Færsluflokkur: Íþróttir
19.10.2008 | 12:47
14-3
Þau sem heimsækja England þessa dagana hafa líklega hugann mest við óhagstætt gengi og mikilvægi þess að minnast lítið á það að maður sé Íslendingur.
Það gæti farið fram hjá þeim eins og öðrum sem heimsækja Englendinga að undanfarna mánuði hefur enska karlalandsliðið í fótbolta átt sína bestu tíð síðan 1966.
Af fjórum leikjum í undankeppni HM hafa þeir unnið fjóra. Þeir hafa skorað 14 mörk og fengið á sig 3.
Þó að fótbolti sé mikilvægari en líf og dauði fyrir marga ræða enskir lítið um þennan góða árangur. Það getur verið af varfærni þar sem liðið á eftir sex leiki í riðlinum. Það bætist við varfærnina að nýr framkvæmdastjóri stendur að baki öllum sigrunum og að hann er Ítali.
Capello hefur tekist að töfra fram það besta hjá Ferdinand, Rooney og Heskey. Heskey byrjaði reyndar að blómstra eftir að fara til Wigan og er núna aftur orðinn álitlegur kostur fyrir Liverpool. Það er engin ástæða til annars en að Englendingum takist jafn vel í síðari hrinu undankeppninnar, sem byrjar 28. mars og lýkur 14. október á næsta ári.
Það var oft látið eins og Sven-Göran Eriksson tækist ekki að koma liðinu eins langt og það hefði átt að fara. Hann kom því þó í undanúrslit í HM 2006. Það kann að villa fólki sýn að þó að enska Premier League sé greinilega orðin sterkasta landsdeildin þá segir það lítið um styrk enska landsliðsins. Núna hefur það náð sér á strik og þarf bara að sjá hvort þetta dugir til 2010.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 00:02
Skoska úrvalsdeildin í byrjun apríl
Á laugardagskvöld leit út fyrir að Rangers væru búnir að tryggja sér skoska deildarmeistaratitilinn. Celtic tapaði 0-1 fyrir Motherwell (ekki lengur ne'er do well Motherwell) og Rangers voru með pálmann í höndunum.
Þá tók Dundee United völdin í sunnudagsleiknum á móti Rangers og skoraði þrjú mörk. Jafnoft náðu Rangers að svara í sömu mynt og niðurstaðan varð jafntefli. Baráttan er núna hörð milli Dundee United, Motherwell og Hibs um sæti í UEFA-keppni í haust.
Nokkur lið eru búin með 33 leiki og ljóst að Hearts, Inverness Caledonian Thistle, Kilmarnock og St. Mirren verða í neðri hluta deildarinnar eftir að 33. umferð lýkur. Þá er deildinni skipt í tvennt, og spila efri 6 liðin innbyrðis og neðri 6 liðin innbyrðis. Lið í neðri hlutanum getur ekki náð ofar en 7. sæti, þannig að Hearts lenda í hæsta lagi þar.
Aberdeen og Falkirk mætast á mánudagskvöld. Liðið sem vinnur lendir í efra hluta deildarinnar, en jafntefli þýðir að Falkirk vermi það sæti. Þau keppa á Pittodrie í Aberdeen og ég spái heimasigri.
Deildin er með 12 lið og aðeins eitt sem fellur. Gretna er löngu fallið með 6 stig á botninum og mun eiga í miklum erfiðleikum að halda úti liði í skosku 1. deildinni næstu leiktíð. Hamilton Academicals (Accies) eru þar í efsta sæti með 4 stiga forskot á Dundee (City) sem mun veita þeim harða keppni, enda vant að vera í efstu deild. Hamilton og Dundee mætast í síðustu umferð 1. deildarinnar.
Á laugardagskvöld voru Rangers með 6 stigum meira en Celtic og 2 leiki til góða. Þeir hafa náð lengra í UEFA en Celtic gerði í Meistaradeild Evrópu og frestað leikjum af þeim sökum. Þó að liðin eigi eftir að keppa tvisvar innbyrðis í deildinni mátti heita að titillinn væri í höndum Rangers en eftir jafnteflið við Dundee má segja að Celtic hafi möguleika. Celtic og Rangers keppa næst á Parkhead, heimavelli Celtic þann 16. apríl.
Rangers keppa svo við Sporting Lisboa á fimmtudag eftir 0-0 jafntefli á Ibrox, um hvort þeirra mætir sigurvegara úr leik Fiorentina og PSV. Það er að miklu að keppa. Sporting er um þessar mundir í fjórða sæti deildarinnar í Portúgal, sem Porto er nú búið að vinna með miklum glæsibrag, 18 stiga forskot á Benfica og Guimaraes þegar 5 leikir eru eftir.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2008 | 01:58
Allt upp á opna gátt í Skotlandi
Skotar eru fámenn þjóð, svipaðir að stærð og Finnar, svo dæmi sé tekið. Miðað við það er skoskur bolti sterkur. Deildin þar telst sú tíunda sterkasta í Evrópu.
Allir vita að þessi styrkur skrifast fyrst og fremst á tvö félög í Glasgow, Celtic og Rangers. Skoska deildin er þó miklu meira en bara óspennandi kapphlaup þessara tveggja liða. Aberdeen, Dundee United, Edinborgarliðin Hibernian og Hearts gera hvað þau geta til að velgja risunum undir uggum.
Ævintýri síðasta leiktímabils kom frá smábænum Gretna sem er við landamæri Skotlands og Englands. Liðið hafði leikið í neðandeild í Englandi en fór yfir í skosku deildina árið 2002. Með fé frá Brooks Mileson klifraði liðið upp deild eftir deild og komst í skosku úrvalsdeildina á þessari leiktíð. Ævintýrið virðist búið. Mileson er veikur maður, peningar eru upp urnir og liðið komið í gjaldþrot. Það missir 10 stig af aðeins 16 fyrir vikið og mun nú berjast við að fara ekki með of miklar skuldir á bakinu niður í skosku 1. deildina í haust.
Skoska úrvalsdeildin er með 12 lið sem spila 3 umferðir, samtals 33 leiki. Eftir það er deildinni skipt og efri liðin sex keppa eina umferð og neðri liðin sex eina. Það þýðir 5 leiki til viðbótar, þannig að þetta eru 38 leikir í allt. Þetta þýðir að Glasgow-risarnir (Old Firm) keppa alltaf fjóra leiki innbyrðis á hverri leiktíð í deildinni.
Phil O'Donnell, leikmaður Motherwell, lést eftir að hafa hnigið niður í leik við Dundee United. Hann lék um tíma með Celtic. Að beiðni Motherwell var Celtic-Rangers leik sem var á dagskrá 2. janúar frestað. Liðin keppa samkvæmt áætlun 29. mars og nú er búið að setja frestaða leikinn á dagskrá 16. apríl. Liðin eiga síðan eftir að keppa leik númer fjögur, þannig að þrír innbyrðis leikir eru eftir.
Rangers stendur betur með leik til góða og þremur stigum meira. Rangers eru auk þess enn í baráttunni í Evrópu og keppa við Sporting Lisboa í UEFA-keppninni 3. og 10. apríl. Þeir unnu deildarbikarinn og eru enn í bikarkeppninni, þar sem Celtic er dottið út. Það þýðir að Celtic mun ekkert gefa eftir fremur en vanalega í innbyrðis leikjunum þremur. Þetta er ekki nein leiðindastaða fyrir Rangers.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2008 | 19:05
Smámyndir af skákmóti
Friðrik Ólafsson, Vlastimil Hort, Pal Benkö og Lajos Portisch. Fyrir þrjátíu árum hefði múgur og margmenni hópast að til að sjá hvern og einn af þessum meisturum. Að ekki sé talað um ef sjálfur Boris Spasskíj hefði stjórnað mótinu og verið skákdómari.
Þessir herramenn og margir fleiri voru að keppa í Ráðhúsinu. Gömlu meistararnir voru að keppa í minningu Fischers sem hefði orðið 65 ára í gær. Um leið var Reykjavíkurskákmót í gangi.
Mér fannst hálfóraunverulegt að ganga innan um þessa miklu meistara sem voru í hálfguðatölu fyrir 25 árum síðan. Enn óraunverulegra var að sjá hvergi alla skólafélagana úr MH sem þá voru forfallnir þrælar á altari skáklistarinnar. Róbert Harðarson var reyndar þarna, Tómas Ponzi og svo einn sem ég man ekki nafnið á í bili, það kemur.
Spasskíj var nýkominn úr augnaðgerð og hafði sett upp dökk gleraugu. Þar sem hann stóð og fylgdist með, leit hann út eins og einn af lífvörðunum sem voru í fylgdarliði hans fyrir 35 árum. Eins og KGB-maður, sagði einhver. Maður lætur þetta vaða hér því allir vita að Spasskíj er sannur séntílmaður, un vrai gentilhomme.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2008 | 14:27
Man Utd.-aðdáendur að hvetja City?
Þegar þetta er skrifað er staðan Man City 1-2 Arsenal í seinni hálfleik. Heyrst hefur í Man United-aðdáendum í Englandi að hvetja City í stöðunni! Öðruvísi mér áður brá.
Annars hittast United og City í Manchester næstu helgi. Þann 6. febrúar 2008 verða 50 ár liðin frá flugslysinu í München, þegar lunginn úr Man United liðinu fórst.
Arsenal í toppsætið eftir sigur á Man City, 3:1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 20:20
Þrír leikir hjá A-landsliði karla 2.-6. febrúar
Nú fer landsliðið til keppni á smámóti á Möltu. Á laugardaginn keppa þeir við Hvít-Rússa kl. 14, við heimamenn á mánudagskvöld kl. 18.30 og við Armena á miðvikudag kl. 16.30.
Hermann verður ekki með fyrr en á miðvikudaginn, sem er alþjóðlegur leikdagur, sem og nokkrir sterkir.
Upphaflegi hópurinn er hér á pdf-skjali, en nokkrir hafa dottið út, eins og lesa má hjá KSÍ.
Hermann á bekknum á Old Trafford | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2008 | 16:32
Um handbolta, hóflausa drykkju og Kusturica
Á fimmtudagskvöld, meðan þjóðin horfði á handboltaleik í Þrándheimi, fór ég í bíó. Það var einfaldlega of nöturlegt að horfa á öll mistökin og eftir hálftíma var ég búinn að fá nóg. Eins og góður maður sagði, þá spilaði íslenska liðið eins og kjánar.
Fyrr á árum gat ég dottið í það eins og það kæmi ekki dagur eftir þann dag, föstudags- og laugardagskvöld flestar helgar ársins. Svo hætti ég að hafa gaman af því og þá var það búið. Þegar drykkjan var búin og svefninn tók völd, tók við ruglingslegur draumur.
Þann draum sá ég í bíó á fimmtudagskvöldið og hann heitir Lofaðu mérá íslensku, Promets moi á frönsku. Ég veit ekki hvað myndin er að gera á franskri kvikmyndahátíð, líklega framleidd af Frökkum. Þetta er serbnesk mynd, um brjálaða Serba, og er eftir Emir Kusturica. Fyrir þau sem eru að sjá Kusturica í fyrsta skipti er þetta hin besta skemmtun.
Frásagnarmátinn er teiknimynd, leikin á tjaldi, slapstick. Það vantar pólitíska broddinn sem hann sýndi í Neðanjarðar, dýpri tilfinningar sem hann sýndi í Svartur köttur, hvítur köttur, eða þá að þetta fari fyrir ofan garð og neðan hjá Íslendingi og að Serbarnir sjái kannski einhverja ádeilu sem við skynjum ekki. Fyrir okkur er þetta bara Buster Keaton með ávæningi af Dusan Makavjev. Sem er ekki slæmt, þetta var hin ágætasta skemmtun.
Það var ágætt að ganga út af fylleríinu en sjálfur áfengislaus.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2008 | 08:32
Hillary látinn, Hillary lifi!
Edmund Hillary og Tenzing Norgay klifu Everest-tind daginn fyrir krýningu Elísabetar II Bretadrottningar.
Nú er Hillary fallinn frá og aldrei að vita nema að á þessu ári verði önnur kona gerð að þjóðhöfðingja, að þessu sinni í Bandaríkjunum.
Ný-Sjálendingurinn Edmund Hiillary og Sherpinn Tenzing Norgay gerðu það sem enginn hafði gert áður, að klífa Everest og koma lifandi niður aftur. Ef Tenzing hefði aðeins kunnað á myndavél hefðum við haft mynd af lokaáfanga Hillarys.
Hann var afreksmaður, barðist í flugher Breta í seinni heimsstyrjöld, kleif marga tinda auk Everest og fór til Suðurpólsins 1958.
Edmund Hillary látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.1.2008 | 06:16
Bærilegur hversdagsleiki hversdagsins
Nú nuddar þjóðin stírurnar og tekst á við hversdaginn, fyrsta mánudag ársins.
Ýmislegt horfir til betri vegar. Um áramót skrifaði ég um að fyrst og fremst yrði veðrið að batna, svo að það viðraði betur um okkur í útivistinni!
Það er sem betur fer að ganga eftir. Þannig lítur út fyrir að hjólið verði aðalsamgöngumátinn á heimilinu þessa vikuna. Það er í fyrsta skipti síðan í október.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 23:18
Hvar er þessi 1. deild í ensku knattspyrnunni?
Það er ekki hægt að biðja um að allir fylgist vel með öllu, en það er hægt að fara fram á að fréttafólk sem afmarkar sig við ákveðið efni viti hvað það er að tala um.
Mér finnst ekki gott að hlusta á lýsingar Íslendinga á enskri knattspyrnu, enda of góðu vanur frá Bretlandi, þar sem eru topplýsendur á hverjum leik. Það sem vantar hjá íslensku íþróttafréttamönnunum hefur of oft verið að þeir eru hreinlega ekki nógu vel að sér til að halda uppi lýsingu á rúmlega 90 mínútna leik.
Þannig tók þá nokkur ár að uppgötva að efsta deildin í enskri knattspyrnu hét ekki lengur fyrsta deild, heldur úrvalsdeild (Premier League) eftir 1992. Þá urðu deildirnar þar fyrir neðan 1., 2. og 3. deild (Football League First division, Second division, Third division).
Það breyttist svo árið 2004. Þá heitir næstefsta deild meistaradeildin (Championship) og deildirnar þar fyrir neðan deild 1 (League One) og deild 2 (League Two). Enn ræða íslenskir íþróttafréttamenn, eða að minnsta kosti allt of margir þeirra um 1. og 2. deild, en eiga við meistaradeild og deild 1.
Nú finnst mörgum stungin tólg og tala um að allir viti nú hvað átt er við, að fáir fylgist með neðri deildunum og að það sé nú fótboltinn sem skipti öllu máli.
Það er ekki rétt, ég veit ekki hvort er átt við næstefstu deild eða þá þriðju efstu þegar rætt er um 1. deild í ensku knattspyrnunni. Það eru margir sem fylgjast með neðri deildunum, ekki síst þeir sem hafa átt heima í Bretlandi eða dvalið þar, og þeim fer fjölgandi. Fótboltinn sjálfur skiptir öllu máli, en það þýðir að hafa á hreinu þá umgjörð sem hann er spilaður í, í heimalandi boltans.
Sumir kunna að spyrja af hverju næstefsta deild heiti Championship. Það er vegna þess að eftir að úrvalsdeildin kom til skjalanna sem sérstök eining, er Championship efsta deild Football League. Það lið sem vinnur deildina er því meistari Football League.
Svo mega íslenskir íþróttafréttamenn temja sér það að læra nöfn knattspyrnuliða víðar en á Englandi. Þeir sem ekki einu sinni kunna nöfn Celtic og Rangers eiga margt ólært áður en þeir geta borið fram Racing Santander rétt eða vita fyrir hvað Panathinaikos stendur. Þetta gera enskir, þannig að íslenskir eru ekki of góðir til þess.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar