Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.12.2007 | 01:12
Menningin og viðskiptin
Það er til kenning um að lagaval sýni stemminguna hjá fólki. Þetta hljómar ekki sem langsótt kenning, eða hvað? Það má færa hana yfir á almenning og almannahag. Efnahagur sveiflast upp og niður og þau sem geta spáð fyrir um þannig hreyfingar með góðum fyrirvara ættu að vera vel stödd. Ein kenning gengur út á að sjá breytingar á efnahag landa með því að skoða hvaða lög eru vinsæl, hálfu ári fyrr.
Prince skrifaði lagið Nothing Compares 2 You árið 1984 og það var gefið út árið 1985 án þess að hljóta mikla hlustun. Allt annað var uppi á teningnum sumarið 1990. Útgáfa Sinéad O'Connor var spiluð í ræmur og fólk naut þess að líða illa. Um áramótin þar eftir lauk vaxtarskeiði sem hafði staðið í nokkur ár í Evrópu. Kenningin var að fólk hefði fengið sig fullsatt af góðu gengi og væri til í að láta sér líða illa.
Því miður er þessi kenning ekki nákvæmur mælikvarði. Það er ekki gott að finna skýringar á efnahag stórra svæða með einu lagi. Múrinn var fallinn og mikið fé fór í að byggja upp efnahag í fyrrum austantjaldslöndum. Sinéad var góð söngkona árið 1990. Prince var frábær lagahöfundur árið 1984. Myndbandið við lagið var glæsilegt.
Nú er spurningin hvort lagavalið fyrir þessi jól lýsi að einhverju hvert markaðurinn stefnir. Bretar telja að fasteignaverð fari lækkandi og neysla minnki um leið. Þetta hefur þegar haft áhrif á eignir íslensku auðmannanna sem fjárfestu af krafti í smásölukeðjum þar.
Með þetta í huga er það ekki fjarlæg spá að Malcolm Middleton eigi lagið efst á lista um þessi jólin, sem þá verður hið ömurlega We're all going to die. Malcolm kemur úr tvíeykinu Arab Strap, sem aldrei taldist til bjartsýnustu bandanna, en það er heldur ekki sérlega bjart yfir þessu lagi. Textadæmi: We're all going to die, so what if there's nothing, we all have to face this alone. Og: You're going to die, you're going to die, you're going to die alone, all alone.
Lagið er gott, svona ef fólk lætur textann ekki of mikið á sig fá. Þau sem vilja sjá þýðari og jólalegri útgáfu ættu að líta á myndband sem birtist á vef þáttar Colin Murray hjá BBC, með fiðlu og barnakór.
En þetta er nú bara kenning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 12:38
Jólaóróinn í ár er jólastress
Á Íslandi safna margar jólaóróum, skreytingum frá Georg Jessen eða öðrum stórsnillingum. Ég verð var við þetta ef ég á leið úr landi á haustdögum, en verð að viðurkenna að á mínu heimili er enginn svona órói til. Það er í takt við annan jólaundirbúning á heimilinu. Í gær var ég að þvo gluggatjöldin, í morgun að strauja þau og hengja upp. Svo tekur við fremur tilþrifalítil þrif og eitthvað skraut finnst nú í geymslunni til að setja upp.
Mér flaug þó í hug hvort að jólaóróinn nái að fanga hinn sanna íslenska jólaanda. Til þess þyrfti að hafa jólastressið, jólageggjunina eða jólabrjálæðið. Ég skil þó að enginn vilji hengja það upp, það er eiginlega eins og að mála skrattann á vegginn.
Það er margt gott við jólaundirbúninginn á Íslandi. Reykjavík fær stórbæjarbrag allan desember. Verslanir eru opnar fram á kvöld og það sést fólk í bænum, fjölskyldufólk að versla. Svo fer allt í leiðindafarið strax að loknum jólum. Verslanir vilja helst ekki opna milli jóla og nýárs og fáir láta sjá sig í bænum í janúar.
28.11.2007 | 00:03
Best að búa á Íslandi, en hvar á landinu?
Nú er ég forvitinn. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er Ísland hæst á lista yfir lífsgæði þetta árið. En hvar á landinu skyldu lífsgæðin vera mest?
Það kann að velta á því hvort spurt er eftir mælikvörðum SÞ (ævilíkur, menntunarstig og framleiðsla á haus) sem leiðir okkur líklega á Nesið eða í Garðabæinn, eða hvort við leyfum okkur að leggja áherslu á aðra þætti.
Er betra að hafa greiðan aðgang að Kaffitári eða geta gengið um Grábrókarhraun? Ég veit ekki betur en að hver sveit sem ég hef komið í á Íslandi sé sú fegursta á landinu að mati heimamanna, og ég hef komið í þær flestar.
Skiptir það máli að hafa barnaskara í kringum sig? Margir staðir á landinu virðast miklir sælustaðir, en svo tekur maður eftir að það vantar unga fólkið, og þar með börnin.
Svo er rétt að taka fram að ég hef búið bæði á Nesinu og í Norðurárdalnum, í Hlíðunum, á Höfn og í Hornbjargsvita, Kvosinni og Kópavogi og þess utan unnið um allt land.
Ég ætla að sjá hvað fólki finnst með því að gera könnun á málinu, sjá efst til hægri á síðunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2007 | 00:03
Andfætlingar skipta um stjórn
Sigur Kevin Rudd og Verkamannaflokksins í Ástralíu teljast nokkur tíðindi. Siðast þegar var kosið litu meginmálin svipað út. John Howard var legið á hálsi fyrir gagnrýnislausa þátttöku í hernámi Írak (þátttaka Ástrala í Víetnam var mikil á sínum tíma), litlar aðgerðir í umhverfismálum og mikla fylgispekt við Bush. Efnahagurinn var með ágætum og skilaði honum sigri 2004 eins og þrisvar sinnum fyrr.
Eitthvað hefur breyst núna. Andstaða gegn þátttöku í hernámi Írak hefur vaxið. Helsta verkefni Verkamannaflokksins var þess vegna að fá fólk til að treysta því að þau gætu farið jafn vel með stjórn efnahagsmála og Howard hefur gert.
Breytingin sést meðal annars á þeim manni sem oft gengur Rudd á vinstri hönd í fréttamyndum, Peter Garrett. Hann er hreint ekki óþekktur, skuggaráðherrann fyrir listir og umhverfismál, áður söngvari Midnight Oil. Hann reyndi fyrir sér í stjórnmálum með því að stofna eigin flokk 1984 en gekk til liðs við Verkamannaflokkinn tuttugu árum seinna fyrir atbeina Mark Latham. Ýmsum hefur þótt nóg um hversu honum er hampað. Hann bauð sig fram í öruggu kjördæmi fyrir Verkamannaflokkinn en hefur aukið fylgi flokksins þar. Hann telst líklegastur til að sinna umhverfismálum í nýrri stjórn.
Latham tapaði kosningunum 2004 og varð gjalda fyrir með formannssætinu. Hann hafði þó áður boðið Maxine McKew, vinsælli sjónvarpsfréttakonu, að bjóða sig fram fyrir flokkinn. Þegar þetta er skrifað virðist hún munu vinna þingsæti Bennelong og hafa það af John Howard, sem hafði haldið sætinu í 33 ár. Almennt hefur Verkamannaflokkur fengið um 6% meira en í síðustu kosningum og virðist ætla að ná meirihluta í neðri deild þingsins.
Howard hafði verið legið á hálsi að hafa ekki látið stjórnartaumana ganga til Peter Costello, sem sækist eftir formannssæti í Frjálslynda flokknum. Það er áhugavert fyrir unnendur gamalla grínmynda að einn keppinauta Costello um þetta sæti heitir Tony Abbott. Howard má segja það til sannmælis að hann hafði unnið fjórar kosningar áður, og að Costello er alls ekki sjálfkjörinn formaður að Howard gengnum.
Áhrif umhverfisverndarsinna verða meiri en bara þau að Garrett sé kominn til metorða í nýrri meirihlutastjórn. Eins og talning stendur þegar þetta er skrifað, gætu tveir þingmenn Græningja lent í oddaaðstöðu í Senatinu.
Það lítur þess vegna ekki út fyrir annað en breytingar á stjórnarstefnu Ástrala í umhverfismálum og í málefnum Írak. Þær munu hafa áhrif langt út fyrir landsteinana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 00:04
2 milljarða afgangur hjá Reykjavíkurborg
Um nokkuð skeið hefur ríkissjóður skilað afgangi. Sem betur fer hefur þessu fé verið varið til að greiða upp skuldir. Það kemur framtíðarþegnum vel og lækkar vaxtagjöld hjá þegnum samtíðarinnar.
Skugga hefur borið á þar sem sveitarfélög hafa safnað skuldum á sama tíma. Það þýðir að fólk hefur verið jafnsett um skuldirnar, þó mismunandi eftir sveitarfélögum.
Nú eru stærstu (fjölmennustu) sveitarfélögin að skila afgangi. Reykjavíkurborg hyggst skila 2 milljörðum á næsta ári. Það er mikilvægt að þau greiði líka niður skuldir fremur en að nota tækifærið til að lækka verð á heitu vatni, svo dæmi sé tekið.
Skyldu þeir hrósa Degi núna sem hafa mótmælt skuldasöfnun sveitarfélaga undanfarin ár? Það er bara að bíða og sjá.
Við fyrstu sýn er helst að sjá að eignasvið borgarinnar eigi að skila öllum hagnaðinum, þannig að það fellur á framkvæmdastjóra þar að standa undir áætluninni.
21.11.2007 | 01:30
Hvernig á ekki að einkavæða
Fyrir 2 árum var Síminn seldur á 66,7 milljarða. Það kom vel út fyrir ríkissjóð sem var með afbragðs afkomu það árið.
Af því að þetta var opinbert fyrirtæki, það er að segja í eigu almennings, var ákveðið að láta andvirðið renna til þjóðþrifamála. Um þetta voru sett lög nr. 133/2005.
Til að þjóðin missti ekki alveg af fyrirtækinu var líka ákveðið að setja 30% hlutafjár þess á almennan markað. Þetta mátti gera hvenær sem er á tímabilinu til ársloka 2007.
Í frétt forsætisráðuneytis var meðal annars sagt frá að 15 milljörðum króna yrði varið á árunum 2007 - 2010 til framkvæmda í vegamálum, m.a. til byggingar Sundabrautar, fyrst yfir í Grafarvog og síðan, með tilstilli einkaframkvæmdar, um Álfsnes upp á Kjalarnes.
- Fé til uppbyggingar Sundabrautar bíður. Fólk hefur heyrt nógu margar skýringar á því hvers vegna hún er ekki komin en það er ljóst að það verður ekki fyrir árslok 2010. Sökinni má varpa víða og hefur verið reynt að gera það. Niðurstaðan er sú sama fyrir íbúa Grafarvogs, Mosfellsbæjar og þá sem fara vestur og norður á land.
- 30% hlutafjár Símans hf. verður ekki skráð á almennan hlutabréfamarkað fyrir árslok 2007.
Talsmenn einkavæðingar ættu að athuga að fólk verður að læra að treysta því að rétt sé með hana farið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 00:16
Framtíð borgarstjórnar
Þegar vinstri meirihluti var myndaður í borginni 11. október taldi ég margt gott geta gerst ef fólk þar myndi greina vel á milli sín og fyrri meirihluta. Ég veit að félagshyggjufólk taldi að þarna gæfist færi að efla þá þætti sem þau hafa barist fyrir.
Nú er það þannig að yfir 90% verka í sveitarstjórnum eru lítið umdeilanleg. Skóla verður að reka, götur og fráveitukerfi verða að vera í lagi og þar fram eftir götunum. Þetta hafa ekki verið ásteytingasteinarnir í borginni og pólitísk átök hafa farið fram á öðrum vettvangi, eins og þekkt er.
Þó hefði nýr meirihluti getað snúið við blaðinu í kjaramálum leikskólakennara og markað föst spor í miklu fleiri málum til að sýna fyrir hvað félagshyggjan stendur. Því miður virðist niðurstaðan vera sú þar eins og í öðrum málum að munurinn á starfi meirihlutanna er ekki nægur til að fólk greini hann.
Því miður virðist á of mörgum stöðum niðurstaðan vera sú sama, hver sem meirihlutinn er. Það eina sem nýr meirihluti hefur á borð að bera er að nú séu hlutirnir öðruvísi vegna þess að nýtt fólk taki ákvarðanirnar. Borgarstjóri hefur talað um að sú pólitík sem hann iðki sé pólitík hins daglega lífs. Það má rétt vera, en dugir ekki til að vinna næstu kosningar.
Það er mikil hætta á að vinstrimeirihluti með fjóra oddvita muni leysa öll mál með samkomulagi sín í milli, sem er orðið svo mikið samkomulag að það sé ekkert annað en það sem allir geta hvort eð er orðið sammála um. Þetta er pólitík sem margir hafa reynt en ekki uppskorið mikið fyrir. Pólitík er spurning um traust, en líka um að eitthvað skar verði af tekið og eitthvað framkvæmt sem aðrir myndu ekki gera.
Það sem Sjálfstæðismenn þurfa að gera er að útkljá forystumál sín sem fyrst til að safna vopnum fyrir kosningar, sem eru eftir rúm 2 ár. Ef vinstrimeirihluti vinnur ekki úr málum OR þannig að borgarbúum þyki þeir standa réttari en hjá Vilhjálmi, mun sá meirihluti fá sama dóm og Vilhjálmur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 22:30
Öryggi þegnanna tryggt
Sú lögregla sem leggur til að erlendum ríkisborgara sem hefur mótmælt virkjanaframkvæmdum með því að klifra upp í krana og rífa kjaft verði neitað um landvistarleyfi, þeirri lögreglu er umhugað um öryggi borgaranna.
Ef svona mótmælandi er hættuleg örygginu, hvað þá með þá sem sannanlega hafa gerst sekir að því að ógna lífi samborgaranna? Hvað með alla þá sem keyra uppdópaðir, keyra fullir, keyra kæruleysislega. Hvað með dópsala landsins? Hvað með þá sem hafa ógnað samborgurunum á götunni á sannanlegan hátt? Verður ekki að taka þetta fólk úr umferð?
Það er einu sinni efsta skylda yfirvaldanna að vernda öryggi borgaranna, þó að margir kjósi að hæðast að þeim sem þurfa að framkvæma þetta. Þeir dauðu og þeir örkumluðu hafa engan rétt.
Þeir flokkar sem tala fjálglega um að vernda íslenskt kvenfólk gegn ofbeldi erlendra borgara hljóta að leggja að minnsta kosti sömu áherslur á að konur geti gengið um bæinn og skemmt sér óhræddar fyrir sama ofbeldi Íslendinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.11.2007 | 00:03
Þið hafið skapað ljótleikann
Einhvern tíma á lífsleiðinni þykist maður komast að því að smekkur ræður því hvað manni finnst fallegt eða ljótt. Maður hættir að tala um hvað sé fallegt eða ljótt, og fer að segja hvað manni finnst vera það. Síðan fer maður að draga þetta í efa.
Landið er fallegt, hvar sem á það er litið. Náttúrunni hefur ekki tekist að skapa neitt ljótt. Tröllslegt, kannski, hrikalegt eða jafnvel ferlegt, en aldrei ljótt. Svörtuloft eru ekki ljót. Þau eru hrikaleg og sjófarendur vita að það er best að halda sig fjarri þeim. Ódáðahraun er ekki ljótt. Það er úfið og dularfullt. Skeiðarársandur á líka sína fegurð. Meira að segja sá harkalegi grjótklumpur, máninn, er bara fallegur þegar ég lít á hann, hálffullur á laugardagskvöldi. Það er máninn, ekki ég.
Það sem er ljótt er skapað af manninum. Þú labbar niður Laugaveg og sérð reiðhjól hangandi í vír sem hefur gleymst frá innsetningu fyrir einhverjum árum síðan. Þú gengur áfram eftir höfuðstræti landsins og það er þakið rusli á hverjum laugardagsmorgni og sunnudagsmorgni, eftir fólk. Þú gengur áfram fram hjá brunarústum sem standa óhreyfðar eftir hálft ár, út af fólki.
Þú gengur fram hjá niðurníddum timburhúsum og ómanneskjulegum steypukumböldum, gerðum af fólki, viðhöldnum af fólki. Fólki með fullar hendur fjár, fólki sem getur gert hvað sem það vill taka sér fyrir hendur. Þetta er höfuðstræti landsins. Þetta er það besta sem boðið er upp á. Þú ert hluti af þessu fólki.
Allar stéttir og allir aldurshópar leggja sitt til. Unglingarnir krota á hvað sem fyrir verður. Þegar þau eldast ganga þau um miðbæ Reykjavíkur af einbeittum vilja til að brjóta, sóða, hávaðast og gera allt eins ljótt eins og hægt er. Eldra fólk stendur ábyrgt fyrir óbyggðum lóðum og steinsteypukumböldum. Þið hafið gert þetta allt ljótt. Hvernig líður ykkur að vera hluti af þessu?
16.11.2007 | 00:01
Vegna þess að þeir eru okkar skíthælar
Hvers vegna að styðja einræðisstjórn sem iðkar islamska bókstafstrú og treður á réttindum útlendinga, kvenna, trúleysingja, allra með aðra trú og yfirleitt allra sem eitthvað hafa á móti stjórninni?
Saudi-Arabía er ríki moskanna tveggja, heilagt ríki með einkunnarorðin: Það er enginn Guð nema Allah og Múhameð er sendiboði hans (Shahadah). Trú ríkjandi ættar er sú sem Wahhab boðaði, bókstafstrú sem meðal annars er grundvöllur skoðana Usama bin Laden, sem er frá landinu. Ætt hans nýtur mikillar virðingar þar og er í nánum tengslum við konungsættina, sem öllu ræður.
Svo ég svari spurningunni, þá er það líklega svar í ætt við það sem Truman á að hafa sagt þegar hann var spurður hvers vegna Bandaríkin styddu fasistastjórn Francos á Spáni: Because he is our son of a bitch.
Það er rétt að taka fram að Ísland þarf ekki að hafa stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu fremur en Íslendingar sjálfir kjósa.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar