Leita í fréttum mbl.is

Að gera Sjálfstæðisflokkinn ókjósanlegan

Á síðasta áratug urðu íhaldsmenn í Bretlandi það sem þarlendir hafa kallað ókjósanlegir. Þeir höfðu sparkað Thatcher burtu og eftir sat flokkur fólks þar sem hver vildi hrinda í framkvæmd sínum áhugamálum. Þessi stjórn varð sífellt verri og verri í augum landsmanna. Hún réð ekki við efnahagsástandið eins og sást sumarið 1992 þegar atlaga skortsölumanna að pundinu heppnaðist og vextir ruku upp í himinhæðir. Sífellt fleiri hneykslismál skuku stjórnina og þrír ráðherrar þurftu síðar að gista fangelsi hennar hátignar eftir að hafa logið að þjóðinni. Framkvæmdir í almannakerfinu urðu fólki sífellt fjandsamlegri og sá stuðningur sem flokkurinn hafði vegna efnahagsumbóta hvarf vegna þess. Bretar fóru að líta á Íhaldsflokkinn sem illan flokk. Niðurstaðan varð að Verkamannaflokkurinn uppskar arfleifð efnahagsumbótanna 1997 og hefur stjórnað landinu síðan. Skotland varð laust við íhaldsþingmenn (Tory-free zone) og um gervallt Bretland varð Íhaldsflokkurinn að útlaga úr stjórnmálum. Síðustu ár hefur tekist að reka þetta slyðruorð af íhaldsmönnum að hluta og almenningur er yfirleitt hættur að líta á þá sem illt fólk sem vilji öðrum illt. En þetta hefur tekið tíma og eftir 11 ár er flokkurinn enn á engan hátt öruggur um stjórnarsetu á næstu árum.

Nú hefur einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram áætlun um að höggva stórt skarð í heilbrigðisþjónustuna í Hafnarfirði, á spítala sem þjónar um tíunda hluta landsmanna. Þessi aðgerð er sett undir hatt með mörgum öðrum og sagt að þar sé almennt hagræði sem náist á næstu árum. Þessi einstaka aðgerð er þó langt frá því að vera hagfelld að mati þeirra sem til þekkja:
  • Að sögn starfsmanna St. Jósefsspítala hefur kostnaður þar á legudag verið verulega lægri en á Landspítala, enda er yfirbyggingin hlutfallslega miklu smærri í Hafnarfirði.
  • Almenn ánægja hefur verið í Hafnarfirði með þjónustu spítalans.
  • Aðgerðir á skurðstofum þar hafa verið eftirsóttar og fólk þar unnið sitt til að stytta biðlista.

Það er aðferðin sem einkum vekur athygli. Ekkert samráð hefur verið haft við hlutaðeigandi; starfsfólk spítalans, íbúa Hafnarfjarðar og aðra sem hlut eiga að máli. Ekki hefur einu sinni verið rætt um málið í heilbrigðisnefnd Alþingis.

Skurðstofur í Keflavík sem hafa staðið illa nýttar hafa spilað stórt hlutverk í þessum ákvörðunum. Heilbrigðisráðuneytið vill fara þá leið að brjóta upp starfsemi sem hefur gengið vel í mörg ár í Hafnarfirði til að ná fram betri nýtingu á þessum stofum í Keflavík. Langtum minni aðgerð hefði verið falin í því að finna tækjum vannýttu skurðstofunnar annað heimili heldur en að snúa á hvolf heilu stofnununum. Hér er á ferðinni ótrúleg tæknihyggja og lítill skilningur á því hvað liggur bak við gott starf fólks á smárri stofnun.

Fjármálakreppan sem skók Ísland 2008 er mál málanna og verður það næstu ár. Það ætti að standa öllu forystufólki í stjórnmálum nærri að fara yfir ástæður þess að hún hrinti Íslandi fram á ystu nöf og þar fram af. Stjórnmálamenn sem nota tímann núna til að breyta almannaþjónustu sem hefur gengið vel, verða metnir að minna.

Sjálfstæðisflokkurinn er stórt afl í Hafnarfirði og þessar aðgerðir skipta flokkinn máli, bæði þar og á landsvísu. Það skiptir þess vegna flokkinn miklu núna að snúa við blaðinu og gera sig að bærilegum kosti í næstu kosningum, en ekki að láta fólk minnast sín sem eyðileggingarafls.


Févana fjármálamenn íslenskir

Fréttir herma að íslenskir fjármálamenn hafi sóst eftir að kaupa Kaupþing í Lúxemborg en ekki verið taldir eiga til þess nóg fé.

Nú kemur kaupverðið í ljós, 1 evra.

Eða, svo ég sé ekki með hótfyndni, um 135 milljónir evra sem þeir þurfa að leggja sem hlutafé, samkvæmt fréttinni og miðað við gengi dagsins.

Hvernig sem á það er litið virðist hafa verið um févana fjármálamenn að ræða.


mbl.is Kaupþing í Lúxemborg selt á 1 evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endur- og nýgerð gömul hús

Mér finnst alltaf gaman að sjá þegar fólk talar um að gera við timburhús sem eru farin að fylla öldina eða meira.

Sjálfur hef ég búið í 130 ára gömlu húsi (sem nú er að verða 150 ára) og flutti í það úr 80 ára gömlu húsi (sem nú er að verða 100 ára) í miðbæ Reykjavíkur.

Mér finnst það ekki fallega sagt þegar fólk talar um að gera við svo gamalt timburhús. Sannleikurinn er sá að enginn upprunalegur burðarviður eða borðviður er nýtilegur í svo öldnu húsi. Slíkur viður er ekki til frambúðar. Hann er því tekinn burtu og nýr viður settur í staðinn.

Hingað til hefur verið sett sjónarspil á svið þar sem fólk endurbyggir húsin án þess að rífa upprunalega húsið, heldur skiptir um við fyrir við og borð fyrir borð.

Sjónarspilið er ekki viðhaft núna við húsið á horni Þingholtsstrætis og Bankastrætis (beint á móti B5) heldur hefur það verið rifið niður og sett snotur mynd af því á girðingu sem var reist til að fólk þyrfti ekki að horfa á rústirnar.

Það er rétt að taka fram að ég er ekki að hnýta í Þorstein Bergmann og hans fólk. Það vinnur góða vinnu.

Fólk þarf hins vegar ekki að láta eins og við séum ekki að endurbyggja þessi gömlu hús. Þó að fylgt sé gömlum myndum, lýsingum og teikningum, þá eru þau reist í þeirri mynd sem fólki líkar vel á fyrsta áratug 21. aldar.


14-3

Þau sem heimsækja England þessa dagana hafa líklega hugann mest við óhagstætt gengi og mikilvægi þess að minnast lítið á það að maður sé Íslendingur.

Það gæti farið fram hjá þeim eins og öðrum sem heimsækja Englendinga að undanfarna mánuði hefur enska karlalandsliðið í fótbolta átt sína bestu tíð síðan 1966.

Af fjórum leikjum í undankeppni HM hafa þeir unnið fjóra. Þeir hafa skorað 14 mörk og fengið á sig 3.

Þó að fótbolti sé mikilvægari en líf og dauði fyrir marga ræða enskir lítið um þennan góða árangur. Það getur verið af varfærni þar sem liðið á eftir sex leiki í riðlinum. Það bætist við varfærnina að nýr framkvæmdastjóri stendur að baki öllum sigrunum og að hann er Ítali.

Capello hefur tekist að töfra fram það besta hjá Ferdinand, Rooney og Heskey. Heskey byrjaði reyndar að blómstra eftir að fara til Wigan og er núna aftur orðinn álitlegur kostur fyrir Liverpool. Það er engin ástæða til annars en að Englendingum takist jafn vel í síðari hrinu undankeppninnar, sem byrjar 28. mars og lýkur 14. október á næsta ári.

Það var oft látið eins og Sven-Göran Eriksson tækist ekki að koma liðinu eins langt og það hefði átt að fara. Hann kom því þó í undanúrslit í HM 2006. Það kann að villa fólki sýn að þó að enska Premier League sé greinilega orðin sterkasta landsdeildin þá segir það lítið um styrk enska landsliðsins. Núna hefur það náð sér á strik og þarf bara að sjá hvort þetta dugir til 2010.


Kosningin í öryggisráðið

Undanfarinn mánuð hafa orðið mikil tíðindi í efnahag landsins. Einhver hefur lýst því svo að þetta væri eins og að hafa búið með ofdrykkjumanni í mörg ár, sitja nú uppi með skuldirnar og þurfa að borga sukkið.

Þetta má til sanns vegar færa. Nú þegar rykið fellur til jarðar eftir efnahagshrunið verða nokkrar lexíur ljósar. Ein er sú að sannfæring Íslendinga um að þeir séu mestir og bestir þó þeir séu fáir, er stórhættuleg sjálfsblekking.

Hér eftir má taka allan vara á því í hvert skipti sem Íslendingar segjast nota sérreglur af því að þeir séu svo sérstakir. Nei, þið eruð það ekki og þið skuluð fylgja sömu reglum og aðrar Evrópuþjóðir.

Hluti þessarar sjálfsblekkingar er viðleitni í smáu samfélagi til að þagga niður alla gagnrýni. Hvort sem Íslendingar eru gagnrýndir af samlöndum sínum eða öðrum, þá ráðast þeir af krafti og persónulega á hvern þann sem leyfir sér að gera svo.

Sjálfsblekkingin nær um allt þjóðfélagið. Ummæli ráðamanna um möguleika Íslendinga á að komast í öryggisráðið sýna þetta.

Ef þjóðin er nýkomin úr sambúð með ofursukkara fjármálanna má hún ekki hlaupa beint í fangið á sömu manntegund stjórnmálanna.


6,1 segir USGS

Þessi skjálfti kom eins og högg hér í byrjun, en svo komu þrjár greinilegar bylgjur. Það var líkast því að vera í skipi þegar verið er að ræsa stóra aðalvél.

Þegar svona stórir skjálftar verða, eins og 17. og 21. júní 2000, þá er erfitt að greina stærð þeirra afar nálægt. Oft koma betri upplýsingar í byrjun lengra frá, en fræðingar eiga eftir að greina þetta betur.

Ég vildi á meðan vísa á Earthquake Hazards Program hjá bandarísku landmælingunum, U.S. Geological Survey. Þau gáfu upp stærðina 6,7 en hafa nú endurmetið þetta sem 6,1 (opnast í nýjum glugga).

Þau sem vilja lesa meira um skjálfta víða um heim geta litið á forsíðu þeirra (opnast í nýjum glugga).


mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvinir fagrir

Nú fer að aukast í bloggvinagarði. Birgitta og Myndlistarfélagið á Akureyri, hvorki meira né minna, vilja bætast við hjá kallinum.

Ég skaust í bæinn á þessum rokdegi og hitti gamlan skólafélaga sem hafði munninn fyrir neðan nefið, eins og fleiri í MH í þá daga. Hann nam arkitektúr, hefur búið í New York og sent pistla þaðan til landsins um skipulag, byggingalist og tengd efni.

Til dæmis skrifaði hann grein í Lesbók eftir snjóflóðin 1995 um það hvernig er hægt að lágmarka hættu vegna snjóflóða með því að byggja samkvæmt þeim, en ekki á móti þeim. Það þarf varla að taka fram að ekkert hús er þannig byggt á Íslandi þar sem ég hef séð til. 11. september 2001 bjó hann 300 metra frá tvíburaturnunum og átti fótum fjör að launa.

Í seinni tíð hefur hann skrifað um skipulagsmál í Reykjavík. Hann sagðist hafa sent inn athugasemd á bloggið hjá mér, og ég sé ekki betur en að hér fari Veffari, sem bætti við pistil hjá mér um tillögur Greame Massie og félaga. Það eru þeir sem Ólafur borgarstjóri virðist ætla að reyna að skjóta í kaf. Ég hef mikið álit á Edinborgurunum. Mér sýnist þeir um margt vera að reyna að endurtaka það sem hefur verið gert í Leith, og heppnast afar vel þar. Leith er norðlæg borg við kaldan sjó, og ég held að Massie og félagar vanmeti alls ekki aðstæður hér. 


Höfundaréttur verndar vinnu

Höfundaréttur er gerður til að vernda hugverk, vinnu sem lögð er í að setja saman verk sem byggir að miklu leyti á hugmyndum. Rétturinn þýðir að ýmsir sjá sér hag í að leggja í þá vinnu og gefa hana út. Ef ekki kæmi endurgjald, verndað af höfundarétti, yrði þessi flóra miklu fátæklegri og allir myndu bera skaða af.

Það líta ekki allir þannig á málið og sumir telja að höfundaréttur sé til trafala. Eins og má sjá á umræðu sem Salvör Gissurardóttir kveikti eftir fund Wikifólks á fimmtudaginn, þá sýnist sitt hverjum. Mér finnst meinlegt að sjá hversu margir sem þar tjá sig hafa lítið haft fyrir að kynna sér margslunginn heim höfundaréttar.

Þeir sem lesa þessi orðaskipti þurfa að hafa í huga að vilji margra stendur til að ekkert efni á Vefnum sé varið reglum höfundaréttar.


Tilgangur loðteninganna

Ég er stundum seintekinn, það skal viðurkennast. Ég spurði í haust, laust eftir jafndægur, hvað þetta væri með loðteningana (furry dice), hvort þetta væri alþjóðlegt pungtákn?

FurryDice

Nú hef ég komist að því hvaða tilgangi þeir þjóna. Þetta er ekki bara lausn fátæka fólksins sem hefur ekki efni á almennilegu reðurtákni (bimma eða reinsa) og fjárfestir í hálfhreðjum í staðinn.

Ég hef gert hávísindalega könnun. Hún fer þannig fram að ég keyri á lögleyfðum hámarkshraða. Þá kemst ég að því að Íslendingar eiga góða bíla. Nærri allir aðrir bílar eru hraðskreiðari!

Sérstaklega kemur í ljós að litlar Yaris-tíkur eða viðlíka námsmannabílar eru sérlega hraðskreiðir. Oftar en ekki skarta þeir loðteningum (furry dice). Þess vegna dreg ég þá ályktun að loðteningarnir séu ekki settir inn sem lukkutákn, heldur gegni því hlutverki að gera bílinn hraðskreiðari!

Þeir eru þess vegna bílhraðall (car accelerator). Þetta er niðurstaða könnunarinnar.


Æ, ekki tala um peninga

Hvað gerist þegar fólk eignast mikið fé en skammast sín fyrir að ræða það? Of mikil eyðsla er yfirleitt niðurstaðan.

Skelfing stór hluti þjóðarinnar er fullkomlega úti að aka í fjármálum og hjá sumum gætir stolts yfir því. Þetta má sjá hjá fólki sem hefur mörg ráð með að afla fjár, en virðist enga stjórn hafa á útgjöldunum. Þannig eru þeir tekjumeiri með meiri vanda en þeir tekjuminni af því að þeim hefur leyfst meira.

Hvernig skólakerfi er það sem undirbýr ekki fólk til að lifa í samfélaginu? Oft virðist eiga að ala upp fyrirmyndarfólk fyrir löngu liðinn tíma.

Það eru nokkrir ljósir punktar í þessu myrkri. Sístækkandi hópur fer í háskóla og af þeim er stór hópur sem lærir á þessi mál. Sjötti hver háskólanemi er að læra viðskiptafræði, stjórnun, rekstur eða fræði tengd þeim. Nokkuð stór hópur lærir eitthvað um stærðir og viðskipti í verkfræði, raunvísindum og lögfræði.

Eftir stendur sá hluti sem fer í framhaldsskóla, til dæmis iðnnám, og þarf ekki að kunna skil á fjármálum við útskrift, af því að það er ekki við hæfi að binda það í skyldu. Allt of margir nemendur í hugvísindadeildum og félagsvísindadeildum háskóla eru ratar í stærðfræði og komast upp með það. Það versta er að þetta fólk þarf ekki að læra mjög flókna stærðfræði, kunna skil á þríliðu eða getað reiknað prósentuhlutfall á annan hátt, ofan á og af heildarverði, það er ágætis byrjun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband