11.10.2007 | 19:33
Kynslóðaskipti í stjórn borgarinnar
Þegar Davíð Oddsson tók við sem borgarstjóri að loknu fyrsta valdatímabili vinstriflokka í borginni 1982, var hann ekki gamall maður. Hann lauk störfum 9 árum síðar, gerðist forsætisráðherra og var það lengur samfellt en nokkur annar hefur verið, lauk þeim störfum og gerðist Seðlabankastjóri. Hann er varla enn orðinn gamall maður.
Þegar hann hafði setið eitt kjörtímabil sem borgarstjóri var blásið til kosninga. Þá brá svo við að margir listamenn skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við hann, listamenn sem taldir höfðu verið í einkaumráðum vinstri flokka þangað til. Nokkrir þeirra fengu tiltal fyrir tiltækið.
Það sem hafði gerst var að fyrsti forystumaður landsins af eftir-stríðsára-kynslóð hafði tekið við völdum og mótað annars konar stjórn en áður gerðist. Þetta er kynslóð sem kennd er við baby boom í Bandaríkjunum, fædd 1946-1964. Þau elstu eru því nýorðin sextug og þau yngstu að vera 45 ára bráðum.
Þegar Davíð fór úr Ráðhúsinu í Stjórnarráðið börðust þrír menn aðallega um að taka við af honum; Árni Sigfússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson. Vilhjálmur þótti nokkuð gamaldags á þessum árum, Júlíus reyndist ekki sterkur í slagnum og Árni virtist hafa yfirhöndina þar til Davíð skipaði Markús Örn Antonsson. Þegar hann fór frá og Árni tók við var fólki ljóst að Árni hefði ekki fullan stuðning flokksins. Um leið buðu vinstrimenn fram saman í fyrsta skipti og niðurstaðan varð 12 ára valdatími R-listans.
Þegar Vilhjálmur fyrir þrautseiglu varð oddviti Sjálfstæðismanna að Birni Bjarnasyni gengnum fór það því fram hjá mörgum að Vilhjálmur var enn af kynslóð sem hafði verið sagt bless við um tuttugu árum fyrr, og að það skipti máli. Það var kynslóð sem var sagt bless við vegna þess að Sjálfstæðisfólk vildi segja bless við þau gildi sem þá réðu. Þegar kynslóð Vilhjálms talaði um frelsi til athafna átti hún við að auðvelt væri að stofna fyrirtæki og að Sambandið gini ekki yfir öllu athafnalífi á stórum svæðum landsins. Þegar Sjálfstæðisfólk sem fæddist eftir 1950 talaði um athafnafrelsi átti það við afgreiðslutíma allan sólarhringinn, að hið opinbera væri ekki að búa til ný fyrirtæki, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, að skattar séu í raun lágir og þar fram eftir götunum.
Ekki síst var það þó stjórnunarstíll sem var um margt gamaldags hjá Vilhjálmi. Á stundum spurði maður sig hvort hann hefði einhverja ráðgjöf, eða hvort hann hlustaði á samherja sína. Hvað sem líður samheldni borgarstjórnarflokksins fyrir framan myndavélar að kvöldi fimmtudags var ljóst að átök höfðu orðið. Ef Vilhjálmur hefði eytt meiri tíma í samræður við samherja hefðu mál þróast hægar og öðruvísi.
Eins og yngri kynslóðir áttu margt sameiginlegt með ungum borgarstjóra á 9. áratugnum, er ekki ósennilegt að ungt fólk á miðjunni verði framtíðarfylgi Dags B. Eggertssonar, ef hann heldur rétt á spöðunum. Það hægrafólk sem hristir hausinn yfir þessu skyldi muna að Davíð tókst að ná í fylgi úr flestum flokkum.
Sviptingar í borgarstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er ferskur vinkill og mikið til í þessu hjá þér, Sveinn.
Kári Harðarson, 11.10.2007 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.