókrata og aðeins að hálfu hjá repúblikönum. Demókratar taka heldur ekki fulltrúa Michigan gilda, sem þýðir að frambjóðendur leggja litla áherslu á baráttu þar. Auk Florida, taka repúblikanar fulltrúa frá Michigan, New Hampshire, South Carolina og Wyoming gilda að hálfu.
---
Ég geri ráð fyrir að Clinton eigi meira fylgi í New Hampshire en í Iowa. Hún ætti að ná svipaðri kosningu og Obama, en það gengur líklega verr hjá Edwards, sem verður að treysta á góð úrslit í South Carolina. Obama sýndi í Iowa að hann getur náð til kjósenda sem ekki höfða til annarra, sem ætti að tryggja honum sigurinn í New Hampshire. Þar mega óflokksbundnir velja hvort þeir kjósa hjá demókrötum eða repúblikönum. Í Iowa eru það einungis flokksbundnir sem velja.
Hjá repúblikönum má gera ráð fyrir að Mitt Romney gangi betur í New Hampshire en hann gerði í Iowa og Huckabee eiga færri atkvæði. McCain fór ekki einu sinni til Iowa heldur notaði tímann til að berjast í New Hampshire, sem sýnir að hann leggur mikla áherslu á góða útkomu þar. Ég tel að Romney nái að verða efstur.
Frambjóðendur með lítið fé í farteskinu þurfa að treysta á snjóboltaáhrif, þar sem gott gengi í fyrstu forkosningunum gefur þeim von um fé fyrir Super Tuesday og forkosningar í öðrum stórum ríkjum síðar. Clinton, Obama og Giuliani eru ekki háð þessu. Þannig hefur orðið þessi sérkennilega bardagalist Giulianis sem ætlar ekki að byrja að beita sér fyrr en við Super Tuesday.
4.1.2008 | 00:02
Stutt spá um forkosningar í Iowa
Ég fylgist bara með stjórnmálum og öðrum gangi mála í Bandaríkjunum úr fjarlægð. Þar stend ég líkt að vígi og meirihluti Bandaríkjamanna. Þetta er stórt land og það er afar lítill hluti þeirra sem er þar hlutir gerast. Þeir horfa á gang mála í sjónvarpi og fylgjast með blöðum eða á vef, líkt og ég geri.
Það er einstaklega lítill hluti þeirra sem tekur þátt í forkosningum í Iowa, eða sem svarar til þriðjungs af fjölda íslensku þjóðarinnar. Það er einn Íslendingur á hverja þúsund Bandaríkjamenn. Taktu þess vegna þúsund Bandaríkjamenn og stilltu upp fótunum á einum þeirra á móti og þú sérð hversu stór hluti þeirra tekur þátt núna.
Ég hef talið líklegt að New Yorkararnir Giuliani og Clinton færu ekki vel úr kosningum í Iowa. Það er margt sem miðríkjabúar hafa á móti New Yorkurum og þau bera það allt með sér.
Það er því spurning í mínum huga hvort Clinton lendir í öðru eða þriðja sæti og hvað hún mun gera úr því. Ég tel að hún láti engan veginn deigan síga. Hún sjái til hvað gerist eftir viku í New Hampshire, þar sem hjörtu kjósenda slá betur í takt við New York. Eftir það haldi hún að minnsta kosti áfram að berjast þar til eftir Super Tuesday, eftir mánuð, því hún er vel sett með baráttufé. Ég held að Giuliani feti svipaða slóð, en þetta fer náttúrulega allt eftir hvernig gengur í Michigan og South Carolina síðar í mánuðinum.
Það verður samt fjör að fylgjast með gangi mála í Iowa í fyrramálið. Ég spái Obama góðu fylgi á kostnað Clinton, og tel að það hafi lítið sem ekkert með hörundslit eða kyn að gera. Obama er nær því sem fólk kann að meta í Iowa. Þó hann sé í raun alger broddborgari, þá hófst hann af litlum efnum. Hann hefur sjarma og er góður ræðumaður.
Clinton er einnig góð í ræðuhöldum, en hún hefur litla útgeislun. Hjón bæta venjulega upp galla og kosti hvors annars, og það er ekki vafamál hvort er með kaldari haus og hvort hefur meiri sjarma í því hjónabandi. Edwards ætti að liggja næst hjörtum demókrata í Iowa, en þeir eru að kjósa forsetaframbjóðanda og taka það alvarlega, og kjósa þann sigurstranglegasta. Huckabee ætti að hljóta góða kosningu hjá repúblikönum.
Einhverjum kann að finnast það hafa lítið að segja að spá svona í kosningar, rétt þegar þær eru að byrja. Skoðanakannanir sýni fylgið nokkuð vel og þess vegna sé þetta alveg ljóst, svona þegar klukkan er að verða 19 í Iowa. Forkosningar þar eru hins vegar með því móti að þær geta farið á nokkuð óvænta vegu, sérstaklega hjá demókrötum. Það er þess vegna gaman að spá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2008 | 12:41
Ef fitan er faraldur, hvað er þá gert í málunum?
Góðar heimildir segja að það sé offitufaraldur í gangi og styðja mál sitt með þekktum stærðum. Hlutfall þeirra sem eru með massahlutfall (BMI, body-mass index) hærra en 30, fer síhækkandi.
Þetta leiðir af sér þekkta sjúkdóma, skemmir líf þeirra sem búa við þessa þyngd og dregur þetta fólk til dauða fyrr en ella. Hér er þess vegna um alvarlegan heilbrigðisvanda að ræða.
Hvað er verið að gera? Ég þekki góð ráð frá Lýðheilsustöð, ummæli lækna um að taka upp betri lífshætti og góðan áróður víðs vegar.
Ég sé minna af ráðum til að auka raunverulega heilsusamlegt líferni, auka hreyfingu og færa mataræði yfir á þekkta hollustu.
Enn er ódýrasti maturinn bæði sætur, feitur og saltur. Feitmeti er niðurgreitt og séð er um að sætmeti sé á lágum tollum. Um leið er hollur matur flokkaður og tollaður sem lúxusfæði.
Er verið að gera eitthvert raunverulegt átak í að auðvelda umferð gangandi fólks og hjólandi? Ég spyr, vegna þess að ég nota bæði fætur og hjól og fæ góð orð í eyra, en lítið meira.
Spurningin er því: Hvað er verið að gera vegna offitunnar? Ef stjórnvöld ætla að reka stofnanir sem reka bara áróður fyrir hollari lífsháttum, meðan sömu stjórnvöld stefna gegn því með ódýrri óhollustu og óheilbrigðum samgöngum, þá verður vandinn til staðar.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar