Leita í fréttum mbl.is

Fram á brún hengiflugsins - og fram af

Maður var nefndur Hyman Minsky og hefur sagt fyrir um hvernig fjárfestingar ganga í góðæri. Ég endursegi hérna eina kenningu hans í tilefni viðburðaríks vetrar, sem nú kveður.

Í fyrsta þrepi vilja fjárfestar eiga borð fyrir báru og eiga bæði fyrir greiðslu vaxta og afborgunum af höfuðstól, og oft eitthvað að auki. Þetta má kalla gætnistig, sem Minsky nefnir hedge investors.

Þegar góðæri gengur lengra verða fjárfestar áhættusæknari og fara að auka skuldsetningu þannig að þeir eiga aðeins fyrir greiðslu vaxta en geta ekki greitt afborganir af höfuðstól að fullu. Þetta er tímabil áhættufjárfestinga sem Minsky kallar speculative investment. Þá þurfa fjárfestar stöðugt að endurfjármagna, taka ný lán til að greiða eldri. Kannast einhver við þetta?

Á þriðja stigi, sem Minsky kallar Ponzi finance, getur fjárfestir ekki greitt vaxtagreiðslur nema með lánsfé. Á þessu stigi verður fjárfestir að skuldsetja allar eignir í topp. Kannast einhver við þetta? Ponzi sem vísað er í er Charles Ponzi sem byrjaði eitt frægasta píramídafyrirtæki sögunnar.

(Sjá The Risk of Economic Crisis, s. 160-161).

Höfundur er ekki hagfræðingur en hefur áhuga á þessum málum af augljósum ástæðum.


Ísland, Íslendingar og þeir sem réðu ferðinni

Það er merkilegt að horfa á stjórnmálamenn sem hafa lagt hluta landsins undir vatn, alla þjóðina á skuldaklafa og landið allt á barm glötunar tala um að aðrir séu ekki nógu íslenskir.

Það þarf náttúrulega að segja þeim sem eyðileggja land, eyðileggja þjóð og eyðileggja sína stjórnmálaflokka að gæta sín á að kalla landsmenn sína ekki ónefnum.

Með þannig fólk innanborðs þarf hvaða stjórnmálaflokkur sem er ekki á neinum óvinum að halda til að eyðileggjast.


Auglýsingar flokkanna, þú færð að borga

Nú hellast yfir okkur auglýsingar flokkanna, enda baráttan stutt og snörp. Það gildir jafnt um þær sem koma beint frá flokkunum og svo frá þessum félögum sem taka að sér hluta baráttunnar.

Við sjáum á því litla sem gefið er upp af bókhaldi flokkanna að neytendur borga meira en helming þessara auglýsinga á endanum í hærri sköttum og hærra neysluverði.

Gjörðu svo vel.


Of auðvelt að ruglast á frjálshyggju og græðgi

Margir kenna frjálshyggjunni um allt illt sem gerðist á Íslandi og í heiminum á þessum vetri. Ég held að hér sé verið að nota orðið frjálshyggja í staðinn fyrir það sem ég kalla fullkomna ágóðahyggju.

Ágóðahyggjan þýddi að allur rekstur, opinber, félagslegur og einkarekstur var settur undir þann hatt að hann ætti að skila sem mestum ágóða. Aðrir þættir voru skildir eftir, jafnvel taldir hjákátlegir. Svo varð ágóðahyggjan að meira og meira skammtímamarkmiði og öll meðul notuð til að þrýsta upp hlutabréfaverði með alþekktum afleiðingum.

Frjálshyggjan er ekki það sama og gróðahyggja. Það verður því miður að segja að það var auðvelt að rugla þessu saman síðustu 18 ár á Íslandi. Frjálshyggjufólk gekk í fararbroddi þessarar ágóðahyggju. Það gerði ekkert til að slíta sundur tengsl ríkisvalds og auðmanna sem ætti að vera einn af hornsteinum frjálshyggjunnar, heldur þvert á móti elfdi þessa samvinnu. Þá gerir lítið þó sumt gott fólk bendi á að ríkisábyrgð á skuldbindingum fyrirtækja eins og einkarekinna banka sé alger andstæða frjálshyggjunnar.

Helsta von hægrimanna er nú að vinstrimenn geri þau mistök að vilja aukinn opinberan rekstur. Það hefur verið reynt og var enn ömurlegra en rekstrarumhverfið í vetur.

Í öllum rekstri, einkarekstri, opinberum og félagslegum rekstri verður að taka tillit til fjár, félagslegra og siðferðilegra þátta allra í senn.


Hvernig hefði þetta orðið með hærri sköttum?

Ein af kennisetningum þeirra sem hafa ráðið ferðinni undanfarin 18 ár er að einkarekstur verði alltaf hagkvæmari en opinber rekstur. Þar liggi ábyrgðin hjá þeim sem taki áhættuna, og að þau sömu reyni alltaf að reka allar einingar á sem hagkvæmastan hátt. Þetta þýði að því meiri einkarekstur, því betra fyrir þjóðfélagið í heild þar sem skilvirkni aukist. Ríkara þjóðfélag geti síðan skilað meiri skatttekjum til rekstrar á vegum hins opinbera, en þá eigi það helst að bjóða út þann rekstur.

Mörgum af hægri vængnum þykir margur opinber rekstur fremur fánýtur eins og sjá má af tekjum umönnunarstétta, ummælum um bruðl á vegum hins opinbera og hugsjón þeirra að losa sem mest af þessum rekstri frá hinu opinbera.

Það fylgir þessari hugsjón að segja að hærri skattar séu slæmir því þeir taki fé af fólki sem myndi nota þá til nytsamlegri hluta en hið opinbera gerir. Þetta er alveg rétt ef hið  opinbera hagar sér eins og fáviti. Það eru mörg dæmi þess en þetta er engan veginn algild regla.
SkulagotuBlokkir8feb2009a
Ég lít til dæmis núna á yfir þúsund tómar fullbyggðar íbúðir og annað eins sem er í byggingu. Ef þrjú þúsund íbúðir standa tómar eða hálfbyggðar og annað eins magn atvinnuhúsnæðis má ætla að þar liggi jafnvirði 100-150 milljarða.

Ef þetta fé hefði ekki farið í byggingar einkaaðila heldur til hins opinbera væri það komið nýja sjúkrahúsbyggingu Landspítalans, Sundabraut, Norðfjarðargöng eða eitthvað álíka.

Ef þér finnst allt sem hið opinbera gerir versta bruðl þá er þér líklega sama. Ef ekki, þá ertu líklega til í að skoða dæmið betur. Það er ekkert lögmál að opinber rekstur sé verri en einkarekstur. Ef maður rekur opinbera stofnun illa, þá er það þannig. Ef maður rekur einkafyrirtæki illa, þá er það á hinn veginn.

Hofdatorgsturn8feb2009aLærdómurinn sem ég dreg er að það skiptir máli hvernig allt er rekið og það er ekki síður mikilvægt að fá gott fólk í opinberan rekstur en í einkareksturinn.


Að fara verr með fé en fullur sjóari

Því er haldið fram að Íslendingar hafi haft stjórn á eigin gjaldmiðli síðan á þriðja áratugnum, í um 80 ár. Það er fullkomlega ofsagt.

Meðferðin á krónunni líkist aðeins svipugöngum. Þó að þetta hafi hjálpað til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu þá gerir það ekki lengur, enda eru ástæður atvinnustigsins að hér búa fáir og lengi þurfti marga til að vinna úr fiski og öðrum auðlindum. Verðbólgan var látin hjálpa til að halda launum niðri sem gerði það auðveldara að ráða fólk.

Á þessum 80 árum hafa sambærilegir gjaldmiðlar á Norðurlöndum tapað gildi sínu en íslenska krónan hefur tapað verðgildi tvöþúsundfalt hraðar. Í árdaga heimastjórnar á Íslandi fóru fjárlög hér á landi í fyrsta skipti yfir milljón krónur. Það samsvarar 10.000 krónum í dag. Þó að framkvæmdir hafi verið margfalt minni voru þessar krónur notaðar til að greiða laun og eftirlaun hundraða, sumu af því hæst launaða fólki sem þá var á landinu.

Einhverjir hafa látið svo um mælt að krónan sé metin eins og Matadorpeningar. Það hefur þó ekki heyrst að þar standi til að skera tvö núll aftan af gjaldmiðlinum eins og gert var hér 1. janúar 1981, í tíð 50% verðbólgu. Þessi aðferð var notuð til að styrkja atvinnuvegina en þýddi að 3000% launahækkanir (30-földun) launa á 20 árum eyddist í 3000% verðbólgu. Þúsund króna laun hækkuðu í þrjátíuþúsund en á sama tíma varð hver þúsundkall þrjátíu sinnum minni að verðgildi, þannig að launþegar stóðu með sama kaupmátt eftir tuttugu ára baráttu og vinnu, gátu keypt það sama fyrir þrjátíuþúsundkallinn eins og þau höfðu getað gert tuttugu árum áður fyrir þúsundkallinn, fyrir sömu vinnu.

Afleiðingin tók nokkurn tíma að koma fram að fullu en endaði á því að enginn treysti gjaldmiðlinum. Þetta átti þátt í að þjóðin eyddi meiru en fullur sjóari, því sjóarinn hættir yfirleitt að eyða þegar peningarnir eru búnir, fer á sjóinn og reynir að afla meira. Þjóðin hélt áfram að eyða. Farið var fram á hengiflugið. Stjórnendur teymdu hana síðan fram af í október 2008.

Um stund var þjóðin í frjálsu falli en hugsaði að þetta væri ekki svo slæmt. Þetta verður ekki slæmt fyrr en þjóðin er kominn í botn gljúfursins. Landsmenn eru þessa stundina að sjá hluta af þessu falli á skattframtölum fyrir árið 2008. Þetta mun halda áfram á næsta skattframtali.

Það slæma við þetta er ekki bara rekstrarumhverfi þar sem það skiptir engu hvað fólk leggur sig fram, þá verða utanaðkomandi þættir yfirsterkari. 

Það slæma er líka að gengisbreytingar krónunnar hafa ekki verið annað en dulbúin skattheimta og eignatilfærsla, framkvæmd af fólki sem átti að bera ábyrgð á ríkisfjármálum.

 


Hvenær ljúga stjórnmálamenn?

Traustið á stjórnmálafólki nálgast það núna að fólk svari að pólitíkusar ljúgi bara þegar þeir opna munninn. Af því að traust er jafnan gagnkvæmt ætla ég ekki að taka svo djúpt í árinni.

Þau sem segja að ekki þurfi að hækka skatta og þau sem segja að ekki þurfi að draga saman í opinberum rekstri falla þó í þennan flokk hjá mér, hvort sem þau segja þetta af óskhyggju eða gegn betri vitund.

Skattar verða hækkaðir og um leið verður dregið saman í opinberum rekstri.

Engar leiðir einar og sér megna að loka 157 milljarða halla á ríkisrekstri. Sveitarfélögin hafa ekki lengur aðgang að ódýru lánsfé og einhver þeirra hafa ekki aðgang að neinu lánsfé yfirleitt, og verða öll að skera niður.


Endursýningar endalaust

Nú styttist í okkar íslensku nóttlausu voraldar veröld eins og Tómas kvað. Íslenska ríkissjónvarpið virðist ætla að búa okkur undir þessa tíð með endalausum endursýningum. Ég hef þess vegna lítið horft á það sem þar hefur verið í boði.

Það breytist í kvöld þegar Skaupið 2006 verður endursýnt. Hvers vegna gátum við ekki verið meira eins og Hannes Smárason?


Af sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins

Það er eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn telji allar breytingar á stjórnarskrá vanhugsaðar. Þetta er sá flokkur sem hefur einfaldlega ekki hugsað út í að það þyrfti neinar breytingar á stjórnskipulagi landsins undanfarin 18 ár.

Þetta er sá eini flokkur sem áttar sig ekki á að þegar Geir Haarde ákallaði æðri máttarvöld að hjálpa Íslandi fyrir sjö mánuðum, þá hugsuðu ekki allir - Guð minn góður, hvað er hægt að gera? Margir hugsuðu öllu frekar - Hvað er hægt að gera til að breyta þessu stjórnskipulagi? Hvernig getur þjóðin haft meiri áhrif á örlög sín?

Hjá flestum okkar var það ekki spurningin um hvort þjóðin ætti að hafa meiri áhrif á örlög sín heldur hvernig. Það er eðlilegt að fólk reyni að brjóta upp það stjórnmálakerfi þar sem tveir formenn stjórnarflokka ráða eða virðast ráða öllu um það sem gert er í landinu. Þó þjóðin sé smá er völ á fleirum.

Það er rík regla að stjórnskipun eigi ekki að breyta nema að vel ígrunduðu ráði. Það er enn ríkari regla að stjórnskipun landsins skuli vera í takt við það sem þjóðin kýs og ekki stjórnskipun sem endurspegli ástand sem er löngu liðið.

 


Mótmælin 30. mars 1949 sem skrípamynd

Það voru nokkrir sem tóku kvikmyndir af mótmælunum á Austurvelli 30. mars 1949, að því að mér virðist með 8mm myndavélum þess tíma. Þessar vélar tóku ekki upp hljóð og gengu yfirleitt á 18 römmum á sekúndu.
 
Síðar var farið að sýna þessar myndir eins og aðrar á 24 römmum á sekúndu, eða þriðjungi hraðar. Tindilfættir mótmælendur hlaupa undan táragassprengjunum meðan lögreglan lætur kylfur dynja hraðar en auga á festir. Það er vegna þess að kvikmyndasýningarvélar seinni tíma voru stilltar fyrir þann hraða.
 
Þetta er skrípamynd. Það er eitt að sýna Buster Keaton, Chaplin, Laurel og Hardy á afkáralegum hraða en annað að sýna myndir af því sem gerðist á Austurvelli þennan dag á þennan hátt. Það er ekki ofraun tæknimönnum að hægja á myndunum sem nemur einum fjórða hraðans og sjá hvort það er ekki nær réttu lagi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband