18.11.2007 | 00:03
Þið hafið skapað ljótleikann
Einhvern tíma á lífsleiðinni þykist maður komast að því að smekkur ræður því hvað manni finnst fallegt eða ljótt. Maður hættir að tala um hvað sé fallegt eða ljótt, og fer að segja hvað manni finnst vera það. Síðan fer maður að draga þetta í efa.
Landið er fallegt, hvar sem á það er litið. Náttúrunni hefur ekki tekist að skapa neitt ljótt. Tröllslegt, kannski, hrikalegt eða jafnvel ferlegt, en aldrei ljótt. Svörtuloft eru ekki ljót. Þau eru hrikaleg og sjófarendur vita að það er best að halda sig fjarri þeim. Ódáðahraun er ekki ljótt. Það er úfið og dularfullt. Skeiðarársandur á líka sína fegurð. Meira að segja sá harkalegi grjótklumpur, máninn, er bara fallegur þegar ég lít á hann, hálffullur á laugardagskvöldi. Það er máninn, ekki ég.
Það sem er ljótt er skapað af manninum. Þú labbar niður Laugaveg og sérð reiðhjól hangandi í vír sem hefur gleymst frá innsetningu fyrir einhverjum árum síðan. Þú gengur áfram eftir höfuðstræti landsins og það er þakið rusli á hverjum laugardagsmorgni og sunnudagsmorgni, eftir fólk. Þú gengur áfram fram hjá brunarústum sem standa óhreyfðar eftir hálft ár, út af fólki.
Þú gengur fram hjá niðurníddum timburhúsum og ómanneskjulegum steypukumböldum, gerðum af fólki, viðhöldnum af fólki. Fólki með fullar hendur fjár, fólki sem getur gert hvað sem það vill taka sér fyrir hendur. Þetta er höfuðstræti landsins. Þetta er það besta sem boðið er upp á. Þú ert hluti af þessu fólki.
Allar stéttir og allir aldurshópar leggja sitt til. Unglingarnir krota á hvað sem fyrir verður. Þegar þau eldast ganga þau um miðbæ Reykjavíkur af einbeittum vilja til að brjóta, sóða, hávaðast og gera allt eins ljótt eins og hægt er. Eldra fólk stendur ábyrgt fyrir óbyggðum lóðum og steinsteypukumböldum. Þið hafið gert þetta allt ljótt. Hvernig líður ykkur að vera hluti af þessu?
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.