Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
30.11.2007 | 01:35
Kitschmas - gjafir sem minna á andlegu hlið jólanna
Skyldi það vera rétt sem mörgum finnst, að hinn sanni andi jólanna hverfi í kaupæði og almennu brjálæði? Hvers vegna ætli þetta sama fólk fari þá svona gjörsamlega úr sambandi fyrir jólin?
Ég kann ekki svar við þessu en kom auga á Kitschmas-síðuna sem tekur saman gjafir sem minna á hinn sanna anda jólanna. Þær gera þó ekki betur en bara að minna á hann. Hver vill ekki eignast minnislykil í mynd Maríu, nálapúðann heilagan Sebastian eða Jesús á mótorhjóli?
Maður þarf eiginlega að segja Jesús á mótorhjóli á ensku til að skilja gildi síðasttöldu gjafarinnar. Heilagur Sebastian var særður með örvum eins og þekkt er af arfsögninni.
Vatíkans-borðspilið, þar sem sex kardínálar keppa um páfatign, hlýtur að kóróna þessar gjafir. Það eru síðan níu aðrar gjafir á síðunni fyrir þau sem vilja forvitnast um jólagjafir trúrækinna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2007 | 00:03
Hliðarspor
Hliðarspor er fyrsta skáldsaga Ágústs Borgþórs Sverrissonar. Hann er að fikra sig af smásögum yfir á stærra svið, en þetta er nóvella (stutt skáldsaga með inngangi, meginmáli og lokaþætti), vel uppbyggð og snyrtilega hnýtt í endann.
Veikleikarnir liggja í smáatriðunum. Samtöl eru sum fremur formleg. Tölvupóstur leikur stórt hlutverk og það er líka stirt að lesa hann. Frásögnin er betri, enda hefur Ágúst reynslu á því sviði.
Framvindan er góð enda segir nóvellan stutta sögu af tveimur köllum og þremur ungum konum á litlu svæði.
Nokkuð gott.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2007 | 00:03
Best að búa á Íslandi, en hvar á landinu?
Nú er ég forvitinn. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er Ísland hæst á lista yfir lífsgæði þetta árið. En hvar á landinu skyldu lífsgæðin vera mest?
Það kann að velta á því hvort spurt er eftir mælikvörðum SÞ (ævilíkur, menntunarstig og framleiðsla á haus) sem leiðir okkur líklega á Nesið eða í Garðabæinn, eða hvort við leyfum okkur að leggja áherslu á aðra þætti.
Er betra að hafa greiðan aðgang að Kaffitári eða geta gengið um Grábrókarhraun? Ég veit ekki betur en að hver sveit sem ég hef komið í á Íslandi sé sú fegursta á landinu að mati heimamanna, og ég hef komið í þær flestar.
Skiptir það máli að hafa barnaskara í kringum sig? Margir staðir á landinu virðast miklir sælustaðir, en svo tekur maður eftir að það vantar unga fólkið, og þar með börnin.
Svo er rétt að taka fram að ég hef búið bæði á Nesinu og í Norðurárdalnum, í Hlíðunum, á Höfn og í Hornbjargsvita, Kvosinni og Kópavogi og þess utan unnið um allt land.
Ég ætla að sjá hvað fólki finnst með því að gera könnun á málinu, sjá efst til hægri á síðunni.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 02:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2007 | 21:39
Unnið myrkranna á milli
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 18:42
Skjálfti færist í rithöfunda
Aldrei hef ég öfundað höfunda fyrir jól. Hvað þá útgefendur.
Nú byrjar sá tími að bæði höfundar og útgefendur fara að titra nokkuð. Hvernig skyldi bókum mínum vegna? Seljast nógu margar fyrir jólin? Það eru yfir 800 titlar í Bókatíðindum, bæði nýjar bækur og eldri, og annar eins fjöldi bókatitla sem ekki finnst þar, sem slást um sölu nú fyrir jólin.
Þá hefur þetta reynst tími stórkarlalegra yfirlýsinga um ágæti höfunda. Einn er nefndur arftaki þjóðskálda, annar svar við metsöluhöfundum erlendis, sú þriðja verður að erfðaprinsessu.
Svo kemur að þeim tíma þegar einum finnst einhver ritdómarinn hafa vegið illilega að sér, kannski út af gömlu rifrildi við barinn á Borginni eða Þjóðleikhúskjallaranum. Skammirnar fara að dynja á Þórhalli Gunnarssyni ef ekki er nógu ljúfmannlega rætt um eina bók í Kastljósinu, eða á Agli Helgasyni ef Kiljan fjallar ekki um aðra.
Svo koma jólin og sem betur fer hverfur skjálftinn. Svo er að takast á við nýtt ár, nýja bók og stundum nýja útgáfu.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 00:03
Andfætlingar skipta um stjórn
Sigur Kevin Rudd og Verkamannaflokksins í Ástralíu teljast nokkur tíðindi. Siðast þegar var kosið litu meginmálin svipað út. John Howard var legið á hálsi fyrir gagnrýnislausa þátttöku í hernámi Írak (þátttaka Ástrala í Víetnam var mikil á sínum tíma), litlar aðgerðir í umhverfismálum og mikla fylgispekt við Bush. Efnahagurinn var með ágætum og skilaði honum sigri 2004 eins og þrisvar sinnum fyrr.
Eitthvað hefur breyst núna. Andstaða gegn þátttöku í hernámi Írak hefur vaxið. Helsta verkefni Verkamannaflokksins var þess vegna að fá fólk til að treysta því að þau gætu farið jafn vel með stjórn efnahagsmála og Howard hefur gert.
Breytingin sést meðal annars á þeim manni sem oft gengur Rudd á vinstri hönd í fréttamyndum, Peter Garrett. Hann er hreint ekki óþekktur, skuggaráðherrann fyrir listir og umhverfismál, áður söngvari Midnight Oil. Hann reyndi fyrir sér í stjórnmálum með því að stofna eigin flokk 1984 en gekk til liðs við Verkamannaflokkinn tuttugu árum seinna fyrir atbeina Mark Latham. Ýmsum hefur þótt nóg um hversu honum er hampað. Hann bauð sig fram í öruggu kjördæmi fyrir Verkamannaflokkinn en hefur aukið fylgi flokksins þar. Hann telst líklegastur til að sinna umhverfismálum í nýrri stjórn.
Latham tapaði kosningunum 2004 og varð gjalda fyrir með formannssætinu. Hann hafði þó áður boðið Maxine McKew, vinsælli sjónvarpsfréttakonu, að bjóða sig fram fyrir flokkinn. Þegar þetta er skrifað virðist hún munu vinna þingsæti Bennelong og hafa það af John Howard, sem hafði haldið sætinu í 33 ár. Almennt hefur Verkamannaflokkur fengið um 6% meira en í síðustu kosningum og virðist ætla að ná meirihluta í neðri deild þingsins.
Howard hafði verið legið á hálsi að hafa ekki látið stjórnartaumana ganga til Peter Costello, sem sækist eftir formannssæti í Frjálslynda flokknum. Það er áhugavert fyrir unnendur gamalla grínmynda að einn keppinauta Costello um þetta sæti heitir Tony Abbott. Howard má segja það til sannmælis að hann hafði unnið fjórar kosningar áður, og að Costello er alls ekki sjálfkjörinn formaður að Howard gengnum.
Áhrif umhverfisverndarsinna verða meiri en bara þau að Garrett sé kominn til metorða í nýrri meirihlutastjórn. Eins og talning stendur þegar þetta er skrifað, gætu tveir þingmenn Græningja lent í oddaaðstöðu í Senatinu.
Það lítur þess vegna ekki út fyrir annað en breytingar á stjórnarstefnu Ástrala í umhverfismálum og í málefnum Írak. Þær munu hafa áhrif langt út fyrir landsteinana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2007 | 00:06
Hversu lengi Ríkisútvarp?
Hversu lengi mun ríkið reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar?
Allir vita að öryggishlutverki þeirra má hæglega gegna með því að almannavarnir geti komið inn í dagskrá þeirra stöðva sem eru með útvarpsleyfi, þegar það á við.
Það er ekki hægt að halda því fram að það sé stöðug neyð á Íslandi sem krefjist sérstakra ríkisstöðva árið um hring.
Áskriftin hefur verið bundin við þá sem eru með viðtæki, líkt og í Bretlandi og víðar, og hefur mörgum þótt það blóðugt. Þetta mun færast á nýtt stig þegar fastur nefskattur leggst á í janúar 2009. Af öllum sköttum er nefskattur yfirleitt óvinsælastur. Menntamálaráðherra hefur dregið aðeins úr óvinsældum skattsins með því að gera aldraða og lágtekjufólk (raunverulegt lágtekjufólk, athugið) undanþegið honum.
Eigi að síður má búast við að umræða um sérstakar ríkisstöðvar færist á nýtt stig fyrir næstu kosningar.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 12:34
Verkfall handritshöfunda í Hollywood
Mér reiknast til að verkfall handritshöfunda í Kaliforníu fari að hafa áhrif á Íslandi eftir um eitt ár. Við fáum þætti um hálfu til einu ári síðar en þeir eru sýndir í Bandaríkjunum.
Það er svipað og teiknimyndasögurnar í blöðunum. Þær eru í jólaskapi hér í maí, halda upp á Halloween hér um páska og eru um þessar mundir í Valentínusarskapi.
Einu sinni var þetta svipað með bíómyndir. Áhorfendur vildu sjá þær fyrr og bíóeigendur, þá aðallega Árni Samúelsson í SAM-bíóunum og síðar Jón Ólafsson, sömdu um að fá þær fyrr hingað.
Þetta var einfaldlega það sem kauprík þjóð bað um og þá fékk hún það. Þess vegna held ég að það fari eins með sjónvarpsþættina.
Fréttir af því að fyrsta myndin sem muni líða fyrir verkfallið sé undanfari (prequel) Da Vinci Code vekur engan grát.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 00:04
2 milljarða afgangur hjá Reykjavíkurborg
Um nokkuð skeið hefur ríkissjóður skilað afgangi. Sem betur fer hefur þessu fé verið varið til að greiða upp skuldir. Það kemur framtíðarþegnum vel og lækkar vaxtagjöld hjá þegnum samtíðarinnar.
Skugga hefur borið á þar sem sveitarfélög hafa safnað skuldum á sama tíma. Það þýðir að fólk hefur verið jafnsett um skuldirnar, þó mismunandi eftir sveitarfélögum.
Nú eru stærstu (fjölmennustu) sveitarfélögin að skila afgangi. Reykjavíkurborg hyggst skila 2 milljörðum á næsta ári. Það er mikilvægt að þau greiði líka niður skuldir fremur en að nota tækifærið til að lækka verð á heitu vatni, svo dæmi sé tekið.
Skyldu þeir hrósa Degi núna sem hafa mótmælt skuldasöfnun sveitarfélaga undanfarin ár? Það er bara að bíða og sjá.
Við fyrstu sýn er helst að sjá að eignasvið borgarinnar eigi að skila öllum hagnaðinum, þannig að það fellur á framkvæmdastjóra þar að standa undir áætluninni.
21.11.2007 | 01:30
Hvernig á ekki að einkavæða
Fyrir 2 árum var Síminn seldur á 66,7 milljarða. Það kom vel út fyrir ríkissjóð sem var með afbragðs afkomu það árið.
Af því að þetta var opinbert fyrirtæki, það er að segja í eigu almennings, var ákveðið að láta andvirðið renna til þjóðþrifamála. Um þetta voru sett lög nr. 133/2005.
Til að þjóðin missti ekki alveg af fyrirtækinu var líka ákveðið að setja 30% hlutafjár þess á almennan markað. Þetta mátti gera hvenær sem er á tímabilinu til ársloka 2007.
Í frétt forsætisráðuneytis var meðal annars sagt frá að 15 milljörðum króna yrði varið á árunum 2007 - 2010 til framkvæmda í vegamálum, m.a. til byggingar Sundabrautar, fyrst yfir í Grafarvog og síðan, með tilstilli einkaframkvæmdar, um Álfsnes upp á Kjalarnes.
- Fé til uppbyggingar Sundabrautar bíður. Fólk hefur heyrt nógu margar skýringar á því hvers vegna hún er ekki komin en það er ljóst að það verður ekki fyrir árslok 2010. Sökinni má varpa víða og hefur verið reynt að gera það. Niðurstaðan er sú sama fyrir íbúa Grafarvogs, Mosfellsbæjar og þá sem fara vestur og norður á land.
- 30% hlutafjár Símans hf. verður ekki skráð á almennan hlutabréfamarkað fyrir árslok 2007.
Talsmenn einkavæðingar ættu að athuga að fólk verður að læra að treysta því að rétt sé með hana farið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar