Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
29.2.2008 | 23:15
Kall fær flensu
Það byrjaði í vikunni sem leið með stirðleika í löppunum. Þetta ágerðist og brátt var það meiriháttar mál að koma sér inn og út úr bílnum. Liðirnir urðu allir helstirðir og heilsan skánaði ekkert. Ég vissi ekki hvað var að gerast, en sagði við sjálfan mig að ég væri bara að verða gamall, enda gekk ég orðið um eins og væri áttræður.
Svo kom þurr háls og þorsti á þriðjudaginn. Ég átti að vera með kynningu í skólanum sem nú er búið að einkavæða, fyrirgefið setja í sameiginlega ábyrgð ríkis og rekstrarfélags. Maður mætir á kynningar og stendur fyrir sínu þó maður sé veikur, svo lengi sem það heyrist í manni. Það er búið að boða einhverja tugi manns og maður skuldar þeim að mæta. Þetta gerði ég á miðvikudaginn, lagðist svo í bælið þegar heim var komið og hef varla litið upp í tvo sólarhringa.
Þetta horfir allt til bóta og allur kallinn að skríða saman, bara með kvef. Þetta fær mig þó til að hugsa um hvernig kallar taka flensu og hvernig konur taka þetta einhvern veginn allt, allt öðruvísi. Hér er það sýnt í tjáningu Nick Frost og Daisy Haggard. Ætli estrógenið slái á þetta, eða hvernig stendur á þessum mun?
Man Cold úr Man Stroke Woman
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 14:19
Hörður Svavarsson (UNO) á Eyjunni
Ég hef tekið UNO (Hörð Svavarsson) út af bloggvinahópnum hérna til hægri.
Það er ekki út af því að hann sé slæmur maður. Ástæðan er að hann hefur flutt sig um set, er hættur að blogga á Mogga og farinn á Eyjuna.
Ég leyfi mér þess vegna að krækja frekar á hann þar. Hann verður í Tenglaflokknum hérna til hægri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2008 | 00:09
Viðtal við Hlyn Hallsson
Hlynur Hallsson tekur þátt í samsýningu í Sjanghæ í lok febrúar sem nefnist European Attitude. Eins og þeir sem til hans þekkja vita, þá hefur hann heilmikið af því.
Hér er viðtal sem Ágúst Ólafsson tók við hann, flutt á Morgunvakt RÚV 20. febrúar. Það verður aðgengilegt til 4. mars.
Hlynur er einn af bloggvinunum hérna til hægri.
21.2.2008 | 23:54
No country for old men
Þetta er sérkennileg mynd. Hafa Coen-bræður skrifað emjandi gamanmynd og ákveðið á miðri leið að verða alvarlegir og eiga möguleika á Óskarsverðlaunum?
Þegar ég sá myndina fannst mér hlutverk Anton Chigurh vera aðalhlutverkið, það sem myndin hverfist um. Það þarf að hafa góðan leikara til að halda uppi meginhlutverkinu. Javier Bardem er meira en góður í myndinni. Hann gæðir þennan sálarlitla morðingja þvílíku lífi að bæði hryllingur og unun er að sjá.
Sálarleysi Chigurh olli mér heilabrotum. Maður sér hann murka lífið úr mörgu saklausu fólki. En fær maður að vita hvað drífur hann áfram? Stundum er hann eins og zombí í leit sinni að tveimur milljónum í tösku, stundum eins og Wile E. Coyote að elta Roadrunner. Roadrunner er þá veiðimaðurinn Llewelyn Moss, sem Josh Brolin leikur.
Gæðaleikarar eins og Woody Harrelson og Tommy Lee Jones verða að aukapersónum þegar þessi eltingaleikur berst fram og til baka um vesturhluta Texas og yfir landamærin hjá Rio Grande. Hafa Coen verið að horfa á vestra eftir John Ford með því nafni, eða A touch of evil? Að sjálfsögðu.
Það er eitt sem setur svip á myndina fyrir utan hárgreiðslu Chigurh, sem er tímasetningin. Það hefði verið öðruvísi að sjá þennan eltingaleik tímasettan árið 2006 með staðsetningartækjum, heldur en að láta hann gerast 1980. Tæknin er fremur frumstæð fyrir okkar tíma og eykur spennuna.
Afbragðsgóð mynd.
20.2.2008 | 19:47
Snúningsárið 2008?
Það er hátt olíuverð, erfitt um lánsfé, minnkandi þorskafli og uppsjávarafli gæti verið að bresta. Fyrir 20 árum hefði þetta þýtt fólksflótta frá landinu.
Ástandið er um margt betra en þá. Árin 1985 til 1994 komu sæmileg ár, stöðnunarár og ár sem efnahag hrakaði. Þegar upp var staðið hafði efnahagur staðið í stað í 10 ár.
Það var margt reynt til að koma honum upp úr sporunum. Ríkisstjórnin gekk á eftir fjárfestum með grasið í skónum og reyndi að fá þá til að setja upp álver, fiskeldi og hugmyndir um krókódílaeldi eða búskap með risarækjur áttu greiðan aðgang á hæstu stöðum.
Það er greinilega allt annar tími, þar sem tvö álver eru í bígerð og bankarnir helst að hugsa sig um hvort þeir eigi að starfa áfram á landinu eða flytja höfuðstöðvar til annarra landa. Þetta er breyting frá 1994. Fjármál ríkisins eru í góðu lagi eftir 13 feit ár og jafnvel stærstu sveitarfélögin hafa verið að snúa við rekstri á síðustu árum.
Samt má sjá gífurlegar breytingar sem verða ef bæði þorskafli og loðna minnka á sama árinu um leið og lánsfé fæst varla og olía er í hæsta verði. Aðflutningur til landsins og sérstaklega til landsbyggðar hættir og flutningur til baka hefst, nema á þeim stöðum sem enn eru framkvæmdir. Þetta ár verður það aðeins á svæðinu sunnan Hvalfjarðar, eins og mál líta út núna. Það verður stóri snúningurinn árið 2008 ef þetta ástand breytist ekki.
Olíuverð setur nýtt met | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.2.2008 | 02:55
Milljarðamál hjá einum af okkar minnstu bræðrum
Ísland, Noregur og Liechtenstein mynda EES-svæðið með Evrópusambandinu. Ég heimsótti í sumar þennan minnsta bróður í þessu sérkennilega sambandi, sem vann sér það til frægðar að skella landsliðinu okkar á Rínarbökkum síðastliðið haust. Landið hefur lengi verið bankamiðstöð og jafnvel talað um það sem skattaparadís. Þegar ég leit í morgunmat heyrði ég nærstadda segja Geld bewegt die Welt og var þá fljótur að finna mér aðra staði að snæða. Þetta þýðir að peningar hreyfi heiminn og rímar þegar sagt er með linmæltum framburði furstadæmisins.
Þarna er hægt að setja upp eignarhaldsfélög með litlum tilkostnaði. Lögfræðingur setur upp fyrirtæki með pósthólfi í furstadæminu. Það greiðir eignaskatt sem svarar 0,1%. Fjármagnstekjuskattur er enginn. Eignarhaldsfélagið er með umboðsmann í ríkinu. Nafn þess sem á fyrirtækið og þar með eignirnar þarf ekki að koma fram. Sannkölluð skattaparadís.
Nú er furstadæmið svo sannarlega í fréttum. Fyrrum forstjóri Deutsche Post, Klaus Zumwinkel og fjöldi annarra framámanna í þýsku fjármálalífi virðast hafa stungið undan fé og geymt í Liechtenstein. Í mörgum löndum og þar á meðal í Þýskalandi er pósturinn risafjármálastofnun með innláns- og lifeyrisreikninga.
Lögregluaðgerðin til að rekja slóð peninganna var umfangsmikil. Upplýsingarnar virðast hafa komið frá fyrrum starfsmanni bankans LGT sem rændi trúnaðargögnum og bauð þau til kaups undanfarið eitt og hálft ár. Lögreglan reynir nú að hafa upp á bróður póstforstjórans, Hartwig Zumwinkel, sem líklega er staddur á Mæjorku. Sambandsstjórnin í Berlín hefur snardregið úr viðskiptum við furstadæmið. Otmar Hasler, forsætisráðherra Liechtenstein mun eiga viðræður við framámenn í Berlín í dag, miðvikudag.
Annað sem komið hefur í ljós er að bankar í Liechtenstein virðast geyma fé sem kom frá SED, flokknum sem réð Austur-Þýskalandi. Arftaki hans, PSD og nú vinstriflokkurinn Die Linke, vill að sjálfsögðu fá yfirráð yfir fénu. Angela Merkel virðist fá nóg um að ræða við Hasler í Berlín í dag.
Spiegel Online segir frá.
20.2.2008 | 02:54
Wikipedia neitar að taka burtu myndir af spámanninum
Í kaflanum um Múhameð spámann í ensku Wikipediunni eru gamlar persneskar (íranskar) myndir af spámanninum.
Hart hefur verið lagt að þeim sem skrifa í alfræðiritið að taka þessar myndir burtu, en það hefur ekki enn gerst.
Sunni-múslimar og Shia-múslimar, sem eru fjölmennir í Íran, hafa ekki alveg sömu sýn á það hvort það teljist leyfilegt að sýna andlit spámannsins.
Pakistönsk stjórnvöld mótmæla Múhameðsmyndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 02:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2008 | 00:36
Að draga mannfólk í dilka
Á Íslandi á að heita í orði að allir hafi jafnan rétt til að skapa sér lífsviðurværi og finna sér starfsgrundvöll.
Á borði reyna síðan stjórnmálamenn að búa sér til sína eigin aðskilnaðarstefnu eftir duttlungum hverju sinni. Þannig ertu ekki góður fyrir sumum ef þú vogar þér að vinna í álveri, fyrir öðrum ef þú vogar þér að búa á höfuðborgarsvæði.
Þú færð sérstakan afslátt á skatti ef þú stundar sjó, býrð til kvikmyndir eða stundar kvikfjárbúskap. Þú færð ekki þennan afslátt ef þú býrð til tónlist eða ræktar grænmeti.
Rökin eru iðulega þau að það þurfi að leiðrétta ójafnrétti sem hafi viðgengist. Athugaðu vel að ójafnréttið sem þú býrð við hefur aldrei verið leiðrétt af þessu fólki. Athugaðu vel hvernig gæska þeirra getur snúist. Kannski verður ekkert fínt að draga fisk úr sjó eftir fimm ár, eða búa til bíó.
Hvað er það sem gerir fólk sem vinnur við verslun, þjónustu og iðnað að annars flokks borgara? Ástæðan er að það kýs fólk sem lætur þannig á þing. Aftur og aftur.
19.2.2008 | 21:44
FBR, fullorðin börn á Range Rover
Ein tegund fólks mun fara illa út úr samdrætti ef hann skellur á. Það er sú tegundin sem kom sér vel fyrir á raðgreiðslum.
Einn hluti raðgreiðslufólks er tekjuhár og samfélagið skuldar þeim að heilsa þeim á götu. Það sem stoppar almenning í að sýna þeim virðingu er að þau eru blanda af sæmilega gefnu fólki í mörgu og algerum vitleysingum í fjármálum.
Með yfirdráttinn stilltan á yfir milljón og fullnýttan, með raðgreiðslur á svipuðum nótum í hverjum mánuði, með skuldir hér og skuldir þar, er þetta fólk ómetanlegt fyrir hluthafa bankanna. Þetta eru fullorðin börn á Range Rover, FBR.
Þau borga stóran hluta af 70 milljörðum sem Íslendingar greiða fyrir yfirdrátt árlega og greiðslukortafyrirtækin væru verr sett án þeirra.
18.2.2008 | 00:11
Starfsánægja á landsbyggðinni
Eitt af því sem skiptir miklu fyrir landið utan Reykjavíkur er að fá fleiri opinber þjónustustörf, hvort sem það er fyrir hámenntaða eða fólk án langrar skólagöngu.
Eitt verkefni sem er rakið dæmi að verður unnið betur á landsbyggðinni er að fara yfir upptökur umferðamyndavéla í Reykjavík. Þetta er starf sem kostar mannskap því að það er mannlegt auga sem verður að sjá og skrá brotið.
Á landsbyggð er meiri möguleiki að fá fólk til að haldast í vinnu, sætta sig við einhæft starf á föstum launum og að sekta Reykvíkinga.
Ég held að þetta síðastnefnda þýði að ánægja við vinnu haldist mikil og þarna sé innbyggður hvati fyrir marga starfsmenn á landsbyggð að halda sig við efnið. Með fullri virðingu.
Umferð fer vaxandi í Reykjavík um leið og lögregla hefur minni tími til að standa við göturnar í alls kyns veðrum, enda upptekin við að fanga brotafólk af alvarlegra tagi. Myndavélum mun því fjölga og um leið því fólki sem fer yfir upptökurnar úr þeim.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar