Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007 | 16:32
Það markverðasta á þessu ári
Það markverðasta á þessu bloggi á árinu var að sjálfsögðu að það byrjaði með því að ég sendi inn grein til birtingar í Mogga. Eftirleiknum er svo lýst hér, í fyrstu alvöru færslunni og á höfundarlýsingu.
Ég kem ekki vel út úr þessu ári, ef eitthvað er að marka nýlega mynd sem var teiknuð af mér. Ekki lýgur teiknarinn, eða hvað?
Ég kom víða við í yfir 100 færslum og heiti því að halda áfram að blogga á nýju ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2007 | 16:33
Af Bhutto-ætt
Nú berast þær fregnir að Asif Ali Zardari, ekkill Benazir Bhutto, taki við stjórn Þjóðarflokks Pakistans, PPP. Flokkurinn var stofnaður af föður Benazir. Fyrir Íslendinga líkist flokkurinn meira ættbálki sem velur leiðtoga en stjórnmálaflokki, en þessi flokkur hefur staðið næst Vesturlöndum í pólitík í því landi.
Sonur þeirra, Bilawal Zardari, sem nú mun kalla sig Bhutto, er ætlað að taka við stjórnartaumum í flokknum, Faðir hans er veikur maður, eins og ég fjallaði lauslega um í færslu um morðið á Bhutto.
Eins og ég sagði frá þar þekkir Jakob Ásgeirsson vel til þessarar fjölskyldu. Ég hef ekki heyrt enn rætt við hann um málið og veit ekki nákvæmlega hvað veldur. Hann deildi þó húsi með þessu fólki sem er nú í miðpunkti atburða í Pakistan, einu fjölmennasta ríki veraldar og eins af kjarnorkuveldunum.
Sonur Bhutto einungis formaður í orði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2007 | 19:51
Að styrkja björgunarsveitirnar
Nú kaupa Íslendingar flugelda eins og lífið eigi að leysa þrátt fyrir afleita spá fyrir gamlárskvöld. Sem betur fer, fyrir björgunarsveitirnar.
Eins og Kristinn Ólafsson lýsti í fréttunum er þetta lífsspursmál fyrir þær og hagnaðurinn ekki í hendi fyrr en upp er staðið. Eins og Kristinn sagði, kannski óheppilega, fara björgunarsveitirnar ekki að fá í vasann fyrr en eftir hádegi á gamlársdag, því kostnaðurinn er líka mikill við allt umstangið.
Það er bara að vona að Íslendingar taki hann ekki á orðinu og mæti ekki fyrr, og segist bara vilja kaupa flugelda af þeim þegar það er hagnaður af því! Eftir hádegi 31. desember er farið sneyðast um bestu skoteldana og styttast í að verði lokað.
Það eru ekki allir jafn hrifnir af því að kaupa mikið af skoteldum. Sumum finnst þeir hættulegir, og kunna kannski slæmar sögur af óhöppum með þá. Flugeldar eru ekki beint umhverfisvænir, fullir af þungmálmum, geta myndað versta mengunarský ársins (ekki miklar líkur á því núna) og svo er bölvaður hávaði af þeim!
Ég hafði samband við Landsbjörgu fyrir þremur árum og vildi styrkja þá á annan hátt, og vildi helst að það væri auðveld leið til þess á vefnum hjá þeim. Sem betur fer hefur Landsbjörg sett þetta upp, sjá flipann Styrkja félagið hjá þeim. Það er hægt að velja hvaða björgunarsveit maður vill styrkja og þetta fé rennur um það bil allt til þeirra. Það er fremur einfalt að setja þetta á kort hjá sér, eða fá greiðsluseðil fyrir kortafælna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2007 | 18:27
Hoggið í ríkidæmið
Þær fregnir berast nú að margt fólk eigi í vanda vegna þess að þau hafi tekið lán fyrir hlutabréfakaupum sem þýði beint tap, eins og mál standa.
Sem betur fer er þetta ekki verst stæði hópur þjóðfélagsins, heldur fremur fólk sem á góð veð í húsi, lóð eða bíl. Vandinn er enn sem komið er ekki voðalegur og lýsir sér helst í að bankinn er kominn með hærra veð í húsinu, lóðinni eða bílnum, vegna þess að veðið í bréfunum dugir ekki eins vel og það gerði.
Hjá flestum er þetta þess vegna hálfgert lúxusvandamál. Fyrstu áhrifin af svona bakslagi eru að augljósasti lúxusinn verður skorinn niður. Þess vegna virðast nýársböllin verða færri en hefur verið undanfarin tíu ár eða svo.
Það verða þó einungis dýrustu böllin sem eru slegin af. Liðið hefur væntanlega efni á eins og einni eða tveimur flöskum og nokkrum rakettum, og getur skemmt sér eins og venjulegir Íslendingar.
En það verður súrt fyrir suma, sem héldu að þau væru komin í annan og ríkari hóp.
Hlutabréf lækkuðu á árinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.12.2007 | 14:39
Fyrir hvað fá greiningardeildir bankanna greitt?
Ég hef fyrr á þessu ári dregið í efa að spá greiningardeildar Landsbanka um húsnæðisverð gangi eftir, sjá færslu frá 19. september og nánari útfærslu níu dögum seinna.
Ef fasteignaverð mun dragast saman eins og deildin spáði eru það stórmerk tíðindi vegna þess að við þær aðstæður dregst neysla saman. Fólk sér að skuldir þeirra vaxa hraðar en eignir þess, hættir að kaupa dýran varning og breytir neyslumynstri.
Þessu hefur einmitt verið spáð í Bretlandi. Ef fasteignaverð þar dregst saman hefur það mikil áhrif á smásölumarkaði, sem nokkrir Íslendingar hafa einmitt fjárfest mikið í á undanförnum árum. Sem betur fer fyrir þá hefur þetta ekki gengið eftir og fyrstu tölur um jólaverslunina sýna aukningu frá síðasta ári, enda hefur fasteignaverð hækkað í Bretlandi þetta ár.
Allir þekkja spár greiningardeilda bankanna um hækkun á hlutabréfaverði á árinu, sem voru kringum 40%, og hvernig þær spár hafa gengið eftir. Þeim til málsbóta má segja að á árinu hafi orðið tíðindi á alþjóðlegum bankamarkaði, sem kalla má svartan svan, svo vísað sé til kenninga Nassim Taleb.
Sagt er að undirmálslán í Bandaríkjunum hafi svipt fótunum undan lánum banka um allan heim. Ég leyfði mér að draga það í efa og miðaði við stærð þessara lána borið saman við önnur lán í færslu frá 17. september. Ég benti á aðra stærð sem haldið er utan við umræðuna, enda hápólitísk. Allar stærðir hafa sín áhrif og án efa eru undirmálslánin lóð á vogarskálina, en ég tel að þau séu léttvæg miðað við önnur þyngri lóð á þeirri skál.
Þá er komið að spurningunni hér í fyrirsögninni. Hafa greiningardeildirnar komið með einhverjar upplýsingar sem ekki var hægt að fá annars staðar? Voru þær einfaldlega heppnar, eins og flestir sem tóku þátt í íslenskum markaði 2002-2006? Var þeim greitt fyrir heppni?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2007 | 13:59
Tilræðið við Bhutto, bál og brandur í miðri Asíu
Nú hefur talsmaður Benazir Bhutto staðfest að hún hafi látist af sárum eftir sjálfsmorðssprengingu fyrr í dag.
Það er erfitt að halda fram að svæðið sem markast af Írak, Íran, Afganistan og Pakistan sé nokkru friðvænlegra í dag en fyrir innrásina í Afganistan 2001.
Tilræðið við Bhutto var eitthvað sem hún vissi að gæti gerst, og þrátt fyrir það fór hún í kosningabaráttuna. Að henni genginni er fátt sem stendur í vegi fyrir að herinn taki aftur völd, og ekki útilokað að Musharraf leiði stjórnina enn á ný.
Það sem hefur helst breyst í þessum heimshluta á þessum fimm árum, er að gamlir risar fara aftur að láta að sér kveða. Rússland er risið úr öskustó, Indland er að eflast og hefur leitað samvinnu við Kína, sem nú er óumdeilanlega að ná stöðu í hlutfalli við stærð sína í heiminum. Fyrstu sameiginlegu heræfingar Indlands og Kína voru fyrr í þessum mánuði.
Á meðan svo er, hlýtur Pakistan að reyna að leysa sín innri vandamál áður en farið er að ögra nágrönnunum. Áður fyrr var það örþrifalausn forráðamanna þar til að leiða athyglina frá vandanum heimafyrir.
Faðir Benazir, Zulfikar Ali Bhutto var tekinn af lífi 1979 fyrir sakir sem fáir taka gildar. Eiginmaður hennar, Asif Ali Zardari hefur verið dæmdur þrisvar í fangelsi í Pakistan, og gildir svipað um þær sakir sem hann hefur verið borinn. Jakob Ásgeirsson útgefandi þekkir vel til Zardari og var leigjandi hjá honum um skeið í London. Zardari býr núna í New York og er veikur maður eftir 11 ára samanlagða dvöl í fangelsi.
Benazir Bhutto látin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 09:48
Bloggarar og fréttir
Fréttablöð og bloggarar hafa átt í svolítið taugaveikluðu sambandi undanfarin ár. Í árdaga bloggsins var því kastað fram að það myndi ganga af fréttablöðunum dauðum.
Það er víst að ég myndi ekki fagna því að bloggið tæki við hlutverki þeirra. Meðferð DV á aumingjum landsins er hátíð miðað við opinberu aftökurnar sem hafa gerst á blogginu.
Sem betur fer fyrir mig eru ekki miklar líkur á að þetta gerist. Vefútgáfur hefðbundnu fréttamiðlanna eru staðurinn sem fólk sækir núna daglegar fréttir.
Það eru ekki miklar fréttir sem hafa orðið til hjá bloggurum miðað við hefðbundna fréttamiðla. Með því að fara yfir málin má sjá að það eru bloggarar sem endurskrifa fréttir sem hafa birst á vefmiðlunum, ekki öfugt.
Það er helst að það er fjör á blogginu kringum kosningar. Þá koma sögurnar fram þar. Síðan fellur allt í dróma.
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2007 | 12:24
Jólabörn og önnur mannanna börn
Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf vorkennt þeim sem eiga afmæli rétt um jól eða nýár.
Þau geta ekki kvartað undan því að það er alltaf frí og hátíð þegar þau eiga afmæli.
Á hinn bóginn vill afmælið verða í öðru sæti þegar allir fagna jólum eða nýju ári. Oft fá þau eina stóra gjöf, en stundum vill þetta bara verða ein venjuleg gjöf. Þar sem ég er fæddur að vori, eiga þau samúð mína.
Það eru engin jólabörn í minni nánustu fjölskyldu en ég þekki nokkra sem hafa litið í heiminn um þetta leyti.
Þess vegna fylgja hér góðar kveðjur til allra sem eiga afmæli á jólum og nýári, vinir og aðrir.
25.12.2007 | 12:24
Tveir meistarar sveiflunnar látnir
Í gær bárust fregnir af því að píanósnillingurinn Oscar Peterson væri látinn.
Hann hugðist fyrst spila á trompet, en berklasmit setti strik í þann reikning. Hann byrjaði þá að spila á píanó, sem betur fer fyrir jazzheiminn. Hann var kröfuharður flytjandi við áhorfendur, en það endurspeglaði kröfuhörku hans við sjálfan sig.
Hann spilaði ýmsar tegundir af jazz, en var af sveiflukynslóð og spilaði sveifluna hratt og örugglega.
Á níunda áratugnum spilaði hann með Herbie Hancock og náði þannig til yngri kynslóða. Hann skilaði miklu æviverki.
Á svipuðum tíma lést einn af okkar sveiflusnillingum, Árni Scheving.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2007 | 11:41
Jólatónlistin á heimilinu
Það er ljóst að einn diskur var mest keyptur á árinu á heimilinu. Ég keypti eintak af Mugiboogie til að gefa í nóvember og var að kaupa annað í Mugibúðinni. Þar næ ég í tónlistina og bíð svo bara rólegur eftir sérárituðu eintaki að vestan.
Af öðrum má nefna Sprengjuhöllina, Jakobínarínu og Hjaltalín. Sprengjuhöllin er í mestu uppáhaldi af þessum þremur. Ampop styttu mér stundir í sumar. Takk Sigur Rósar kom í minn hlut eftir að hafa stjórnað hluta af ráðstefnu í haust. LCD Soundsystem verður nefnt af erlendu efni.
Það sem hljómar í þessum skrifuðum orðum er Misa Criolla eftir Ramirez, jólatónlistin í ár og mörg önnur ár. Útgáfan er með Jose Carreras. Margir vöndust við útgáfuna frá 1970, sem Ramirez stjórnaði sjálfur, og þykir þessi of fínleg. Hann er vandrataður, millivegurinn.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar