Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hugrakkir stjórnendur OR

Sem óbreyttur borgari í Reykjavík finnst mér forstjóri og lögfræðingar OR vera nokkuð hugrakkt fólk svo ekki sé sterkara til orða tekið.

Frávísunarkrafa verjenda OR kann vel að standast lögformlega. Um það dæmi ég ekki, þar sem ég þekki ekki málið í þeim smáatriðum sem þarf til að geta um það sagt. Úr því verður skorið á mánudaginn kemur.

Það sem kemur mér á óvart er að stjórnendur OR skuli leggja fram slíka kröfu gegn borgarstjórnarfulltrúa úr meirihlutanum. Ég veit ekki betur en að Svandís Svavarsdóttir sé á leið í stjórn OR. Ég ætla ekki að gera Ástráði Haraldssyni upp skoðanir, en geri ráð fyrir að vilji hans í stjórn OR núna liggi ekki órafjarri vilja Svandísar.

Það sama gildir um álit Júlíusar Vífils Ingvarssonar á ólögmæti fundar 3. október. Hann situr núna í stjórn OR ásamt Kjartani Magnússyni fyrir hönd minnihlutans og afstaða þeirra hefur verið býsna skýr, þar sem þeir hafa ekki fallist á skilning stjórnenda.

Hvernig ætla stjórnendur OR að vinna með stjórn fyrirtækisins næstu mánuði?


mbl.is Júlíus Vífill er ósammála skilgreiningu borgarlögmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þessi 1. deild í ensku knattspyrnunni?

Það er ekki hægt að biðja um að allir fylgist vel með öllu, en það er hægt að fara fram á að fréttafólk sem afmarkar sig við ákveðið efni viti hvað það er að tala um.

Mér finnst ekki gott að hlusta á lýsingar Íslendinga á enskri knattspyrnu, enda of góðu vanur frá Bretlandi, þar sem eru topplýsendur á hverjum leik. Það sem vantar hjá íslensku íþróttafréttamönnunum hefur of oft verið að þeir eru hreinlega ekki nógu vel að sér til að halda uppi lýsingu á rúmlega 90 mínútna leik.

Þannig tók þá nokkur ár að uppgötva að efsta deildin í enskri knattspyrnu hét ekki lengur fyrsta deild, heldur úrvalsdeild (Premier League) eftir 1992. Þá urðu deildirnar þar fyrir neðan 1., 2. og 3. deild (Football League First division, Second division, Third division).

Það breyttist svo árið 2004. Þá heitir næstefsta deild meistaradeildin (Championship) og deildirnar þar fyrir neðan deild 1 (League One) og deild 2 (League Two). Enn ræða íslenskir íþróttafréttamenn, eða að minnsta kosti allt of margir þeirra um 1. og 2. deild, en eiga við meistaradeild og deild 1.

Nú finnst mörgum stungin tólg og tala um að allir viti nú hvað átt er við, að fáir fylgist með neðri deildunum og að það sé nú fótboltinn sem skipti öllu máli.

Það er ekki rétt, ég veit ekki hvort er átt við næstefstu deild eða þá þriðju efstu þegar rætt er um 1. deild í ensku knattspyrnunni. Það eru margir sem fylgjast með neðri deildunum, ekki síst þeir sem hafa átt heima í Bretlandi eða dvalið þar, og þeim fer fjölgandi. Fótboltinn sjálfur skiptir öllu máli, en það þýðir að hafa á hreinu þá umgjörð sem hann er spilaður í, í heimalandi boltans.

Sumir kunna að spyrja af hverju næstefsta deild heiti Championship. Það er vegna þess að eftir að úrvalsdeildin kom til skjalanna sem sérstök eining, er Championship efsta deild Football League. Það lið sem vinnur deildina er því meistari Football League.

Svo mega íslenskir íþróttafréttamenn temja sér það að læra nöfn knattspyrnuliða víðar en á Englandi. Þeir sem ekki einu sinni kunna nöfn Celtic og Rangers eiga margt ólært áður en þeir geta borið fram Racing Santander rétt eða vita fyrir hvað Panathinaikos stendur. Þetta gera enskir, þannig að íslenskir eru ekki of góðir til þess.

 


If I can make it there, I'll make it everywhere

Spár um hverjir muni kljást í forsetakjörinu í Bandaríkjunum að ári liðnu markast af tvennu.

Á demókratavæng virðist Clinton vera óstöðvandi. Hún kemur rétt fyrir í ræðustól, safnar meira fé en nokkur annar, hefur þrautreynda kosningavél og að því er virðist öll spil á hendi. Þá er einungis eftir spurningin, líkar kjósendum við hana?

Þá gerist það að fólk fer ósjálfrátt að leita að andstæðingi Clinton repúblikanamegin og staðnæmast við Guiliani. Mér virðist að fólk máti saman andstæðinga frá New York. Ég er ekki alveg viss um að þjóðin sé svo hrifin af því sem gerist í New York. Til dæmis er Guiliani mjög nálægt miðju, ólíkt síðustu forsetum repúblikana, Reagan og Bush-feðgum.

Ég fylgist náttúrulega aðeins með úr fjarlægð, en það gera líka flestir kjósendur að ári liðnu. Við fáum þetta allt saman gegnum sjónvarp og aðra miðla.

Eins og mál standa, virðist þó Clinton eiga meiri möguleika að fá tilnefningu sín megin en Guiliani á sínum væng. Það er ekki víst að demókratar græði á því. 


mbl.is Spá því að Clinton og Giuliani muni kljást í forsetakjörinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfið er skepna

Umhverfisvernd á Íslandi árið 2007 sýnir ekki beinlínis mikla tilfinningu fyrir náttúru. Þess í stað er rifist um hvaða iðnaður teljist góður og hver slæmur. Mörgum þykir furðulegt þegar umræða um umhverfisvernd snýst svo mikið um verndun á sjötugu iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ sem raskaði öllu sínu umhverfi á sínum tíma og litaði Varmá í öllum klæðalitum.

Þetta er engin fjarstæða. Margir hugsa fyrst og fremst um umhverfi sem náttúru. Umhverfi er  öllu víðtækara eins og sést þegar lesendur þessara orða segja við sjálfa sig „nánasta umhverfi” og líta svo í huganum yfir hvað það er. Það er ljóst að orðið náttúra ræður engan veginn við það, heldur hugsar fólk um alls kyns manngerða hluti og stofnanir, vinnustað, skóla, verslanir, þá staði sem það ver frístundum og svo kannski náttúru.

Nýleg skilgreining hljóðar þess vegna svona: „Umhverfi: Samheiti fyrir samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta.“ (Lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, 2. grein.) Það er ljóst að skilgreiningin er víðtæk. Margir munu vilja skilgreina umhverfi þrengra en þetta skýrir hvernig á því stendur að fjöldi fólks sér það sem helstu umhverfisvernd að halda hlífiskildi yfir gömlu iðnaðarhverfi.

Verndun Álafosshverfis er ekkert eindæmi. Um allt land er fólk sem dregur taum eldri iðnaðar á kostnað þess sem á að koma. Þannig heyrist lítið talað um mengun og umhverfisvá af fiskimjölsverksmiðjum, járnblendiverksmiðju og sementsverksmiðju, en álver teljast ill. Hér verður ekki dregið í efa að álver mengi. Það virðist skipta meira máli hver á og rekur iðjuverin en ekki hversu mikið þau mengi. Einnig skiptir máli hvort iðnaðurinn hafi haslað sér völl fyrir meira en mannsaldri, þannig að núlifandi fólk þekki ekki annað en að þessi mengun hafi verið til staðar. 


Röskuð eða óröskuð náttúra

Til er fólk sem talar um óraskaða náttúru á Íslandi og telur það umhverfisverndarstefnu að raska núverandi náttúru sem minnst. Það er þó greinilegt á öllum heimildum, bæði rituðum og náttúrulegum, að íslensk mannskepna hefur breytt ásýnd landsins svo um munar frá landnámi. Fyrirrennarar okkar náðu að breyta öllu landinu nema jöklunum. Það var ekki fyrr en með 20. öldinni sem mannskepnan náði að hafa áhrif á viðgang þeirra.

Nýlegar rannsóknir á minjum um skóga benda til að breytingin hafi verið mest fyrstu þrjár aldir búsetu en þær átta sem fylgdu voru hreint ekki áhrifalausar heldur.

Það er þess vegna ekki spurningin um hvort fólk vilji breyta landinu, heldur hvernig. Hugmyndir um að við getum bætt fyrir það sem gert hefur verið krefjast þess að fólk viti vel hvert ástandið var.

Hvað sem gert verður krefst þess að fólk viti vel hvaða afleiðingar það hafi að koma hlutum í það horf sem vilji stendur til. Það er rétt að hafa í huga þegar rætt er um óraskaða náttúru að þar fer oft minni þekking en efni standa til.


Án bíls?

Hjólreiðafólki lærist fljótt að á það er litið sem skemmtilega og skrýtna sérvitringa sem eigi þó hvorki að vera á gangstéttum né götum, heldur einhvers staðar þar á milli eða annars staðar. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa búið til stíga fyrir reiðhjól sem þræða lengstu leiðir í borgarlandinu. Hjólafólk á að deila þeim með gangandi og hlaupandi fólki. Það rennur upp fyrir þeim sem nota þessa stíga að þeir voru hugsaðir fyrir frístundahreyfingu en ekki sem samgönguleiðir. Þeir sem vilja nota hjólið til daglegra nota þurfa enn að deila gangstéttum og götum með vegfarendum þar. Það verður þó að taka fram að Reykjavík er framarlega í lagningu hjólreiðastíga, og að þetta verkefni er einnig á höndum samgönguyfirvalda í landinu.

Spurning Magnúsar Bergssonar á landsfundi VG fyrr á þessu ári um það hvernig fólk hefði komið á þann fund var ekki að ástæðulausu eins og svör fundargesta sýndu. Enginn notaði almenningssamgöngur, enginn kom gangandi á fundinn og enginn kom hjólandi nema Magnús og einn fundargestur sem gaf sig fram síðar. Skýringuna er meðal ananrs að finna meðal íslensks „útivistarfólks” sem nota sérstaklega stækkaða og breytta jeppa. Eigendur þannig jeppa segjast oft þurfa að eiga þá til að komast á fjöll þegar svo ber undir. Þegar nánar er að gáð eru eigendurnir í bæjum og borg meira en 330 daga á ári og nota þessi hálfvöxnu tröll til að komast þar á milli staða. Svokölluðum borgarjeppum (SUV, sports utility vehicles) fer nú fjölgandi og mun halda áfram meðan landsmenn hafa efni á þeim eða telja sig hafa efni á þeim. Fundargestir VG fara ekki endilega þar fremst í flokki en eru greinilega að minnsta kosti alveg jafn miklir einkabílanotendur og fólk í öðrum flokkum.

Umhverfisstefnan er meiri í orði en á borði. 


Umhverfisstefna Íslendinga

Íslendingar eru allir umhverfissinnar þegar við þá er rætt. Það er sérstök tegund umhverfisverndarstefnu miðað við það sem gengur og gerist í heiminum. Að mörgu leyti sýnir umræðan að Íslendingar eru að færast nær því sem jarðarbúar halda almennt, en nokkur dæmi sýna skýrt að þjóðin er sér á báti. Oft virðist það einmitt gert til að undirstrika meinta sérstöðu lands og þjóðar.  

Almennt er umhverfisvernd þjóðarinnar meiri í orði en á borði en það sést víðar um heiminn. Um það geta þeir vitnað sem hafa reynt að spara orku, þeir sem ekki aka um á bílum, þeir sem vilja vernda lífríki á sjó og landi, þeir sem hafa farið fram á að sá sem mengar borgi brúsann og á annan hátt unnið að umhverfisvernd á þann hátt sem víðast er talið henni til framdráttar. Þannig fólk gæti hafa notað reiðhjól síðustu tuttugu ár en ekki mengandi bíla. Þannig fólk er álitið skrýtnar skepnur á Íslandi.


Skrúfan hert á ólöglega miðlun efnis

Nú eru horfin af sjónarsviðinu TV links (tv-links.co.uk) og OiNK (oink.cd), sem ég hef ekki fyrir að búa til krækjur fyrir, enda til lítils.

Á TV links var hægt að horfa á þætti og síðan náði meira að segja kynningu í Morgunblaðinu. Þar var haldið fram þeim skilningi að það væri ekki ólöglegt að ná í efni á svona síðu, bara að setja efnið þangað. Dómstólar munu varla taka undir þennan skilning en skiljanlega er dreifingaraðilum meira í mun núna að ná í þá sem dreifa efni ólöglega, heldur en þann aragrúa sem skoðar efnið þar. TV links var lokað 19. október.

OiNK var svo lokað daginn eftir. Þar var hægt að ná í tónlist. Líkt og með Napster og KaZaA munu nú vera komnir nokkrir staðir á vefnum sem bera þetta nafn og reyna að feta í fótspor fyrirmyndarinnar.

Líklega verður líftími svona vefja, sem og P2P-síðna eins og torrent.is, æ styttri héðan í frá. Það þýðir ekki að þau hafi ekki áhrif. Þau verða ósýnilegri og meira milli fólks sem þekkist eða tengist á einhvern hátt, og fari ekki hátt út fyrir þann hóp.

Áhrifin eru einnig mikil á dreifingaraðila sem hafa átt í erfiðleikum með að finna kerfi sem hentar notanda. Eins og staðan er í dag, er það bæði dýrt og óþjált fyrir notanda að ná í efni á löglegan hátt miðað við það að ná í það á ólöglegan hátt. Kerfi til að sjá afnotarétt notanda (Digital Rights Management Systems, DRMS) eru Þrándur í Götu notandans. Þetta gengur ekki að eilífu og notandinn snýr sér annað. Þannig er til dæmis BBC farið að setja mikið af klippum á YouTube.


Íslenskir bókstafstrúarmenn

Er einhver ástæða að hampa íslenskum bókstafstrúarmönnum fremur en þeim sem búa annars staðar?

Mikil er trú þeirra manna sem telja að texti breytist við það að vera þýddur öðruvísi. 


Karl Sighvatsson

Má þakka tækninni?

Já, ég held að margt smátt geri margt gott og tæknin er alltaf að hjálpa til með litlum þægindum.

Eitt dæmið er að geta hlustað á þátt um mesta organista íslenskrar dægurtónlistar, Karl Sighvatsson, næsta hálfa mánuðinn. Magnað.


Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband