Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
25.3.2008 | 18:53
Hvað á stjórnin að gera?
Þrýstingurinn eykst á stjórnina að gera eitthvað í efnahagsmálunum. Til þess að vita hvað á að gera, þarf að vita hvað er um að vera.
Með fullri virðingu fyrir hagspekingum þá eru flestir þeirra að reyna að ráða í stöðuna sem breytist á hverjum degi. Meðan fólk veit ekki hvað mun gerast er ekki gott að fara að gera eitthvað, bara til að það sjáist að sé verið að gera eitthvað.
Um leið má sjá að það eru nokkrir hópar sem fara illa út úr láns- og lausafjárskorti. Þegar Gylfi Arnbjörsson bendir á að forsendur nokkurra vikna gamalla kjarasamninga séu brostnar, þá dugir ekki að bíða og sjá hvort allt falli ekki í ljúfa löð síðar á árinu. Til þess að það gerðist þyrfti að verða verðhjöðnun. Það er ekki neitt sem bendir til þess núna. Þvert á móti bendir allt til að verðbólga aukist hér á landi um leið og hún mun aukast í viðskiptalöndunum. Þess vegna verður að hefja aðgerðir til að bæta fyrir brostna samninga strax.
Aðrar aðgerðir í efnahagsmálum verða að bíða þess að fólk viti hvert stefnir. Það steðjar ekki hætta að samfélaginu. Vöruverð hækkar en aðalútflutningsvörur okkar, fiskur og ál, hækka meira en flestar aðrar vörur. (Við fáum tekjur af álinu fyrst og fremst í rafmagnsverði). Verðbólgan þýðir að þjónustan sem við höfum haft mestar tekjur af, fjármálaþjónustan, verður minna virði. Hinar stærstu þjónustugreinarnar, forritun og ferðaþjónusta, styrkja stöðu sína.
Það eru aumingja skuldararnir sem munu hafa það verst eins og alltaf.
24.3.2008 | 17:21
Talar forseti hér?
Er hægt að sjá á einni ræðu að þar tali verðandi forseti? Hér talar Obama um kynþáttavandamál, sem hann telur að hafi fylgt Bandaríkjamönnum frá upphafi og ekki sé lengur hægt að sópa þeim undir borðið.
Það sést í byrjun að þar talar kennari í stjórnskipunarrétti. Eftir því sem líður á ræðuna færir hann sig yfir í vandamál dagsins. Hann fer úr stóru dráttunum yfir í þá smáu og endar á lítilli frásögn til að færa hlustendur nær sér.
Gætið að því að ræðan, A more perfect union er rúmur hálftími.
Obama ræðir um kynþætti og önnur vandamál Bandaríkjamanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2008 | 16:25
Kreppan þýðir breytingar
Með fullri virðingu fyrir raunum íslenskra félaga á markaði, þá snerta örlög þeirra lítið heimilisbókhaldið hér. Peningar í eigu Pálma, Jóns Ásgeirs eða Bakkavararbræðra breyta litlu um hvernig efnahagurinn er á þessu heimili.
Það eru stærri breytingar sem skipta máli í því sambandi. Krónan lækkar og sjávarútvegurinn hættir taprekstri. Fiskeldi verður arðbærara þannig að það eykst á ný. Sókn í loðnu, kolmunna og makríl til að fóðra þessa fiska verður meiri, svo furðuleg viststefna sem það nú er.
Í Bandaríkjunum og Evrópu hafa orðið stórtíðindi, falin á bak við tíðindi af einstökum félögum, rétt eins og hér. Fólk kennir ennþá lausafjárkreppuna við undirmálslán, þó að það sé löngu orðið ljóst að herkostnaðurinn í Írak og Afganistan eigi þar miklu stærri þátt.
Þá gerist það sama og á áttunda áratugnum, þegar skattar voru lækkaðir um leið og herkostnaðurinn í Víetnam gleypti æ stærri hluta af kökunni, en var af sömu pólitísku ástæðunum falinn fyrir fólki.
Lágt gengi á dollar gat ekki til langs tíma haldið burtu ódýrari innfluttum vörum. Bandaríkjamenn fara að framleiða aftur fyrir nýríka markaði í Asíu og Evrópu, þó að heimamarkaðurinn sé sem fyrr sá langmikilvægasti í heiminum.
Hátt gengi evru þýðir að verð á innfluttum vörum frá Bandaríkjunum lækkar í Evrópu og ferðamenn flykkjast þaðan til Bandaríkjanna.
Á áttunda áratugnum komu afleiðingarnar fram á líkan hátt. Verðbóga jókst um leið og atvinnuleysi. Þetta var kallað stagflation, stöðnun með verðbólgu.
Lausafjárkreppunni hefur núna verið mætt með því að bankar losa nýtt fjármagn. Á íslensku þýðir það að peningar eru prentaðir. Það hefur þýtt verðbólgu hingað til.
24.3.2008 | 14:27
Gott að vera lögfræðingur
Ef niðursveiflan í heiminum ætlar að reynast verða jafn djúp og hún lítur út fyrir núna, þá verður gott að vera lögfræðingur.
Þegar maður lendir í vanda hefur maður samband við lögfræðing og það eru margir í vanda núna.
Svo segja fréttir og hvísl að núna eftir páska komist skriður á sameiningu fjármálastofnana.
Önnur félög verða tekin út af markaði, þar sem markaðsvirði þeirra er komið niður fyrir skráðar eignir.
Nóg að gera fyrir lögfræðingana.
24.3.2008 | 01:58
Allt upp á opna gátt í Skotlandi
Skotar eru fámenn þjóð, svipaðir að stærð og Finnar, svo dæmi sé tekið. Miðað við það er skoskur bolti sterkur. Deildin þar telst sú tíunda sterkasta í Evrópu.
Allir vita að þessi styrkur skrifast fyrst og fremst á tvö félög í Glasgow, Celtic og Rangers. Skoska deildin er þó miklu meira en bara óspennandi kapphlaup þessara tveggja liða. Aberdeen, Dundee United, Edinborgarliðin Hibernian og Hearts gera hvað þau geta til að velgja risunum undir uggum.
Ævintýri síðasta leiktímabils kom frá smábænum Gretna sem er við landamæri Skotlands og Englands. Liðið hafði leikið í neðandeild í Englandi en fór yfir í skosku deildina árið 2002. Með fé frá Brooks Mileson klifraði liðið upp deild eftir deild og komst í skosku úrvalsdeildina á þessari leiktíð. Ævintýrið virðist búið. Mileson er veikur maður, peningar eru upp urnir og liðið komið í gjaldþrot. Það missir 10 stig af aðeins 16 fyrir vikið og mun nú berjast við að fara ekki með of miklar skuldir á bakinu niður í skosku 1. deildina í haust.
Skoska úrvalsdeildin er með 12 lið sem spila 3 umferðir, samtals 33 leiki. Eftir það er deildinni skipt og efri liðin sex keppa eina umferð og neðri liðin sex eina. Það þýðir 5 leiki til viðbótar, þannig að þetta eru 38 leikir í allt. Þetta þýðir að Glasgow-risarnir (Old Firm) keppa alltaf fjóra leiki innbyrðis á hverri leiktíð í deildinni.
Phil O'Donnell, leikmaður Motherwell, lést eftir að hafa hnigið niður í leik við Dundee United. Hann lék um tíma með Celtic. Að beiðni Motherwell var Celtic-Rangers leik sem var á dagskrá 2. janúar frestað. Liðin keppa samkvæmt áætlun 29. mars og nú er búið að setja frestaða leikinn á dagskrá 16. apríl. Liðin eiga síðan eftir að keppa leik númer fjögur, þannig að þrír innbyrðis leikir eru eftir.
Rangers stendur betur með leik til góða og þremur stigum meira. Rangers eru auk þess enn í baráttunni í Evrópu og keppa við Sporting Lisboa í UEFA-keppninni 3. og 10. apríl. Þeir unnu deildarbikarinn og eru enn í bikarkeppninni, þar sem Celtic er dottið út. Það þýðir að Celtic mun ekkert gefa eftir fremur en vanalega í innbyrðis leikjunum þremur. Þetta er ekki nein leiðindastaða fyrir Rangers.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2008 | 20:42
Jesús var enginn Ítali
Nú er dymbilvikan liðin og kristnir minnast þess um allan heim að Jesús reis frá dauðum. Þetta er undirstaða kristinnar trúar ásamt kærleiksboðorðinu.
Þá verður fyrir mér smávægilegur hlutur sem er beygingarmyndin Jesúm í þolfalli. Það hefur alltaf komið mér furðulega fyrir sjónir að skella latneskri endingu á nafn Gyðings sem talaði aramísku.
Jesús var ekki neinn Rómverji. Af hverju eru Íslendingar þá að nota þessa latnesku beygingarmynd þarna?
Sem betur fer fyrir venjulega Íslendinga stoppaði latínuáráttan þarna og nafn hans er Jesú í öðrum föllum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2008 | 00:19
Lífið er LAN
Þessa daga og nætur hittast hópar hér og þar. Þau gömlu tefla eða spila Trivial og fara snemma að sofa. Þau yngri halda uppi pizzugerð og kókframleiðslu (drykknum) í landinu og LAN-a.
Þá varð til þessi setning: Lífið er LAN. Og annar svaraði að bragði: Sem við spilum saman sjö. Og þá kom af sjálfu sér: Nótt eftir nótt.
Lifið heil.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 19:18
Jafndægur, fullt tungl á föstudaginn langa og páskar
Einfalda reglan sem margir nota um tímasetningu páskanna er að þeir beri upp á fyrsta sunnudag eftir fyrsta fullt tungl eftir jafndægur. Það gekk hratt þetta árið. Jafndægur voru á skírdag, jafndægramínútan kl. 05.48 ef einhver skyldi vilja vita. Fullt tungl er í dag, föstudaginn langa, klukkan 18.40.
Þannig verða páskar með snemmsta móti. Það þýðir að uppstigningardagur verður 40 dögum síðar, 1. maí, sjálfan verkalýðsdaginn, og að hvítasunna verður 11. maí, lokadag gömlu vetrarvertíðar. Tímasetning páska er fundin á öllu flóknari hátt en reglan sem er hérna að ofan dugir í nær öllum tilfellum og er auðveld að muna. Gleðilega páska!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 19:14
Exista að kaupa Skipti og borgar með hlutum í sjálfu sér
21.3.2008 | 13:53
Ég trúi því ekki!
Það hlýtur að vera það sem þau segja þegar Óli Gneisti kallar A7:
Ég trrrrrúúúúúúi því ekki, ég er með bingó!
Lifið heil.
Vantrúaðir spila bingó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar