Færsluflokkur: Umhverfismál
6.4.2010 | 17:29
101-veikin
Það hefur ekki vantað að fólk sýni miðbæ Reykjavíkur umhyggju. Það er spurning hvort sú umhyggja hafi alltaf skilað fólki betri bæ.
Það er rétt sem sagt er að helmingur af öllum störfum á höfuðborgarsvæðinu er vestan Kringlumýrarbrautar, meðan einn fjórði íbúa svæðisins býr á sama svæði. Lausnin sem hefur verið fundin hingað til, að byggja fleiri íbúðir á svæðinu, hefur ekki breytt þessari stöðu. Spurningin er eins og alltaf, hver er vandinn?
Rætt er um að byggja íbúðir fyrir allt að 20.000 manns á svæðum við höfnina og Hlemm. Á báðum stöðum verður einnig mikil uppbygging á atvinnuhúsnæði, enda er svæðið eftirsótt jafnt fyrir íbúðir sem starfsemi. Þá má óska þess að íbúar þarna vinni á svæðinu en það er eitthvað sem er alls ekki á hendi skipulagsyfirvalda og miðað við reynslu í Evrópu er það ekki raunin.
Þau svæði þar sem á að þétta byggð eru nú þegar þéttust fyrir. Fimmfalt fleiri búa á hverjum hektara í 101 en í dæmigerðu úthverfi. Fólk sem þannig býr hefur séð afskaplega mikið eftir grænum blettum og leiksvæðum sem hafa myndast þar sem lóð hefur verið óbyggð, Mikil ásókn í hefur verið í óbyggðu lóðirnar hvar sem slíkir blettir eru í gamla austurbænum og vesturbænum.
Þéttleikanum fylgir miklu meira álag fyrir íbúa miðað við að búa í úthverfi og spurning er hvort meta megi lífsgæði þannig að þau innifeli tryggingu fyrir leiksvæði fyrir börn, minni umferð en nú er, minni ágang vegna útigangsfólks, minni ágang vegna athafnafólks með miklar hugmyndir um næsta umhverfi þeirra sem þarna búa? Þarf að gæta að lífi þessa fólks sem þarna býr? Ef bætast við tugir þúsunda í vesturbæ Reykjavíkur auk stóraukinnar atvinnustarfsemi við höfnina, þá fer sú umferð sem myndast um tvær götur, Hringbraut og Mýrargötu. Segi hver sem vill og horfi framan í íbúa þar, að það sé í lagi.
Reynslan af borgum þar sem íbúafjöldi stendur í stað sýnir að hófleg og lítil atriði eins og aukin gróðursetning trjáa, fleiri græn svæði og varleg uppbygging hefur aukið lífsgæði og borgargæði. Við sem búum á þessari eyju stöndum núna frammi fyrir þeirri staðreynd að næstu árin mun fjölgun ekki verða teljandi og alls ekki í líkingu við það sem búist var við fyrir fjórum árum. Dæmið hefur hreinlega snúist alveg við og forsendur gerólíkar frá því sem áður var.
Þegar þéttingin þýðir að störfunum fjölgar hraðar en íbúunum er rétt að skoða aðrar lausnir. Reykjavíkurborg er einn stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Er fljótlegra að borgaryfirvöld flytji meira af starfsemi sinni austur fyrir Kringlumýrarbraut en að byggja hátimbraðar skipulagshugmyndir ofan á þær íbúðir sem nú standa tómar við höfnina?
3.4.2010 | 10:42
Skammastín stjórnmálin
Þú skalt skammast þín. Það eru til nokkuð margir sem taka stjórnmál sem ástæðu til að segja fólki að skammast sín. Alltof margir ná ekkert lengra.
Þegar ég lærði í HÍ vann ég lengst af á nóttunni og hafði ekki há laun. Þá fór ég um á reiðhjóli og grænu korti. Þetta var ekki lífstíll á þann hátt að ég hafi valið mér að vera skjálfandi á hjólinu í vetrarveðrum eða bíða langdvölum eftir vagni lengst vestur á Nesi. Ég hafði ekki efni á öðru.
Þá fékk ég nokkuð oft að heyra fólk tala fjálglega um umhverfismál og hvernig bíleign væri svo voðaleg og enginn ætti að fara um á bíl. Síðan keyrði þetta fólk burt og ég hjólaði minn veg. Mér lærðist að það væri til sérstök tegund siðfræði þar sem maður kenndi öðrum og færi svo sjálfur aðra leið.
Þetta fólk þarf öðrum fremur að segja öðru fólki að skammast sín, sama hvað gerist. Skammastín ef þú notar plastpoka (voðalegt), skammastín ef þú notar rafmagn (gildir einu hvernig það er framleitt, viðkomandi hefur heyrt svakalegar sögur frá Danmörku), skammastín ef þú keyrir jeppa þó það sé á Íslandi (sér maður Dana keyra jeppa?), skammastín bara.
Getur verið að þó við næðum að búa til rafmagn á umhverfisvænasta hátt sem til er, hafa bestu vatnsvernd í Evrópu, hreinna loft og öfundsverða stjórn á veiðum, þá myndi þetta fólk finna það hjá sér að segja okkur að skammast okkar? Ég varpa þessu fram sem spurningu, ef við næðum þessum markmiðum, hvað myndi þá gerast?
Takmörk þessa umvöndunar eru augljós. Fólki lærist fljótt að vandinn liggur hjá þeim sem er alltaf að segja öðrum að skammast sín og það er nokkurn veginn ekkert sem hægt er að byggja á þessari afstöðu.
23.4.2009 | 10:49
Kvótinn, á að laga hann eða vilja menn bara meira
Aldrei hef ég séð kvótakerfið sem eitthvert undrakerfi heldur illskásta kostinn í stöðunni. Hér verður að vera veiðistjórnun og í sóknarkerfinu sem var hér lengi var alltaf veitt mikið fram yfir heildarkvóta.
Ég ber ekki mikla virðingu fyrir óréttlætinu sem felst í núverandi kerfi og sé ekki hvernig veiðireynsla þriggja ára á níunda áratugnum á að vera grundvöllur fyrir eignamyndun um aldur og eilífð.
Ég hef lagt sitthvað á mig til að finna hvað gagnrýnendur kvótakerfisins vilja setja í staðinn og hef helst séð tvennt, að nota færeyska kerfið og svo hörð krafa um miklu hærri kvóta. Um allan heim sé ég afleiðingar þess þegar látið er undan kröfum um hærri kvóta, með þeim ummælum að annars missi fólk vinnuna. Þá er stutt í að stofnar hrynji. Dæmin um þetta eru óteljandi og bætist stöðugt við á hverju ári í flestum löndum öðrum en Íslandi.
Einn versti galli núverandi kvótakerfis er óöryggi litlu plássanna um það hvar kvótinn verður næsta ár. Ég sé nokkrar leiðir sem geta bætt þetta að einhverju leyti, eins og að bátar yfir ákveðinni stærð fái aðeins að veiða utan ákveðinna marka, til dæmis 4, 6 eða 12 mílur. Innan þeirra fái aðeins bátar sem eru til dæmis undir 15 brúttótonnum að veiða en verði einnig undir kvóta þar.
Ég óska mínum örfáu lesendum gleðilegs sumars og vona að vetur eins og þessi komi ekki aftur!
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar