14.2.2008 | 00:43
Frank Ponzi, 18/5 1929 - 8/2 2008
Ég kynntist Frank Ponzi þegar hann var orðinn gamall maður. Hann bjó með Guðrúnu konu sinni að Brennholti í Mosfellsdal. Þau bjuggu þar sjálfsþurftabúskap, ræktuðu silung og grænmeti og áttu meira að segja vínvið í gróðurhúsi.
Þar höfðu þau byggt upp hús sem óx af sjálfu sér og þeim tveimur, áleiðis upp í holtið. Þau höfðu reist þarna gróðurhús, skemmu og steypt sundlaug enda var heitt vatn í holu, meira en nóg fyrir heimilið og silungana.
Frank var dæmigerður ítalskur Bandaríkjamaður af austurströndinni, strákur frá Pennsylvaniu sem sinnti herþjónustu í Kóreustríðinu og flutti eftir það til New York. Hann menntaðist sem listfræðingur, kynntist Marcel Duchamp, Hans Richter og fleiri þekktum listamönnum. Um tíma vann hann með Zero Mostel í sjónvarpsþáttum Zeros.
Þar kynntist hann einnig Guðrúnu sem var þar í söngnámi og ákvað að fara til Íslands með henni. Þetta var torkennilegur heimur. Þegar hann kom í fyrsta skiptið fóru þau að heimsækja fjölskylduna. Þegar Frank var búinn að heilsa upp á alla var honum sagt að líta bak við bæinn þar sem einn frændinn væri að vinna. Þegar Frank fór út í myrkrið sá hann mann með logsuðutæki að svíða kindahausa. Hvaða trúarathöfn er ég nú að trufla, hugsaði hann.
Þau ætluðu fyrst að byggja sér hús þar sem Bandaríkjamenn höfðu haft stóran kamp á Ásunum, þar sem nú er keyrt inn á Þingvallaveginn. Síðar fengu þau land hjá Hraðastaðabónda niðri við Suðurá þar sem hún liðast fram úr Helgadal og inn á sléttuna í Mosfellsdal. Þar heitir Brennholt.
Þar sat Frank og gerði við málverk, skrifaði bækur og sýslaði við eitt og annað. Mosfellingar kunnu að meta störf þeirra hjóna og gerðu þau að heiðursborgurum bæjarins. Myndin að ofan er frá 30. maí 2006 þegar Frank sýndi ljósmyndir í sal bókasafnsins að Þverholti, sem þá var nýtekinn í notkun.
Frank safnaði ljósmyndum og teikningum erlendra ferðalanga sem höfðu sótt heim Ísland. Hann skrifaði og gaf út bækur sem varpa ljósi á það hvernig útlendingar sáu landið á öldunum sem leið. Þessi saga er lítið skoðuð af Íslendingum sem hafa sjálfir fundið upp allt og gert allt fyrstir. Oft rak Frank sig á að ljósmyndir voru kenndar Íslendingum sem höfðu verið teknar af erlendum ferðalöngum. Þetta voru menn sem fyrstir gengu á hæsta fjall landsins, fyrstir tóku myndir af alls kyns tækjum og vinnuaðferðum (vegna þess að Íslendingar létu annars bara taka myndir af sér í sparifötunum) en menningarþjóðin Íslendingar vill sem minnst af útlendingunum vita.
Frank fann fyrir þessari minnimáttarkennd sem Íslendingar hafa gagnvart öðrum þjóðum og brýst út í stærilæti og rembingi. Það mátti finna að hann taldi sig hafa getað unnið á stærra sviði ef hann hefði búið áfram í New York. Á Íslandi valdi hann sér þó bústað og eignaðist sína fjölskyldu, þar ólust upp Tómas og Margrét. Á Íslandi fann hann ríka sögu sem hann skoðaði og stúderaði fram á síðustu stundu. Hann vann síðustu árin að ævisögu sinni og handlék hana þegar febrúar heilsaði. Viku síðar var hann allur.
Ég naut hjálpar Franks og þakka fyrir alla góða tíma með honum, hvort sem það var að negla þak í hífandi roki eða sitja hjá þeim hjónum og slafra í sig kaffi með biscotti frá Guðrúnu og hlusta á Frank. Megi minning hans lifa. Ég votta eftirlifendum samúð mína.
Meginflokkur: Minning | Aukaflokkur: Menning og listir | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.