Færsluflokkur: Bloggar
4.5.2008 | 22:13
Bloggvinir fagrir
Nú fer að aukast í bloggvinagarði. Birgitta og Myndlistarfélagið á Akureyri, hvorki meira né minna, vilja bætast við hjá kallinum.
Ég skaust í bæinn á þessum rokdegi og hitti gamlan skólafélaga sem hafði munninn fyrir neðan nefið, eins og fleiri í MH í þá daga. Hann nam arkitektúr, hefur búið í New York og sent pistla þaðan til landsins um skipulag, byggingalist og tengd efni.
Til dæmis skrifaði hann grein í Lesbók eftir snjóflóðin 1995 um það hvernig er hægt að lágmarka hættu vegna snjóflóða með því að byggja samkvæmt þeim, en ekki á móti þeim. Það þarf varla að taka fram að ekkert hús er þannig byggt á Íslandi þar sem ég hef séð til. 11. september 2001 bjó hann 300 metra frá tvíburaturnunum og átti fótum fjör að launa.
Í seinni tíð hefur hann skrifað um skipulagsmál í Reykjavík. Hann sagðist hafa sent inn athugasemd á bloggið hjá mér, og ég sé ekki betur en að hér fari Veffari, sem bætti við pistil hjá mér um tillögur Greame Massie og félaga. Það eru þeir sem Ólafur borgarstjóri virðist ætla að reyna að skjóta í kaf. Ég hef mikið álit á Edinborgurunum. Mér sýnist þeir um margt vera að reyna að endurtaka það sem hefur verið gert í Leith, og heppnast afar vel þar. Leith er norðlæg borg við kaldan sjó, og ég held að Massie og félagar vanmeti alls ekki aðstæður hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 23:04
Blessað Vefritið
Nú þykir mér týra á skarinu hjá gamla manninum. Hvorki meira né minna en heilt vefrit vill verða bloggvinur. Með fullri virðingu fyrir því úrvals fólki sem fyllir þennan flokk hjá mér fyrir, þá er ekkert þeirra heilt vefrit.
Ég hef nokkrum sinnum gluggað í ritið en fór núna að skoða betur hverjir skrifa það. Ég þóttist vita áður að þarna færi ungt jafnaðarfólk en af einhverjum ástæðum segjast þau tengjast hvorki stjórnmálaflokkum né félagasamtökum. Gott og vel, en þau fáu nöfn sem ég þekki þarna er ungt jafnaðarfólk.
Veri þau velkomin öll, svo lengi sem ég þarf ekki alltaf að vera sammála þeim!Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 17:51
Samúð þeirra með sjálfum sér er takmarkalaus
Það er sérkennilegt að horfa á hópa mótmæla hækkandi eldsneytisverði, hópa sem reynast svo hafa borgað lægsta eldsneytisverðið í þjóðfélaginu. Hópa sem mótmæla lögum sem ætlað er að auka öryggi á vegum landsins. Hópa sem eiga í viðskiptum og hljóta að velta eldsneytisverðinu yfir á neytandann.
Það hefur síðan komið í ljós að hlutur hins opinbera er lægri hér á landi en á Norðurlöndum og öðrum nágrannalöndum, þannig að eldsneytisverðið er þar með lægra en þar.
Þannig blasir þetta við að fólk á eftir að eiga í viðskiptum við þá sem stöðvuðu umferð til að mótmæla annars vegar hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti og hins vegar almennum reglum sem ætlað er að varðveita líf og limi. Þannig reglur eru bæði í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. Hvernig íslensk mannslíf verða öðruvísi metin á þröngum vegum landsins er enn óútskýrt.
Hvenær skyldu verða tekin upp mótmæli gegn fólki sem hefur takmarkalausa samúð með sjálfu sér og er tilbúið að skurkast í þjóðfélaginu bara til að viðskiptastaða þess batni? Er ekki hætt við að það verði ansi tímabundið? Hver vill eiga viðskipti við þannig fólk?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 23:15
Kall fær flensu
Það byrjaði í vikunni sem leið með stirðleika í löppunum. Þetta ágerðist og brátt var það meiriháttar mál að koma sér inn og út úr bílnum. Liðirnir urðu allir helstirðir og heilsan skánaði ekkert. Ég vissi ekki hvað var að gerast, en sagði við sjálfan mig að ég væri bara að verða gamall, enda gekk ég orðið um eins og væri áttræður.
Svo kom þurr háls og þorsti á þriðjudaginn. Ég átti að vera með kynningu í skólanum sem nú er búið að einkavæða, fyrirgefið setja í sameiginlega ábyrgð ríkis og rekstrarfélags. Maður mætir á kynningar og stendur fyrir sínu þó maður sé veikur, svo lengi sem það heyrist í manni. Það er búið að boða einhverja tugi manns og maður skuldar þeim að mæta. Þetta gerði ég á miðvikudaginn, lagðist svo í bælið þegar heim var komið og hef varla litið upp í tvo sólarhringa.
Þetta horfir allt til bóta og allur kallinn að skríða saman, bara með kvef. Þetta fær mig þó til að hugsa um hvernig kallar taka flensu og hvernig konur taka þetta einhvern veginn allt, allt öðruvísi. Hér er það sýnt í tjáningu Nick Frost og Daisy Haggard. Ætli estrógenið slái á þetta, eða hvernig stendur á þessum mun?
Man Cold úr Man Stroke Woman
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 14:19
Hörður Svavarsson (UNO) á Eyjunni
Ég hef tekið UNO (Hörð Svavarsson) út af bloggvinahópnum hérna til hægri.
Það er ekki út af því að hann sé slæmur maður. Ástæðan er að hann hefur flutt sig um set, er hættur að blogga á Mogga og farinn á Eyjuna.
Ég leyfi mér þess vegna að krækja frekar á hann þar. Hann verður í Tenglaflokknum hérna til hægri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2008 | 17:08
Blessuð langafastan
Undanfarna daga hafa verið haldin karnivöl um víðan heim. Carne vale þýðir að kveðja kjötið. Nú hefst nefnilega langafasta.
Hinir kristnu Íslendingar halda hana að sjálfsögðu heilaga og bragða ekki kjöt aftur fyrr en að 40 dögum liðnum, á sjálfan páskadag.
Hann er snemma á ferðinni þetta árið, eins snemma og hann getur orðið. Á morgun kviknar nýtt tungl, þorratungl. Útreikningar á því hvenær páskadagur verður geta orðið flóknar, þannig að stundum deildu kirkjudeildir um það hvenær þeir væru. Á Íslandi má miða að jafnaði við að páskadagur sé fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fulla tungl eftir þorratungl.
Nýja tunglið á morgun þýðir nýtt ár hjá stórum hluta mannkyns. Þá byrjar ár rottunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.1.2008 | 06:16
Bærilegur hversdagsleiki hversdagsins
Nú nuddar þjóðin stírurnar og tekst á við hversdaginn, fyrsta mánudag ársins.
Ýmislegt horfir til betri vegar. Um áramót skrifaði ég um að fyrst og fremst yrði veðrið að batna, svo að það viðraði betur um okkur í útivistinni!
Það er sem betur fer að ganga eftir. Þannig lítur út fyrir að hjólið verði aðalsamgöngumátinn á heimilinu þessa vikuna. Það er í fyrsta skipti síðan í október.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2007 | 16:32
Það markverðasta á þessu ári
Það markverðasta á þessu bloggi á árinu var að sjálfsögðu að það byrjaði með því að ég sendi inn grein til birtingar í Mogga. Eftirleiknum er svo lýst hér, í fyrstu alvöru færslunni og á höfundarlýsingu.
Ég kem ekki vel út úr þessu ári, ef eitthvað er að marka nýlega mynd sem var teiknuð af mér. Ekki lýgur teiknarinn, eða hvað?
Ég kom víða við í yfir 100 færslum og heiti því að halda áfram að blogga á nýju ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 09:48
Bloggarar og fréttir
Fréttablöð og bloggarar hafa átt í svolítið taugaveikluðu sambandi undanfarin ár. Í árdaga bloggsins var því kastað fram að það myndi ganga af fréttablöðunum dauðum.
Það er víst að ég myndi ekki fagna því að bloggið tæki við hlutverki þeirra. Meðferð DV á aumingjum landsins er hátíð miðað við opinberu aftökurnar sem hafa gerst á blogginu.
Sem betur fer fyrir mig eru ekki miklar líkur á að þetta gerist. Vefútgáfur hefðbundnu fréttamiðlanna eru staðurinn sem fólk sækir núna daglegar fréttir.
Það eru ekki miklar fréttir sem hafa orðið til hjá bloggurum miðað við hefðbundna fréttamiðla. Með því að fara yfir málin má sjá að það eru bloggarar sem endurskrifa fréttir sem hafa birst á vefmiðlunum, ekki öfugt.
Það er helst að það er fjör á blogginu kringum kosningar. Þá koma sögurnar fram þar. Síðan fellur allt í dróma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 00:01
Bloggvarða, 100. færsla
Eins og segir frá í næstfyrstu bloggfærslunni hér, þá ætlaði ég ekki að blogga. Ég sendi inn grein til birtingar í Mogga, sem ákvað að birta hana sem netgrein. Moggi stofnaði síðan bloggið.
Ég hef bloggað 100 færslur, mest um stjórnmál og samfélag, með umhverfið sem megináherslu. Það er ekki ýkja mikill lestur á þessu enda er ég ekki á þeim miðum sem mesti lesturinn er á Moggabloggi. Það er ekki ætlunin.
Það verður því haldið áfram á sama hátt.
Bloggar | Breytt 8.12.2007 kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar